Hoppa yfir valmynd

Nr. 478/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 478/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090020

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. september 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. ágúst 2018, um að synja honum um dvalarleyfi fyrir foreldra á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð en litið verður svo á að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi fyrir foreldra.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt upplýsingum á dvalarleyfisumsókn kæranda kom hann til landsins 10. september 2017. Útlendingastofnun barst greinargerð frá kæranda, dags. 20. nóvember 2017, þar sem hann óskaði eftir heimild til dvalar á meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar hjá stofnuninni. Með bréfi, dags. 12. desember 2017, heimilaði stofnunin kæranda að dvelja hérlendis á málsmeðferðartíma umsóknarinnar með vísan til fjölskylduaðstæðna hans.

Með fyrrnefndri ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi fyrir foreldra. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 5. september sl. Kærandi kærði ákvörðunina þann 11. september 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun dró kærandi umsókn sína um dvalarleyfi til baka með greinargerð, dags. 9. ágúst 2018. Kom þar m.a. fram að kærandi hefði sótt um dvalarleyfi í [...] og vildi flytjast þangað þar sem hann ætti eiginkonu og barn en að hann vildi ekki fara aftur til[...]. Þá kom fram í greinargerðinni að kærandi væri ekki með forsjá yfir syni sínum. Þann 14. ágúst sl. barst Útlendingastofnun bréf frá kæranda þar sem hann dró til baka beiðni sína um afturköllun á umsókn sinni og óskaði eftir því að stofnunin myndi afgreiða umsókn hans.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til ákvæðis 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt sé um. Var vísað til þess að í umsókn kæranda komi fram að tilgangur dvalar sé að hann vilji búa með börnum sínum hérlendis og veita þeim stuðning. Þá vilji hann kynnast íslenskri menningu og vinna. Var vísað til þess að samkvæmt gögnum málsins væri einnig að finna umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna. Með hliðsjón af framangreindu hafi umsókn kæranda verið flokkuð sem umsókn um dvalarleyfi fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga.

Vísaði stofnunin því næst til þess að útlendingar, yngri en 67 ára, gætu eingöngu fengið dvalarleyfi fyrir foreldra vegna barna yngri en 18 ára, sbr. 3. og 4. mgr. 72. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins ætti kærandi þrjú börn hérlendis og þar af væri eitt þeirra undir 18 ára aldri og væri það jafnframt íslenskur ríkisborgari. Samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að kærandi ætlaði sér ekki að búa á sama heimili og sonur hans og í ljósi þess bæri að líta til 4. mgr. 72. gr. laganna. Vísaði stofnunin því næst til þess að fortakslaust skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis skv. ákvæðinu væri að kærandi hefði forsjá barns. Enn fremur væri það skilyrði að umsækjandi hefði haft dvalarleyfi hér á landi sem ekki væri unnt að endurnýja á sama grundvelli. Samkvæmt gögnum málsins hefði kærandi aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og þá færi hann ekki með forsjá yfir syni sínum. Með vísan til framangreinds taldi Útlendingastofnun ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 72. gr. laga um útlendinga og var umsókn hans um dvalarleyfi hér landi því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. 69. gr. segir m.a. að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri.

Samkvæmt 72. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem á barn hér á landi dvalarleyfi í þeim tilvikum sem greinir í 2.-4. mgr. ákvæðisins. Þá þurfa skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. að vera uppfyllt þegar dvalarleyfi eru veitt á þessum grundvelli. Í athugasemdum við 72. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að með ákvæðinu sé höfð hliðsjón af ákvæðum barnasáttmálans er lúti að rétti barns til að njóta umönnunar foreldris síns þar sem þess sé kostur. Þá tryggi ákvæðið að barn í stöðu sem þessari geti búið áfram hér á landi þótt aðstæður breytist hjá foreldrum þess, einkum vegna skilnaðar, sambúðarslita eða andláts.

Grundvöllur umsóknar kæranda um fjölskyldusameiningu eru tengsl við son sem er íslenskur ríkisborgari. Samkvæmt 3. mgr. 72. gr. er heimilt að veita útlendingi sem er foreldri íslensks ríkisborgara sem er yngri en 18 ára og búsettur hér á landi dvalarleyfi ef foreldrið fer með eða deilir forsjá barnsins og fullnægir skilyrðum a-c liðar ákvæðisins. Á meðal þeirra skilyrða er að umsækjandi ætli að búa með barninu hér á landi, sbr. a-lið ákvæðisins. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi ætlar sér ekki að búa með syni sínum og þá fer hann ekki með forsjá yfir honum. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 3. mgr. 72. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. 72. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita foreldri sem fer með forsjá barns sem er yngra en 18 ára og búsett hér á landi dvalarleyfi þrátt fyrir að foreldri og barn muni ekki búa saman að fullnægðum skilyrðum a-e liðar ákvæðisins. Á meðal þeirra skilyrða er að umsækjandi hafi haft dvalarleyfi hér á landi sem ekki sé unnt að endurnýja á sama grundvelli, sbr. c-lið ákvæðisins. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi hér á landi og þá er hann ekki með forsjá yfir syni sínum. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 4. mgr. 72. gr. laganna.

Að framansögðu er ljóst að umsókn kæranda uppfyllir ekki ákvæði 72. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi fyrir foreldra. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja kæranda um dvalarleyfi fyrir foreldra, því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                             Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta