Nr. 176/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 176/2019
Miðvikudaginn 4. september 2019
A
gegn
Félagsmálanefnd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur.
Með tölvupósti 8. maí 2019 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Félagsmálanefndar B frá 10. apríl 2019 vegna umgengni við son hennar, D.
Heimilt er sveitarstjórn að fela félagsmálanefnd störf barnaverndarnefndar samkvæmt 4. mgr. 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Í máli þessu gegnir Félagsmálanefnd B störfum barnaverndarnefndar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
D er X ára drengur sem lýtur forsjá Félagsmálanefndar B. Kærandi er kynmóðir drengsins. Kærandi var svipt forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms E í X og staðfesti Hæstiréttur þann dóm í X.
Mál drengsins á sér langa sögu en það hefur verið til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá X. Drengurinn hefur verið í fóstri hjá [...], fyrst tímabundnu fóstri frá árinu X en fóstrið hefur verið varanlegt frá X.
Í X kvað Félagsmálanefnd B upp úrskurð þess efnis að drengurinn hefði umgengni við kæranda ársfjórðungslega, [...] í X, X, X og X, á heimili kæranda á milli klukkan 13:00 og 17:00, undir eftirliti.
Kærandi fór fram á aukna umgengni 30. október 2018. Hún krafðist þess að umgengni yrði tvisvar sinnum í mánuði í 24 klukkustundir í senn frá laugardegi til sunnudags en til vara að umgengni yrði aukin.
Félagsmálanefnd B tók málið fyrir á fundi 10. apríl 2019. Þar sem ekki náðist samkomulag um fyrirkomulag umgengni var úrskurðað um hana á grundvelli 74. gr. bvl.
Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi:
„Krafa A, um aukna umgengni við barnið D, er hafnað.“
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess aðallega að úrskurði Félagsmálanefndar B verði hrundið og að ákveðið verði að kærandi hafi umgengni við drenginn tvisvar í mánuði, í 24 klukkustundir í senn frá laugardegi til sunnudags. Til vara krefst kærandi þess að ákveðin verði rýmri umgengni en hún nýtur nú, að mati nefndarinnar.
Málið varði umgengni kæranda við X ára gamlan son hennar sem sé í varanlegu fóstri. Kærandi hafi umgengni við drenginn fjórum sinnum á ári og hafi sú umgengni gengið vel. Kærandi hafi bætt stöðu sína til muna og séu sterk tengsl á milli hennar og drengsins. Hana langi til að hafa aukna umgengni við drenginn og upplifi hún að sá vilji sé gagnkvæmur hjá þeim mæðginum.
Við úrlausn þessa máls verði, líkt og endranær í barnaverndarmálum, að hafa að leiðarljósi það sem sé barni fyrir bestu en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni sé fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Einnig skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl.
Um mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé að ræða fyrir kæranda og son hennar sem þrái meiri samskipti við kæranda. Hin kærða ákvörðun feli í sér verulegt inngrip í réttindi þeirra beggja, auk þess að hafa mjög viðurhlutamikil áhrif á líf drengsins til lengri tíma litið. Kærandi telji að málsmeðferð barnaverndaryfirvalda hafi verið ófullnægjandi. Hinn kærði úrskurður gangi gegn sameiginlegum hagsmunum kæranda og drengsins og það sé honum fyrir bestu að hafa tíðari umgengni við sig.
Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns, eftir því sem unnt sé í samræmi við aldur barns og þroska, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 64. gr. a. bvl. Það sé ljóst af framkvæmd að vilji barns sé það sjónarmið sem vegi einna þyngst þegar ákvörðun sé tekin um atriði er varði barnið, sérstaklega þegar um stálpuð börn sé að ræða. Einnig geti tengsl barns við foreldri eftir atvikum haft umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmáls. Þá sé samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns.
Í hinum kærða úrskurði komi fram að vilji drengsins í máli þessu standi til þess að eiga meiri umgengni við kæranda og langi hann að prófa að gista hjá henni. Þessi vilji drengsins eigi rót sína að rekja til þeirra sterku tengsla sem séu á milli kæranda og drengsins. Í hinum kærða úrskurði sé gengið þvert á vilja drengsins í málinu og telji kærandi því ljóst að vilja hans hafi ekki verið veitt nægilegt vægi við úrlausn málsins. Telji kærandi að drengurinn sé orðinn svo stálpaður að hann eigi rétt að hafa áhrif á mál sem varði hann, svo lengi sem vilji hans stangist ekki á við það sem sé honum fyrir bestu. Í hinum kærða úrskurði sé því þó haldið fram að drengurinn hafi ekki nægan þroska til þess að meta hvernig umgengni skuli vera háttað. Þetta telji kærandi rangt og telji að af dómaframkvæmd sé ljóst að alla jafna hafi börn á hans aldri nægan þroska til þess að taka beri tillit til vilja þeirra varðandi úrlausn mála er þau varði. Í því samhengi vísi kærandi meðal annars til eftirfarandi dóma Hæstaréttar: Hrd. 2004, bls. 2471 (31/2004), Hrd. 8. maí 2008 (445/2007), Hrd. 12. júní 2008 (608/2007), Hrd. 30. október 2008 (140/2008) og Hrd. 6. desember 2012 (463/2012). Um sé að ræða mál þar sem fjallað sé um forsjá og umgengni barna í innbyrðis deilum foreldra en ekki barnaverndarmál. Af málunum megi þó draga þá ályktun að börn á sama aldri og sonur kæranda séu sannarlega nægilega þroskuð til þess að hafa áhrif á ákvarðanir um mál er varði framtíðarhagsmuni þeirra, og að ekki skuli líta fram hjá vilja barna á þessum aldri við úrlausn mála sem þau varði, sérstaklega ef viljinn sé einbeittur og skýr líkt og í þessu máli. Sýni málin því að vilji barns á þessum aldri skuli hafa vægi við ákvörðun á málum sem þau varði ef ekki sé sýnt fram á að vilji þeirra stangist á við það sem þeim sé fyrir bestu. Kærandi telji það ekki andstætt hagsmunum drengsins að hafa ríkari umgengni við sig en hins vegar telji kærandi það vera til þess fallið að hafa slæm áhrif á líðan og hagsmuni drengsins til lengri tíma litið ef gengið sé þvert á vilja hans í málinu. Telji kærandi því ljóst að vilja drengsins hafi ekki verið veitt nægt vægi við úrlausn máls hjá félagsmálanefnd. Bendi kærandi á að réttur barna til að tjá vilja sinn og hafa áhrif á mál er þau varði sé meðal grundvallarréttinda barna samkvæmt Barnasáttmálanum.
Kærandi bendi á að skýrsla talsmanns, sem vísað sé til í greinargerð félagsmálanefndarinnar, virðist ekki hafa verið lögð fram við meðferð málsins hjá félagsmálanefndinni heldur einvörðungu samantekt úr skýrslunni sem unnin hafi verið af starfsmönnum félagsmálanefndarinnar. Þá virðist talsmaður drengsins ekki hafa verið viðstaddur fund félagsmálanefndarinnar. Hafi samkvæmt þessu, að mati kæranda, ekki verið gerð nægileg grein fyrir vilja drengsins við úrlausn málsins fyrir félagsmálanefndinni. Þar með hafi ekki verið tryggt með viðunandi hætti að skýr vilji drengsins lægi fyrir þannig að hægt væri að taka mið af honum á fullnægjandi hátt við úrlausn málsins. Vegna þessara annmarka á málsmeðferð telji kærandi fullt tilefni til að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Kærandi telji jafnframt að líta verði til sterkra tengsla hennar við drenginn, en hún telji að þrátt fyrir að markmið í varanlegu fóstri sé almennt ekki að styrkja tengsl barns við foreldri, heldur að tryggja að barn þekki uppruna sinn, þá geti vegna hinna sterku tengsla sem séu þeirra á milli verið skaðlegt fyrir drenginn til lengri tíma litið að neita honum um meiri umgengni við sig.
Við mat á því hvað sé barni fyrir bestu skipti einnig miklu máli að stuðla að sem mestum stöðugleika í lífi barns. Kærandi telji að tíðari umgengni stuðli einmitt að auknum stöðugleika í lífi drengsins. Þannig geti umgengni við kæranda verið reglubundinn þáttur í lífi drengsins. Með þeim hætti sé komið í veg fyrir að umgengni raski rútínu drengsins, valdi spennu og tilfinningalegu róti í lífi hans.
Kærandi telji að í málinu verði annars vegar að horfa til þess hvernig staða hennar hafi lagast frá því að drengurinn var settur í fóstur og hins vegar til þess hversu vel umgengni hafi gengið. Telji hún það einna helst skipta sköpum við mat á því hvort umgengni yfir nótt sé andstæð hagsmunum drengsins að meta hvort aukin umgengni kunni að vera góð fyrir drenginn.
Í málinu hafi allt frá upphafi fósturs farið fram regluleg umgengni. Af dagálum barnaverndar megi sjá að umgengnin hafi gengið vel og að drengnum líði vel í umgengninni. Þá megi jafnframt sjá af þeim að drengurinn sé glaður þegar hann komi í umgengni til kæranda og heilsi henni oft með faðmlagi við komu. Af dagálum úr umgengni sé ljóst að samband þeirra sé náið og mæðginin njóti samverustundanna vel saman. Frá því að drengurinn hafi farið í fóstur hafi kærandi breytt högum sínum umtalsvert til hins betra. Hún hafi farið í meðferð og sé nú búin að vera edrú hátt í X ár. Þá hafi hún ótímabundinn aðgang að íbúð frá [...]. Því ríki ekki óstöðugleiki um húsnæðismál líkt og lagt sé til grundvallar í hinum kærða úrskurði. Í dag sé hún á góðum stað og í andlegu jafnvægi. Kærandi telji þessi sjónarmið skipta miklu máli við mat á því hvort tíðari umgengni sé betri fyrir drenginn eður ei vegna þess að staða hennar sé til þess fallin að hafa mikil áhrif á upplifun hans og líðan í umgengni og leiði til þess að engar áhyggjur þurfi að hafa af því að vel sé hugsað um drenginn í umgengni. Kærandi sé til að mynda tilbúin til að koma til móts við fósturforeldra og áhyggjur þeirra af aukinni umgengni með því að passa að drengurinn fái ekki of mikið sælgæti í umgengni og ganga úr skugga um að hann [...]. Þá hafi kærandi gott tengslanet í kringum sig sem hafi hingað til tekið þátt í umgengninni og muni fjölskylda kæranda hjálpa henni að passa upp á að halda rútínu á lífi drengsins þegar hann sé í umgengni. Einnig sé mikilvægt að taka mið af því að í umgengni sé drengurinn einnig að hafa umgengni við móðurfjölskyldu sína.
Kærandi geri athugasemdir við málsmeðferð barnaverndar. Hún telji að barnavernd hafi ekki gætt að málshraða og meðalhófsreglu. Einnig telji kærandi að barnavernd hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti og að brotið hafi verið gegn sjónarmiðum um skyldubundið mat stjórnvalda. Kærandi telji að þeir annmarkar, sem verið hafi á meðferð máls hjá barnavernd og félagsmálanefnd, leiði til þess að fella eigi hinn kærða úrskurð úr gildi.
Til þess að hægt sé að komast að því hvað sé best fyrir barn hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu í 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í málinu. Kærandi telji einnig að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við grundvallarreglu um skyldubundið mat stjórnvalda við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana. Ákvörðun um umgengni barns í varanlegu fóstri við forsjárlaust foreldri sé matskennd stjórnvaldsákvörðun. Af því leiði að það sé barnaverndaryfirvöldum nauðsynlegt að taka ákvörðun í sérhverju máli með tilliti til allra aðstæðna, þ.e. hvað sé best fyrir það barn sem um ræði miðað við aðstæður hverju sinni. Loks blasi við að þau gögn sem lögð séu fram að hálfu barnaverndar í málinu séu fremur fá. Verði það að teljast ámælisvert vegna þess að barnavernd beri að sýna fram á að atvik málsins séu með þeim hætti að aukin umgengni sé andstæð hagsmunum drengsins.
Varðandi rannsóknarskyldu og gagnaöflun að undangenginni ákvörðun telji kærandi að hlutast hefði mátt betur til um að kanna viðhorf drengsins til umgengni, hvort hann hefði nægan þroska til að hafa áhrif á ákvörðun um umgengni og hvaða áhrif umgengni hefði á líðan hans. Í málinu liggi ekki fyrir upplýsingar frá skóla drengsins um hvort starfsmenn sjái breytta hegðun hjá drengnum í tengslum við umgengni en svo virðist sem staðhæfingar fósturforeldra um líðan drengsins í kjölfar umgengni séu lagðar til grundvallar, án þess að frekari gögn málsins styðji þær staðhæfingar. Kærandi telji fósturforeldra ekki hlutlausa í málinu og því sé ótækt að leggja frásögn þeirra til grundvallar, án frekari gagna. Þá telji kærandi að barnavernd hafi verið rétt að skipa drengnum talsmann í því skyni að leiða í ljós vilja hans og meta hvort þroski hans sé nægur til þess að hafa áhrif á ákvörðun um umgengni. Eigi það ekki síst við ef hunsa eigi algjörlega vilja drengsins með vísan til aldurs hans, enda ljóst af framkvæmd að börn á hans aldri hafi alla jafna mikil áhrif á ákvarðanir um líf sitt. Telji kærandi því ljóst að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað af hálfu barnaverndar.
Þá telji kærandi að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn sjónarmiðum um skyldubundið mat stjórnvalda. Í málinu sé gengið þvert á vilja barnsins sjálfs, kæranda og jafnframt hafi fósturforeldrar upphaflega verið samþykk aukinni umgengni. Engu að síður komist barnavernd að þeirri niðurstöðu að aukin umgengni sé andstæð hagsmunum drengsins og vísi því til stuðnings til almennra sjónarmiða sem búi að baki umgengni við barn í varanlegu fóstri. Kærandi telji þessi rök ófullnægjandi vegna þess að við ákvörðun um umgengni verði að meta atvik hvers og eins barns. Tilgangur með umgengni sé alla jafna að barn þekki uppruna sinn en þó sé misjafnt eftir hverju barni hversu mikla umgengni það þurfi við foreldra sína og þar sem markmið með barnaverndarstarfi sé almennt að hafa hagsmuni þess barns sem um ræði að leiðarljósi, sé ekki hægt að slá því föstu að minni umgengni sé alltaf betri fyrir barn. Kærandi telji einmitt að í þessu máli, með tilliti til aldurs drengsins og vilja hans, sé betra fyrir hann að hafa reglulegri umgengni við sig og telji kærandi að ekki hafi verið tekið nægt tillit til atvika þessa máls og hagsmuna þessa tiltekna drengs við ákvörðun um umgengni.
Þá telji kærandi tillögu barnaverndar brjóta í bága við meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af ákvæðunum leiði að tillagan verði að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi. Kærandi telji sem dæmi að það myndi samræmast betur meðalhófssjónarmiðum að heimila [aukna] umgengni til reynslu á meðan fylgst sé með hvaða áhrif umgengnin hafi á hagsmuni drengsins og væri þá eftir atvikum hægt að auka umgengnina jafnt og þétt eða minnka hana.
Við úrvinnslu barnaverndarmála gildi málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 38. gr. bvl. Reglan sé jafnframt áréttuð í 2. mgr. 41. gr. bvl. Almennt séð teljist hagsmunir barna standa til þess að fá úrlausn mála sem þau varði með skjótum hætti, meðal annars til að stuðla að stöðugleika í þeirra lífi. Kærandi telji að í máli þessu hafi barnaverndaryfirvöld gerst brotleg við málshraðareglu. Kærandi hafi fyrst óskað eftir aukinni umgengni 30. október 2018. Málið hafi ekki verið tekið fyrir hjá félagsmálanefnd fyrr en hátt í hálfu ári síðar, eða 10. apríl 2019. Kærandi telji þennan drátt á málinu óútskýrðan og feli í sér brot á málshraðareglu stjórnsýsluréttar.
Í greinargerð félagsmálanefndar sé á því byggt að þar sem fóstri drengsins sé ætlað að standa til 18 ára aldurs hans, standi hagsmunir hans ekki til þess að eiga mikla umgengni við kynforeldri. Þessu mótmæli kærandi. Að mati kæranda séu þessi almennu rök fyrir lítilli umgengni á milli kynforeldris og barns í varanlegu fóstri ekki fullnægjandi fyrir því að kærandi hafi svo litla umgengni við drenginn.
Kærandi mótmæli því að ekki skuli túlka afstöðu drengsins þannig að hann vilji aukin samskipti við sig. Hún telji bæði að af samantekt um vilja drengsins í gögnum málsins og af samskiptum sínum við drenginn sé skýrt að vilji hans standi til þess að fá aukna umgengni við sig. Þá hafni hún því að afstaða hans til aukinnar umgengni komi einvörðungu til vegna þess að hann fái að [...], þótt hann nefni þá þætti í dæmaskyni. Drengurinn sé að mati kæranda þroskaðri en svo að hann reisi afstöðu sína á slíku. Í málatilbúnaði félagsmálanefndarinnar virðist því gefið í skyn að drengurinn óski eftir aukinni umgengni vegna þess að kærandi láti of mikið eftir honum en kærandi vilji taka fram að drengurinn dvelji alla jafna hjá henni á [...]. Þá ítreki kærandi að hún sé tilbúin til að koma til móts við óskir fósturforeldra í sambandi við umgengni, meðal annars með því að [...]. Kærandi kveðist hafa skýrari reglur á heimili sínu en fósturforeldrar hafi á sínu heimili og telji því að drengurinn fái nauðsynlegt aðhald og reglu hjá sér. Kærandi álíti að drengnum líði vel hjá sér og að hann langi til að leika við hana. Telji kærandi vilja drengsins til aukinnar umgengni einbeittan og skýran.
Kærandi hafni því að aukin umgengni við sig feli í sér frávik eða röskun á stöðugleika og reglufestu í þroskavænlegu umhverfi drengsins. Í dag geti hún boðið drengnum upp á þroskavænlegt umhverfi í umgengni og aukin umgengni við hana sé ekki til þess fallin að stuðla að óstöðugleika í lífi drengsins. Af gögnum málsins megi ekki sjá neitt sem bendi til þess að umgengni drengsins við sig valdi róti eða óstöðugleika í lífi drengsins. Kærandi telji frekar að drengurinn sýni merki vanlíðanar vegna þess að hann fái ekki nægilega umgengni við hana. Ályktanir um óstöðugleika í lífi drengsins í kjölfar umgengni séu einvörðungu reistar á frásögnum fósturforeldra sem einar og sér dugi ekki til þess að staðreyna að sú sé raunin, enda geti fósturforeldrar vart talist hlutlausir í málinu. Hvað varði rannsókn á þessum þætti og umsögn frá skóla, taki kærandi fram að í þeirri umsögn frá skóla sem fyrir hafi legið við úrlausn málsins hjá félagsmálanefnd sé einvörðungu fjallað um námslega stöðu drengsins en ekki hvort hann sýni breytta hegðun í kjölfar umgengni. Því telji kærandi að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti því að nærtækt hefði verið að afla slíkra upplýsinga frá skóla drengsins eða einhverjum öðrum aðila en fósturforeldrum sem hafi regluleg samskipti við drenginn.
III. Sjónarmið Félagsmálanefndar B
Félagsmálanefnd B krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hinn kærða úrskurð. Félagsmálanefndin telji enga þá ágalla vera á hinum kærða úrskurði sem lýst sé í kæru.
Mál þetta varði dreng á X aldursári. Mál drengsins eigi sér langa sögu. Allt frá árinu X hafi drengurinn búið hjá [...]. Hann hafi í upphafi verið vistaður tímabundið hjá [...] í kjölfar þess að barnaverndarnefnd hafði gripið inn í aðstæður drengsins hjá kæranda með vistun utan heimilis X. Síðla árs X hafi drengurinn verið vistaður í varanlegu fóstri hjá [...] í kjölfar þess að dómstólar hafi svipt kæranda forsjá drengsins. Dómkvaddir matsmenn hafi metið forsjárhæfni kæranda stórlega skerta vegna persónulegra einkenna hennar og tilfinningaástands.
Kærandi hafi notið umgengni við drenginn en úrskurðað hafði verið um umgengni í varanlegu fóstri X. Hafi umgengni þá verið ákvörðuð ársfjórðungslega á heimili kæranda á milli klukkan 13:00 og 17:00, undir eftirliti. Krefjist kærandi þess nú að umgengni verði aukin umtalsvert.
Við töku ákvörðunar félagsmálanefndarinnar hafi legið fyrir bréf frá deildarstjóra í skóla drengsins. Þar komi meðal annars fram að kennarar hans séu í góðum samskiptum við fósturforeldri og að heimanámi drengsins sé vel sinnt. [...].
Í kæru sé fullyrt að ákvörðun félagsmálanefndar hafi falið í sér verulegt inngrip í réttindi drengsins og kæranda og að drengurinn þrái meiri samskipti við kæranda. Varðandi afstöðu drengsins telji félagsmálanefnd að kærandi rangtúlki þá afstöðu drengsins. Þá sé það rangt sem fram komi í kæru að með hinum kærða úrskurði sé verið að grípa með verulegum hætti inn í réttindi drengsins. Grundvallarréttindi drengsins, sem sé nú vistaður í varanlegu fóstri sem eigi að vara til 18 ára aldurs, séu að njóta öryggis og stöðugleika í þeim uppeldisaðstæðum, sbr. meðal annars 3. mgr. 4. gr. bvl. Kærandi njóti nú þegar umgengni við drenginn. Barn eigi rétt til slíkrar umgengni með sama hætti og foreldri nema hún sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barns, sbr. 74. gr. bvl. Hafi því bæði verið gætt að réttindum drengsins og réttindum kæranda samkvæmt lagaákvæðinu.
Í málinu sé farið fram á aukna umgengni frá því sem verið hafi. Við þær aðstæður sem uppi séu, að teknu tilliti til forsögu málsins og þess að fóstri sé ætlað að vara til 18 ára aldurs, standi hagsmunir drengsins ekki til þess að vera í mikilli umgengni við kynforeldri. Að mati félagsmálanefndar hafi drengurinn enga þörf fyrir breytingu á sínum högum og sé mikilvægt að tryggja áframhaldandi stöðugleika hans í varanlegu fóstri.
Í kæru sé lagt mikið upp úr því að túlka vilja drengsins til umgengni við kæranda en nauðsynlegt sé að gera athugasemdir við þetta. Félagsmálanefnd mótmæli því ekki sem fram komi í kæru að í barnaverndarmálum sé mikilvægt að taka tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé í samræmi við aldur þess og þroska. Um réttindi barnsins að þessu leyti sé fjallað í 2. mgr. 46. gr. bvl. Af ákvæðinu leiði að félagsmálanefnd beri að vega og meta það sem fram komi hjá barni, hvernig barnið myndi sér skoðun og láti þá skoðun í ljós, í samræmi við aldur þess og þroska.
Í kæru komi fram að drengurinn þrái aukin samskipti við kæranda. Að mati félagsmálanefndar verði afstaða hans ekki túlkuð með þeim hætti. Drengurinn sé ekki mótfallinn aukinni umgengni, hann segist vilja eyða meiri tíma með kæranda og að prófa að gista hjá henni. Á hinn bóginn verði ekki hjá því komist að nefna að drengurinn nefni meðal annars [...] i þegar hann sé spurður um afstöðu sinnar til aukinnar umgengni og virðist hún að nokkru lituð að því.
Þó ekki sé dregið í efa að afstaða drengsins sé jákvæð gagnvart umgengni við kæranda þá þurfi félagsmálanefnd að taka ákvörðun með hagsmuni drengsins í huga. Svo sem rakið sé í hinum kærða úrskurði hafi aðstæður drengsins einkennst af stöðugleika og reglufestu í þroskavænlegu umhverfi hjá fósturforeldri og verði að fara varlega í að ákveða frávik eða röskun á þeim aðstæðum. Umgengni við kæranda hafi farið fram fjórum sinnum á ári. Í málinu liggi fyrir skýrslur eftirlitsaðila þar sem framvindu umgengni sé lýst en segja megi að hún hafi gengið án teljandi vandkvæða, en nokkurs óstöðugleika hafi gætt í húsnæðismálum kæranda. Einnig liggi fyrir í málinu afstaða fósturforeldris til aukinnar umgengni. Þar komi meðal annars fram að það taki langan tíma að ná drengnum niður eftir heimsóknir til kæranda, drengurinn sýni hroka og fari lítið eftir fyrirmælum. Þá telji fósturforeldri að næturgisting geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir drenginn og líðan hans. Einnig liggi fyrir upplýsingar frá skóla þar sem fram komi að drengurinn [...] en að samskipti við fósturforeldri séu góð og heimanámi sé vel sinnt. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og sjónarmiðum sé það mat félagsmálanefndar að tíðari umgengni sé til þess fallin að raska stöðugleika í umhverfi drengsins og hafa áhrif á öryggi hans og líðan hjá fósturforeldri.
Félagsmálanefnd telji þá dóma sem kærandi vísi til í málinu ekki hafa þýðingu. Hvert mál sé einstakt og sérsjónarmið gildi í málum er varði umgengni þegar um sé að ræða varanlegt fóstur. Þá hafi barnaverndarnefnd ekki litið fram hjá afstöðu drengsins heldur metið hana með hliðsjón af atvikum öllum.
Í kæru komi fram að „vegna þessa sterku tengsla sem eru þeirra á milli [þ.e. kæranda og drengsins] geti verið skaðlegt fyrir drenginn til lengri tíma litið að neita honum meiri umgengni við kæranda“. Ekki sé útskýrt nánar til hvers sé vísað. Félagsmálanefnd geti ekki annað en mótmælt þessu og telji umgengni drengsins við kæranda hæfilega miðað við atvik öll. Kærandi hafi verið svipt forsjá drengsins þar sem forsjárhæfni hennar hafi verið talin stórlega skert. Hafi drengurinn verið vanræktur í hennar umsjá en hafi nú öðlast festu hjá fósturforeldri. Hagsmunir hans standi ekki til þess að grípa frekar inn í stöðugleika hjá fósturforeldri.
Í kæru mótmæli kærandi því að óstöðugleiki ríki um húsnæðismál hennar. Að mati félagsmálanefndar verði því ekki neitað að óstöðugleika hafi gætt í húsnæðismálum kæranda, enda hafi umgengni einkum farið fram á heimili [...] en á milli þess á mismunandi heimilum kæranda. Meðal annars hafi komið fram hjá kæranda að hún hafi ekki viljað að drengurinn kæmi í umgengni í [...] sem hún hafi leigt í F þar sem íbúar hússins hafi [...]. Síðasta umgengni hafi farið fram í íbúð þar sem kærandi hafi sagst búa í tímabundið þar sem hún hafi hrökklast úr fyrri íbúð vegna „[...]“. Við fyrirtöku málsins hjá félagsmálanefnd hafi kærandi upplýst að hún byggi nú ótímabundið í íbúð hjá [...] en félagsmálanefnd hafi ekki fengið staðfestingu þar um frá leigusala. Umgengni hafi ekki farið fram í því húsnæði og eigi eftir að koma í ljós hvernig framvindan verði.
Í kæru komi einnig fram að í umgengni við kæranda hafi drengurinn einnig umgengni við móðurfjölskyldu sína en ekki einungis kæranda. Að mati kæranda sé mikilvægt að drengurinn fái að vera í reglulegum samskiptum við móðurfjölskyldu sína. Tekið skuli fram að ákvörðun félagsmálanefndar snúi að umgengni við kæranda en ekki móðurfjölskyldu þó að félagsmálanefnd geri ekki athugasemdir við það þótt kærandi kjósi að verja umgengninni með móðurfjölskyldunni.
Kærandi telji að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Félagsmálanefndin hafni þessu og telji málið fyllilega upplýst. Kærandi vísi meðal annars til þess að framlögð gögn hafi verið fremur fá. Meðal þeirra gagna sem legið hafi fyrir hafi verið dagálar eftirlitsaðila vegna umgengni frá og með X til og með X, svarbréf frá deildarstjóra skóla drengsins og afstaða aðila, þar á meðal fósturforeldris. Þá hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna félagsmálanefndar. Kærandi hafi haft aðgang að öllum þessum gögnum fyrir fyrirtöku málsins og hafi engar athugasemdir gert við gagnaöflun í málinu eða rannsókn þess að öðru leyti. Í gögnunum séu allar þær upplýsingar sem þörf sé á til þess að taka ákvörðun í málinu.
Kærandi telji að hlutast hefði mátt betur um að kanna viðhorf drengsins, meðal annars með því að skipa honum talsmann. G afbrotafræðingur, sem sé eftirlitsaðili með umgengni kæranda við drenginn, hafi verið fengin til að ræða við drenginn og leita eftir afstöðu hans sem talsmaður. G uppfylli allar hæfniskröfur sem talsmaður, sbr. 30. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnavernd. Með þessu hafi verið tryggt að afstaða drengsins kæmi fram en afstaða drengsins samkvæmt skýrslu talsmanns komi fram í hinum kærða úrskurði.
Kærandi geri athugasemdir við að talsmaður drengsins hafi ekki verið viðstaddur fund félagsmálanefndar. Félagsmálanefndin hafni því að henni hafi verið skylt að boða talsmann til fundarins en drengurinn hafi ekki verið aðili að ákvörðuninni. Einungis börn sem náð hafi 15 ára aldri séu aðilar barnaverndarmáls og eigi það meðal annars við um mál samkvæmt 74. gr. bvl.
Kærandi vísi jafnframt til þess að afstaða fósturforeldris hafi upphaflega staðið til þess að auka ætti umgengni en að fósturforeldri hafi horfið frá því. Virðist kærandi byggja á því að félagsmálanefndinni hafi borið að taka tillit til upphaflegrar afstöðu fósturforeldris. Félagsmálanefnd telji enga ástæðu til þess. Fyrstu viðbrögð geti ekki haft áhrif, hver svo sem ástæða afstöðubreytingarinnar kunni að vera. Þá skuli einnig tekið fram að upphafleg afstaða fósturforeldrisins sé mótuð af því að hagsmunir drengisns séu ekki fólgnir í því að auka umgengni við kæranda. Þannig komi meðal annars fram sú skoðun fósturforeldrisins að aukin umgengni geti haft slæm og neikvæð áhrif á drenginn og muni raska daglegri rútínu hans.
Kærandi byggi á því að ákvörðun félagsmálanefndar hafi ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og bendi meðal annars á að betur hefði samræmst meðalhófssjónarmiðum að heimila umgengni til reynslu á meðan fylgst væri með hvaða áhrif umgengnin hefði á hagsmuni drengsins. Eins og rakið hafi verið hér fyrr þá njóti kærandi umgengni. Í málinu liggi fyrir skýrslur eftirlitsaðila með þeirri umgengni sem og sjónarmið aðila vegna umgengninnar. Því verði að teljast afar óljóst til hvers sé vísað í kæru.
Kærandi byggi á því að málshraðaregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin við úrlausn málsins. Kærandi hafi fyrst óskað eftir aukinni umgengni 30. október 2018 en málið hafi ekki verið tekið fyrir fyrr en 10. apríl 2019. Félagsmálanefnd telji að þó að afgreiðsla málsins hafi dregist leiði það ekki til þess að fallast beri á kröfur kæranda í málinu.
Með vísan til hins kærða úrskurðar og framanrakinna sjónarmiða sé þess krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað.
IV. Sjónarmið fósturforeldris
Í tölvupósti fósturmóður til úrskurðarnefndarinnar 20. ágúst 2018 kemur fram að það sé afstaða hennar að umgengni verði að hámarki með þeim hætti sem kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði.
V. Sjónarmið D
Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins X 2019. Fram kemur að talsmaður hafi hitt drenginn á heimili hans X 2019. Drengurinn hafi sagt að hann vildi gjarnan eyða meiri tíma með kæranda og hann yrði ánægður ef hann fengi það. Aðspurður hvort hann vildi gista hjá kæranda sagðist hann alveg vera til í að prófa það eina nótt og hafi honum greinilega þótt tilhugsunin spennandi. Drengurinn sagði að honum liði vel hjá kæranda og vildi vera meira hjá henni. Honum væri alveg sama þótt hann ætti ekki herbergi hjá henni og hann myndi sennilega bara sofa í sófanum. Drengurinn hafi sagt að hann langaði til að leika við kæranda og [...]. Hafi hann nefnt [...].
Þá langaði hann til að hitta ömmu H og ömmu I oftar. Hann sagði að kærandi gæti verið skemmtileg, að hún væri með meiri reglur en amma H og segði honum hvað hann mætti gera og hvað hann mætti ekki gera. Það skipti hann ekki máli þótt hann ætti ekki dót hjá kæranda þar sem hann gæti alltaf farið heim til ömmu H og leikið sér með dótið sitt þar. Einnig fengi hann oft [...] hjá kæranda og oftast að borða það sem hann vildi.
VI. Niðurstaða
D er fæddur árið X. Hann hefur verið í fóstri hjá [...] frá X, fyrst í tímabundnu fóstri en síðan í varanlegu fóstri frá X. Móðir hans, kærandi í máli þessu, var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms E í X og var dómurinn staðfestur í Hæstarétti í X.
Með hinum kærða úrskurði frá 10. apríl 2019 var ákveðið að hafna kröfu kæranda um að auka umgengni við drenginn, en kærandi krefst þess að umgengni verði tvisvar sinnum í mánuði í 24 klukkustundir í senn frá laugardegi til sunnudags en til vara að umgengni verði aukin. Samkvæmt fyrri úrskurði frá því í X var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn ársfjórðungslega, á [...] í X, X, X og X, á heimili kæranda á milli klukkan 13:00 til 17:00, undir eftirliti.
Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að umgengni hafi gengið vel. Hún hafi farið fram alls X sinnum frá ársbyrjun X til og með X, þar af X sinnum á heimili [...] en í önnur skipti á heimili kæranda.
Í hinum kærða úrskurði segir að það sé meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni séu fyrir bestu, sbr. einnig 1. mgr. 4. gr. bvl. Þannig beri að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjóni hagsmunum drengsins best með tilliti til stöðu hans en fóstrinu sé ætlað að vara til 18 ára aldurs. Umgengni þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun drengsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti þurfi sérstaklega að horfa til þess að tryggja þurfi að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldri þar sem markmiðið sé að tryggja honum stöðugt og varanlegt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengni þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Fram kemur í hinum kærða úrskurði að drengurinn hafi verið í varanlegu fóstri frá X og fyrir þann tíma hafi hann verið vistaður hjá sama fósturforeldri frá X á grundvelli 84. gr. bvl. Kærandi hafi verið svipt forsjá drengsins með dómi í X, enda talið að hún væri ófær um að fara með forsjá hans og sinna forsjárskyldum gagnvart honum. Umgengni hafi gengið án teljandi vandkvæða en nokkurs óstöðugleika hafi gætt í húsnæðisaðstæðum kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hún verið vímulaus í X ár.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að aðstæður drengsins hafi einkennst af stöðugleika og reglufestu í þroskavænlegu umhverfi hjá fósturforeldri. Öll frávik eða röskun á þeim aðstæðum gangi gegn hagsmunum drengsins. Kærandi fari fram á að umgengni verði aukin töluvert. Að mati félagsmálanefndarinnar geti það ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eigi ekki að vera varanleg og til frambúðar. Drengurinn segðist vilja eyða meiri tíma með kæranda og kveðst ánægður ef hann fengi það. Að mati félagsmálanefndar hafi drengurinn ekki nægan þroska eða getu til að meta hvernig umgengni eigi að vera háttað þannig að best hent þörfum hans og hagsmunum. Hann nefni til að mynda [...] þegar hann sé spurður um afstöðu sína til aukinnar umgengni við kæranda. Þá verði ekki litið fram hjá því að fósturforeldri kveði drenginn erfiðan í hegðun eftir umgengni.
Í hinum kærða úrskurði er einnig vísað til þess að það sé mat félagsmálanefndarinnar að tíðari umgengni geti raskað stöðugleika í umhverfi drengsins og haft áhrif á öryggi hans og líðan hjá fósturforeldri. Að mati félagsmálanefndarinnar skipti ekki öllu máli í þessu sambandi að kærandi hafi tekið sig á. Það væri vegna þess að lögvarðir hagsmunir drengsins væru að hann byggi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu. Drengnum líði vel og ekkert bendi til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Hafi félagsmálanefndin einnig talið að umgengnin skyldi áfram fara fram undir eftirliti, einkum með hliðsjón af þeim óstöðugleika sem hafi ríkt í húsnæðisaðstæðum kæranda, forsögu málsins sem hafi leitt til forsjársviptingar á sínum tíma og sögu um neyslu. Var kröfu kæranda um aukna umgengni því hafnað.
Kærandi geri athugasemdir við málsmeðferð barnaverndar. Hún telji að barnavernd hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Þá hafi verið brotið gegn sjónarmiðum um skyldubundið mat stjórnvalda, ekki gætt að málshraða og meðalhófsreglu. Kærandi telji að þeir annmarkar, sem verið hafi á meðferð máls hjá barnavernd og félagsmálanefnd, leiði til þess að fella eigi hinn kærða úrskurð úr gildi.
Að því er varðar rannsókn málsins telur kærandi að kanna hefði átt viðhorf drengsins til umgengni betur, hvort hann hefði nægan þroska til að hafa áhrif á ákvörðun um umgengni og hvaða áhrif umgengni hefði á líðan hans. Félagsmálanefnd hefði verið rétt að skipa drengnum talsmann í því skyni að leiða í ljós vilja hans og meta hvort þroski hans væri nægur til þess að hafa áhrif á ákvörðun um umgengni.
Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Þá er rannsóknarreglu að finna í 1. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í 2. mgr. 41. gr. bvl. segir að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur og henni skuli hraðað svo sem kostur er.
Í málinu liggur fyrir að talsmaður aflaði sjónarmiða drengsins áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Þá liggja fyrir skýrslur um eftirlit með umgengni frá upphafi. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að félagsmálanefndin hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins en í því felst að það er mat úrskurðarnefndarinnar að barnavernd hafi rannsakað málið á fullnægjandi hátt.
Kærandi telur að við vinnslu málsins hafi málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga ekki verið gætt þar sem ákvörðun hafi ekki verið tekin svo fljótt sem unnt var, sbr. 38. gr. bvl. Þá vísar kærandi til 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun máls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur og henni hraðað svo sem kostur er. Í málinu liggur fyrir að kærandi óskaði fyrst eftir aukinni umgengni 30. október 2018 en málið var tekið fyrir hjá félagsmálanefndinni 10. apríl 2019. Engar skýringar liggja fyrir í málinu um ástæðu þess að málið var ekki afgreitt fyrr og verður því að telja að ástæðulausar tafir hafi verið á afgreiðslu erindis kæranda hjá félagsmálanefndinni. Tafir á afgreiðslu málsins valda þó ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til félagsmálanefndarinnar að gæta þess að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast að skýra aðila máls frá því, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í, en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs.
Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins. Umgengni kæranda við drenginn þarf þannig að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun drengsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturmóður þar sem markmiðið er að tryggja honum stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni við foreldra og aðra nákomna valdi sem minnstum truflunum.
Fósturmóðir hefur lýst afstöðu sinni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 20. ágúst 2019. Þar kemur fram sú afstaða hennar að hún telji að umgengni eigi að vera að hámarki með þeim hætti sem kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt 2. mgr. 46. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins frá X 2019.
Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að kærandi hafi tekið sig á. Það er vegna þess að lögvarðir hagsmunir drengsins eru þeir að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái áfram svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar.
Við úrlausn málsins ber einnig að líta til þess að umgengni hefur gengið nokkuð vel. Þótt drengurinn sýni þess merki að umgengni sé honum ekki íþyngjandi verður það ekki haft til marks um það að auka beri umgengni í samræmi við kröfur kæranda. Með því að gera þá breytingu verður að telja að þar með yrði tekin sú áhætta að raska þeim stöðugleika sem drengurinn hefur svo mikla þörf fyrir.
Úrskurðarnefnd álítur að X ára barn hafi hvorki nægan þroska til að mynda sér skoðun né geti haft skýran vilja á því hvernig umgengni skuli best háttað við kæranda. Því þurfi yfirvöld að taka ákvörðun um hvað þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Hér fara hagsmunir kæranda og barnsins ekki saman og ekki liggur fyrir að kærandi og drengurinn hafi einhverja sameiginlega hagsmuni sem hér skipta máli. Með umgengni kæranda við drenginn er ekki verið að reyna að styrkja tengsl mæðginanna frekar heldur viðhalda og hlúa að þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Við úrlausn málsins er óhjákvæmilegt að mat fullorðinna liggi til grundvallar því hvað verði talið drengnum fyrir bestu varðandi umgengni við kæranda og hvernig lögbundnir hagsmunir hans verði best tryggðir.
Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og þess að umgengni í því umhverfi sem raskar ekki ró drengsins verður að teljast til þess fallin að stuðla að því að hann nái að þroskast og dafna sem best. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsregla hafi verið brotin. Þá verður ekki fallist á að stjórnvaldið hafi ekki framkvæmt hið skyldubundna mat sem kveðið er á um í bvl.
Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Félagsmálanefndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Félagsmálanefndar B frá 10. apríl 2019 varðandi umgengni D við A, er staðfestur.
Kári Gunndórsson
Hrafndís Tekla Pétursdóttir Björn Jóhannesson