Hoppa yfir valmynd

Nr. 189/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 189/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU18030031

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. mars 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. febrúar 2018, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hafi fyrst verið veitt dvalarleyfi hér á landi sem barns útlendings þann 29. október 2003 með gildistíma til 9. september 2005. Kærandi hafi næst fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku með gildistíma frá 14. október 2008 til 30. september 2009. Þá hafi hann fengið útgefið dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli frá 5. janúar 2010 til 30. september sama ár, sem hafi verið framlengt til 30. september 2011. Kærandi hafi lagt fram umsóknir um dvalarleyfi hér á landi árin 2013 og 2016 en verið synjað. Þann 9. október 2017 hafi hann lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið og byggt umsóknina aðallega á því að móðir hans, sem sé búsett hér á landi, sé veik og þurfi á aðstoð hans að halda. Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið synjað. Fyrirsvarsmaður kæranda móttók ákvörðunina hér á landi þann 9. mars 2018. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 20. mars 2018, en kærunni fylgdu athugasemdir frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til sjónarmiða í 78. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi teljist hann hafa sérstök tengsl við landið. Þá voru rakin ákvæði 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 um skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið ef umsækjandi hefur áður búið á Íslandi, m.a. um að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalaleyfis verði dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk, sbr. b-lið 19. gr. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var talið að kærandi gæti ekki byggt tengsl sín við Ísland eingöngu á lengd dvalartíma, enda væri um skammvinna dvöl að ræða, auk þess sem sex ár væru síðan hann hefði dvalið síðast hér á landi. Þá var vísað til þess að kærandi hafi haft atvinnuleyfi hér á landi í um tvö og hálft ár samanlagt. Var það mat Útlendingastofnunar að félagsleg tengsl vegna atvinnuþátttöku í svo stuttan tíma fyrir sjö árum síðan gætu heldur ekki talist það sterk og sérstök tengsl að uppfyllt væru skilyrði 78. gr. laga um útlendinga.

Fram kom að móðir kæranda væri íslenskur ríkisborgari sem væri búsett hér á landi. Í umsókn kæranda um atvinnuleyfi kæmi fram að hann ætti maka og tvö börn í heimaríki. Taldi Útlendingastofnun því ljóst að kærandi hefði sterk tengsl við heimaríki. Leit stofnunin einnig til þess að kærandi hefði verið búsettur í öðru landi en móðir hans síðastliðin sex ár og að móðir hans, sem væri m.a. með [...], væri í hjúskap hér á landi. Þá hefði hún auk þess aðgang að íslensku heilbrigðiskerfi. Yrði þannig ekki séð að umönnunarsjónarmið leiddu til þess að kærandi hefði sérstök tengsl við landið í skilningi 78. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því hafnað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda er því hafnað að sérstök tengsl í skilningi 78. gr. laga um útlendinga séu ekki til staðar. Móðir kæranda sé íslenskur ríkisborgari og hafi hún því rétt á að hafa son hennar hjá sér. Byggir kærandi á því að þótt hún sé í hjúskap sé allt annað að hafa börn sín hjá sér, sér í lagi þegar [...]. Kveðst kærandi ekki vera í hjónabandi með barnsmóður sinni og að hann sé því ekki skuldbundinn henni á nokkurn hátt. Þótt hann eigi börn í heimaríki muni hann reyna að heimsækja þau eins oft og hann geti. Kærandi byggir á því að sé litið heildstætt á mál hans teljist hann hafa sérstök tengsl við landið enda hafi hann dvalið hér, eigi móður og fósturföður hér á landi og sjái fram á að geta unnið og átt betri framtíð fyrir hann og börnin. Telur kærandi það bersýnilega ósanngjarnt að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli þess að hann hafi ekki sérstök tengsl við landið.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr.

Kærandi var síðast með dvalarleyfi hér á landi árið 2011. Þar sem hann hefur dvalist samfellt erlendis lengur en 18 mánuði frá útgáfu síðasta leyfis verður honum ekki veitt dvalarleyfi nema önnur tengsl hans við landið séu mjög sterk, sbr. b-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Í greinargerð byggir kærandi á því að móðir hans, sem er búsett hér á landi, þurfi á stuðningi hans að halda vegna [...].

Eins og rakið hefur verið var kærandi með dvalarleyfi hér á landi í nokkur skipti á árunum 2003 til 2011, en samanlögð dvöl hans samkvæmt leyfunum stóð yfir í um fjögur og hálft ár. Mun kærandi hafa haft atvinnuleyfi í um tvö og hálft ár á því tímabili. Er því ljóst að kærandi hefur myndað einhver tengsl við landið í gegnum dvöl og atvinnuþátttöku. Þá er móðir hans jafnframt búsett hér á landi. Á hinn bóginn verður að horfa til þess að langt er síðan kærandi dvaldi hér á landi og að hann á tvö börn í heimaríki. Þá verður ekki talið að aðstæður móður hans séu þess eðlis að umönnunarsjónarmið styðji við umsókn hans um dvalarleyfi. Með vísan til framangreinds um hve langt er liðið síðan kærandi dvaldi hér á landi og fjölskyldumynsturs hans verður ekki talið að tengsl hans við landið séu mjög sterk eins og gerð er krafa um í b-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                           Árni Helgason 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta