Mál nr. 542/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 542/2022
Fimmtudaginn 12. janúar 2023
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 16. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. júlí 2022 og var umsóknin samþykkt 14. júlí sama ár. Þann 14. september 2022 var kærandi boðuð á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar sem fara ætti fram dagana 21., 22. og 23. september 2022. Kæranda var greint frá því að skyldumæting væri á námskeiðið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Kærandi boðaði forföll þann 20. september 2022. Þann 12. október 2022 var kærandi boðuð á námskeiðið á ný sem fara ætti fram dagana 19., 21. og 24. október 2022. Kærandi boðaði forföll þann 18. október 2022. Kærandi var boðuð á námskeiðið í þriðja sinn þann 9. nóvember 2022 sem fara ætti fram dagana 14., 15. og 16. nóvember 2022. Kærandi boðaði forföll þann 10. nóvember 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda til þess að hafa ekki mætt á boðað námskeið. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 25. nóvember 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. nóvember 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hafa verið á atvinnuleysisbótum frá 1. september 2022. Námskeið hjá Vinnumálastofnun, sem nefnist Fullkomin ferilskrá, hafi verið haldið þrisvar sinnum. Þegar kærandi hafi verið boðuð á námskeiðið hafi henni verið tilkynnt að skyldumæting væri á námskeiðið og á sama tíma að ótilkynnt forföll gætu stöðvað greiðslur bóta. Kærandi hafi verið öll af vilja gerð að mæta á námskeiðið en hún hafi forfallast í öll skiptin sem hún hafi tilkynnt með eins góðum fyrirvara og hægt var. Ekki hafi verið tilkynnt um refsingu fyrir þá sem tilkynntu forföll. Kærandi sé aðallega að kæra ákvörðun af þeim sökum.
Í fyrsta skiptið hafi kærandi bráðnauðsynlega þurft að passa átta mánaða systurdóttur sína þá þrjá daga sem námskeiðið hafi verið haldið. Í annað skiptið hafi kærandi forfallast vegna veikinda. Í þriðja skiptið hafi móðir hennar lofað að passa systurdóttur kæranda. Á seinustu stundu hafi móðir hennar veikst og því hafi kærandi þurft að passa.
Vinnumálastofnun neiti að taka þennan rökstuðning gildan, þrátt fyrir að kærandi sé öll af vilja gerð að mæta á námskeið. Hún hafi lofað að mæta á næsta námskeið sem skilyrði þess að hún fengi stuðning frá Vinnumálastofnun áfram en því hafi verið hafnað.
Kærandi viti ekki hvernig hún eigi að greiða fyrir útgjöld í jólamánuðinum. Hún sé því tilneydd til að senda inn kæru sem lokaúrræði í þeirri von að þessi niðurstaða Vinnumálastofnunar breytist.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 4. júlí 2022. Með erindi, dags. 14. júlí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Kærandi hafi í þrígang verið boðuð á staðnámskeið á vegum stofnunarinnar sem nefnist Fullkomin ferilskrá. Með tölvupósti og smáskilaboðum, sem send hafi verið af hálfu Vinnumálastofnunar þann 14. september 2022, hafi kæranda verið gefnar upplýsingar um að námskeiðið yrði haldið 21., 22. og 23. september klukkan 09:00 til 12:30. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að mætingarskylda væri á námskeiðið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi ekki mætt á boðað námskeið.
Með tölvupósti og smáskilaboðum, sem send hafi verið af hálfu Vinnumálastofnunar þann 14. september 2022, hafi kæranda verið gefnar upplýsingar um að námskeiðið yrði haldið 19., 21. og 24. október. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að mætingarskylda væri á námskeiðið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi ekki heldur mætt á boðað námskeið.
Með tölvupósti og smáskilaboðum, sem send hafi verið af hálfu Vinnumálastofnunar þann 9. nóvember 2022, hafi kæranda verið gefnar upplýsingar um að námskeiðið yrði haldið 14., 15. og 16. október. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að mætingarskylda væri á námskeiðið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar til Vinnumálastofnunar.
Kærandi hafi boðað forföll á öll námskeiðin. Henni hafi í kjölfarið verið boðið að skila skriflegum skýringum á ástæðum þess að hún hafi ekki mætt framangreinda daga á umrætt námskeið með erindi, dags. 15. nóvember 2022. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir skriflegum skýringum á ástæðum þess af hverju hún hafi ekki uppfyllt mætingarskyldu á boðað námskeið, Fullkomin ferilskrá, sem hafi verið haldið dagana [21.], 22. og 23. september 2022. Samkvæmt skýringum kæranda hafi hún boðað forföll þar sem hún hafi verið upptekin við að passa systurdóttur sína. Hins vegar hafi kæranda verið veittur frestur til að koma að frekari skýringum. Veikindi hafi verið skráð hjá kæranda í október af ráðgjafa stofnunarinnar og því hafi stofnunin ekki óskað eftir skýringum á því hvers vegna kærandi hafi ekki mætt á boðað námskeið í október.
Skýringar kæranda hafi ekki verið metnar gildar. Vinnumálastofnun hafi fjallað um mál kæranda á fundi þann 16. nóvember 2022. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna hafi bótaréttur kæranda verið felldur niður í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í a-lið 1. mgr. 13. gr. sé kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi skuli vera í virkri atvinnuleit. Samkvæmt h-lið 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“
Atvinnuleitendum beri samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, þar á meðal um tilfallandi veikindi og fjarveru á boðaðan fund, án ástæðulausrar tafar. Ljóst sé af ákvæði 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi beri tilkynningarskyldu gagnvart Vinnumálastofnun. Það sé forsenda þess að stofnunin geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
Í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé hafnað. Í 1. mgr. 58. gr. segi orðrétt:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“
Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Skýringar kæranda á ástæðum þess að hún hafi ítrekað afboðað sig á námskeiðið Fullkomin ferilskrá hafi verið í eitt skipti vegna veikinda, sem hafi verið tekið tillit til og komi ekki til skoðunar í málinu, en í hin tvö skiptin vegna þess að hún hafi verið að passa systurdóttur sína.
Vinnumálastofnun árétti að eitt af skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar sé að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit. Í virkri atvinnuleit felist að atvinnuleitendur þurfi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða og beri atvinnuleitanda skylda til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Í ljósi þeirrar ríku skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum telji stofnunin skýringar kæranda ekki gildar.
Fyrir liggi að kærandi hafi verið skráð á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar í þrígang og hafi afboðað sig í öll þau skipti. Það sé mat Vinnumálastofnunar að gera verði þær kröfur til atvinnuleitenda að mæting þeirra í vinnumarkaðsúrræði sé fullnægjandi og atvinnuleitendur hafi vilja og getu til að mæta til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Ekki verði fallist á að atvinnuleitandi geti virt boðanir í vinnustaðaúrræði að vettugi af því að þeir séu að sinna barnagæslu á sama tíma.
Með vísan til hinnar ríku skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum sem standi þeim til boða í atvinnuleit sinni séu skýringar kæranda á ástæðum þess að hún hafi verið fjarverandi á umrætt námskeið ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Afstaða Vinnumálastofnunar sé sú að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.
Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var boðuð á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar í þrígang sem var fyrst haldið dagana 21., 22. og 23. september 2022, því næst dagana 19., 21. og 24. október 2022 og loks dagana 14., 15. og 16. nóvember 2022. Kæranda var greint frá því að skyldumæting væri á námskeiðið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar á netfangið [email protected]. Jafnframt var athygli kæranda vakin á því að ótilkynnt forföll gætu valdið stöðvun greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laganna. Kærandi tilkynnti forföll vegna veikinda í eitt skipti sem tekið var tillit til, að sögn Vinnumálastofnunar. Í hin tvö skiptin tilkynnti kærandi forföll og gaf þær skýringar að hún væri að passa barn systur sinnar.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hún hafi ekki mætt í vinnumarkaðsúrræði sem henni var gert að sækja. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Úrskurðarnefndin telur að kærandi hafi í reynd hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð, þrátt fyrir að hafa tilkynnt forföll. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir