Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 214/2020- Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 214/2020

Fimmtudaginn 27. ágúst 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. janúar 2020, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 20. september 2020 og var umsókn hans samþykkt. Í byrjun desember 2020 var ferilskrá kæranda send til fyrirtækis sem hafði auglýst eftir starfsmanni. Vinnumálastofnun barst í kjölfarið upplýsingar um að fyrirtækið hefði ítrekað reynt að boða kæranda í atvinnuviðtal en hann hefði ekki svarað símtölum. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. janúar 2020, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með bréfi, dags. 28. janúar 2020, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Með erindi 25. febrúar 2020 fór kærandi fram á endurskoðun ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. mars 2020, var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju og fyrri ákvörðun staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. apríl 2020. Með bréfi, dags. 30. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. júní 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari gögn bárust frá kæranda 30. júní 2020.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið með lögheimili hjá móður sinni á B þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur en verið í Reykjavík þar sem hann hafi ætlað að koma sér fyrir og fá vinnu. Fljótlega hafi tiltekinn starfsmaður hjá Vinnumálastofnun á C haft samband við kæranda og hann upplýst um stöðu mála og einnig tilkynnt að hann væri ekki með bílpróf. Það hafi verið ákveðið að bíða með að flytja kæranda í kerfi Vinnumálastofnunar í Reykjavík og sjá hvernig mál þróuðust. Um miðjan nóvember 2019 hafi kærandi rætt við sama starfsmann og þá verið kominn með lögheimili á C hjá móður sinni en enn verið í Reykjavík. Kærandi hafi tilkynnt starfsmanninum að hann væri á leið austur á C á næstu vikum og ætli að vera þar. Í byrjun desember 2019 hafi kærandi haft samband við starfsmanninn og tilkynnt að hann væri mættur á C og að hann yrði þar áfram. Þann 9. desember 2019 hafi starfsmaðurinn sent, án hans vitundar, ferilskrá til D á B. Sama dag hafi kærandi fengið tvö símtöl og eitt símtal 11. desember frá númeri sem sé skráð á kærustu framkvæmdastjóra D. Kærandi hafi misst af símtölunum og ekki hringt til baka. Þann 12. desember 2019 hafi sami starfsmaður fært kæranda í kerfinu til Reykjavíkur, án hans beiðni eða vitundar. Þá hafi kærandi verið á C og sé enn.

Kærandi tekur fram að hann hafi ekki haft hugmynd um að þetta væri atvinnuviðtal eða boðun í atvinnuviðtal, enda hafi hann ekki haft neinar upplýsingar um það. Hann hafi ekki fengið nein skilaboð, tölvupóst eða upplýsingar í samskiptakerfi Vinnumálastofnunar. Eingöngu ósvöruð símtöl sem hefðu getað verið um hvað sem er og því sé ekki hægt að segja að kærandi hafi verið boðaður í viðtal með sannanlegum hætti. Þar fyrir utan sé kærandi ekki með bílpróf og sé búsettur á C. Það sé skrýtið að ferilskrá hans sé send til fyrirtækis á B en þangað séu tæpir 100 km aðra leið frá C. Einnig ætti að taka tillit til heimilisaðstæðna kæranda sem og félagslegra aðstæðna sem Vinnumálastofnun hafi heimild til að gera samkvæmt 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun komi einnig fram að kærandi hafi ekki svarað símtölum Vinnumálastofnunar en það sé ekki rétt. Kærandi hafi svarað öllum símtölum sem hafi borist og mætt í viðtal. Hugsanlega hafi verið hringt þegar slökkt hafi verið á símanum en hann hafi ekki séð ósvarað símtal frá stofnuninni.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að tjá honum strax hvernig stofnunin ætli að koma upplýsingum til hans. Það hafi stofnunin gert með bréfi, dags. 7. október 2019, þegar umsókn hans hafi verið samþykkt. Þar segi orðrétt: „Vinnumálastofnun mun framvegis koma skilaboðum áleiðis til þín á ,,mínum síðum", tölvupósti eða með smáskilaboðum. Skilaboð munu einnig berast með bréfpósti hafir þú óskað eftir því.“ Þar sé ekkert minnst á símtöl og því skyldi ætla að ekki sé refsivert að svara ekki símtölum frá Vinnumálastofnun sem hann hafi þó alltaf gert. Að mati kæranda beri starfsmaður Vinnumálastofnunar ábyrgð á þessu rugli og því fari hann fram á að ákvörðun um biðtíma verði afturkölluð á grundvelli framangreindra málsatvika. Þá fari kærandi fram á að fá biðtímann greiddan með vöxtum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en 1. mgr. 57. gr. laganna eigi jafnt við um þann sem hafni starfi sem og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann sinni ekki ítrekuðum símtölum líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006. Þá komi fram í þeim skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki að viðkomandi hafi verið upplýstur um að honum sé skylt að mæta í þau viðtöl, þá fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði hann til og það sé gert með tölvupósti, sms sendingum eða tilkynningum á „Mínum síðum“. Umsækjandi sé því upplýstur um að honum sé skylt að láta vita af öllum breytingum, svo sem breyttu heimilisfangi, símanúmeri og netfangi. Óumdeilt sé að kæranda hafi borist símtöl frá atvinnurekanda og ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem hann hafi hvorki svarað né haft samband vegna. Að einstaklingur sinni símtölum sem honum berist vegna þeirra starfa sem honum sé miðlað í sé forsenda þess að einstaklingur geti sinnt atvinnuviðtali og tekið starfi.

Í [4.] mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á atvinnuviðtali. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Þá sé heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Stofnunin líti svo á að þær skýringar sem kærandi færi fram í skýringum sínum teljist ekki gildar í skilningi [4.] mgr. 57. gr. laganna. Vinnumálastofnun telji að kærandi hafi með framferði sínu hafnað starfsviðtali, sem hann hafi verið boðaður til, í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 og beri að sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í fyrirliggjandi samskiptasögu er að finna tilkynningu frá tölvukerfi Vinnumálastofnunar um að ferilskrá kæranda hafi verið send til D. þann 9. desember 2019. Þremur dögum síðar, eða 12. desember 2019, er skráð í samskiptasöguna að kærandi svari ekki ítrekuðum tilraunum frá tilteknum einstaklingi á vegum fyrirtækisins til þess að kalla hann í atvinnuviðtal og greint er frá símanúmeri starfsmannsins. Þá svaraði hann ekki heldur símhringingum frá Vinnumálastofnun. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði. Stofnunin hefur vísað til þess að það sé óumdeilt að kæranda hafi borist símtöl frá atvinnurekanda og ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem hann hafi hvorki svarað né haft samband til baka. Að einstaklingur sinni símtölum sem honum berist vegna þeirra starfa sem honum sé miðlað í sé forsenda þess að einstaklingur geti sinnt atvinnuviðtali og tekið starfi.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi ekki haft vitneskju um að símtöl til hans hafi verið boðun í atvinnuviðtal, enda hafi hann ekki haft neinar upplýsingar um það. Kærandi hafi ekki fengið nein skilaboð, tölvupóst eða upplýsingar í samskiptakerfi Vinnumálastofnunar. Eingöngu ósvöruð símtöl sem hefðu getað verið um hvað sem er og því sé ekki hægt að segja að kærandi hafi verið boðaður í viðtal með sannanlegum hætti.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi hafnað starfi eða atvinnuviðtali með sannanlegum hætti, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Engin slík gögn liggja fyrir í málinu sem sýna fram á að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali hjá fyrirtækinu D Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. janúar 2020, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta