Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 7. janúar 2008

í máli nr. 20/2007:

Ágúst Þórðarson,

Ingi Gunnar Þórðarson og

Ragnar G. Gunnarsson

gegn

Hafnarfjarðarbæ

           

Með bréfi, dags. 18. desember 2007, kærðu Ágúst Þórðarson, Ingi Gunnar Þórðarson og Ragnar G. Gunnarsson niðurstöðu Hafnarfjarðarbæjar um mat á tilboðum í útboðinu „Yfirferð teikninga og úttektir“. Kærendur kröfðust stöðvunar á innkaupaferli og að tilboð Sigurbjartar Hjartarssonar yrði úrskurðað ógilt. Þá var þess krafist að kærða yrði gert að endurmeta hæfni kærenda, en yrði ekki fallist á það var til vara gerð krafa um að ógild yrði gr. 1.12. í útboðsgögnum. Að lokum var þess krafist að kærða yrði gert að endurtaka stigagjöf tilboða.

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Athugasemdir kærða bárust með bréfi, dags. 21. desember 2007. Kærandi sendi viðbótarkröfur og -rökstuðning með bréfi, dags. 3. janúar 2008. Ekki var ástæða til að gefa kærða færi á að gera athugasemdir við þær viðbætur fyrir þessa ákvörðun.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Kærði auglýsti í nóvember 2007 útboðið „Yfirferð teikninga og úttektir 2008“. Í útboðslýsingu sagði m.a.: „Hafnarfjarðarbær óskar eftir tilboðum í yfirferð teikninga og úttektum á húsum í nýjum hverfum í Hafnarfirði fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa. Einnig er óskað eftir tilboðum í yfirferð eignaskiptasamninga.“

            Í kafla 1.12 í útboðslýsingu kemur fram að „við val á ráðgjöfum [muni] verkkaupi meta hæfni og verðtilboð hvers bjóðanda“. Í kaflanum kemur fram hvernig hæfi bjóðenda verður metið til stiga og er þar um að ræða sex matsflokka sem samtals geta mest gefið 100 stig. Matsflokkarnir eru: Verktilhögun, starfsmenn sem sinna verkinu, reynsla bjóðanda af eftirliti, almenn reynsla bjóðanda, gæðakerfi og verkferlar. Í útboðslýsingu segir svo: „Bjóðandi þarf að fá að lágmarki 60 stig út úr mati á hæfni, til þess að verðtilboð hans komi til álita.“ Við endanlegt mat á tilboðum skyldi „hæfnistilboð“ gilda 0,4 og verðtilboð 0,6.

 

II.

Í IX. kafla laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, er fjallað um val tilboða og segir þar m.a. í 1. mgr. 72. gr. að við val á tilboði skuli gengið út frá hagkvæmasta boði. Þau atriði sem tilgreind eru í VII. kafla laga nr. 84/2007 lúta hins vegar að hæfi bjóðenda en ekki hagkvæmni tilboða þeirra. Verða þau atriði því almennt ekki lögð til grundvallar við mat á hagkvæmni tilboða. Í hinu kærða útboði kom fram að verð bjóðenda gilti 60% á móti 40% hæfnismats, sem fól m.a. í sér mat á reynslu bjóðenda. Það er álit kærunefndar útboðsmála, að önnur atriði en verð, sem tilgreind voru í kafla 1.12 í útboðsgögnum sem „hæfnistilboð“, lúti einkum og sér í lagi að hæfi bjóðenda í skilningi VII. kafla laga um opinber innkaup en ekki hagkvæmni tilboða þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum. Miðað við fyrirliggjandi gögn virðast verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup við mat á tilboðum og telur nefndin rétt að stöðva samningsgerð.

 

Ákvörðunarorð:

Samningsgerð Hafnarfjarðarbæjar í útboðinu „Yfirferð teikninga og úttektir“ er stöðvuð.

 

Reykjavík, 7. janúar 2008.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 7. janúar 2008.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta