Mál nr. 94/2021 - Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 15. desember 2021
í máli nr. 94/2021
A
gegn
B ehf.
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A. Umboðsmaður sóknaraðila er C lögmaður.
Varnaraðili: B ehf.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 300.000 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 30. apríl 2021 til greiðsludags, að frádreginni innborgun varnaraðila 21. október 2021 að fjárhæð 255.000 kr. Einnig krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað að fjárhæð 73.500 kr., eða 91.140 kr. með virðisaukaskatti.
Með kæru, dags. 5. október 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 8. október 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð barst ekki frá varnaraðila. Með tölvupósti sóknaraðila, dags. 21. október 2021, var kærunefndin upplýst um að varnaraðili hefði endurgreitt 255.000 kr. af tryggingarfénu og uppfærði hann kröfugerð sína með hliðsjón af því. Óskað var eftir afstöðu varnaraðila til uppfærðar kröfugerðar sóknaraðila með tölvupósti kærunefndar, 12. nóvember 2021. Þar sem engin viðbrögð bárust við tölvupósti kærunefndar upplýsti nefndin varnaraðila með tölvupósti 10. desember 2021 að málið yrði tekið til úrlausnar á grundvelli þeirra gagna sem sóknaraðili hafði lagt fram. Engin viðbrögð bárust frá varnaraðila.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu munnlegan leigusamning um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að D í Reykjavík. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að hann hafi á grundvelli fyrirmæla varnaraðila 10. nóvember 2020 millifært 300.000 kr. inn á bankareikning varnaraðila sama dag sem tryggingu fyrir réttum efndum. Tryggingarféð sé því í samræmi við skilgreiningu 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Ekki hafi verið gerður leigusamningur á milli aðila.
Þann 30. apríl 2021 hafi sóknaraðili skilað leiguhúsnæðinu í óaðfinnanlegu ástandi. Síðan þá hafi hann ítrekað krafist þess að varnaraðili skili tryggingarfénu en hann hafi ekki orðið við því, sbr. til dæmis facebook skilaboð 26. maí, 4. júní, 5. ágúst, og 27. september 2021 og tölvupóst 1. október 2021. Umtalsvert lengri tími sé nú liðinn frá 28. maí 2021 eða fjórar vikur frá skilum leiguhúsnæðisins, sem sé sá tímafrestur sem varnaraðili hafi haft til að gera annaðhvort athugasemdir við skil húsnæðisins eða kröfu í tryggingarféð, sbr. 4. og 7. mgr. 40. gr. húsaleigulaga.
Því hafi farið svo að sóknaraðili hafi leitað til lögmannsstofu og lögmaður hans sent tölvupóst til forsvarsmanns varnaraðila, sem sé sá aðili sem sóknaraðili hafi verið í samskiptum við frá byrjun, þann 4. október 2021. Í tölvupóstinum hafi varnaraðila verið veitt lokatækifæri til að inna tryggingarféð af hendi. Engin viðbrögð hafi borist vegna þessa og sóknaraðila því nauðugur sá kostur að leggja fram kæru þessa til kærunefndar húsamála.
III. Niðurstaða
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því úrlausn málsins byggð á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.
Til tryggingar á réttum efndum á munnlegum leigusamningi aðila lagði sóknaraðili fram tryggingarfé að fjárhæð 300.000 kr. þann 10. nóvember 2020. Leigutíma lauk 30. apríl 2021 og hefur varnaraðili ekki endurgreitt tryggingarféð.
Í 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingarfé samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Hafi leigusali ekki gert kröfu samkvæmt 1. málsl. skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu.
Sóknaraðili skilaði hinu leigða 30. apríl 2021. Með rafrænum skilaboðum 26. maí 2021 og 4. júní 2021 óskaði hann eftir endurgreiðslu tryggingarfjárins. Með skilaboðum varnaraðila 4. júní 2021 upplýsti hún að hún myndi vonandi fá tölur fyrir rafmagnsreikninga á mánudeginum og hún kæmi til með að hafa samband við sóknaraðila og endurgreiða tryggingarféð. Sóknaraðili ítrekaði beiðni um endurgreiðslu í framhaldi af þessu en án árangurs. Engin gögn liggja fyrir sem styðja það að varnaraðili hafi gert kröfu í tryggingarféð innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðisins. Þegar af þeirri ástæðu er fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarféð að fullu ásamt vöxtum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hún skilar tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þar sem sóknaraðili skilaði varnaraðila íbúðinni 30. apríl 2021 reiknast vextir, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr., og dráttarvextir af 255.000 kr. frá 29. maí 2021 til 21. október 2021 en af 45.000 kr. frá 22. október 2021 til greiðsludags.
Sóknaraðili gerir kröfu um málskostnað sér til handa. Kærunefnd húsamála hefur aðeins heimild til að ákvarða málskostnað samkvæmt 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga í þeim tilvikum er kæra er bersýnilega tilefnislaus. Brestur kærunefnd því heimild til að úrskurða um málskostnað sóknaraðila til handa og ber að hafna kröfu hans þar um.
Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 45.000 kr. ásamt vöxtum af 300.000 kr. samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram til 29. maí 2021 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 300.000 kr. frá 29. maí 2021 til 21. október 2021 en af 45.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Kröfu sóknaraðila um málskostnað er hafnað.
Reykjavík, 15. desember 2021
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson