Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 185/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 185/2021

Miðvikudaginn 29. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 8. apríl 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2021 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. september 2020 til 28. febrúar 2021. Kærandi sótti um framlengingu á greiðslum endurhæfingarlífeyris með framlagningu læknisvottorðs, dags 1. mars 2021, og endurhæfingaráætlunar, dags. 5. mars 2021. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. mars 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að á fyrra endurhæfingartímabili hafi kærandi ekki sinnt endurhæfingu sem skyldi, auk þess sem óljóst væri hvernig fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 29. mars 2021 sem var veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2021. Undir rekstri málsins bárust úrskurðarnefnd velferðarmála þær upplýsingar að Tryggingastofnun ríkisins hefði samþykkt umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri á grundvelli nýrra gagna með ákvörðun, dags. 2. júní 2021, fyrir tímabilið 1. júní 2021 til 31. ágúst 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. apríl 2021. Með bréfi, dags. 12. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. apríl 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. apríl 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi lent á biðlista hjá sjúkraþjálfara en eftir að hann hafi loksins komist að á þessu ári hafi Tryggingastofnun stöðvað greiðslur til hans og hafi hann þá þurft að aflýsa tímanum. Síðan hafi kærandi verið að bíða eftir greiðslum til að geta haldið áfram. Kærandi hafi því ekki komist í sjúkraþjálfun á árinu og sé að drepast í hálsinum og bakinu, hann hafi sótt um örorku en hafi fengið höfnun vegna þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Kærandi hafi svo farið á endurhæfingarlífeyri og hafi verið í sjúkraþjálfun, nálastungum, göngutúrum, ráðgjöf hjá B, í sundi og fleira. Kærandi sé að byrja í meðferð samkvæmt fyrirmælum C innkirtlasérfræðings, það þurfi að sprauta hann með vaxtarhormónum daglega í eitt og hálft ár í það minnsta vegna rannsóknar sem hann hafi verið settur í fyrir áramót vegna höfuðáverka.

Kærandi sjái ekki hvernig Tryggingastofnun geti synjað honum um endurhæfingu þegar hann hafi gert allt til að reyna að koma sér í lag og meira en hafi verið planað. Það sé búið að sækja um fyrir hann á D en þar sé langur biðlisti alveg eins og hjá sjúkraþjálfurum á þessum Covid-tímum. Tryggingastofnun hafi neitað kæranda á þeim forsendum að hann hafi ekki verið að sinna endurhæfingu sem skyldi en það sé vegna biðlista hjá sjúkraþjálfara. Síðan segi Tryggingastofnun að áætlun frá lækni sé ekki til þess fallin að koma honum á vinnumarkað sem hafi aldrei verið planið, enda búið að margreyna það. Þannig að planið hafi aldrei verið að koma kæranda á vinnumarkað, enda sé hann með ónýtt bak og verri háls. Teljist endurhæfing kæranda vera fullreynd og eigi hann að sækja um örorku núna eða hvað? Þessi ákvörðun Tryggingastofnunar sé búin að koma kæranda í mikil fjárhagsleg vandræði og hafi valdið honum miklu stressi og kvíða.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn kæranda um áframhaldandi greiðslu endurhæfingarlífeyris. Kærandi hafi nú þegar lokið sex mánuðum á endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni. Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Lagagreinin hljóði svo:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá sé tiltekið í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar og í 8. gr. sömu reglugerðar komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Við mat á áframhaldandi endurhæfingarlífeyri 12. mars 2021 hafi legið fyrir læknisvottorð E, dags. 1. mars 2021, og endurhæfingaráætlun frá sama lækni, dags. 5. mars 2021. Áður hafði borist umsókn um endurhæfingarlífeyri, dags. 10. desember 2020, staðfestingar sjúkraþjálfara, dags. 2. og 18. desember 2020, og læknisvottorð E, dags. 17. desember 2020.

Í læknisvottorði E, dags. 1. mars 2021, komi fram að vandi kæranda séu bakverkir, fíkniheilkenni af völdum kannabisefna og ADHD. Kærandi hafi verið með verki í baki og hálsi í mörg ár og hafi notað kannabisefni nánast daglega til að slá á verki. Einnig komi fram að fyrirhuguð sé meðferð með vaxtarhormónum fljótlega vegna skorts á þeim.

Það sé mat læknis að kærandi eigi að vera fær til flestra almennra starfa ef vel takist til með bakverkjavanda en hann þurfi þá að vera í reglulegri sjúkraþjálfun. Einnig komi fram í læknisvottorði að daglegar reykingar með kannabis geti verið hindrun varðandi endurkomu á vinnumarkað og sé endurhæfingaráætlun því sniðin með það í huga.

Í endurhæfingaráætlun frá E lækni sé sótt um endurhæfingartímabil frá 1. mars 2021 til 31. desember 2021. Í áætluninni sé lagt upp með eftirfarandi endurhæfingu: Regluleg sjúkraþjálfun, tilvísun í F og á D, regluleg viðtöl við heimilislækni, viðtal við vímuefnaráðgjafa hjá B og reglulega hreyfingu, svo sem sund og gönguferðir þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Við fyrra endurhæfingarmat, dags. 22. desember 2020, hafi verið samþykkt endurhæfingartímabil frá 1. desember 2020 til 28. febrúar 2021 þar sem fram komi að endurhæfing hafi falist meðal annars í sjúkraþjálfun einu sinni í viku. Í staðfestingu frá sjúkraþjálfara hjá H sjúkraþjálfun, dags. 18. desember 2020, komi fram að kærandi hafi verið í sjúkraþjálfun hjá H sjúkraþjálfun frá 17. ágúst 2020 og að áætlað sé framhald á sjúkraþjálfun eftir áramót. Á grundvell fyrirliggjandi upplýsinga hafi því verið samþykkt framlenging á endurhæfingartímabili.

Við mat á umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris, dags. 12. mars 2021, hafi framvinda endurhæfingar á fyrra endurhæfingartímabili verið skoðuð í samræmi við meðal annars 8. gr. reglugerðar nr. 661/2020.

Samkvæmt yfirliti reikninga frá sjúkraþjálfara í skrá Sjúkratrygginga Íslands hafi kærandi mætt í sjúkraþjálfun einu sinni á áður samþykktu endurhæfingartímabili, eða þann 9. desember 2020.

Í nýrri endurhæfingaráætlun, dags. 5. mars 2021, hafi verið gert ráð fyrir að endurhæfing fælist í sjúkraþjálfun, reglulegum viðtölum við heimilislækni og vímuefnaráðgjafa, reglulegri hreyfingu, auk þess sem tilvísun hafi verið send á F og á D.

Það sé mat Tryggingastofnunar að regluleg viðtöl við heimilislækni og vímuefnaráðgjafa, auk hreyfingar á eigin vegum sé ekki nægileg til að réttlæta greiðslur endurhæfingarlífeyris þar sem skýrt sé tekið fram í læknisvottorði að það sé mat læknis að kærandi eigi að vera fær til flestra almennra starfa ef vel takist til með bakverkjavanda en hann þurfi þá að vera í reglulegri sjúkraþjálfun. Á sömu forsendum sé þar af leiðandi ekki tímabært að meta örorku hjá kæranda.

Á þeim forsendum hafi umsókn kæranda um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri verið synjað þar sem Tryggingastofnun líti svo á að ekki sé verið að taka nægilega á þeim heilsufarsþáttum sem hafi valdið óvinnufærni með utanumhaldi fagaðila og að ekki sé verið að taka á heildarvanda kæranda. Endurhæfingarlífeyrir taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu undir handleiðslu fagaðila þar sem tekið sé markvisst á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris.

Skýrt sé í lögum og reglugerð um endurhæfingarlífeyri að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Því hafi verið álitið að skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð hafi ekki verið uppfyllt við mat á áframhaldandi endurhæfingarlífeyri hjá kæranda 12. mars 2021.

Eins og rakið hafi verið þurfi kærandi að stunda endurhæfingu með starfshæfni að markmiði til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Endurhæfingarlífeyrir hjá Tryggingastofnun taki þannig mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlun miða að því að taka á vanda kæranda hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun.

Tryggingastofnun telji ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við innsenda endurhæfingaráætlun, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála.

Þá skuli tekið fram að verði breyting á endurhæfingu kæranda eða aðstæðum geti hann lagt inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesta virka þátttöku í starfsendurhæfingu og þá verði málið tekið fyrir að nýju.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2021 um að synja umsókn um áframhaldandi greiðslur endurhæfingarlífeyris. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi uppfylli skilyrði um endurhæfingarlífeyri, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð var sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“

Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar segir um upphaf greiðslna:

„Grundvöllur greiðslna er að endurhæfingaráætlun liggi fyrir og er heimilt að setja það skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris að umsækjandi hafi formlega hafið endurhæfingu hjá viðurkenndum umsjónaraðila endurhæfingaráætlunar, sbr. 6. gr.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Í 8. gr. reglugerðarinnar segir um eftirlit og upplýsingaskyldu:

„Tryggingastofnun skal hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endur­hæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Greiðsluþega er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.

Ef sótt er um framlengingu á greiðslum endurhæfingarlífeyris, sbr. 4. mgr. 4. gr., skal leggja fram greinargerð um framvindu endurhæfingar á áður samþykktu greiðslutímabili. Tryggingastofnun getur einnig óskað eftir staðfestingu þess að endurhæfing hafi farið fram og öðrum upplýsingum sem stofnunin telur nauðsynlegar frá þeim fagaðilum sem hafa komið að endurhæfingu greiðslu­þegans.

Greiðsluþega og umsjónaraðila endurhæfingaráætlunar er skylt að tilkynna Tryggingastofnun tafarlaust um það ef rof verður á endurhæfingu eða slíkt rof er fyrirséð, t.d. ef aðstæður breytast á endurhæfingartímabilinu, hvort heldur er tímabundið eða varanlega. Sama á við ef endurhæfingu lýkur fyrir áætlaðan tíma eða greiðsluþegi sinnir ekki endurhæfingu samkvæmt endurhæfingar­áætlun.“

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu bundin ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur séu heimilar. Þeirra á meðal er skilyrði um að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði séu uppfyllt.

Í læknisvottorði E vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri, dags. 1. mars 2021, segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu bakverkur, fíkniheilkenni af völdum kannabisefna og truflun á virkni og athygli. Greint er frá því að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. mars 2021. Um niðurstöðu rannsókna sem gerðar hafi verið, segir í vottorðinu:

„A kemur í viðtal 01.03.2021 og biður mig um að endurnýja fyrir hann endurhæfingarvottorð og endurhæfingaráætlun þar sem hann fékk ekki greitt nú um mánaðarmótin. Hann segir sitt helsta vandamál vera verki í hálsi og baki sem hafi verið vandamál í mörg ár, í eldri gögnum er talað um fibromyalgiu og festumein. Einhvern tímann var grunur um spondylolisthesis en G bæklunarskurðlæknir skoðaði hann á sínum tíma og taldi svo ekki vera.Hann segist reykja kannabis nánast daglega, segir við mig í dag að það slái á verki, hann segist ætla að skipta yfir í CBD olíu með tímanum en virðist ekki sjá kannabisneyslu sína sem vandamál. [...] Í eldri gögnum kemur fram að hann hafi einhvern tímann farið í meðferð á H Honum hefur tvisvar verið vísað í VIRK en ekki fundist það úrræði henta sér, sagðist hafa verið settur á námskeið með kvíðasjúklingum og að það hafi ekki hjálpað sér með hans aðalvandamál sem eru verkirnir og því hafi hann hætt í VIRKHann telur sig eiga inni beiðni á D, sem læknir hans í I á að hafa útbúið á sínum tíma.Hann tók þátt í vísindarannsókn um daginn í tengslum við fólk sem orðið hefur fyrir höfuðáverka og reyndist vera með skort á vaxtarhormóni. C innkirtlalæknir hefur unnið þetta upp og fyrirhugað að hann hefji meðferð með vaxtarhormóni fljótlega. Hef ekki nákvæma einkennalýsingu úr gögnum frá C en A segist margoft hafa fengið höfuðhögg gegnum tíðina, hann hafi oft lent í fylleríislagsmálum á árum áður.“

Í samantekt segir:

„Framtíðar vinnufærni: Ef vel tekst til með bakverkjavanda ætti hann að vera fær til flesta almennra starfa. Virðist ekki hafa gert mikið til að vinna í þessum vanda sjálfur, þarf nauðsynlega að vera reglulega hjá sjúkraþjálfara og má ekki einblína bara á nokkurra vikna meðferð á D til að laga margra ára vanda.Einnig skal tekið fram að ég hef litla trú á möguleikum hans til að komast á almennan vinnumarkað ef hann hyggst stunda dagreykingar á kannabis áfram. Endurhæfingaráætlunin mun vera sniðin með þetta í huga.“

Í vottorðinu kemur fram að áætluð tímalengd meðferðar sé sex mánuðir og er þar vísað til endurhæfingaráætlunar. Samkvæmt endurhæfingaráætlun, dags. 5. mars 2021, var endurhæfingartímabil kæranda áætlað frá 1. mars 2021 til 31. desember 2021. Samkvæmt áætluninni var gert ráð fyrir reglulegri sjúkraþjálfun, tilvísun í F endurhæfingu og á D, reglulegum viðtölum við heimilislækni, viðtali við vímuefnaráðgjafa hjá B, auk reglulegrar hreyfingar, svo sem sundi og göngutúrum þrisvar til fjórum sinnum í viku. Um markmið og tilgang endurhæfingarinnar segir:

„Að ná betri líkamlegri líðan, andlegu jafnvægi og snúa aftur á almennan vinnumarkað.“

Einnig liggja fyrir eldri læknisvottorð vegna fyrri umsókna kæranda og bréf H sjúkraþjálfara hjá H Sjúkraþjálfun, dags. 2. desember 2020, og 18. desember 2020, um aðkomu hans að sjúkraþjálfun kæranda. Í bréfi, dags. 18. desember 2020, segir að kærandi sé hjá H í sjúkraþjálfun og hafi fyrst komið til hans 17. ágúst 2020. Þá hafi síðasti skráði tíminn verði 9. desember 2020. Ætlunin sé að kærandi verði hjá honum áfram eftir áramót.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt. Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að ekki hafi þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem kærandi hafi ekki sinnt endurhæfingu sem skyldi á fyrra tímabili, auk þess sem óljóst væri hvernig fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við líkamleg og andleg vandamál sem orsaki skerta vinnugetu. Það er mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda sé hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Úrskurðarnefndin lítur til þess að í áætluninni er gert ráð fyrir að unnið sé með líkamleg vandamál kæranda en af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi ekki mætt í sjúkraþjálfun síðan 9. desember 2020 og hann sé í bið eftir að komast að hjá F og D. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2021 um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta