Mál nr. 415/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 415/2019
Mánudaginn 20. janúar 2020
A
gegn
Barnavernd C
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, dags. X, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar C, dags. 3. september 2019, um að hafa ekki frekari afskipti af og loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, D I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan D er rúmlega X ára gömul. Hún er dóttir kæranda og E. Kærandi er móðir stúlkunnar og fara foreldrar með sameiginlega forsjá hennar samkvæmt dómsátt frá X .
Mál stúlkunnar barst Barnavernd C með nafnlausri tilkynningu X er varðaði vímuefnaneyslu föður og sambýliskonu hans. Nafnlaus tilkynning sama efnis barst X.
Í niðurstöðu könnunar Barnaverndar C kom fram að við könnun máls hafi verið rætt símleiðis við foreldra stúlkunnar. Faðir hafi greint frá því að þetta væru tilefnislausar tilkynningar. Foreldrum hafi báðum verið gerð grein fyrir því að þar sem málefni stúlkunnar hafi verið könnuð til hlítar í X yrði ekki farið í nýja könnun. Ekki hafi verið talið tilefni til frekari aðkomu Barnaverndar C af málinu og ekki hafi verið talin þörf á skipun talsmanns við upphaf könnunar.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en kærir þá ákvörðun Barnaverndarnefndar C að loka máli í kjölfar tilkynninga til barnaverndar vegna barnsföðurins. Skilja verður kæru svo að þess sé krafist að ákvörðun Barnaverndar C um að loka málinu verði felld úr gildi.
Í kæru er vísað til þess að ýmislegt sé athugavert við hina kærðu ákvörðun Barnaverndar C frá X. Barnavernd telji ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu, þrátt fyrir þær tilkynningar sem hafi verið sendar inn síðan aðstæður voru kannaðar í X.
Í þeim gögnum, sem hafi verið afhent kæranda, séu efnistök þessara tilkynninga ekki reifuð ítarlega. Kærandi hafi hins vegar fengið upplýsingar um það atferli sem hafi verið tilkynnt og sjái ástæðu til að miðla þeim upplýsingum til úrskurðarnefndarinnar. Í gögnin hafi virst vanta tilkynningu frá manneskju sem hafi séð til föður stúlkunnar ásamt stjúpmóður í að því hafi virst annarlegu ástandi og hafi haft grun um það lengi.
Þá hafi í maí X sést til föðurins ásamt stjúpmóðurinni á leiksýningu í X. Þar muni stjúpmóðirin hafa verið með sólgleraugu og þurft að fara út í hléi. Hún hafi verið þvoglumælt og illa getað staðið í lappirnar. Þá hafi faðirinn verið ör. Kærandi hafi ekki verið vitni að þessum atvikum en hún hafi frétt af þeim.
Kærandi hafi farið með stúlkuna til föðurins þann X. Hafi hann virst vera undir áhrifum fíkniefna og innandyra hafi verið þekktur fíkniefnasali, að sögn kæranda.
Kærandi gagnrýni að barnavernd skuli hafa látið undir höfuð leggjast að rannsaka hagi stúlkunnar þó að fyrir liggi vitneskja um að tilkynningum um þetta athæfi föður og stjúpmóður stúlkunnar hafi verið beint til hennar. Það sé vitaskuld grafalvarlegt ef neysla fíkniefna viðgengst á heimili stúlkunnar og gefi það tilefni til frekari athugunar en það sem virðist hafa verið gert sem hafi verið að hringja einu sinni í föður.
Svo virðist sem kærandi, sem hafi haft líf sitt á réttum kili í að verða þrjú ár, sé enn tortryggð vegna neyslu í fortíð. Nægi að lesa umfjöllun barnaverndar frá X þar sem fjallað sé gagnrýnislaust um þau ummæli föður um að tilkynningarnar væru tilefnislausar og því látið þar við sitja í stað þess að kanna málið nánar. Í gögnum málsins sé látið að því að liggja að tilkynningar um velferð stúlkunnar hafi sprottið frá móður, meðal annars í lýsingu af samtali við skólastjóra og námsráðgjafa Fskóla
Þá sé í könnun frá því í janúar fjallað um þrjár tilkynningar um andlegt ofbeldi og neyslu og tilkynningu frá Fskóla. Þar komi fram að ekkert í viðtali við barnið hafi gefið til kynna að hún búi við andlegt ofbeldi þó að það liggi fyrir í málinu og sé óumdeilt þar sem það hafi verið viðurkennt af föður að hann hafi öskrað á stúlkuna og getað séð að það hafi valdið henni vanlíðan.
Í viðtölum við kæranda og föður hvort í sínu lagi sé tíundað hvað faðir segi miður um kæranda en ekki öfugt. Aðeins komi fram að kærandi hafi haft áhyggjur af líðan barnsins á heimili föður. Hins vegar hafi kærandi farið mjög nákvæmlega í saumana á því hvað það hafi verið sem hafi valdið áhyggjum vegna dvalar barnsins á heimili föður. Rætt sé í löngu máli um fund við föður en örstutt um fund við kæranda. Þar sé tekið fram að faðir segi stelpuna í miklum tilfinningavanda vegna innkomu kæranda í líf hennar á ný og faðir segi að skólastjóri Fskóla hafa talið þetta allt ásakanir frá kæranda.
Fjallað sé um 11 afskipti lögreglu af kæranda, aðallega vegna neyslu, en þau ekki tíunduð. Fjallað sé um fern afskipti lögreglu vegna föður vegna hraðaksturs en látið hjá líða að nefna að í einu þeirra hafi hann verið stöðvaður vegna þess að það hafi mælst í honum áfengi.
Rætt sé um ítrekaðar tilkynningar kæranda á árum áður vegna neyslu, en látið hjá líða að minnast á það taugaáfall sem kærandi hafi greinst með frá því í viðtalinu við barnavernd sem hafi byrjað í kjölfar þess kynferðislega ofbeldis sem faðir hafi verið grunaður um að beita stúlkuna. Kærandi hafi greint frá því að langvarandi taugaáfall hafi aukið neysluna til muna og þörfina til að deyfa sig.
Greint sé frá því að ástæða tilvísunar stúlkunnar til listmeðferðarfræðings hafi verið áföll og kvíði sem stúlkan hafi glímt við sökum neyslu kæranda. Hvergi sé minnst á að kærandi hafi tekið það skýrt fram í viðtali við barnavernd að faðir hafi haldið kæranda vísvitandi frá listmeðferðarfræðingnum og hafi verið einn til fásagnar um það sem hafi átt að vera hrjá dóttur þeirra. Foreldrar kæranda, sem hafi annast stúlkuna svo mánuðum skipti, hafi aldrei orðið vör við kvíða eða áföll hjá stúlkunni tengt kæranda.
Kærandi fari fram á að málefni stúlkunnar verði tekin til ítarlegrar skoðunar í ljósi þeirra tilkynninga sem hafi verið beint til barnaverndar og þeirra upplýsinga sem hafa borist um hegðun föður hennar og stjúpmóður.
III. Sjónarmið Barnaverndar C
Í greinargerð barnaverndar kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. bvl. sé markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Þá segi jafnframt að í þessu skyni skuli nefndin kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl þess við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess.
Þegar tilkynning berist í máli fari fram mat á því hvort hefja eigi könnun máls á grundvelli barnaverndarlaga. Í 14. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004 sé kveðið á um að heimilt sé að afla nánari upplýsinga frá tilkynnanda og skoða eldri gögn sem barnaverndarnefnd hafi um barnið og forsjáraðila þess. Ákvörðun um könnun skuli ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til, enda sé um að ræða opinber afskipti af fjölskyldulífi einstaklinga sem þurfi að skoða í samhengi við ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi fjölskyldunnar, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Jafnframt þurfi að tryggja að umönnun og velferð barna séu tryggð, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.
Eins og áður greini hafi tvær tilkynningar borist undir nafnleynd um vímuefnaneyslu föður og sambýliskonu hans í X. Þegar metið hafi verið í máli þessu hvort rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi og þar með skilyrði til könnunar málsins hafi fyrri gögn málsins verið skoðuð. Þrátt fyrir að umfangsmikil könnun máls hafi átt sér stað nokkrum mánuðum áður vegna áhyggja af vímuefnaneyslu föður hafi verið talin ástæða til að ræða við foreldra á ný, auk stjúpmóður, og fá fram afstöðu þeirra til tilkynninganna og til þess hvort einhverjar breytingar hafi átt sér stað í lífi barnsins frá því að málið hafi verið kannað síðast. Til þess að það væri hægt hafi verið nauðsynlegt að hefja könnun málsins samkvæmt 21. gr. bvl. og 14. gr. reglugerðar nr. 56/2004.
Eftir að ákveðið hafi verið að hefja könnun máls hafi tilkynning borist frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þann X. Hafði faðir óskað eftir aðstoð lögreglu vegna aðila sem kom á heimili hans og hafði haft í hótunum við hann vegna þess að faðir hafi neitað að undirrita pappíra að beiðni móður stúlkunnar. Hafi í framhaldinu verið rætt við stjúpmóður barnsins sem hafi greint frá því að móðir stúlkunnar hafi sent handrukkara með forsjárpappíra og hann hafi haft í hótunum við þau.
Þann X hafi verið hringt í föður og hann látinn vita af þeim tilkynningum sem höfðu borist. Aðspurður um hans afstöðu til tilkynninganna hafi hann sagt að þetta hafi verið tilefnislausar tilkynningar. Núverandi kona hans gangi með barn þeirra eftir sex mánaða glasafrjóvgunarmeðferð. Fram kom að forsjárdeila foreldra væri nú rekin fyrir dómstólum þar sem þau krefjist þess bæði að fá fulla forsjá. Hann hafi sagst vera með stúlkuna í níu daga og móðir hennar í fimm daga.
Báðum foreldrum hafi verið kynnt símleiðis að ekki yrði farið í frekari könnun þar sem mál stúlkunnar hafi nýlega verið kannað til hlítar. Greinargerð hafi verið gerð um niðurstöður könnunar þann X og málið bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann dag. Foreldrum hafi verið kynnt með bréfi, dags. X, að málinu væri lokið.
Það sé mat Barnaverndar C á grundvelli þeirra upplýsinga, sem hafi legið fyrir í málinu, að ekki hafi verið þörf á að kanna málið umfram það sem hafi verið gert og þá sérstaklega litið til meðalhófsreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar með vísan til 21. gr. reglugerðar nr. 54/2006 og 2. mgr. 41. gr. bvl. Málið hafi þannig verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin og [rannsókn] ekki umfangsmeiri en nauðsyn krafði. Í bókun meðferðarfundar frá X varðandi rökstuðning fyrir lokun málsins sé vísað til þess að málið hafi nýlega verið kannað og hafi ítarleg könnun leitt í ljós að tilkynningar um vímuefnaneyslu föður og slæmar aðstæður hafi ekki átt við rök að styðjast. Við þá könnun máls hafi verið ljóst að móðir hafi ekki verið sammála því mati og talið mögulegt að andlegt ofbeldi viðgengist á heimili föður, auk þess sem að faðir og sambýliskona hans væru mögulega í vímuefnaneyslu. Upplýsingar frá skóla og listmeðferðarfræðingi stúlkunnar hafi gefið til kynna að líðan hennar í umsjá föður væri góð. Öflun upplýsinga frá öðrum opinberum aðilum, viðtal við stúlkuna, vitjun á heimili og með samtölum við foreldra og stjúpmóður hafi leitt til þess mats að aðstæður stúlkunnar í umsjá föður og stjúpmóður hafi talist viðunandi og því ekki verið lagaskilyrði til þess að halda málinu opnu sem barnaverndarmáli. Ekki hafi þótt tilefni til frekari könnunar málsins vegna þeirra tilkynninga sem hafi borist undir nafnleynd um vímuefnaneyslu föður og stjúpmóður í maí 2019 og málinu því lokað á ný.
Í kæru málsins komi fram að kærandi hafi vitneskju um atvik þar sem stjúpmóðir hafi verið í X. Hún muni hafa verið þvoglumælt og illa getað staðið í lappirnar og faðir hafi verið ör. Kærandi hafi ekki verið vitni en hafi frétt af því. Í kæru sé gerð athugasemd við að í gögnin hafi virst skorta tilkynningu frá þeim aðila sem séð hafði til föður og stjúpmóður að því er virtist í annarlegu ástandi. Þessu sé til að svara að tvær tilkynningar bárust í X vegna mögulegrar vímuefnaneyslu föður og stjúpmóður. Báðar séu undir nafnleynd. Til þess að gæta nafnleyndar gagnvart tilkynnanda samkvæmt 19. gr. bvl. sé þess gætt við skráningu á tilkynningum að skrá niður efni tilkynningar með þeim hætti að ekki sé hægt að lesa út úr tilkynningunni hver tilkynnandi sé sem hafi óskað nafnleyndar. Af þeirri ástæðu geti tilkynningar virst ekki nógu ítarlegar en starfsmenn hafi aðgang að ítarupplýsingum séu þær fyrir hendi. Með þeim hætti geti starfsmenn meðal annars lagt mat á trúverðugleika frásagnarinnar og hvort sá sem tilkynni hafi sjálfur orðið vitni að atviki sem tilkynnt sé um þar sem tilkynningar frá þriðja aðila teljist ekki fullnægjandi heimild.
Í kærunni sé því atviki lýst að kærandi hafi komið á heimili föður þann X og hafi hann virst undir áhrifum fíkniefna og innandyra hafi verið þekktur fíkniefnasali. Rétt sé að taka fram að kærandi tilkynnti ekki um það atvik þar sem engin tilkynning hafi borist um aðstæður barnsins til Barnaverndar C á tímabilinu frá X og þar til tilkynning barst þann X. Því hafi ekki verið byggt á þeirri frásögn við könnun málsins nú.
Barnavernd C harmi að kærandi telji að hún sé tortryggð í samskiptum við starfsmenn nefndarinnar vegna vímuefnaneyslu í fortíð, enda sé í 4. mgr. 4. gr. bvl. skýrt mælt fyrir um að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við foreldra og börn sem þau hafi afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Undirstrika skuli að þær upplýsingar liggi fyrir í gögnum málsins að kærandi hafi náð að halda sig frá vímuefnum á þriðja ár og jafnframt liggur fyrir að kærandi telji mögulega vímuefnaneyslu vera á heimili föður, þrátt fyrir það mat Barnaverndar C frá í X að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af aðstæðum barnsins í umsjá föður.
Tekið sé undir það sem fram komi í kæru málsins að skort hafi á að nefna í niðurstöðum könnunar frá X að afskipti hafi verið í eitt skipti af föður vegna ölvunaraksturs í X. Það þyki hins vegar ekki breyta efnislegri niðurstöðu málsins.
VI. Niðurstaða
Stúlkan D er X ára gömul og fara foreldrar hennar sameiginlega með forsjá hennar. Kærandi er móðir stúlkunnar. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar C var ákveðið að loka barnaverndarmáli stúlkunnar í kjölfar könnunar málsins.
Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan barnsins. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndanna séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.
Samkvæmt 23. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd taka saman greinargerð þegar mál hefur að mati nefndarinnar verið kannað nægilega. Í greinargerð skal lýst niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta er þörfog settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Ef könnun leiðir í ljós að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt bvl. skal barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð málsins. Hafa skal samráð við börn eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Áætlun skal gera til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum.
Í 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð.
Í málinu liggja fyrir tvær tilkynningar til barnaverndar undir nafnleynd er vörðuðu vímuefnaneyslu föður og sambýliskonu hans. Þá barst tilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um að faðir hafi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna komu manns á heimili hans sem hafi hótað honum þegar hann vildi ekki skrifa undir pappíra sem stöfuðu frá kæranda. Við meðferð máls ræddi barnaverndarnefnd símleiðis við foreldra stúlkunnar. Þeim var gerð grein fyrir að þar sem málefni stúlkunnar voru könnuð til hlítar í X væri ekki talið tilefni til frekari aðkomu Barnaverndar C af málinu og því lokað. Í greinargerð Barnaverndarnefndar C, sem tekin var saman af hálfu barnaverndarinnar um könnun málsins samkvæmt 23. gr. bvl., er niðurstöðum könnunar lýst og rakið á hverju niðurstöðurnar eru byggðar.
Samkvæmt 22. gr. bvl., sem vísað er til hér að framan, er markmið könnunar máls samkvæmt lögunum að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl. Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort barnaverndin hafi réttilega metið að ekki hafi verið þörf á að leita úrbóta eða beita sérstökum úrræðum samkvæmt ákvæðum bvl. að könnun lokinni og því ætti að loka málinu.
Úrskurðarnefndin telur, með vísan til þess sem framan er rakið, að fyrirliggjandi gögn málsins hafi ekki gefið tilefni til lokunar málsins að svo stöddu. Þrátt fyrir að mál stúlkunnar hafi verið kannað ítarlega í X var ekki þar með ljóst að ástand á heimili hennar hafi ekki tekið breytingum. Könnun máls felur í sér að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns til þess að hægt sé að komast að niðurstöðu um hvort aðgerða sé þörf í máli, sbr. 23. gr. bvl. Í máli þessu liggur fyrir að einungis var rætt við foreldra í síma og byggt á gögnum úr könnun máls frá janúar 2019. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Barnavernd C að afla frekari upplýsinga um aðstæður stúlkunnar, hvort þær hefðu breyst og taka síðan ákvörðun um framvindu málsins, þ.e. hvort grípa þyrfti til úrræða bvl. eða loka málinu.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til Barnaverndar C til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Barnaverndar C um að loka máli vegna stúlkunnar D er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson