Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2007. Úrskurður kærunefndar útboðsmála :

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 24. janúar 2007

í máli nr. 16/2007:

Vélaborg ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dagsettu 24. október 2007, kærir Vélaborg ehf. útboð nr. 14363: Dráttarvél og traktorsgrafa fyrir Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1. Að innkaupaferli eða gerð samnings við Íshluti ehf. verði stöðvuð þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir.

2. Að kærunefnd ógildi ákvörðun kærða um að samþykkja tilboð Íshluta ehf. og að kærða verði gert skylt að bjóða innkaupin út að nýju að viðlögðum dagsektum.

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda Vélaborgar ehf.

Kærunefnd hefur þegar leyst úr því álitaefni hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð. Í úrskurði þessum er leyst úr því álitaefni hvort ógilda eigi ákvörðun kærða og gera honum að bjóða innkaupin út að nýju.

I.

Hinn 12. september 2007 óskuðu Ríkiskaup, f.h. Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, eftir tilboðum í dráttarvél og traktorsgröfu. Í útboðsgögnum voru settar fram ákveðnar kröfur sem traktorsgröfunni var ætlað að uppfylla. Við mat á tilboðinu skyldi verð vegið 70 stig, afhendingartími 10 stig, tæknilegir eiginleikar 10 stig og þjónusta 10 stig.

Tilboð voru opnuð þann 25. september 2007. Alls bárust tilboð frá fjórum aðilum. Íshlutir ehf. buðu svokallaða JCB 4CX Sitemaster vél og nam verð kr. 8.400.000,- Vélaborg ehf. bauð svokallaða Case 695 vél og nam verð kr. 6.995.000,- Kraftvélar ehf. buðu svokallaða Komatsu WB 97-5 vél og nam verð kr. 7.465.000,- Vélaver hf. bauð svokallaða JCB 4CX super vél og nam verð kr. 9.200.000.-

Með tölvupósti starfsmanns kærða, dags. 3. október 2007, var þátttakendum tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka tilboði Íshluta ehf. í traktorsgröfu, þar sem tilboðið væri hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt matslíkani útboðslýsingar. Jafnframt var kæranda tilkynnt að tilboð hans hefði ekki uppfyllt lágmarkskröfur útboðsgagna og hefði því ekki komið til álita.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu óskaði kærandi eftir rökstuðningi Ríkiskaupa fyrir höfnun tilboðs. Með bréfi kærða, dags. 10. október 2007, kom fram að höfnun væri á því byggð að vökvakerfi, eldsneytistankur, hemlar og rafkerfi hefðu ekki staðist lágmarkskröfur útboðsgagna. Með bréfi, dags. 11. október 2007, svaraði fyrirsvarsmaður kæranda þessum rökstuðningi á þá leið að traktorsgrafa sú sem valin var í útboðinu uppfyllti heldur ekki kröfur útboðsgagna. Kærandi gagnrýndi jafnframt rökstuðning kærða um vökvakerfi, enda hefði það litla þýðingu nema í þeim tilfellum þegar nota ætti gröfuna til að drífa aukabúnað.

Kærandi hefur ekki fellt sig við framangreinda höfnun kærða. Varðar mál þetta ágreining aðila um réttmæti höfnunar tilboðs kæranda í framangreindu útboði og ógildingu tilboðs af þeim sökum.

II.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að kærði hafi brotið reglur laga nr. 84/2007 um opinber innkaup við framkvæmd útboðsins, þar sem ekki var rétt staðið að mati tilboða. Kærandi byggir á því að þær forsendur, sem settar hafi verið fram í útboðsgögnum, hafi ekki þýðingu hvað varðar vökvakerfi. Hann bendir á að eldsneytistankur hafi verið 135 lítrar í stað 150 lítra eins og mælt var fyrir um í útboðsgögnum. Þá byggir hann á því að bæði vél sín og sú vél sem valin var hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna hvað varðar bremsubúnað. Loks byggir kærandi á því að þótt rafall hans hafi verið minni en mælt var fyrir um í útboðsgögnum, þá hafi aftur á móti rafgeymar vélar hans gefið fleiri amperstundir en gert var ráð fyrir í útboðsgögnum.

Kærandi byggir á því að hafi Case 695 vél hans ekki uppfyllt lágmarkskröfur útboðslýsingar þá gildi það sama um tilboð Íshluta ehf., sem valið var í útboðinu. Jafnræði eigi að gilda með bjóðendum, sbr. 14. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, og að við val á tilboði skuli gengið út frá hagkvæmasta tilboði, sbr. 72. gr. laganna. Þá byggir kærandi á því að óheimilt sé að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram koma í útboðsgögnum, sbr. 2. mgr. 45. gr. laganna, og af 3. mgr. 45. gr. leiðir að í útboðsgögnum skuli tilgreina hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs sem vísað er til sem forsendu fyrir vali tilboðs. Tekur kærandi fram að í útboði nr. 14363 hafi komið fram fjögur atriði, sem hafa skyldi hliðsjón af við mat á tilboðum fyrir traktorsgröfu og vægi þeirra tilgreint í stigum. Þar hafi verð haft langmest vægi.

Kærandi byggir á því að tilgangurinn með framangreindum reglum sé að tryggja gagnsæi við opinber innkaup og jafnræði bjóðenda. Sé ófrávíkjanlegt skilyrði til staðar í útboðsgögnum verði það skilyrði að vera uppfyllt af öllum bjóðendum til þess að tilboðið teljist gilt. Hafi til að mynda skilyrðið um tæknilega eiginleika ekki verið uppfyllt af kæranda þá sé það ófrávíkjanlegt að tæknilegir eiginleikar verði að vera uppfylltir af öðrum bjóðendum með hliðsjón af framlögðum gögnum og opinberum bæklingum, sem fáanlegir eru um vélar annarra bjóðenda. Hafi lægsta tilboðið hvorki verið valið né það tilboð talið standast útboðslýsingu, verður að gera ríkar kröfur til hagkvæmni annarra tilboða, að þau fullnægi þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum.

Kærandi byggir á því að Íshlutir ehf. séu ekki umboðsaðilar fyrir JCB vélar og því mikilvægt að meta hvort þjónusta sé veitt með þeim hætti sem teljist fullnægjandi, sbr. 50. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007. Kærandi byggir á því að JCB vél sú, sem valin hafi verið í útboðinu, hafi ekki verið í samræmi við útboðslýsingu hvað varðar hemlabúnað, sem hvergi kemur fram að sé með diskabremsum á öllum hjólum, og hvað varðar aksturshraða, sem sé ekki hærri en 35 kílómetrar á klukkustund, þegar útboðsgögn hafi krafist vélar sem færi að minnsta kosti 35 kílómetra á klukkustund.

Kærandi byggir á því að við mat á tæknilegri getu hafi ekki verið valið hagkvæmasta tilboðið með vísan til forsendna, sem settar hafi verið fram í útboðsgögnum, sbr. 72. gr., sbr. 45. gr. laga nr. 84/2007. Leiði þetta til þess að stöðva verði samningsgerð.

Í frekari athugasemdum, sem komið var á framfæri með bréfi dags. 10. desember 2007, ítrekar kærandi að markmið opinberra innkaupa sé að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu, sbr. 1. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007. Gerir hann meðal annars athugasemdir við málatilbúnað og málsástæður kærða í máli þessu með hliðsjón af þessu.

Að mati kæranda bar kærða eingöngu að ganga út frá hagkvæmasta tilboðinu og tryggja gagnsæi og jafnræði bjóðenda. Ákveði kærði að beita ströngu mati á tæknilegum eiginleikum við mat á traktorsgröfum þá sé óhjákvæmilegt að líta svo á að þau tæknilegu atriði sem lögð séu til grundvallar við slíkt mat séu uppfyllt jafnt af öllum bjóðendum.

Kærandi byggir á því að hann hafi lagt fram gögn sem sýni ótvírætt fram á að boð Íshluta ehf. á JCB 4CX Sitemaster traktorsgröfu uppfyllti ekki tvö atriði í útboðslýsingu, þ.e. hemla (diskabremsur á öllum hjólum) og ökuhraða (hámarkshraði meiri en 35 km/klst). Segir kærandi þetta stafa af því að vél Íshluta ehf. sé ekki sú JCB vél sem lýst er í bæklingi frá framleiðanda, sem fyrir liggur í málinu, heldur önnur sem framleidd sé fyrir Þýskalandsmarkað. Stoðar þannig lítið að vísa til bæklings frá framleiðanda varðandi þá eiginleika sem vélin hafi, enda sé um aðra vél að ræða í þeim bæklingi en boðin var í útboðinu. Gögn, sem kærandi hefur lagt fram, sýni með óyggjandi hætti að hámarkshraði vélarinnar sé einungis 35 km/klst. Þá stoðar ekki fyrir kærða að byggja á yfirlýsingum frá bjóðanda í nefndu útboði, eða viðsemjanda hans, um eiginleika vélarinnar, heldur ber að byggja á hlutlægum gögnum um vélina sjálfa. Ítrekar kærði þannig að bæklingur sá, sem kærði byggir á, lýsir ekki þeirri vél sem boðin var í útboðinu af hálfu Íshluta ehf.

Kærandi bendir á framangreindu til skýringar að hann hafi aflað tæknilegra upplýsinga frá umboðsaðila JCB véla hérlendis. Kemur fram í þeim gögnum að hemlar eru ekki þeir sömu á JCB vél innfluttri af Vélaver hf. og JCB vél framleiddri fyrir Þýskalandsmarkað

Kærandi bendir jafnframt á að lýsing á bremsubúnaði nefndrar JCB vélar, í bæklingi um tæknilega útfærslu, komi fram að vélin hemli einungis á tveimur afturhjólum, en hemli á öllum hjólum með því að draga niður í kassanum á vélinni sem leiði til þess að framhjól bremsi. Hér sé um nákvæmlega sams konar lýsingu á diskabremsum á öllum hjólum að ræða og fram komi í bæklingi er lýsi eiginleikum CASE véla kæranda. Hefur kærði byggt á í rökstuðningi sínum að vél kæranda sé ekki með „4 wheel braking“, en ljóst má vera af framangreindu að sé það rétt þá eigi það sama við um þá vél sem valin var í útboðinu, sem leiði til þess að því beri að hafna líkt og gilti um kærða.

Kærandi ítrekar að mál þetta snúist fyrst og fremst um þá ákvörðun Ríkiskaupa að meta tæknilega eiginleika á vél kæranda með öðrum hætti en tæknilega eiginleika þeirrar vélar sem valin var í útboðinu. Kærandi telur að ekki hafi verið gætt jafnræðis í útboðinu og hefði borið að vísa til hlutfallslegs vægis hvers viðmiðs sem vísað er til í forsendum fyrir vali tilboðs við mat á hagstæðasta tilboði skv . 72. gr. sbr. 45. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007.

III.

Kærði byggir á því að hafna beri kröfu kæranda, þar sem ekki sé grundvöllur til að taka hana til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup og að rétt hafi verið staðið að mati tilboða og gerð útboðsgagna. Hafnar kærði málsástæðum og lagarökum kæranda.

Byggir kærði á því að kæra hafi verið móttekin hjá kærunefnd útboðsmála hinn 24. október 2007 en niðurstaða útboðsins tilkynnt kæranda 3. október sama mánaðar. Kærði byggir á því að samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 komist samningur sjálfkrafa á milli aðila að tíu dögum liðnum frá vali kaupanda, enda segir í tilkynningu til bjóðenda að þegar um sé að ræða innkaupaferli, sem ljúki með vali kaupanda á tilboði skuli líða a.m.k. 10 dagar frá því ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð telst samþykkt. Jafnframt byggir kærði á því að Flugmálastjórn hafi, með tölvupósti dags. 23. október 2007, óskað eftir því að vélin yrði afgreidd og reikningur sendur á grundvelli útboðs og tilboðs Íshluta ehf.[1]

Kærandi byggir þannig á því að kröfu kæranda skuli hafnað, þar sem bindandi samningur sé kominn á í skilningi laga um opinber innkaup og samningalaga og með vísan til þess sem að framan er rakið.

IV.

Í ákvörðun kærunefndar, dags. 23. nóvember 2007, var komist að þeirri niðurstöðu að samningur hafi komist á milli Flugmálastjórnar, og Íshluta ehf. Komst hann á með tölvupósti, dags. 23. október 2007, þar sem Flugmálastjórn óskar eftir því að umrædd vél verði afgreidd og reikningur sendur á grundvelli útboðs og tilboðs.

Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 getur kærunefnd fellt úr gildi ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa að hluta eða í heild, sbr. þó 100. gr. Nefndin getur jafnframt lagt fyrir kaupanda að bjóða út tiltekin innkaup, auglýsa útboð á nýjan leik eða að fella niður tiltekna ólögmæta skilmála í útboðsgögnum. Samkvæmt 100. gr. laganna verður samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. er kominn á, þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.

Kröfugerð kæranda lýtur að því að ógilda ákvörðun kærða og jafnframt að gera kærða skylt að bjóða innkaupin út að nýju að viðlögðum dagsektum. Þar sem kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að bindandi samningur hafi verið kominn á milli kæranda og Íshluta ehf. veita ákvæði laga um opinber innkaup nr. 84/2007 ekki heimild til kærunefndar til þess að fallast á kröfur kæranda, jafnvel þótt sú aðstaða væri uppi að brotið hefði verið gegn ákvæðum laganna. Er af þessari ástæðu óhjákvæmilegt að hafna kröfum kæranda.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfum kæranda um að ógilda ákvörðun kærða um að samþykkja tilboð Íshluta ehf. og um að kærða verði gert skylt að bjóða innkaupin út að nýju að viðlögðum dagsektum.

Reykjavík, 24. janúar 2008

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

 



[1] Leiðrétt af kærunefnd. Í gögnum málsins stendur Vélaborg ehf. í stað Íshluta ehf., sem fær ekki staðist.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta