Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2007

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 3/2007:

A

gegn

menntamálaráðherra

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 14. desember 2007 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 13. júní 2007, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort menntamálaráðherra hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við skipun í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt menntamálaráðherra með bréfi, dags. 18. júní 2007, og var óskað eftir því að umsögn menntamálaráðuneytisins um kæruna bærist kærunefnd jafnréttismála fyrir 2. júlí 2007. Með tölvubréfi, dags. 2. júlí 2007, óskaði menntamálaráðuneytið eftir framlengingu á fresti til þess að skila inn umsögninni vegna sumarleyfa starfsmanna ráðuneytisins og var umræddur frestur framlengdur til 25. júlí 2007. Umsögn menntamálaráðuneytisins barst með bréfi, dags. 25. júlí 2007, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri.

Athugasemdir kæranda við umsögn menntamálaráðuneytisins bárust með bréfi, dags. 7. ágúst 2007. Þær voru sendar menntamálaráðuneytinu til kynningar með bréfi, dags. 13. ágúst 2007. Athugasemdir menntamálaráðuneytisins bárust með bréfi, dags. 27. ágúst 2007, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. ágúst 2007. Athugasemdir kæranda við athugasemdir menntamálaráðuneytisins bárust með bréfi, dags. 12. september 2007, og voru þær sendar menntamálaráðuneytinu til kynningar með bréfi, dags. 14. september 2007.

Með bréfi til menntamálaráðuneytisins, dags. 10. október 2007, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir öllum þeim gögnum sem lágu að baki ákvörðun menntamálaráðherra um skipun í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands. Umbeðin gögn bárust með bréfi, dags. 24. október 2007, og voru þau send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. nóvember 2007. Athugasemdir kæranda við gögnin bárust með bréfi, dags. 11. nóvember 2007, og voru þær sendar menntamálaráðuneytinu til kynningar með bréfi, dags. 16. nóvember 2007.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavaxtalýsing

Málavextir eru þeir að menntamálaráðuneytið auglýsti í mars 2007 laust til umsóknar embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands til fimm ára frá og með 1. júlí 2007. Í auglýsingunni var lýst því hlutverki Blindrabókasafnsins að sjá blindum, sjónskertum og öðrum þeim, sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt, fyrir alhliða bókasafnsþjónustu. Þá kom fram að forstöðumaður Blindrabókasafnsins skyldi annast yfirstjórn safnsins, vera í fyrirsvari fyrir safnið út á við, bera ábyrgð á rekstri þess og stjórna daglegum rekstri. Jafnframt skyldi hann annast ráðningar annarra starfsmanna, sbr. 6. gr. laga nr. 35/1982 um Blindrabókasafn Íslands og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Óskað var eftir því að í umsóknum kæmu fram upplýsingar um menntun og starfsferil umsækjenda.

Umsóknirnar voru sendar stjórn Blindrabókasafnsins til umsagnar í samræmi við 1. málsl. 6. gr. laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982. Stjórn Blindrabókasafnsins komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum þann 24. apríl 2007 að hún teldi þrjá umsækjendur vera hæfa til að gegna embættinu. Mat stjórnarinnar byggðist á fyrirliggjandi umsóknum með tilliti til menntunar og fyrri starfa umsækjenda, þar á meðal stjórnunarreynslu og þekkingar þeirra á málaflokknum, sbr. umsögn hennar um umsækjendur um embætti forstöðumanns, sem móttekin var í menntamálaráðuneyti 27. apríl 2007. Tekið var fram að þeir sem taldir væru hæfir væri raðað í stafrófsröð og að hvorki væri í umsögninni að finna álit stjórnar á því hver teldist hæfastur né að viðkomandi umsækjendur teldust jafnhæfir.

Eftir að umsögn stjórnar Blindrabókasafnsins barst menntamálaráðuneytinu var ákveðið að boða þá fjóra umsækjendur í viðtal sem að mati ráðuneytisins töldust hafa menntun og starfsreynslu sem myndi nýtast vel í embættinu. Að loknum viðtölum og eftir að leitað hafði verið umsagna um umsækjendur og endanlegt mat lagt á hæfni þeirra taldi menntamálaráðherra að B væri hæfust til að gegna embættinu og skipaði hana forstöðumann Blindrabókasafns Íslands til fimm ára, frá og með 1. júlí 2007.

Með bréfi, dags. 23. maí 2007, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir skipun menntamálaráðherra í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands. Sá rökstuðningur var veittur með bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 1. júní 2007.

Í kæru til kærunefndarinnar, sem dagsett er 13. júní 2007, er því mati menntamálaráðherra andmælt að kona sú er hlaut umrætt embætti sé hæfust til að gegna embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands. Kærandi telur að hann hafi meiri reynslu af rekstri og stjórnun auk þess sem menntun hans nýtist betur í embætti forstöðumanns bókasafnsins. Í kærunni tekur kærandi jafnframt fram að karlar í stétt bókasafnsfræðinga séu mjög fáir og því geti það ekki verið í anda laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, að í einni starfsstétt gangi konur fyrir í öll stjórnunarstörf. Í ljósi þessa telur kærandi að menntamálaráðherra hafi með fyrrgreindri skipun í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Menntamálaráðuneytið telur að hæfasti umsækjandinn hafi hlotið embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands og því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

  

III.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að menntamálaráðherra hafi með skipun í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Í umsókn þeirri sem kærandi hafi sent menntamálaráðuneytinu hafi komið fram að hann hefði bókasafnsfræðimenntun og hefði starfað í fimm ár sem fjármálastjóri hjá stóru byggingafyrirtæki og í tíu ár sem forstöðumaður safnastofnunar þar sem hann hafi séð um bókasafn, rekstur og bókhald. Jafnframt hafi komið fram að kærandi hefði menntun í uppeldis- og kennslufræðum og meistaranám í skjalastjórn. Í því námi hefðu verið námsþættir í skrifstofustjórn, starfsmannastjórn og fjármálum þar sem litið hefði verið á þetta sem nám fyrir stjórnendur. Allt þetta nám og reynsla nýtist að mati kæranda í embætti forstöðumanns Blindrabókasafnsins.

Í bréfi menntamálaráðuneytisins, þar sem beiðni kæranda um upplýsingar og rökstuðning fyrir skipun í embætti forstöðumanns Blindrabókasafnsins er svarað, hafi sagt að menntamálaráðherra teldi þá konu sem skipuð var hæfasta til að gegna embættinu. Ekki hafi verið hægt að sjá hvernig menntamálaráðuneytið hafi komist að þessari niðurstöðu; í upplýsingum um menntun og reynslu þeirrar konu sem skipuð var hafi verið lögð áhersla á reynslu hennar af rekstri og stjórnun en ekki getið um menntun hennar í bókasafnsfræði. Þar sem kærandi hafi meiri reynslu af rekstri og stjórnun bókasafns og menntun bæði í stjórnunarþáttum og bókasafnsfræðum hafni hann þeirri staðhæfingu menntamálaráðuneytisins að sú kona sem skipuð var hafi verið hæfust til að gegna embætti forstöðumanns Blindrabókasafnsins.

Kærandi telur vert að hafa í huga að núverandi forstöðumaður Blindrabókasafnsins, sem sé að láta af störfum, sé kona með bókasafnsfræðimenntun. Jafnframt vill kærandi benda á að nýlega hafi verið ráðin kona í starf landsbókavarðar, sem reyndar hafi einnig verið skipað konu fyrir, en við ráðningu í það starf hafi verið gerð sjálfsögð krafa til menntunar í bókasafnsfræðum. Þá séu forstöðumenn bókasafna ráðuneytanna einnig konur. Karlar í stétt bókasafnsfræðinga séu mjög fáir og það geti ekki verið í anda laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að í einni starfsstétt gangi konur í öll stjórnunarstörf, sbr. 1. og 13. gr. laganna.

Við ráðningu á forstöðumanni fyrir bókasafn megi ætla að krafa sé gerð til menntunar sem nýtist í starfi. Bókasafnsfræði hafi um nokkurra áratuga skeið verið kennd við Háskóla Íslands og hafi þeir sem þaðan útskrifast fengið starfsheiti sitt lögverndað. Í lögum um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, segi í 1. gr. að hlutverk Blindrabókasafns Íslands sé að sjá blindum, sjónskertum, og öðrum þeim, sem ekki geti fært sér venjulegt prentað letur í nyt, fyrir alhliða bókasafnsþjónustu.

Í umsögn menntamálaráðuneytisins sé meðal annars greint frá því að í auglýsingu um embætti forstöðumanns Blindrabókasafnsins hafi ekki verið gerð krafa um sérstaka menntun eða starfsreynslu umsækjanda. Þetta hljóti að vekja upp spurningar um gildi lögverndaðra starfsheita eins og starfsheitisins bókasafns- og upplýsingafræðingur, en menntamálaráðuneytið gefi þeim sem lokið hafi tilskilinni menntun í fræðum sem nýtist sérstaklega við störf á bókasöfnun heimild til að nota það starfsheiti. Starfsréttindanám eins og bókasafns- og upplýsingafræði hljóti að þjóna tilgangi og því sé óeðlilegt að gera ekki kröfu til þess þegar ráðnir séu yfirmenn bókasafna.

Með rökum sem hnígi í sömu átt og við samanburð á menntun þess umsækjanda sem ráðinn hafi verið og kæranda megi draga í efa gildi þeirrar staðhæfingar ráðuneytisins að það beri að velja þann umsækjanda sem hæfastur verði talinn, á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu og skólagöngu.

Í umsögn ráðuneytisins komi fram að sú kona sem skipuð var hafi komið að flestum þáttum bókaútgáfu, rekið eigið bókaforlag, lesið handrit, ritstýrt, prófarkalesið, þýtt bækur og séð um kápuhönnun og umbrot bóka. Ekki verði annað séð en að þetta sé talið henni til tekna við mat á hæfni hennar og því hefði verið eðlilegt að spurt hefði verið um þekkingu og aðra aðkomu að þessum þáttum í viðtali því sem fram fór við umsækjendur en það hafi ekki verið gert. Það skuli upplýst að kærandi hafi ritstýrt bókum, þýtt greinar og ýmis efni, prófarkalesið margvíslegt efni, fylgt bókum í gegnum útgáfu og samið við prentsmiðjur og útlitshönnuði. Þess megi jafnframt geta að þessa dagana sé í umbroti bók sem kærandi hafi ritstýrt og skrifað mikið í.

Í umsögn ráðuneytisins sé rætt um kynjaskiptingu. Á vef menntamálaráðuneytisins hafi til skamms tíma verið aðgengilegar upplýsingar um forstöðumenn bókasafna ráðuneytanna og hafi það allt verið konur. Skjalastjórar ráðuneytanna séu jafnframt konur að einum frátöldum. Það skuli ekki dregið í efa að það sé rétt að af 48 forstöðumönnum stofnana á vegum menntamálaráðuneytisins séu 32 karlar og 16 konur. Það breyti hins vegar ekki þeirra staðreynd að forstöðumenn á bókasöfnum séu í yfirgnæfandi meirihluta konur. Þess vegna sé dregið í efa réttmæti þess að eingöngu séu ráðnar konur í forstöðumannsstörf bókasafna. Í umfjöllun ráðuneytisins um kynjaskiptingu þeirra sem hafi starfað sem bókasafns- og upplýsingafræðingar á gefnu tímabili komi fram að mun fleiri konur sé að finna í þeirri starfsstétt. Þessar upplýsingar hljóti að vekja upp spurningu um það hvað ráði þessum mikla mun, hvort karlar eigi hugsanlega minni möguleika á starfsframa í þessari stétt og fælist hana þess vegna. Ráðuneytið segi að vegna þessa mikla munar á kynjum í stéttinni sé ekki óeðlilegt að meirihluti þeirra sem stýri bókasöfnum hjá ráðuneytum séu konur. Kærandi spyr í þessu sambandi hvort ekki sé óeðlilegt að enginn karl komist að við slíkar aðstæður.

Í umsögn ráðuneytisins sé þess getið að kærandi haldi því fram að gerð hafi verið krafa um menntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða þegar auglýst hafi verið eftir landsbókaverði. Það sé rétt hjá ráðuneytinu að sú krafa hafi ekki verið sett fram í auglýsingu um embættið en hins vegar hafi í fréttatilkynningu ráðuneytisins verið tilgreint hvaða menntun sá umsækjandi sem ráðinn var hefði. Í fréttatilkynningunni hafi sagt að viðkomandi umsækjandi hefði starfað við bókasöfn, skjalasöfn og skjalastjórn nær samfellt frá árinu 1978 og síðan hafi verið tilgreint hvaða störfum viðkomandi hefði sinnt á starfsferli sínum. Þetta verði ekki skilið með öðrum hætti en að aðkoma umsækjanda að bókasöfnum og skjalasöfnum hafi skipt talsverðu máli þegar mat hafi verið lagt á hæfi hans.

Í athugasemdum ráðuneytisins komi fram að menntun í bókmenntafræðum standist fyllilega þær kröfur sem gera verði til forstöðumanns Blindrabókasafnsins og bent sé á að ráðuneytið telji árangursríkara að gefa sem flestum tækifæri á að sækja um laus störf og meta síðan umsækjendur eftir menntun þeirra og starfsferli, svo framarlega sem starfsgengisskilyrði séu ekki lögákveðin. Í lögum um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, sé ekki getið um menntunarkröfur til forstöðumanns. Hins vegar segi í 8. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, að við mannaráðningar skuli tryggja eftir föngum að almenningsbókasöfn hafi á að skipa starfsfólki með sérmenntun sem hæfi verksviði safnanna. Forstöðumaður almenningsbókasafns skuli, ef þess sé kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði eða jafngildu námi.

Telja verði líklegt að í nýrri lögum birtist viðmið sem endurspegli kröfur samtímans og megi því ætla að í dag sé lögð meiri áhersla á að nýta sérmenntun, sé hún á annað borð til staðar. Rétt sé að taka fram að bókasöfn séu þjónustustofnanir og eigi að mæta óskum lánþega. Á þetta sé bent þar sem þeir sem til þekkja á bókasöfnum viti að bókmenntafræðilegt mat á ritverkum segi sjaldnast til um eftirspurn efnisins á bókasöfnum. Þetta sé ekki sagt til að kasta rýrð á bókmenntafræðina sem slíka heldur til að benda á að tengsl fræðigreinarinnar við starfsemi bókasafna sé í besta falli óljós.

Annað sem fram komi í athugasemdum menntamálaráðuneytisins sé mat nokkurra einstaklinga. Um það sé ekkert að segja utan þess að kærandi viti ekki til þess að menntamálaráðuneytið hafi leitað til fleiri en eins umsagnaraðila þó fleiri séu tilgreindir í athugasemdunum.

Varðandi gögn þau sem menntamálaráðuneytið hafi sent frá sér vegna málsins þyki kæranda orka tvímælis að viðeigandi sé að fráfarandi forstöðumaður skrifi meðmælabréf með umsókn um embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands.

Í gögnunum frá menntamálaráðuneytinu séu eins konar einkunnarblöð sem veki sérstaka athygli kæranda. Þar séu tilgreindir nokkrir þættir og síðan skráðir tölustafir í reiti aftan við nöfn umsækjenda. Hvergi komi fram eftir hverju sé leitað með þessum tölum, hvort 1 sé besta gildi eða 5 eða hvaða önnur viðmið séu viðhöfð með þessum talnaleik. Í þessu sambandi megi benda á menntun og reynslu umsækjenda en kærandi standi þar talsvert betur að vígi en sá umsækjandi sem fékk starfið. Því miður séu vinnubrögð af þessu tagi ekki samboðin starfsfólki ráðuneytis.

 

IV.

Sjónarmið menntamálaráðuneytisins

Af hálfu menntamálaráðuneytisins er tekið fram að í auglýsingu í Morgunblaðinu 18. mars 2007 og í Lögbirtingablaðinu 21. mars 2007 um embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands hafi verið greint frá hlutverki Blindrabókasafnsins og starfsskyldum forstöðumanns þess, sbr. 2. og 3. málsl. 6. gr. laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982. Í auglýsingunni hafi ekki verið gerð krafa um sérstaka menntun eða starfsreynslu umsækjenda þar sem ráðuneytið hafi undanfarið talið árangursríkara að gefa sem flestum tækifæri til að sækja um laus störf á þess vegum og meta síðan umsækjendur eftir menntun þeirra og starfsferli, svo framarlega sem starfsgengisskilyrði séu ekki lögákveðin. Byggi þetta viðhorf ráðuneytisins á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um almenn skilyrði til þess að fá skipun eða ráðningu í starf, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Í rökstuðningi ráðuneytisins til kæranda, dags. 1. júní 2007, hafi verið tekið fram að þegar stjórnvald veiti stöðu hafi það ekki frjálsar hendur um val á milli umsækjenda, jafnvel þegar þannig standi á að fleiri en einn hæfur umsækjandi sæki um stöðu. Það sé grundvallarregla í stjórnsýslurétti að þegar svo standi á beri að velja þann umsækjanda sem hæfastur verði talinn á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og annarra persónulegra eiginleika er máli skipta. Um rökstuðning vegna ákvarðana um veitingu starfa hjá hinu opinbera hafi ráðuneytið bent á að umsækjendur um störf eigi ekki kröfu á að veitingarvaldshafi lýsi í rökstuðningi til þess sem eftir honum óski hvaða ástæður hafi ráðið því að hann hafi ekki verið ráðinn til starfans. Eigi umsækjandi því ekki rétt á að í rökstuðningi sé gerður samanburður á honum og þeim sem hafi hlotið starfið. Á hinn bóginn eigi sá sem óski eftir rökstuðningi almennt að geta gert sér grein fyrir því á grundvelli rökstuðningsins hvers vegna ákveðinn umsækjandi hafi verið ráðinn og hvað hafi ráðið því að hann hafi fengið starfið. Vísist um framangreint til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 382/1991 og 3989/2004.

Þá hafi kæranda verið greint frá því að alls sjö umsóknir hafi borist um embætti forstöðumanns Blindrabókasafnsins og þær hafi verið sendar stjórn Blindrabókasafnsins til umsagnar í samræmi við 1. málsl. 6. gr. laga um Blindrabókasafn Íslands. Kæranda hafi auk þess verið tjáð að í umsögn stjórnar safnsins til ráðuneytisins, frá 27. apríl 2007, hafi komið fram að hún hafi talið þrjá umsækjendur vera hæfa til að gegna starfinu og hafi kærandi verið þar á meðal. Fram hafi komið í umsögn stjórnarinnar að um væri að ræða mat hennar á grundvelli fyrirliggjandi umsókna, með tilliti til menntunar og fyrri starfa umsækjenda, þar á meðal stjórnunarreynslu og þekkingar þeirra á málaflokknum. Tekið hafi verið fram að þeir sem taldir hafi verið hæfir hafi verið raðað í stafrófsröð en hvorki hafi í umsögninni verið að finna álit stjórnar á því hver teldist hæfastur, né að viðkomandi umsækjendur teldust jafnhæfir.

Enn fremur hafi komið fram í svari ráðuneytisins til kæranda að ákveðið hefði verið að boða fjóra umsækjendur í viðtal sem að mati ráðuneytisins töldust hafa menntun og starfsreynslu sem mundi nýtast vel í starfinu. Viðtölin hafi starfsmenn ráðuneytisins tekið og hafi hvert viðtal tekið rúman hálftíma. Í viðtölunum hafi meðal annars verið spurt um starfsreynslu, menntun og stjórnunarreynslu auk reynslu af rekstri og stefnumótun. Einnig hafi verið spurt hvernig viðkomandi umsækjandi sæi fyrir sér að safnið þróaðist í framtíðinni. Að loknum viðtölunum og eftir að leitað hafi verið umsagna um umsækjendur og endanlegt mat lagt á hæfni þeirra, hafi menntamálaráðherra talið að sú kona, sem hlaut embættið, væri hæfust til að gegna því og skipað hana forstöðumann Blindrabókasafns Íslands.

Kæranda hafi að lokum verið greint frá því að kona sú sem hlaut embættið hafi lokið M.A.-prófi í almennum bókmenntafræðum frá Háskóla Íslands árið 2007 og B.A.-prófi í sömu fræðagrein frá sama skóla árið 1992. Hún hafi tekið hluta af M.A.-námi sínu við Kaupmannahafnarháskóla og hluta af stúdentsprófi í frönskum menntaskóla. Hún hafi starfað sem bókavörður við sumarafleysingar á Blindrabókasafninu árin 1990–1991. Í kjölfar þess hafi hún lesið inn hljóðbækur fyrir safnið, alls á annað hundrað titla. Þá hafi hún starfað sem aðstoðarmaður útgáfustjóra hjá Máli og menningu frá 1994 til ársins 2000. Hún hafi síðar stofnað bókaútgáfuna Sölku árið 2000 og gegnt framkvæmdastjórastarfi hjá bókaútgáfunni til ársins 2004. Frá þeim tíma hafi hún starfað sem ritstjóri og kynningarstjóri hjá JPV útgáfu. Hún hafi þannig komið að flestum þáttum bókaútgáfu, rekið eigið bókaforlag og lesið handrit, ritstýrt og prófarkalesið, þýtt bækur, séð um kápuhönnun og umbrot bóka. Einnig hafi hún séð um sölu íslenskra bóka og farið með samningagerð við höfunda og prentsmiðjur hér á landi og erlendis. Þá hafi hún í starfi sínu hjá bókaútgáfunni Sölku séð um fjármálastjórn og áætlanagerð. Í niðurlagi svars ráðuneytisins til kæranda hafi sagt að eins og sjá mætti af framansögðu hafi konan sem embættið hlaut, auk staðgóðrar menntunar fjölþætta starfsreynslu sem myndi nýtast henni vel í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands.

Í framkominni kæru sé meðal annars bent á að karlar í stétt bókasafnsfræðinga séu mjög fáir og það geti ekki verið í anda laga um jafna stöðu kynjanna að í einni starfsstétt gangi konur fyrir í öll stjórnunarstörf. Vegna þessa bendir ráðuneytið á að 48 forstöðumenn starfi í stofnunum á vegum ráðuneytisins, 32 karlar og 16 konur. Að mati ráðuneytisins sé því ákveðið jafnvægi á milli karla og kvenna í stöðum forstöðumanna á þess vegum, þótt enn halli á hlut kvenna. Ráðuneytið tekur jafnframt fram, í tilefni þess að fram komi í kærunni að forstöðumenn bókasafna í ráðuneytum séu almennt konur að samkvæmt upplýsingum sem fram komi í bókasafnsfræðingatali frá árinu 1998, hafi á tímabilinu 1921–1996, verið starfandi alls 306 bókasafns- og upplýsingafræðingar á Íslandi, 267 konur og 39 karlar. Konur séu því í miklum meirihluta í þessari starfsstétt og telur ráðuneytið með hliðsjón af því ekki óeðlilegt að meirihluti þeirra sem stýri bókasöfnum ráðuneyta séu konur. Í kærunni haldi kærandi því jafnframt fram að nýlega hafi kona verið ráðin í starf landsbókavarðar og þar hafi verið gerð sjálfsögð krafa til menntunar í bókasafnsfræðum. Vegna þessa bendir ráðuneytið á að hið rétta sé að í auglýsingu um laust embætti landsbókavarðar, sbr. auglýsingu menntamálaráðuneytisins, dags. 10. nóvember 2006, hafi verið tekið fram að umsækjendur skyldu hafa háskólapróf og viðbótarmenntun eða starfsreynslu á sviði stefnumótunar og stjórnunar. Auglýsingin hafi því verið í samræmi við þá stefnu ráðuneytisins að gefa sem flestum tækifæri til að sækja um laus störf á þess vegum.

Með hliðsjón af framangreindu telur menntamálaráðuneytið að við skipun í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands hinn 21. maí 2007 hafi ekki verið brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Ráðuneytið telur að menntun í bókmenntafræðum ásamt starfsreynslu við Blindrabókasafnið standist fyllilega þær hæfniskröfur sem gera verði til forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands. Þá bendir ráðuneytið á að í viðtölum við umsækjendur hafi sú kona, sem embættið hlaut, fengið samtals hæstu einkunn viðmælenda þegar stig hafi verið gefin fyrir viðmót, framkomu, bakgrunn, reynslu, menntun, hæfni í starfi, þróun og áhuga. Hún hafi einnig fengið bestu meðmæli allra umsækjenda um framangreint embætti. Í ummælum fráfarandi forstöðumanns Blindrabókasafnsins hafi komið fram að sumarið 1990 hafi hún verið mjög dugandi sumarstarfsmaður og hafi þá einnig lesið inn á hljóðbækur fyrir safnið og stundað innlestur með hléum þar til fyrir fáum árum og hafi hún þótt vera lesari í fremstu röð. Vegna þekkingar sinnar á íslenskri bókaútgáfu hafi hún gefið ábendingar um bækur til innlestrar og í störfum sínum á forlögum greitt götur safnsins. Áfram hafi sagt í ummælunum að á Blindrabókasafni sé framleitt nær allt útlánsefni safnsins. Konan sem embættið hlaut þekki framleiðsluferli hljóðbókanna og hafi að einhverju marki fylgst með tækniþróun síðustu ára. Þetta ásamt víðfeðmri reynslu hennar af almennri bókaútgáfu hafi fráfarandi forstöðumaður safnsins talið geta nýst henni vel sem forstöðumaður. Þá hafi sagt í ummælunum að hún væri skipulögð, kappsöm og afkastamikil. Hún komi vel fyrir og sé fylgin sér auk sem hún sé hugsjónamanneskja fyrir hönd þess hóps sem nyti þjónustu Blindrabókasafns og sé vel kynnt meðal blindra og sjónskertra. Í umsögn ritstjóra og hluthafa í JPV útgáfu hafi komið fram að hún væri afar fjölhæfur starfsmaður og sé fljót að læra og tileinka sér nýjungar. Hjá JPV útgáfu hafi hún sinnt ýmsum störfum, lesið handrit, þýtt bækur, ritstýrt, prófarkalesið, brotið um og séð um kynningu og markaðssetningu á útgefnum verkum.

Með hliðsjón af öllu framansögðu og með tilliti til fyrri umsagnar ráðuneytisins í málinu telur ráðuneytið að hæfasti umsækjandinn hafi hlotið skipun í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands, og með því hafi ekki verið brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

  

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar menntamálaráðherra skipaði konu í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands frá og með 1. júlí 2007. Telur kærandi sig meðal annars hafa meiri reynslu af rekstri og stjórnun bókasafns en sú sem embættið hlaut, auk menntunar á sviði stjórnunar til viðbótar við menntun í bókasafnsfræðum.

Umrætt embætti var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 18. mars 2007 og í Lögbirtingablaðinu 21. mars 2007. Í auglýsingunni var greint frá hlutverki Blindrabókasafnsins og starfsskyldum forstöðumanns eins og þær eru tilgreindar í 6. gr. laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, þ.e. að annast yfirstjórn safnsins, vera í fyrirsvari fyrir safnið út á við, bera ábyrgð á rekstri þess og stjórna daglegum rekstri.

Alls bárust sjö umsóknir um embættið. Menntamálaráðuneytið aflaði umsagnar stjórnar Blindrabókasafns Íslands um umsækjendur með vísan til 6. gr. laga nr. 35/1982, og taldi stjórnin að þrír umsækjendur væru hæfir til að gegna starfinu. Meðal þeirra voru kærandi og sú sem starfið hlaut.

Þrír starfsmenn menntamálaráðuneytis tóku síðan viðtöl við fjóra umsækjendur, þar á meðal kæranda og þann umsækjanda sem embættið hlaut. Í minnisblaði starfsmannanna til menntamálaráðherra, dags. 10. maí 2007, kemur fram að meðal annars hafi verið spurt um starfsreynslu, menntun, stjórnunarreynslu umsækjenda auk reynslu af rekstri og stefnumótun. Einnig hafi verið spurt um hvernig viðkomandi umsækjandi sæi fyrir sér að safnið þróaðist í framtíðinni. Starfsmenn ráðuneytisins hver um sig gáfu í viðtölunum umsækjendum einkunn um sex þætti þar að lútandi á sérstökum eyðublöðum, þar sem fyllt var út stigagjöf frá 1–5 í reitina „viðmót/framkoma“, „bakgrunnur/reynsla“, „menntun“, „hæfni í starfi“, „þróun“ og „áhugi“, en ekki var gerð sérstök grein fyrir þessari stigagjöf í téðu minnisblaði til ráðherra. Þá leituðu starfsmenn ráðuneytisins álits umsagnaraðila um umsækjendur. Að því búnu rituðu starfsmennirnir fyrrgreint minnisblað til ráðherra þar sem fjallað var um þá umsækjendur sem boðaðir höfðu verið til viðtals og meðal annars gerð grein fyrir menntun þeirra og starfsreynslu. Þá var jafnframt gerð grein fyrir því til hverra umsagnaraðila hefði verið leitað og hver umsögn þeirra hefði verið um einstaka umsækjendur. Þá var í minnisblaðinu tekið fram að sá umsækjandi, sem embættið hlaut, hafi komið mjög vel fyrir í viðtalinu, gefið greinargóð svör, hafi verið metnaðarfull fyrir hönd safnsins, sjálfsörugg, rökföst, vel máli farin og vel menntuð. Fram hafi komið að hún hafi velt fyrir sér möguleikum safnsins til framtíðar og hafi verið með ýmsar hugmyndir þar að lútandi. Ekki var að finna ummæli í minnisblaðinu um frammistöðu annarra umsækjanda í starfsviðtölunum. Loks var í minnisblaðinu álit starfsmannanna á því hvaða umsækjandi væri best hæfur til að gegna embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands. Það var sá umsækjandi er embættið hlaut, „að teknu tilliti til menntunar, reynslu og góðra meðmæla“, eins og segir í tilvitnuðu minnisblaði. Þess var ekki getið í nefndu minnisblaði að stigagjöf kæranda var lakari en þess sem embættið hlaut.

Í starfsferilsskrá þeirrar sem embættið hlaut kemur fram að hún hafi lokið B.A.-gráðu í almennum bókmenntafræðum frá Háskóla Íslands árið 1992 og M.A.-gráðu í sömu fræðigrein árið 2007. Hún hafi starfað sem bókavörður við sumarafleysingar á Blindrabókasafninu árin 1990–1991, og í kjölfarið lesið inn fjölda hljóðbóka fyrir safnið. Þá hafi hún starfað hjá Máli og menningu 1992–2000, fyrstu tvö árin í bókhaldi og frá 1994 sem aðstoðarmaður útgáfustjóra. Hún hafi stofnað bókaútgáfuna Sölku árið 2000 og gegnt framkvæmdastjórastarfi hjá bókaútgáfunni til ársins 2002. Hún hafi starfað sem sjálfstæður þýðandi frá 2002–2004 og frá 2004 verið ritstjóri og kynningarstjóri hjá JPV útgáfu.

Fram kemur í starfsferilsskrá kæranda að hann hafi lokið B.A.-prófi í ensku frá Háskólanum í Leeds á Englandi og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 1978. Þá hafi hann lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræðum frá sama háskóla 1997 og loks M.Sc.-gráðu í skjalastjórn frá Háskólanum í Northumbria árið 2005. Hann hafi verið grunnskólakennari 1972–1985, fjármálastjóri hjá Loftorku Borgarnesi hf. 1985–1990, og forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar 1990–2000. Frá árinu 2000 hafi hann starfað sem skjalastjóri hjá Íbúðalánasjóði.

Um forstöðumann Blindrabókasafns Íslands er fjallað í 6. gr. laga nr. 35/1982. Þar er tekið fram að forstöðumaður skuli annast yfirstjórn safnsins, vera í fyrirsvari fyrir safnið út á við, bera ábyrgð á rekstri þess og stjórna daglegum rekstri. Ekki eru þar gerð sérstök skilyrði um menntun, og er það atriði því undir mati veitingarvaldsins komið hverju sinni, svo og önnur þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla, enda séu þau byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Við skipan eða ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja að teknu tilliti til ákvæða laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Kærunefnd hefur litið svo á með vísan til dómaframkvæmdar að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans.

Menntamálaráðuneytið hefur meðal annars lagt fyrir kærunefndina gögn er varða málsmeðferð við undirbúning umræddrar embættisveitingar, svo og rökstuðning til kæranda fyrir embættisveitingunni, dags. 1. júní 2007. Þar kemur fram að kona sú sem embættið hlaut hafi, auk staðgóðrar menntunar, fjölþætta starfsreynslu sem nýtist henni vel í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands. Þá kemur fram í erindi ráðuneytisins til kærunefndarinnar, dags. 27. ágúst 2007, að hún hafi fengið samtals hæstu einkunn viðmælenda starfsviðtali þegar stig voru gefin fyrir viðmót, framkomu, bakgrunn, reynslu, menntun, hæfni í starfi, þróun og áhuga, og er það stutt frekari gögnum sem lögð hafa verið fyrir kærunefnd. Einnig vísar ráðuneytið til ummæla meðmælenda um þá sem embættið hlaut, en gerð er grein fyrir þeim í áðurgreindu minnisblaði starfsmanna ráðuneytisins til menntamálaráðherra dags. 10. maí 2007.

Frammistaða í viðtali, ásamt ummælum umsagnaraðila, voru ekki tiltekin sem atriði sem máli skiptu við embættisveitinguna í framangreindum rökstuðningi ráðuneytisins til kæranda um embættisveitinguna. Engu að síður verður að líta svo á að menntamálaráðuneytið hafi í máli þessu sýnt fram á, meðal annars með gögnum frá starfsviðtölum og minnisblaði því sem ritað var til ráðherra um umsækjendur, að auk menntunar og starfsreynslu sem talið var nýtast vel í umrætt embætti forstöðumanns, hafi verið byggt á því að sú sem embættið hlaut, hafi komið best umsækjenda út í viðtölum, auk þess sem að talið hafi verið að hún hafi fengið best meðmæli allra umsækjenda frá umsagnaraðilum.

Að mati kærunefndar ræður ekki úrslitum í máli þessu að kærandi, umfram konu þá sem embættið hlaut, sé bókasafnsfræðingur. Sú menntun er ekki lögákveðið starfsgengisskilyrði forstöðumanns Blindrabókasafnsins samkvæmt lögum nr. 35/1982, öndvert því sem kappkosta skal þegar um almenningsbókasöfn er að ræða, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1997. Sýnist það helgast af þeirri afstöðu löggjafans að verkefni Blindrabókasafnsins verði ekki sniðinn svo þröngur stakkur þar sem hlutverk þess er lögum samkvæmt ekki síður að stuðla að útgáfu hljóðbóka fremur en einvörðungu að miðla þeim, sbr. 5. gr. laga nr. 35/1982.

Með vísan til þess svigrúms, sem stjórnvald jafnan hefur við embættisveitingar að lagaskilyrðum uppfylltum, verður að líta svo á að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að ómálefnalegt hafi verið í máli þessu að byggja, auk menntunar og starfsreynslu, á persónulegum þáttum þeirrar sem embættið hlaut, svo sem frammistöðu í viðtali og ummælum meðmælenda. Því verður ekki talið að leiddar hafi verið líkur að því að umdeild ákvörðun um skipun konu í embætti forstöðumanns Blindrabókasafns Íslands hafi tengst kynferði umsækjenda. Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta