Hoppa yfir valmynd

Nr. 207/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 207/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU19110042 & KNU20050021

 

Beiðni [...] og barns hennar um endurupptöku

 

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 451/2019, dags. 26. september 2019, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 22. maí 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), og barns hennar, [...], fd. [...] (hér eftir nefnd A), um alþjóðlega vernd og vísa þeim frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 30. september 2019. Kærandi lagði fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 7. október 2019. Þeirri beiðni var hafnað af kærunefnd með úrskurði nr. 511/2019, dags. 24. október sl. Þann 21. nóvember 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins, ásamt greinargerð og fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í máli kæranda þann 3. og 9. desember sl. Þann 20. desember 2019 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi úrskurð kærunefndar nr. 451/2019. Þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar þann 17. janúar 2020.

Þann 18. maí 2020 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Þá barst kærunefnd tölvupóstur frá talsmanni kæranda þann 20. maí 2020, vegna fyrirspurnar kærunefndar, um að kærandi hefði ekki í hyggju að afturkalla fyrri beiðni sína um endurupptöku.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda um endurupptöku, dags. 21. nóvember 2019, er annars vegar reist á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun í máli hennar var tekin og hins vegar á því að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Krafa kæranda um endurupptöku, dags. 18. maí 2020, er reist á því að meira en 12 mánuðir séu liðnir frá því að hún sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Tafir málsins séu ekki á ábyrgð kæranda og skuli því, með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016, taka umsókn hennar til efnismeðferðar á Íslandi. Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 580/2017.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Við mat á því hvort stjórnvöld geti fjallað um og afgreitt tiltekin lagaleg álitamál sem komið hafa til umfjöllunar dómstóla reynir m.a. á valdmörk dómstóla og stjórnvalda. Samkvæmt 2. og 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 fara dómendur með dómsvaldið og skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Af ákvæðunum leiðir að dómstólar hafa endanlegt vald um lögmæti stjórnvaldsákvarðana og geta fellt þær úr gildi, m.a. vegna annmarka þeirra. Stjórnvöld eru bundin af úrlausnum dómstóla um lögmæti stjórnvaldsákvarðana.

Líkt og að ofan er rakið felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð kærunefndar nr. 451/2019 úr gildi þann 20. desember 2019. Þegar stjórnvaldsákvörðun er felld úr gildi er meginreglan sú að ákvörðunin telst þá ógild frá öndverðu (l. ex tunc). Í máli kæranda er, með hliðsjón af framangreindu, því ekki lengur fyrir að fara gild stjórnvaldsákvörðun sem hún getur beðið um endurupptöku á.

Með vísan til framangreinds er kröfu kæranda um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfum kæranda um endurupptöku er hafnað.

Requests of the appellant to re-examine the case are denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

                                                                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                   Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta