Nr. 251/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 6. júlí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 251/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU22060024
Beiðni um endurupptöku í máli [...]
-
Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU21070075, dags. 4. nóvember 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...]og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 8. nóvember 2021. Hinn 15. nóvember 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og endurupptöku málsins. Með úrskurði kærunefndar, dags. 20. janúar 2022, var beiðni kæranda um endurupptöku og frestun réttaráhrifa synjað.
Hinn 9. júní 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá stoðdeild ríkislögreglustjóra 15. júní 2022.
Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
-
Málsástæður og rök kæranda
Í beiðni kæranda kemur fram að samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Vegna þess tíma sem nú hefur liðið frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi sé ljóst að tímafrestur 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sé liðinn. Samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsókna í skilningi ákvæðisins miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar við endursendingu til þess ríkis sem veitt hefur viðkomandi alþjóðlega vernd. Kærandi telur því að atvik í máli hennar hafi breyst verulega en ákvörðun um frávísun frá landinu teljist íþyngjandi ákvörðun. Kærandi vísar til þess að undanfarið hafi ríkt sérstakt ástand þegar komi að ferðalögum milli landa en ljóst sé að hún beri enga ábyrgð á þeim takmörkunum og þeirri óvissu sem Covid-19 faraldurinn hafi valdið. Kærandi vísar til þess að til hafi staðið að flytja hana til Grikklands að undangenginni líkamsrannsókn. Eðli máls samkvæmt þurfi ríkar kröfur að gera til nauðsynjar og lögmætis slíkrar líkamsrannsóknar, sbr. 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, nema fyrir liggi dómsúrskurður eða sérstök lagaheimild. Jafnframt hafi stjórnvöld ekki fullnýtt þá möguleika sem þau hafi og hafi borið skylda til að beita, til að þvinga hana til að undirgangast líkamsrannsókn. Þá sé ábyrgð á flutningi hennar til Grikklands alfarið á herðum íslenskra stjórnvalda þar sem kæranda hafi ekki verið veitt tækifæri til sjálfviljugar brottfarar. Þá hafi kæranda ekki borið skylda til að vinna með íslenskum stjórnvöldum við flutning til ríkis þar sem hún telji líf sitt vera í hættu eða að hún muni búa við ómannúðlegar eða vanvirðandi aðstæður. Kærandi hafi þá sýnt fullan samstarfsvilja á meðan umsókn hennar var til meðferðar og afgreiðslu hér á landi og hafi aðstoðað íslensk stjórnvöld við að upplýsa um málavexti. Jafnframt vísar kærandi til 2. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), en þar er talið að jafnvel þó einstaklingur hlaupist á brott verði að virða ákveðna tímafresti til að stuðla að réttaröryggi. Með vísan til framangreinds telur kærandi að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leggi þá skyldu á íslensk stjórnvöld að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar hér á landi. Atvik í máli hennar hafi því breyst verulega frá því að áðurnefndur úrskurður kærunefndar útlendingamála var birtur henni og beri kærunefnd að endurupptaka málið á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá beri kærunefnd að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og fela stofnuninni að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.
Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi 5. júní 2021 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 5. júní 2022. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hennar sjálfrar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Hinn 13. júní 2022 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá stoðdeild. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í svari stoðdeildar, dags. 15. júní 2022, kemur fram að verkbeiðni hafi borist stoðdeild frá Útlendingastofnun 20. janúar 2022. Hinn 9. febrúar 2022 hafi verið haft samband við kæranda símleiðis en hún ekki svarað. Þá hafi verið send skilaboð í síma kæranda á sómölsku um að mæta á fund stoðdeildar 10. febrúar 2022, klukkan 11. Kærandi hafi mætt þann dag og henni birt Tilkynning um frávísun/brottvísun frá Íslandi til Grikklands. Notast hafi verið við Language Line Solution á sómölsku. Kærandi hafi neitað að merkja við svarreiti á tilkynningunni og neitað að skrifa undir án samráðs við lögmann sinn. Aðspurð kvaðst hún skilja það sem fyrir hana var lesið.
Líkt og fram hefur komið hitti stoðdeild kæranda 10. febrúar 2022 til þess að kanna afstöðu hennar til flutnings til viðtökuríkis. Á umræddum fundi var kærandi m.a. spurð hvort hún myndi sýna samstarfsvilja í tengslum við flutning úr landi og hvort hún myndi vilja undirgangast Covid-19 sýnatöku. Kærandi neitaði að gefa upp afstöðu í tengslum við framangreint ásamt því að neita að undirrita tilkynninguna sem henni var kynnt með aðstoð Language Line á sómölsku, án samráðs við lögmann sinn. Af svari stoðdeildar má ráða að ekki hafi verið gerðar frekari tilraunir af hálfu stoðdeildar til að kanna afstöðu hennar til fyrirhugaðs flutnings. Hefði stoðdeild verið í lófa lagið að bjóða henni að ráðfæra sig við lögmann sinn. Kærunefnd telur að framkvæmd stoðdeildar sé ómarkviss að þessu leyti og að sú yfirlýsing kæranda að neita að skrifa undir tilkynninguna án samráðs við lögmann sinn, geti ein og sér ekki talist töf á afgreiðslu málsins.
Með hliðsjón af framangreindu er því ekki grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hennar ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.
Í ljósi framangreinds er því fallist á atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hún eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
:
Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.
The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.
The decisions of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant’s application for international protection in Iceland.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Gunnar Páll Baldvinsson