Mál nr. 397/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 397/2021
Miðvikudaginn 13. október 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 6. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. apríl 2021, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 14. apríl 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. apríl 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2021, samþykkti stofnunin umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri frá 1. júní 2021 til 31. ágúst 2021 og var honum tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 19. maí 2021.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Ýmis gögn bárust frá kæranda 13., 16. og 26. ágúst 2021
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að þegar endurhæfingu hafi lokið í annað skiptið hjá VIRK þann 15. október 2020 hafi Tryggingastofnun ríkisins ítrekað hafnað örorku og hunsað öll gögn. Kærandi hafi óskað eftir áframhaldandi endurhæfingu hjá VIRK, enda hafi það verið mat Tryggingastofnunar að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Vitnað hafi verið í gögn læknis VIRK um að endurhæfing teldist fullreynd og að örorka væri næsta skref.
Með aðgerðarleysi og óábyrgum svörum Tryggingastofnunar hafi stofnunin valdið meiri streitu, ótta, hræðslu, þunglyndi, efasemdum og reiði hjá kæranda.
Kærandi hafi verið án framfærslu í átta mánuði vegna þess að Tryggingastofnun hafi hunsað hann, þrátt fyrir ítrekaða pósta og símtöl. Fyrrverandi heimilislæknir kæranda hafi reynt að sækja um örorku og endurhæfingu en hafi svo gefist upp. Þökk sé nýjum heimilislækni hafi kærandi fengið framfærslu þar sem Tryggingastofnun hafi samþykkt endurhæfingu. Það sé merkilegt að svo virðist sem Tryggingastofnun hafi gert þetta viljandi, ef stofnunin hefði samþykkt örorku hefði hann fengið þessa átta mánuði greidda í framfærslu.
Lífeyrissjóðir hafi samþykkt örorku kæranda strax og greiðslur hafi byrjað að berast. Farið sé fram á að þessir átta mánuðir verði greiddir af Tryggingastofnun og þeir mánuðir sem engin framfærsla hafi verið á milli fyrstu og annarrar endurhæfingar hjá VIRK. Farið sé fram á að gögn verði samþykkt af Tryggingastofnun og að kærandi verði samþykktur sem öryrki. Samkvæmt sálfræðingi kæranda sé svona óvissa mjög slæm fyrir heilsu hans. Kærandi megi ekki við meiri baráttu eftir þau áföll sem hafi dunið á honum og þá skapbresti sem þau hafi valdið. Afsökunarbeiðni væri einnig vel þegin.
III. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. apríl 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins liðu um þrír og hálfur mánuður frá dagsetningu kærðrar ákvörðunar 23. apríl 2021 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. ágúst 2021. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 23. apríl 2021 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. ágúst 2021, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Þann 13., 16. og 26. ágúst 2021 lagði kærandi fram ýmis gögn er vörðuðu samþykki Tryggingastofnunar á umsókn hans um endurhæfingarlífeyri, dags. 9. júlí 2021, og bréf stofnunarinnar, dags. 24. ágúst 2021, í tengslum við nýja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir