Hoppa yfir valmynd

Endurupptekið mál nr. 456/2021

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

 

Endurupptekið mál nr. 456/2021

Miðvikudaginn 25. október 2023

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með bréfi, dags. 28. júlí 2023, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 456/2021 þar sem staðfest var ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 29. júlí 2021 um að synja umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í ferðakostnaði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. júlí 2021, var sótt um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna ferða kæranda 9. og 29. júní 2021 frá B til C og til baka. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. júlí 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að vottorð væri frá lækni á D en kærandi væri með lögheimili á B og vísað til 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 1140/2019 um ferðakostnað sjúkratryggðra innanlands. Ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 456/2021.

Í kjölfarið kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðarins og komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður úrskurðarnefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög, sbr. álit hans í máli nr. 11723/2022, dags. 25. júlí 2023. Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefndin tæki mál kæranda til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis af hans hálfu. Með bréfi, mótteknu 28. júlí 2023, óskaði kærandi eftir því að mál hans yrði tekið til nýrrar meðferðar. Úrskurðarnefndin féllst á endurupptöku málsins. Með bréfi, dags. 8. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð frá Sjúkratryggingum Íslands. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 7. september 2023, ásamt nýjum ákvörðunum Sjúkratrygginga Íslands þar sem umsókn kæranda var samþykkt. Með bréfi, dags. 12. september 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Sjúkratrygginga Íslands. Svar barst með bréfi kæranda, dags. 24. september 2023, þar sem fram kemur að kærandi óski eftir að fá sent afrit af fyrirtöku nefndarinnar um málið og nýjan úrskurð ásamt afriti af bréfi því sem nefndin hafi væntanlega sent Sjúkratryggingum Íslands þar sem tilkynnt hafi verið um nýjan úrskurð. Með tölvupósti þann 28. september 2023 skýrði úrskurðarnefndin kæranda meðal annars frá því að ekki hafi verið úrskurðað að nýju. Í tölvupósti kæranda þann 2. október 2023 óskaði kærandi eftir formlegum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á, í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis, að úrskurðarnefnd velferðarmála taki mál hans til meðferðar að nýju og leysi úr því í samræmi við þau sjónarmið sem lýst sé í áliti umboðsmanns.

Kærandi vísi til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli hans frá 8. desember 2021 þar sem nefndin hafi staðfest synjun Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku vegna ferðakostnaðar hans.

Eins og nefndinni muni vera fullkunnugt um hafi hann leitað til umboðsmanns Alþingis út af þessari synjun. Niðurstaða umboðsmanns liggi nú fyrir og hafi álit hans verið sent úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 25. júlí 2023.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í ljósi tilmæla umboðsmanns Alþingis í áliti sínu nr. 11723/2022, dags. 25. júlí 2023, og þar sem það liggi fyrir að heilbrigðisráðuneytið hyggist breyta ákvæði reglugerðar nr. 1140/2019 um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands á þann veg að ekki verði gerð krafa um að læknir í heimabyggð þurfi að vísa sjúkratryggðum frá sér til óhjákvæmilegrar meðferðar hafi Sjúkratryggingar Íslands talið rétt að breyta afgreiðslu kæranda og hafi umsókn hans því verið samþykkt.

Með vísan til framangreinds óski Sjúkratryggingar Íslands þess að málið verði fellt niður.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 29. júlí 2021 um að synja umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í ferðakostnaði.

Kærandi óskaði eftir að mál hans yrði tekið til nýrrar meðferðar með vísan til álits umboðsmanns Alþingis. Úrskurðarnefndin féllst á endurupptöku málsins og óskaði eftir greinargerð frá Sjúkratryggingum Íslands. Sjúkratryggingar Íslands ákváðu að samþykkja umsókn kæranda í ljósi tilmæla umboðsmanns Alþingis og þar sem heilbrigðisráðuneytið hyggst breyta umræddu reglugerðarákvæði. Samkvæmt nýjum ákvörðunum Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. september 2023, var fallist á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í ferðakostnaði kæranda vegna ferða hans 8. og 29. júní 2021 frá B til C og til baka. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Sjúkratrygginga Íslands og óskaði kærandi eftir formlegum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þrátt fyrir að Sjúkratryggingar Íslands hafi nú tekið mál hans til nýrrar afgreiðslu, tveimur árum eftir að málið hafi farið af stað. Telur kærandi að meðan formlegur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála liggi ekki fyrir væri Sjúkratryggingum Íslands í lófa lagið að halda áfram að afgreiða önnur hliðstæð mál með sama ólögmæta hætti og gert hafi verið.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar er heimilt að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands til úrskurðarnefndar velferðarmála rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt III. kafla laganna.

Þar sem Sjúkratryggingar Íslands hafa samþykkt greiðsluþátttöku í ferðakostnaði og þar með afturkallað hina kærðu ákvörðun verður ekki séð að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og stofnunarinnar. Þar sem enginn ágreiningur er lengur til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta