Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 473/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 473/2019

Föstudaginn 21. febrúar 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. nóvember 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. nóvember 2019, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 12. apríl 2019. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. maí 2019, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Með vísan til starfsloka hennar hjá B væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þegar biðtíma lauk í júní 2019 voru einungis örfáir dagar eftir af 36 mánaða bótatímabili kæranda. Kærandi var upplýst um það í tölvupósti 2. júlí 2019 að bótatímabil hennar væri fullnýtt en formleg tilkynning þess efnis var send kæranda með bréfi, dags. 11. nóvember 2019.

Kæra á ensku barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. nóvember 2019 og á íslensku þann 29. nóvember sama ár. Með bréfi, 19. desember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna ákvörðunar frá 11. nóvember 2019. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 14. janúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst vilja kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar vegna þeirrar óútskýrðu skerðingar sem hún verði fyrir. Hún hafi vissulega sagt upp vinnu sinni 26. nóvember 2018 og hafi í kjölfarið farið í fæðingarorlof. Lögum samkvæmt haldi kærandi réttindum sínum þótt hún fari í fæðingarorlof og það sama ætti því að gilda um atvinnuleysisbætur. Kærandi skilji ekki að fæðingarorlof hennar stoppi ávinnslu bótarétts. Þrátt fyrir að Fæðingarorlofssjóður greiði kæranda síðustu mánuðina í starfi hjá B þá haldi hún réttindum sínum. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda hafi kærandi unnið þar í heil tvö ár og því hafi bótaréttur verið orðinn fullur aftur. Það eigi ekki að koma Vinnumálastofnun við hvort hún sé í fæðingarorlofi, hún sé með vinnu og réttindi séu því enn til staðar. Kærandi sé í vinnu þar til hún segi upp og sé í fæðingarorlofi áfram sem ætti einnig að telja inn í réttinn til atvinnuleysisbóta. Kærandi telji stórlega á sér brotið og að hún eigi fullan rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi fari fram á að úrskurðarnefndin skoði mál hennar og fallist á að bótaréttur sé enn til staðar. Einnig að greiddar verði bætur aftur í tímann sem hún eigi rétt á.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að í VI. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 29. gr. laganna komi fram að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í samfellt 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Í tilfelli kæranda hafi hún átt rétt á 36 mánaða bótatímabili. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur til septemberloka 2016 en hafið störf hjá B í október 2016. Í 30. og 31. gr. laganna sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýist. Annars vegar endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótatímabili áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Þar sem kærandi hafði ekki fullnýtt bótarétt sinn í september 2016 komi ákvæði 31. gr. laganna einungis til álita í málinu. Í ákvæðinu sé fjallað um þau tilvik sem nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir því að nýtt bótatímabil geti hafist að viðkomandi hafi starfað í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Frá því að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur í september 2016 hafi hún starfað hjá B. Í meðfylgjandi sundurliðun á vinnusögu kæranda megi sjá að hún hafi einungis starfað í 22 mánuði á því tímabili sem um ræði. Að auki hafi hún verið í fæðingarorlofi frá júní 2018 til desember 2018.

Í kæru til úrskurðarnefndar haldi kærandi því fram að hún hafi áunnið sér rétt á nýju bótatímabili og virðist byggja þá kröfu á fæðingarorlofi sínu. Kærandi telji að fæðingarorlof hennar skuli koma til ávinnslu við mat á endurnýjun bótatímabils. Í 24. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um fæðingarorlof og áhrif þess á greiðslur atvinnuleysistrygginga. Í ákvæðinu segi að atvinnuleitandi geti geymt þegar áunnar atvinnuleysistryggingar þann tíma sem hann taki fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Ákvæðið hafi fyrst komið í lög um atvinnuleysistryggingar árið 2009. Í athugasemdum með 10. gr. frumvarps þess er varð að lögum 37/2009 segir:

„Lagt er til að fæðingarorlof teljist ekki til starfstíma launafólks á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laganna eins og verið hefur heldur teljist það til þeirra tilvika sem launafólki og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að geyma áunninn rétt til atvinnuleysistrygginga, sbr. einnig 14. gr. frumvarps þessa. Þessi tilhögun þykir í betra samræmi við önnur sambærileg tilvik þar sem réttur til atvinnuleysistrygginga geymist, sbr. V. kafla laganna.“

Samkvæmt framangreindu sé Vinnumálastofnun óheimilt að meta þann tíma sem atvinnuleitandi taki út fæðingarorlof sem starfstíma á ávinnslutímabili viðkomandi. Sá tími sem kærandi hafi verið í fæðingarorlofi komi því ekki til ávinnslu á nýju bótatímabili samkvæmt 31. gr. laganna. Þar sem kærandi hafði einungis starfað í 22 mánuði frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur hafi bótatímabil hennar því haldið áfram að líða við umsókn um atvinnuleysistryggingar í apríl 2019. Vinnumálastofnun hafi því borið að stöðva greiðslur til kæranda í júní 2019, enda hafi 36 mánaða bótatímabili hennar þá verið lokið.

Með vísan til þess sem að framan segi sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að bótatímabil kæranda sé fullnýtt og kærandi eigi því ekki rétt á frekari greiðslum atvinnuleysistrygginga.   

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi fullnýtt bótarétt sinn.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í tilviki kæranda átti hún rétt á 36 mánaða bótatímabili. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í að minnsta kosti sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.   

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun til loka september 2016 og hóf störf hjá B 28. september 2016. Kærandi starfaði þar til júní 2018 og fór þá í fæðingarorlof til desember 2018. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún telji að fæðingarorlofið eigi að koma til ávinnslu við mat á endurnýjun bótatímabils.

Í 24. gr. a. laga nr. 54/2006 er fjallað um fæðingarorlof og áhrif þess á greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar segir:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og tekur fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hóf töku fæðingarorlofs.

Sá tími sem hinn tryggði starfar á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu skv. 1. mgr. telst til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. eftir því sem við á.

Við útreikning á ávinnslutímabili skv. 15. og 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum fyrir móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum.“

Í athugasemdum með 10. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 37/2009 segir svo:

„Lagt er til að fæðingarorlof teljist ekki til starfstíma launafólks á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laganna eins og verið hefur heldur teljist það til þeirra tilvika sem launafólki og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að geyma áunninn rétt til atvinnuleysistrygginga, sbr. einnig 14. gr. frumvarps þessa. Þessi tilhögun þykir í betra samræmi við önnur sambærileg tilvik þar sem réttur til atvinnuleysistrygginga geymist, sbr. V. kafla laganna. Engu síður er lagt til að verkfall og verkbann teljist áfram til starfstíma launamanna þegar verkfall eða verkbann stendur yfir á ávinnslutímabili enda tengist verkfall og verkbann mjög aðstæðum í starfi hlutaðeigandi. Mun sá tími því áfram teljast með við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. laganna.“

Samkvæmt framangreindu telst sá tími sem einstaklingur fær greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði ekki sem starf á innlendum vinnumarkaði. Þar sem kærandi hafði ekki starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafði hún ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta