Hoppa yfir valmynd

Nr. 115/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 115/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020012

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 23. janúar 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 11. október 2019, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Albaníu um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 27. janúar 2020. Þann 3. febrúar s.á. barst beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Jafnframt var óskað eftir frestun réttaráhrifa. Tekin verður afstaða til þeirrar beiðni í sérstökum úrskurði. Þann 10. febrúar 2020 barst kærunefnd greinargerð frá kæranda.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá er beiðni kæranda um endurupptöku byggð á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við töku ákvarðana um að synja kæranda um efnislega meðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hvorki fylgt ákvæðum laga um útlendinga nr. 80/2016 né ákvæðum stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. síðarnefndra laga.

Í greinargerð eru málsatvik kæranda rakin. Í ljósi málsatvika ítrekar kærandi kröfu um að henni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda sæti hún ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hennar séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda þar í landi. Til vara gerir kærandi kröfu um að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og til þrautavara að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 23. janúar 2020 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 27. janúar 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur engin ný gögn lagt fram til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku og byggir kærandi beiðni um endurupptöku á máli sínu á sömu málsatvikum og málsástæðum sem hún byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd. Eins og áður segir tók kærunefnd afstöðu til þeirra málsástæðna í úrskurði kveðnum upp 23. janúar sl. Þá er í greinargerð kæranda hvorki fjallað sérstaklega um það að hvaða leyti úrskurður kærunefndar er byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né rökstutt að hvaða leyti ákvæði stjórnsýslulaga við meðferð kærumáls hennar hafi verið brotin.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 23. janúar 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                         Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta