Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 154/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 154/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. júní 2010. Umsóknin var samþykkt þann 18. ágúst 2010 en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 60 daga frá 7. nóvember 2008, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, með vísan til þess að hann hætti námi sínu, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Bætur kæranda voru felldar niður í 60 daga vegna ítrekunaráhrifa fyrri viðurlagaákvörðunar skv. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en atvinnuleysisbætur kæranda voru felldar niður þann 5. maí 2008 vegna starfsloka hans hjá X. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 18. ágúst 2010. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 5. maí 2008. Hann sætti viðurlögum vegna starfsloka hjá X og var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hóf nám í uppeldis- og kennslufræði í Háskóla Íslands í september 2008, en sótti að nýju um atvinnuleysisbætur þann 7. nóvember 2008. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum hjá kæranda á því hvers vegna hann hafi hætt námi með bréfi, dags. 4. desember 2008. Ekkert svar barst frá kæranda og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. janúar 2009, var honum tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að samþykkja umsókn hans en fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í 60 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. janúar 2009 hafði því ítrekunaráhrif, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafði ekki lokið við að taka út biðtíma þegar hann hóf störf hjá X ehf. í febrúar 2009 og var afskráður af atvinnuleysisskrá.

Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur þann 1. júní 2010, en hann missti starf sitt hjá Þrótti ehf. þann 30. apríl 2010 vegna samdráttar. Í júlí 2010 var samþykkt að gera samning við kæranda vegna sumarátaksverkefnis og hóf hann störf hjá Z í kjölfarið. Samningurinn var samþykktur þó að kærandi ætti eftir að taka út biðtíma vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 19. janúar 2009. Var það niðurstaða stofnunarinnar að greiða samt sem áður grunnatvinnuleysisbætur vegna átaksverkefnisins og að biðtími myndi hefjast aftur þegar sumarátaksverkefni væri lokið.

Af hálfu kæranda kom fram að hann hafi ekki fengið sent bréf Vinnumálastofnunar þar sem hann hafi verið beðinn um útskýringar á því hvers vegna hann hafi hætt í námi og hann furðar sig á því af hverju Greiðslustofa hafi ekki hringt í hann þegar ekkert svar barst frá honum. Kærandi kvaðst eiga bágt með að trúa því að ákvörðun hafi verið tekin án þess að honum gæfist færi á að verja sig. Hefði hann séð umrætt bréf hefði hann gefið þá skýringu að hann hafi neyðst til að hætta námi vegna bankahrunsins og hruns efnahagslífsins sem hafi gert það að verkum að afborganir hans hafi hækkað þannig að námslánin sem hann hafi fengið hafi engan veginn dugað fyrir þeim.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. nóvember 2010, segir að í máli þessu sé til umfjöllunar hvort ástæður kæranda fyrir því að hætta námi sínu við Háskóla Íslands séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Vísað er í 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og tekið fram að í athugasemdum við sömu grein frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafi til þess gildar ástæður sæti sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið skýrt þröngt sem þýði í raun og veru að fá tilvik falli þar undir. Í máli þessu sé um ítrekunaráhrif að ræða, sbr. 1. og 2. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og sé tilgangur laganna beinlínis að stuðla að virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun leggi áherslu á að virk atvinnuleit sé grundvallarþáttur í sjálfu atvinnuleysistryggingakerfinu og því séu úrræði á borð við 1. mgr. 61. gr. beinlínis nauðsynleg til að lög um atvinnuleysistryggingar nái tilgangi sínum.

Kærandi hafi verið skráður í nám háskólaárið 2008–2009. Samkvæmt vottorði frá Háskóla Íslands hafi hann sagt sig úr öllum námskeiðum á haustmisseri 2008. Hann hafi nú fært fram skýringar á því hvers vegna hann hafi hætt náminu. Lúti þær aðallega að fjárhagsástæðum en kæran snúi að öðru leyti að því hvort ákvörðunarbréf Vinnumálastofnunar hafi borist honum.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Beri því að gera ríkar kröfur til þeirra sem segja upp störfum sínum eða hætta námi sínu, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám eða gegna launuðu starfi. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á því hvers vegna hann hafi hætt námi teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Því skuli kærandi sæta biðtíma skv. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. nóvember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. nóvember 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að eðlilegt þyki að þeir sem hætta í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Skipti þá ekki máli hvenær á námsönn hlutaðeigandi hætti námi. Gert sé ráð fyrir að vottorð frá hlutaðeigandi skóla um að námi hafi verið hætt fylgi umsókninni. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að lagaregla þessi sé matskennd og Vinnumálastofnun sé falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ástæður þær sem kærandi hefur fært fram fyrir því að hann hætti háskólanámi séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess og röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, verður hin kærða ákvörðun staðfest

Þar sem kærandi hafði áður hlotið viðurlög vegna brota á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar sætir hann ítrekunaráhrifum, sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Réttur hans til atvinnuleysisbóta er því felldur niður í þrjá mánuði.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. ágúst 2010 í máli A um niðurfellingu á rétti hans til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta