Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/1996

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 5/1996

A
gegn
Sandgerðisbæ

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 24. janúar 1997 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 19. júní 1996 fór A þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hefði með ráðningu B í starf tómstundafulltrúa brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Sandgerðisbæ um:

  1. Afstöðu bæjarins til erindisins.

  2. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera, sbr. 8. gr. jafnréttislaga.

  3. Hlutfall kynja í sambærilegum störfum hjá Sandgerðisbæ.

Svarbréf Sandgerðisbæjar er dags. 12. september 1996. Með bréfi dags. 13. nóvember sendi kærandi athugasemdir sínar við bréf Sandgerðisbæjar. Á fund kærunefndar komu hinn 29. nóvember kærandi og bæjarstjóri Sandgerðisbæjar ásamt lögmanni bæjarins.

Starf tómstundafulltrúa Sandgerðisbæjar var auglýst í janúar 1996. Engar hæfniskröfur voru gerðar í auglýsingu en tekið fram að tómstundafulltrúinn yrði framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundaráðs. Umsækjendur voru átta, tvær konur og sex karlar. Önnur kvennanna og einn karlanna drógu umsóknir sínar til baka og til starfsins var ráðinn B.

Kærandi málsins, A, lauk námi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands 1984. Auk þess hefur hún sótt
ýmis námskeið á vegum Svæðisstjórnar Reykjaness um málefni fatlaðra. Hún starfaði
sem deildarþroskaþjálfi við Vonarland, vistheimili fyrir fatlaða, á Egilsstöðum 1984-1985
og 1986-1987 og sem æskulýðs- og tómstundafulltrúi hjá Egilsstaðabæ 1985-1986.
A starfaði sem þroskaþjálfi hjá leikskóla Sandgerðisbæjar 1988-1990 og hefur verið í hlutastarfi við grunnskóla Sandgerðis frá 1987. Þá hefur hún verið forstöðumaður Lyngsels, sem er skammtímavistun fyrir fötluð börn, frá 1992. A hefur starfað talsvert að félagsmálum m.a. sem formaður foreldra- og kennarafélags grunnskólans í Sandgerði, verið umsjónarmaður unglingadeildar björgunarsveitarinnar Sigurvonar og formaður kvennadeildar félagsins, formaður stjórnar foreldrafélags leikskólans auk þess að vera virk í íþróttastarfsemi Sandgerðisbæjar.

B lauk stúdentsprófi 1992. Þegar hann fékk starfið var hann við nám við Háskóla Íslands í stjórnmálafræði og hafði lokið 79 einingum af 90. B hefur starfað sem flokkstjóri í áhaldahúsi Sandgerðisbæjar tvö sumur og nokkur sumur við fiskvinnslu. Hann hefur starfað að íþróttamálum í Sandgerði, einkum hjá knattspyrnudeild Reynis, verið í stjórn hennar í fjögur ár, þar af eitt sem formaður, þjálfað 5. og 6. flokk karla í þrjú ár og starfað sem dómari á vegum deildarinnar. Þá sat hann einn vetur í tómstundaráði bæjarins.

Með greinargerð Sandgerðisbæjar fylgir listi yfir starfsmenn bæjarins en ekki kemur með beinum hætti fram hvaða störf eru talin sambærileg umræddu starfi. Í svarbréfi A dags. 13. nóv. kemur fram að hún telji átta karlmenn vera í stjórnunarstöðum hjá bænum en aðeins fjórar konur. Í viðtali við kærunefnd andmælti bæjarstjóri skilgreiningu hennar á sambærilegum sjómunarstörfum hjá bænum.

Kærandi leggur áherslu á að hún sé hæfari til starfsins en sá sem ráðinn var bæði hvað menntun og starfsreynslu varði. Hún hafi uppeldismenntun sem falli mun betur að umræddu starfi en menntun B auk þess sem hún hafi sótt ýmis námskeið á starfsferli sínum. Þá sé starfsreynsla hennar bæði mun lengri og tengist betur starfinu en hans. Hún hafi reynslu af sams konar starfi á Egilsstöðum auk þess sem hún hafi unnið við unglingastarf hjá Sandgerðisbæ. Hún hafi mikla reynslu af starfi með börnum og unglingum m.a í starfi sínu við grunnskólann og hafi einnig starfað með eldri borgurum. Þá hafi hún mikla reynslu af mannahaldi, gerð fjárhagsáætlana og stjórnun, en samkvæmt drögum að starfslýsingu sem lögð hafi verið fram af hálfu Sandgerðisbæjar sé stjórnun stór hluti starfsins. Sé starfslýsingin skoðuð þá hafi hún reynslu af flestu því sem þar er talið upp. Sá sem ráðinn var sé hins vegar að ljúka námi og hafi því litla sem enga starfsreynslu. Þegar horft sé til menntunar þeirra og starfsreynslu verði ekki annað séð en að kynferði hafi ráðið því að framhjá henni hafi verið gengið.

Í svari Sandgerðisbæjar kemur fram að allar umsóknir hafi verið kynntar á fundi íþrótta- og tómstundaráðs þann 29. janúar. Á fundi ráðsins hafi verið samþykkt að ræða við þrjá umsækjendur, tvo karla og eina konu. Það hafi verið gert og þann 14. febrúar hafi farið fram atkvæðagreiðsla um umsækjendur og konan hlotið flest atkvæði. Hún ásamt einum karlanna hafi hins vegar dregið umsókn sína til baka. Bæjarráð hafi þá rætt við þá umsækjendur sem voru hérlendis og á fundi ráðsins 26. mars hafi verið samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að B yrði ráðinn. Á fundi bæjarstjórnar 2. apríl hafi hann fengið flest atkvæði í leynilegri atkvæðagreiðslu og síðan verið ráðinn. Hafi verið mat bæjarstjórnar að B væri hæfastur þeirra umsækjenda sem eftir væru. Hann hafi verið ráðinn m.a. „vegna mikilla starfa hans í þágu bæjarfélagsins og jákvæðra afskipta almennt af bæjarlífi Sandgerðis“ eins og segir í bréfi Sandgerðisbæjar. Starfið felist að stærstum hluta í afskiptum af íþróttastarfsemi, undirbúningi íþrótta-, sund- og leikjanámskeiða, umsjón með vinnuskóla, skólagörðum og kofabyggðum. Einnig felist í starfinu ábyrgð á gerð fjárhagsáætlana. Engar hæfniskröfur hafi verið gerðar í auglýsingu en það hafi verið mat bæjarstjórnar að menntun og reynsla kæranda mundi ekki nýtast með sama hætti og B. Hann hafi mikla og margra ára reynslu af íþróttastarfsemi og stjórnarstörfum henni tengdri. Þá hafi hann sérstaka hæfileika til þess að umgangast fólk.

Í viðtali við kærunefnd lagði bæjarstjóri áherslu á að þær upplýsingar sem ekki komu fram í umsókn B hefðu fengist í viðtali við hann. Við ráðningu í störf kæmu ekki eingöngu til álita menntun og starfsreynsla, heldur og huglægt mat á umsækjendum. Framkoma þeirra hefði og mikið að segja. Bæjarstjóri lagði áherslu á að persónulegir eiginleikar B og menntun hans hefðu ráðið úrslitum.

Af hálfu Sandgerðisbæjar var á það bent að í litlu samfélagi eins og Sandgerði sem byggði afkomu sína aðallega á fiskvinnslu og fiskverkun reyndist háskólagengnu fólki oft erfitt að fá starf við sitt hæfi. Hafi því verið leitast við að nýta starfskrafta þeirra að öðrum skilyrðum uppfylltum til þess að fá meiri fjölbreytileika í bæjarfélagið. Nám og reynsla A nýtist mjög vel í starfi hennar sem leiðbeinandi í grunnskóla Sandgerðis og við sérkennslu.

Í svari Sandgerðisbæjar er lögð áhersla á að kynferði kæranda hafi engin áhrif haft á ráðninguna. Því til stuðnings er bent á að kona hafi fengið flest atkvæði hjá íþrótta- og tómstundaráði í upphafi og ástæður þess að hún hafi dregið umsókn sína til baka hafi ekki verið tengdar kynferði með nokkrum hætti heldur hafi þar verið um pólitísk átök að ræða. Þá hafi verið unnið markvisst að því hjá Sandgerðisbæ að jafna stöðu kynjanna innan bæjarfélagsins og reynt að stuðla að því að störf flokkuðust ekki í sérstök kvenna-og karlastörf, m.a. hafi verið komið á fót rannsóknastöð sem sérstöku átaki í atvinnumálum kvenna.

Af hálfu Sandgerðisbæjar er lögð áhersla á að í samsvarandi stöðum innan bæjarfélagsins starfi fleiri konur en karlar. Ennfremur er vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 431/1995 þar sem fram komi að jafnréttislögin skuli skýra þannig að konu skuli veita starf, ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin að því er varði menntun og annað sem máli skipti og karlmaður sem við hana keppi ef á starfssviðinu séu fáar konur. Svo sé ekki í þessu máli þar sem í samsvarandi stöðum innan Sandgerðisbæjar starfi fleiri konur en karlar.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að ráða einstakling af því kyni sem í minnihluta er í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Engar menntunarkröfur voru gerðar í auglýsingu. A hefur uppeldismenntun, sem kærunefnd telur að falli vel að umræddu starfi, B hins vegar háskólamenntun, sem vænta má að nýtist honum vel í starfinu. A hefur u.þ.b. 10 ára starfsreynslu frá því hún lauk námi, m.a. við stjórnun og sem æskulýðs- og tómstundafulltrúi, auk reynslu af ýmiss konar félagsstörfum. B hefur hins vegar unnið á sumrin einkum við fiskvinnslu og tvö sumur sem flokksstjóri við áhaldahús bæjarins. Þá hefur hann starfað að félagsmálum og verið virkur í íþróttastarfi. Að þessu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé marktækur munur á hæfni þeirra til að gegna starfinu.

Koma því til álita hlutföll kynja í sambærilegum störfum innan bæjarins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í málinu virðist sem hlutur kynjanna sé nokkuð jafn í þeim störfum sem sambærileg geta talist.

Með hliðsjón af því er að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf íþrótta- og tómstundafulltrúa hafi bæjarstjórn Sandgerðisbæjar ekki brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, 1. nr 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta