Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/1996

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 3/1996

A
gegn
Póst- og símamálastofnun

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þriðjudaginn 15. október 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu: 

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 15. mars 1996 fór A, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Póst- og símamálastofnun (P&S), hefði með ráðningu B í starf deildarstjóra söludeildar P&S í Kringlunni 8-12 brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Póst- og símamálastofnun um:

  1. Afstöðu stofnunarinnar til erindisins.

  2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.

  3. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera, sbr. 8. gr. jafnréttislaga.

  4. Hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá stofnuninni.

  5. Annað það er stofnunin teldi að skipt gæti máli við mat á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin.

Svarbréf C framkvæmdastjóra hjá P&S er dagsett 22. maí 1996. Með bréfi dags. 15. júlí sendi kærandi athugasemdir sínar við bréf P&S til kærunefndar. Með bréfi dags. 4. sept. óskaði kærunefnd nánari upplýsinga frá P&S um menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, um kynjahlutfall í deildarstjórastörfum innan P&S og lýsingar frá Póst- og símamálaskólanum á símsmíðanámi. Með bréfum dags. 6. og 25. sept. svaraði P&X þeirri beiðni. Kærandi og C framkvæmdastjóri hjá P&S komu á fund kærunefndar 31. ágúst.

Starf deildarstjóra þjónustudeildar PS í Kringlunni, var auglýst í 30. nóv. 1995. Ekki voru gerðar neinar hæfniskröfur í auglýsingu. Umsækjendur voru fjórir, tvær konur og tveir karlar. Önnur kvennanna dró umsókn sína til baka og annar karlanna, B, var ráðinn.

Kærandi málsins, A, starfaði um árabil sem fiskvinnslukona í Súðavík, síðast sem verkstjóri. Hún hóf störf sem stöðvarstjóri P&S í Súðavík í október 1977 og gegndi því starfi til 1986. Í febrúar 1987 hóf hún störf við afleysingar hjá P&S í Kópavogi. Sumarið 1987 sótti hún um starf deildarstjóra P&S í Kringlunni. Karlmaður var ráðinn í starfið en henni boðið annað starf í söludeildinni sem hún þáði Hefur hún starfað þar síðan sem staðgengill og fulltrúi deildarstjóra og frá nóvember 1995 til 1. mars 1996 sem deildarstjóri.

B hefur lokið símsmíðameistaranámi sem er þriggja ára nám með starfi fyrir starfsmenn P&S. Hann hóf störf árið 1984 í notendabúnaðardeild P&S, varð símaflokksstjóri 1992 og gegndi því starfi þar til hann var ráðinn deildarstjóri söludeildar P&S í Kringlunni.

Kærandi lýsir málavöxtum svo að hún hafi talið sig eiga mikla möguleika á að fá starfið vegna langrar starfsreynslu sinnar hjá P&S. Hún hafi gegnt starfinu og ekki hafi verið krafist neinnar sérmenntunar í auglýsingu. Umsóknarfrestur hafi runnið út 28. des. 1995. Hún hafi ekki verið boðuð í viðtal en um miðjan febrúar hafi yfirmaður þjónustudeildar P&S hringt í sig og tjáð sér án frekari skýringa að B hefði verið ráðinn í stöðuna. Hún kvaðst hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum og hringt í símstöðvarstjórann í Reykjavík til að afla sér frekari upplýsinga. Hann hafi sagt sér að P&S hafi ekki treyst sér til að ráða hana vegna veikindaferils hennar. Jafnframt hafi hann lýst ánægju sinni með störf hennar.

Kærandi segir rétt að hún hafi átt við langvinn veikindi að stríða vegna liðagigtarsjúkdóms. Stór hluti fjarvista hennar eða 116 dagar af 260 hafi þó verið vegna uppskurðar af öðrum toga. Hún kveðst hafa fengið ný lyf við veikindum sínum sem hafi gjörbreytt heilsu hennar og hafi ekki verið frá vinnu vegna þeirra síðan 19. apríl 1995.

Hún telji að með ráðningu B hafi jafnréttislög verið brotin gagnvart sér. Hún hafi mun meiri starfsreynslu en hann og mótmælir þeirri staðhæfingu að þau séu jafnhæf til að gegna starfinu. Hún hafi umtalsverða reynslu af þessu starfi þar sem hún hafi sl. 8 1/2 ár verið fulltrúi deildarstjóra og deildarstjóri og gegnt því síðustu mánuðina áður en B var ráðinn. Fyrirtækið hafi notað veikindi hennar sem yfirvarp. Hún hafi ekki verið boðuð í viðtal og viti ekki til að heilsufar hennar að undanförnu hafi verið kannað. Þá brjóti ráðningin í bága við stefnu P&S í jafnréttismálum eins og hún birtist í bæklingi um jafnrétti innan fyrirtækisins.

Í svarbréfi C, framkvæmdastjóra hjá P&S, segir að umsóknir um starfið hafi verið lagðar fram í starfsmannaráði. Samkvæmt tillögu yfirmanna, þeirra D, tæknirekstrarstjóra, og E, umdæmisstjóra, hafi ráðið einróma mælt með því við póst- og símamálastjóra að B yrði ráðinn. Í umsögn þeirra hafi komið fram að A og B hafi verið talin hæfust umsækjenda. B sé símsmíðameistari að mennt og hafi um skeið starfað sem símaflokksstjóri og staðgengill verkstjóra. Þá sé hann sagður lipur í mannlegum samskiptum og þjónustulundaður. Miklar fjarvistir A vegna veikinda hin síðustu ári hafi ekki verið talin henni til framdráttar. Alls hafi hún verið fjarverandi 260 daga frá 1. janúar 1992 til októberloka 1995. B hafi verið fjarverandi 44,5 daga á sama tímabili sem verði að teljast innan eðlilegra marka.

Þá segir í bréfinu að yfirstjórn P&S þyki miður hafi A ekki fengið tækifæri til að skýra mál sitt. Fyrir starfsmannaráði hafi legið upplýsingar um veikindaferil hennar og þar með fjarvistir hennar frá því í apríl 1995. Lögð hafi verið áhersla á að yfirmenn kynntu sér vel umsóknir um stöður og ræddu við umsækjendur áður en umsögn væri gefin. Á fundi með kærunefnd kom fram hjá C að ekkert hafi verið út á samskiptahæfileika A og þjónustulund að setja. Reynsla og þekking A ásamt samanburði á fjarveru vegna veikinda hafi ráðið úrslitum. Aðspurður hvort ekki væri hugsanlegt að kærandi hefði með starfsreynslu sinni aflað sér nægilegrar þekkingar til starfsins, kvað C svo vera, kærandi væri í þessu starfi vegna þekkingar sinnar og reynslu. Hins vegar hefði verið talið að reynsla B og fyrri störf ásamt þekkingu hans væru ekki lakari grunnur fyrir starfið.

Í bréfi P&S dags. 25. sept. kemur fram að samkvæmt starfsmannaskrá í júlí 1996 beri 51 starfsmaður starfsheitið deildarstjóri, 13 konur og 38 karlar. 

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Starfstími kæranda hjá P&S er u.þ.b. 18 ár, fyrst sem stöðvarstjóri og síðar fulltrúi og staðgengill deildarstjóra söludeildar í Kringlunni. Þá hefur hún gegnt starfi deildarstjóra um nokkurra mánaða skeið. Starfstími þess sem ráðinn var er hins vegar u.þ.b. 11 ár, lengst af sem almennur starfsmaður og frá 1992 sem símaflokksstjóri. Starfsaldur og stjórnunarreynsla kæranda er því mun meiri en hans.

Engar menntunarkröfur voru gerðar í auglýsingu. Kærunefnd telur að menntun B muni nýtast honum í starfinu en hún sé ekki þyngri á metunum en sú reynsla sem kærandi hefur öðlast í þessu starfi.

Upplýst er að starfsmannaráð kannaði ekki hvernig heilsufari kæranda var háttað þegar um stöðuveitinguna var fjallað enda þótt fyrir hafi legið upplýsingar um litlar sem engar fjarvistir hennar síðustu níu mánuðina fyrir stöðuveitinguna. Þar sem fjarvistir vegna veikinda eru að sögn P&S ein meginástæðan fyrir því að kærandi var ekki ráðinn hefði verið ástæða fyrir starfsmannaráð að kanna betur heilsufar hennar. Þegar litið er til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um bætta heilsu kæranda á síðasta ári telur kærunefnd að umræddar röksemdir P&S réttlæti ekki að gengið var framhjá kæranda við ráðningu í starfið.

Að þessu virtu verður ekki séð að sá sem ráðinn var hafi verið hæfari en kærandi til að gegna starfinu.

Þegar kynjahlutföll í deildarstjórastöðum hjá P&S eru skoðuð kemur í ljós að af 51 deildarstjóra eru 38 karlar og 13 konur. Með hliðsjón af því og yfirlýstri stefnu fyrirtækisins sem kemur fram í jafnréttisáætlun þess verður að telja að P&S hefði borið að ráða kæranda í starfið.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli þessu er að með ráðningu í starf deildarstjóra söludeildar í Kringlunni hafi Póst- og símamálastofnun brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til Póst- og símamálstofnunar að fundin verði viðunandi lausn á málinu.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta