Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 484/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 484/2023

Miðvikudaginn 29. nóvember 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru 6. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. júlí 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með ræfrænni umsókn 14. júní 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. júlí 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. október 2023. Með bréfi, dags. 12. október 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. október 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. október 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Enginn rökstuðningur fylgdi kæru en meðfylgjandi henni var ákvörðun Tryggingstofnunar ríkisins, dags. 6. júlí 2023, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri, dags. 6. júlí 2023, á þeim grundvelli að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og hafi kæranda verið vísað á lög og reglur um endurhæfingarlífeyri.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Í 35. gr. laga um almannatryggingar segi að greiðslur, sem ætlaðar séu greiðsluþega sjálfum, séu ekki greiddar ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkubætur þann 24. nóvember 2022, í kjölfarið hafi Tryggingastofnun óskað eftir frekari gögnum með bréfi, dags. 24. nóvember 2022, og hafi kærandi sent inn þjónustulokaskýrslu frá VIRK, dags. 2. nóvember 2022. Kærandi hafi sótt aftur um örorkulífeyri, dags. 9. mars 2023. Með umsókninni hafi fylgt spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 10. mars 2023, og þjónustulokaskýrsla VIRK. Með bréfi, dags. 14. mars 2023, hafi verið óskað eftir læknisvottorði og staðfestingu frá lífeyrissjóði, eingöngu hafi borist gögn frá lífeyrissjóði. Þann 14. júní 2023 hafi kærandi sótt um örorkulífeyrisgreiðslur og með henni hafi fylgt læknisvottorð, dags. 14. júní 2023. Þann 6. júlí 2023 hafi kæranda verið synjað um örorku á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Við mat á örorku sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Með umsóknum hafi borist læknisvottorð, dags. 14. júní 2023, þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 2. nóvember 2022, og spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 10. mars 2023.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 15. júní 2023, og þjónustulokaskýrslu VIRK.

Í spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 10. mars 2023, hafi kærandi skrifað í stuttri lýsingu á heilsuvanda að hann sé með ADHD, OCD, tourettes, einhverfu, þunglyndi og kvíða. Í einstaka þáttum færniskerðingar hafi kærandi svarað liðum 1-9 að hann eigi ekki í erfiðleikum með þá þætti. Kærandi segi að sjónin bagi hann en hann þekki ekki kunningja hinum megin við götu. Þá sé hann með málþroskaröskun. Kærandi hafi svarað í liðum 12-15 að hann eigi ekki í erfiðleikum með þá þætti. Við lið 15, sem fjallar um geðræn vandamál, hafi kærandi skrifað eftirfarandi:

„Get ekki svarað í síma og ábyrgst skilaboð. Svefnvandamál hafa áhrif á dagleg störf. Finnst oft að svo margt þurfi að gera að það leiðir til uppgjafar vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Geðræn vandamál valda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra.“

Kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri, dags. 6. júlí 2023, með vísun til þess að Tryggingastofnun væri heimilt samkvæmt 35. gr. laga um almannatryggingar að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Talið hafi verið að samkvæmt gögnum málsins hafi ekki verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi hafi lokið 24 mánuðum á endurhæfingarlífeyri, en heimilt væri að klára 60 mánuði. Í bréfinu hafi verið bent á 35. gr. laga um almannatryggingar og að greiðslur yrðu ekki greiddar ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

Tryggingastofnun ítreki að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem kærandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fá stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Með kæru hafi fylgt eldri gögn frá árinu 2002 og gagn frá VIRK, en ekki verði talið að þau breyti ákvörðun Tryggingastofnunar.

Í ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið vísað til 35. gr. laga um almannatryggingar þar sem komi fram sú skylda bótaþega að fara að læknisráðum. Þar segi að bætur greiðist ekki ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem gæti bætt afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf. Í ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið vísað til þjónustuferils kæranda hjá ráðgjafa VIRK, sem skráður hafi verið 2. nóvember 2022. Í skýrslu VIRK hafi meðal annars eftirfarandi komið fram:

„Ýmis úrræði stóðu A til boða í Janus, meðferðar og virknihópar þar sem unnið var með heilsu, virkni, andlega líðan og námsaðstoð. Mætingar þar voru rúm 50%. Fylgja átti A eftir á vorönn 2022 í [námi] í Tækniskólanum með sálfræðiviðtölum, félags/fjárhagsráðgjöf og aðstoð við atvinnuleit með útskrift til vinnu um vorið. A afþakkaði sálfræðiviðtöl framan af og mætingar ekki góðar til ráðgjafa og í úrræði. Ákveðið að leggja áherslu á aðstoð við atvinnuleit en A mætti aldrei til atvinnulífstengils þrátt fyrir ítrekuð boð.“

Í lok upplýsinga um þjónustuferil kæranda komi fram að þótt starfshæfing á vegum VIRK hafi verið lokið sé bent á að hann hafi þörf fyrir áframhaldandi þjónustu:

„Ljóst er að A hefur ekki náð að nýta sér úrræði í starfsendurhæfingu og skv. mati læknis VIRK ekki raunhæft að stefna á almennan vinnumarkað. Mælt með áframhaldandi þjónustu heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu til stuðnings. Íhuga beri geðheilsuteymi.“

Það sé því mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði um örorkumat hjá stofnuninni að svo stöddu, þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda til þess að auka við starfshæfni. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun það vera í fullu samræmi við gögn málsins að synja um örorkumat í tilviki kæranda að svo stöddu.

Í því sambandi skuli þó áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingstofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Af öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða mats Tryggingastofnunar að endurhæfing kæranda hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt því mati uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum sé í þessum skilningi átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að hafna umsókn kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu, sé rétt, miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum. Ásamt fyrri sambærilegum fordæmum fyrir úrskurðarnefndinni þar sem staðfest hafi verið að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar frá 6. júlí 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. júlí 2023 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 14. júní 2023. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„KVÍÐI

DISTURBANCE OF ACTIVITY AND ATTENTION“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„A er X ára maður með brotna náms og starfssögu. Athyglisbrestur og sennilega e.k. einhverfa, erfiðar uppeldisaðstæður, enginn stuðningur úr fjölskyldu […]. Á vini og er e-ð að stússa í […]en frekar félagsfælinn og mikið einn og kvíðinn og sennilega talsverð forðun í gangi og e.k. sinnuleysi. Engin neysla.

Hann hefur verið á framfærslu fél.þjónustunnar og fór á þeirra vegum í gegnum Karlasmiðjuna f. nokkrum árum með ágætum árangri og náði að hefja nám í Tækniskólanum grunndeildum og klára þar [nám] en ekki starfsnám sem átti að taka við en ekki komist í að fá þannig stöðu og ég er ekki viss hvort það er v. ástands hans eða umhverfis í þeim bransa. Var í Virk frá sept 2020 til nóv 2022 og fór þar í Janus en gekk ekki vel að virkja hann og mæting var um 50% í alls konar úrræði sem honum stóð til boða. Hefur síðan þá verið á framfærslu félagsþjónustu og kemur í dag og biður um vottorð til örorku og finnst hann ekki maður í vinnumarkað.

Mér finnst að það sem hafi hamlað A sé vanvirkni og ákveðinn kvíði og sinnuleysi og sennilega einhverfa. Líðan betri en oft áður því kominn í betra húsnæði á vegum féló (var að leigja áður e-ð kjallaraherbergi með silfurskottum) og það aukið lífsgæði hans. Segir að sig hafi langað að fara í starfsnám en það ekki virst vera pláss fyrir hann. Fer í bíó og hittir e-a vini nokkrum sinnum í mánuði. Engin kærasta.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Lítur betur út en oft áður, hressilegri en eins og áður ákveðinn kvíði.“

Í vottorðinu segir að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í athugasemdum segir:

„Var í Virk í rúml. 2 ár og gekk lítið þrátt f. að um tíma gekk vel þegar var í námi sem virtist geta sinnt og haft áhuga á. Er með sögu um mikla vanrækslu í æsku og segir mér að í Janusi hafi verið haft uppá gömlum gögnum sem sýndu greiningu um einhverfu og adhd og jafnvel ptsd

Móðir C og býr í D og sendi A […] fyrir mörgum árum og hann verið ansi umkomulaus. Faðir E og var alkóhólisti og dó þegar hann var X ára og hann hefur ekki verið í neinu sambandi við fjölsk. föður. Talaði ekki við móður í mörg ár því fannst hún hafa yfirgefið sig en er núna að tala við hana og það ákveðinn léttir líka.“

Í viðbótarupplýsingum segir:

„X ára maður sem hefur ekki náð að fóta sig í lífinu og ekki komist í vinnu og sennilega ólíklegt að það gerist hvort sem fengi frekari endurhæfingu eða ekki en prófaði í daga að senda beiðni á geðteymi vestur en þar reyndar löng bið og hef ekki endilega trú á að meðferð þar komi honum til vinnu en gæti bætt líðan og virkni.“

Einnig liggja fyrir læknisvottorð B vegna eldri umsókna kæranda um endurhæfingarlífeyri, læknabréf F, dags. 27. september 2002, þar sem greint er frá sjúkdómsgreiningunum skilningsmálsröskun, aðrar svaranir við mikilli streitu og afhömluð tengslaröskun í bernsku.

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 8. nóvember 2022, kemur fram að meginástæður óvinnufærni séu ótilgreind kvíðaröskun og truflun á virkni og athygli. Um þjónustuferil hjá ráðgjafa segir:

„A hefur verið í þjónustu VIRK síðan september 2020. A fór í Janus starfsendurhæfingu í janúar 2021 fram til febrúar 2022. Ýmis úrræði stóðu A til boða í Janus, meðferðar og virknihópar þar sem unnið var með heilsu, virkni, andlega líðan og námsaðstoð. Mætingar þar voru rúm 50%. Fylgja átti A eftir á vorönn 2022 í [námi] í Tækniskólanum með sálfræðiviðtölum, félags/fjárhagsráðgjöf og aðstoð við atvinnuleit með útskrift til vinnu um vorið. A afþakkaði sálfræðiviðtöl framan af og mætingar ekki góðar til ráðgjafa og í úrræði. Ákveðið að leggja áherslu á aðstoð við atvinnuleit en A mætti aldrei til atvinnulífstengils þrátt fyrir ítrekuð boð. Ljóst er að A hefur ekki náð að nýta sér úrræði í starfsendurhæfingu og skv. mati læknis VIRK ekki raunhæft að stefna á almennan vinnumarkað. Mælt með áframhaldandi þjónustu heiibrigðiskerfisins og félagsþjónustu til stuðnings. Íhuga beri geðheilsuteymi. - Skráð: 02.11.2022“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi „ADHD“, „OCD“, Tourettes, einhverfu, þunglyndi og kvíða. Af svörum kæranda verður ráðið að sjón hans sé ekki góð og að hann sé með málþroskaröskun. Kærandi greinir frá því að hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða og greinir frá því að hann geti ekki svarað í síma og ábyrgst skilaboð, svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf hans, honum finnst oft svo margt að gera að það leiði til uppgjafar vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Auk þess greinir kærandi frá því að geðræn vandamál valdi honum erfiðleikum í tjáskiptum við aðra.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda bent á reglur um endurhæfingarlífeyri.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum toga. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur verið í starfsendurhæfingu. Í læknisvottorði B, dags. 14. júní 2023 kemur fram að kærandi sé vanvirkur með ákveðinn kvíða og sinnuleysi og sennilega einhverfu. Þá segir einnig að kærandi muni ekki komast á almennan vinnumarkað og mælt var með áframhaldandi þjónustu heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu. Í framangreindri þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 2. nóvember 2022, kemur fram að starfsendurhæfing sé fullreynd hjá VIRK og mælt var með þjónustu heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu og íhuga beri aðkomu geðheilsuteymis.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé fullreynd að sinni en ekki verður dregin sú ályktun af þjónustulokaskýrslunni að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá telur úrskurðarnefndin að hvorki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram komi í læknisvottorðum B né eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 24 mánuði en heimilt var að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. júlí 2022, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta