Hoppa yfir valmynd

Nr. 262/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 262/2019

Þriðjudaginn 3. september 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. júní 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. apríl 2019, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 22. júní 2018. Umsókn kæranda var samþykkt og fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Með bréfi, dags. 8. janúar 2019, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann hefði verið staddur erlendis í desember 2018 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar og farseðlar bárust Vinnumálastofnun 21. janúar 2019 og kom þar fram að kærandi hefði dvalið erlendis á tímabilinu 19. til 27. desember 2018. Þann 5. febrúar 2019 var kæranda tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar um að bótaréttur hans yrði felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um dvöl sína erlendis. Kærandi var einnig krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 64.406 kr., að meðtöldu 15% álagi, fyrir tímabilið 19. til 27. desember 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júní 2019. Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 14. ágúst 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. ágúst 2019, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að kröfur um endurgreiðslu endurspegli ekki hlutfall þeirra daga sem hann hafi dvalið í útlöndum. Upphæð endurkröfunnar sé of há. Kærandi hafi ekki fengið betri útskýringu á upphæðinni frá Vinnumálastofnun en að þetta hafi verið fyrir tímabilið 1. desember 2018 til 31. desember 2018 en hann hafi einungis verið úti 19. desember 2018 til 27. desember 2018. Það hafi verið mistök hjá kæranda að tilkynna ekki fyrir fram. Hann hafi þó alltaf verið samvinnufús og veitt Vinnumálastofnun þær upplýsingar sem hafi þurft. Auk endurgreiðslu þessara bóta hafi kærandi einnig sætt tveggja mánaða biðtíma á bótum sem hafi skapað honum fjárhagslega erfiðleika. Þá telji kærandi að sú leið að afla upplýsinga með því að skoða IP tölvuna standist ekki  lög um persónuvernd.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta varði ákvörðun Vinnumálastofnunar um biðtíma og endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum fyrir það tímabil sem kærandi hafi verið staddur erlendis í desember 2018. Ákvörðun um biðtíma og innheimtu á ofgreiddum bótum sé frá 5. febrúar 2019. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé því liðinn, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, enda hafi um sex mánuðir verið liðnir frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda þar til kæra barst kærunefndinni.

Með bréfi, dags. 30. apríl 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hans hefði verið sent til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi. Þann þátt kærunnar telji Vinnumálastofnun að taka eigi til efnislegrar meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem það erindi hafi verið sent kæranda innan kærufrests. Muni greinargerð Vinnumálstofnunar einblína á þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að senda skuld kæranda til innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi.

Þá kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Fjallað sé um skyldu hins tryggða að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í 3. mgr. 39. gr. laganna sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemi 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli innheimta ofgreidds fjár úr Atvinnuleysistryggingasjóði fara samkvæmt 111. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ráðherra geti þó falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu. Í 3. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt segi enn fremur að ráðherra, sveitarstjórnum og forráðamönnum annarra opinberra stofnana sé heimilt að semja svo um að innheimta í einu lagi öll gjöld sem greiða beri þessum aðilum. Megi fela gjaldheimtuna innheimtumanni ríkissjóðs, sveitarfélagi eða sérstakri innheimtustofnun. Allar heimildir og skyldur innheimtumanna ríkissjóðs, sveitarfélaga og stofnana vegna gjaldheimtu skuli þá færast til þess aðila sem taki gjaldheimtuna að sér. Á grundvelli þessara heimilda hafi Vinnumálastofnun og Sýslumaðurinn á Blönduósi, fyrir hönd Innheimtustöðvar embættisins, gert með sér samstarfssamning um innheimtu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Mál kæranda hafi verið sent embættinu þegar skuld hans hafði ekki verið greidd í apríl 2019, enda hafi hann ekki verið lengur skráður atvinnulaus og stofnuninni því ekki unnt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. apríl 2019, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 64.409 kr., að meðtöldu 15% álagi, á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. febrúar 2019, var kæranda tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna ferða erlendis og að þær yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Af kæru má ráða að ágreiningur málsins lúti að framangreindri ofgreiðslu. Úrskurðarnefndin tekur fram að í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. febrúar 2019 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um þriggja mánaða kærufrest. Ljóst er að sá frestur var liðinn þegar kærandi lagði inn kæru til úrskurðarnefndarinnar 26. júní 2019 og verður sá þáttur kærunnar því ekki tekinn til efnislegrar meðferðar.

Í hinni kærðu ákvörðun er farið fram á að kærandi endurgreiði Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda er gefinn kostur á að semja um greiðslu skuldarinnar og tilkynnt að mál hans verði sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu hafi greiðsla ekki borist innan 90 daga. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að rétt hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda við Vinnumálastofnun. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. apríl 2019, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta