Hoppa yfir valmynd

Nr. 371/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 371/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20090033

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. september 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. september 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals með vísan til 75. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands árið 2017 á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Kærandi yfirgaf landið og fór til heimaríkis árið 2018 og hið sama ár kom hann aftur til landsins. Þann 9. október 2019 sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 2. janúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 25. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. apríl 2020. Þann 18. júní 2020 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi með úrskurði kærunefndar útlendingamála og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Með ákvörðun, dags. 3. september 2020, synjaði Útlendingastofnun öðru sinni kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kæruefndar þann 22. september 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 2. október 2020. Þá bárust viðbótargögn þann 28. og 29. október 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna skuldar sinnar við tvo aðila í heimaríki sínu og vegna þjóðernis síns.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga og um dvalarleyfi vegna mansals eða gruns þar um skv. 75. gr. laganna. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Með vísan til 5. mgr. 106. gr. laga um útlendinga var ekki beitt frávísun í máli kæranda enda hafi mál hans hafist að eigin frumkvæði rúmum tveimur árum eftir að kærandi kom til landsins og skilyrði frávísunar því ekki fyrir hendi í máli hans. Kæranda var veittur 30 dagar frestur til að yfirgefa landið, sbr. 3. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda, dags. 2. október 2020, er vísað til greinargerða kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2020 og til kærunefndar útlendingamála, dags 12. maí 2020, í tengslum við kröfur kæranda, málsástæður og lagarök þeim til stuðnings.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar útlendingamála, dags. 12. maí 2020, er vísað til frásagnar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 2. janúar 2020, þar sem kærandi hafi greint frá því að hann sé fæddur og uppalinn í [...] nálægt [...] í Pakistan og að foreldrar hans, eiginkona og börn séu búsett þar. Kærandi hafi flust til Dubai árið 2005 eða 2006 og verið búsettur þar til ársins 2017. Þá hafi hann komið hingað til lands á grundvelli atvinnuleyfis sem hafi verið útvegað af atvinnurekanda hans hér á landi. Atvinnurekandi kæranda hafi óskað eftir því að kærandi myndi útvega þrjá starfsmenn til viðbótar og tjáð honum að umrædd atvinnuleyfi myndu kosta 7.500 evrur hvert. Kærandi hafi þá haft samband við bróður sinn og tvo einstaklinga frá Pakistan sem hafi verið búsettir þar og hafi þeir ásamt kæranda greitt atvinnurekanda kæranda um 1,5 milljón íslenskra króna fyrir atvinnuleyfin. Eftir um átta mánuði í starfi hafi kærandi verið sendur í þvingað leyfi til heimaríkis og á þeim tíma hafi atvinnurekandi kæranda haft samband við hann og tjáð honum að atvinnuleyfi hans hafi verið afturkallað og að hann þyrfti ekki að snúa aftur til Íslands.

Kærandi kvaðst hafa komið aftur hingað til lands sökum þess að hann væri í hættu í heimaríki vegna skuldar sinnar við fyrrgreinda aðila sem hafi ekki fengið atvinnuleyfin sem þeir hafi greitt fyrir. Hann hafi komið til landsins í þeim tilgangi að fá greidda fjármunina til baka svo hann gæti endurgreitt skuldina. Kærandi hafi greint frá því að fólk sem endurgreiði ekki lánaða fjármuni lendi í miklum vandræðum í heimaríki hans. Fyrrgreindir aðilar, að undanskildum bróður kæranda, hafi farið á heimili eiginkonu kæranda og krafist endurgreiðslu fjármuna sinna með hótunum og hafi hún í kjölfarið lagt inn kvörtun til lögreglu vegna þess. Kærandi kvaðst óttast öryggi sitt og fjölskyldu sinnar vegna hótana tilgreindra aðila. Þá hafi kærandi greint frá því að mikil spilling ríki í heimaríki hans.

Kærandi hafi greint frá því að hann tilheyri þjóðernishópi Pastúna sem sé í minnihluta í Pakistan. Þá séu svokölluð Pastúna-hverfi í Pakistan skotmörk yfirvalda og hafi forsætisráðherra landsins sagst vilja losna við einstaklinga sem tilheyri þjóðernishópi Pastúna í þeim tilgangi að byggja upp hverfin sem þeir séu búsettir í. Sú staðreynd að kærandi tilheyri þjóðernishópi Pastúna minnki líkur hans til að fá fullnægjandi vernd frá pakistönskum yfirvöldum. Þá séu miklar óeirðir í heimabæ hans.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði ákvæðisins þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann muni eiga á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki vegna fjárskuldar hans við tilgreinda menn þar. Kærandi óttist um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar auk þess sem hann óttist að vera myrtur í heimaríki vegna þess. Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki séu erfiðar með vísan til þeirra vandamála sem hann standi frammi fyrir vegna fyrrgreindrar skuldar hans. Þar sem kærandi tilheyri þjóðernishópi Pastúna sé hann í verri stöðu en aðrir samborgarar hans og hafi ekki möguleika á vernd gegn ofsóknaraðilum sínum. Þá skuli litið til þeirra atvika sem kærandi hefur orðið fyrir hér á landi í tengslum við fyrirheit fyrrum atvinnurekanda hans um atvinnuleyfi.

Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu kæranda er sú krafa gerð til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi þar sem grunur leiki á að hann sé fórnarlamb mansals, sbr. 1. mgr. 75. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði ákvæðisins fyrir dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi komið hingað til lands fyrir tilstuðlan atvinnurekanda hér á landi sem hafi svikið hann um háar fjárhæðir og sé mál hans til rannsóknar hjá lögreglu. Þá kemur fram að fjallað hafi verið um mál kæranda í fjölmiðlum hér á landi. Jafnframt vísar kærandi til 14. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og Palermó samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og mansalsbókun við samninginn.

Í greinargerð kæranda, dags. 12. maí 2020, eru gerðar nokkrar athugasemdir við fyrri ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. mars 2020. Kærandi áréttar að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá því að fjölskyldu hans hafi borist hótanir af hálfu tiltekinna manna. Einnig gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á því að hann eigi möguleika á að óska eftir vernd lögregluyfirvalda í heimaríki og telur að rannsóknarskylda stofnunarinnar hafi ekki verið uppfyllt í málinu. Þá gerir kærandi athugasemd við staðhæfingu Útlendingastofnunar um að kærandi hafi ekki lýst mismunun, áreiti eða ofsóknum á hendur sér á grundvelli þjóðernis síns. Kærandi áréttar að hann hafi greint frá því í viðtali að hann fái minni aðstoð yfirvalda sökum þess að hann tilheyri minnihlutahópi. Að auki telur kærandi að ekki hafi farið fram fullnægjandi heildarmat á stöðu kæranda í Pakistan.

Kærandi gerir viðbótarathugasemdir í greinargerð sinni, dags. 2. október 2020, við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi telur rétt að litið verði til þess hvaða áhrif Covid-19 veiran og það ástand sem hún hefur skapað hefur á stöðu kæranda í heimaríki hans. Kærandi vísar þá til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. september 2020, komi fram að stofnunin hafi þann 11. júní 2020 að beiðni kærunefndar, haft samband við lögregluna á Suðurnesjum og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins vegnar meintrar stöðu kæranda sem hugsanlegt fórnarlamb mansals. Lögreglan hafi veitt þau svör að ekkert mál væri til rannsóknar hjá þeim þar sem kærandi væri hugsanlegt fórnarlamb mansals. Kærandi vísar í því sambandi m.a. til þess að það sé ekki skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis skv. 75. gr. laga um útlendinga að lögreglu sé kunnugt um mál umsækjanda eða telji ástæðu til að hefja sérstaka rannsókn á því. Einnig geti það talist nauðsynlegt til að upplýsa mál nægilega vel áður en ákvörðun sé tekin í því að leita umsagnar annarra aðila sem hafa komið að máli fórnarlambsins. Ljóst sé að frekari rannsókn hafi ekki farið fram hjá stofnuninni eftir að svör frá lögreglunni á Suðurnesjum og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins bárust henni, þrátt fyrir að veiting dvalarleyfis á grundvelli ákvæðisins sé óháð því hvort lögreglurannsókn fari fram. Þá hafi stofnunin ekki leitað umsagnar annarra aðila í tengslum við mál kæranda né hafi honum verið boðið að mæta til viðtals vegna rannsóknar á kröfunni. Þrátt fyrir ítrekun kærunefndar í úrskurði sínum um framangreint hafi ekki farið fram fullnægjandi rannsókn í tengslum við fyrrgreinda kröfu um dvalarleyfi skv. 75. gr. laga um útlendinga að mati kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað pakistönsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Security and humanitarian situation, including fear of militant groups (UK Home Office, janúar 2019);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2020);
  • DFAT Country Information Report. Pakistan. (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 20. febrúar 2019);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, október 2019);
  • Freedom in the World 2020 – Pakistan (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Khyber Paktunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2018 (FATA Research Centre, 15. janúar 2019);
  • Khyber Paktunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2019 (FATA Research Centre, 13. janúar 2020);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan 2018 International Religious Freedom Report (United States Department of State, 21. júní 2019);
  • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
  • State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);
  • State of Human Rights in 2019 (Human Rights Commission of Pakistan, 30. apríl 2020);
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, 15. september 2020);
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/);
  • Vefsíða lögreglu í Khyber Pakhtunkhwa (http://kppolice.gov.pk/index.php);
  • Vefsíða: Provincial Ombudsman Khyber Pakhtunkhwa (https://www.ombudsmankp.gov.pk/);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Pakistan: Pathans (Minority Rights Group International, júní 2018) og
  • World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með rúmlega 233 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í heimahéraði kæranda, Khyber Pakthunkwa, sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda. Þá kemur fram að í héraðinu sé starfandi umboðsmaður (e. Provincial Ombudsman Khyber Pakhtunkhwa) sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga beri gögn með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í skýrslu stofnunar sem veitir ráðgjöf varðandi flóttafólk (e. Asylum Research Consultancy) kemur fram að öryggisástand í Pakistan sé breytilegt eftir landshlutum. Mikið hafi borið á hernaðaraðgerðum í héraðinu Khyber Pakhtunkhwa en ofbeldi þar hafi þó farið minnkandi milli ára. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá janúar 2019 kemur fram að her og öryggissveitir pakistanska ríkisins séu með yfirráð yfir nærri öllum landssvæðum. Flest dauðsföll þar komi til vegna átaka milli uppreisnarhópa og hersveita. Almennt sé ólíklegt að óbreyttir borgarar eigi á hættu að verða fyrir skaða af völdum hernaðar einungis fyrir þær sakir að vera staðsettir á átakasvæðum.

Samkvæmt skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins frá febrúar 2019 sé Pakistan fjölþjóðlegt og fjöltyngt samfélag. Meirihluti þjóðarinnar, eða um 45%, tilheyri Punjab þjóðernishópnum og tali Punjabi. Pastún þjóðernishópurinn sé næststærstur og telji u.þ.b. 15% þjóðarinnar og tali Pastó. Þá sé Úrdú opinbert tungumál landsins. Venju samkvæmt búi Pastúnar meðal þeirra eigin ættbálka í Khyber Pakhhunkhwa héraði en þeir hafi í miklum mæli flust til Karachi, Islamabad, Lahore og Peshawar undanfarna áratugi. Í umræddum borgum hafi Pastúnar tilkynnt um áreiti af hálfu opinbera starfsmanna og mismunun á grundvelli kynþáttar, t.a.m. handtökur vegna ætlaðra tengsla við hryðjuverkasamtök, sem megi m.a. rekja til þess að meirihluti fylgjenda hryðjuverkasamtakanna Tehreek-e Taliban Pakistan (TTP) séu Pastúnar. Í ljósi þess kjósi Pastúnar, sem flytji búferlum innan Pakistan, að setjast að á svæðum þar sem þeir séu í meirihluta og hafi fjölskyldutengsl, þá sérstaklega í héruðunum Khyber Pakhtunkhwa eða Sindh. Þá hafi þjóðfélagshreyfingin Pashtun Tahafuz Movement (PTM) haldið því fram að öryggissveitir yfirvalda hafi gerst sekar um margvísleg mannréttindabrot gegn Pastún þjóðernishópnum, þ.m.t. þvinguð mannrán og ólögmætar aftökur. Til að mótmæla framangreindu og krefjast betri réttinda Pastúna hafi hreyfingin efnt til útbreiddra mótmæla í apríl 2018. Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu búi Pastúnar við meðalhættu á opinberri mismunun í formi hryðjuverka eða kynþáttahaturs af hálfu öryggissveita á svæðum þar sem Pastúnar séu í minnihluta, t.a.m. í Punjab. Pastúnar sem séu búsettir á svæðum þar sem Pastúnar séu í meirihluta eða á stöðum þar sem þeir hafi góð fjölskyldu og félagsleg tengsl standi frammi fyrir minniháttar hættu á opinberri mismunun. Stjórnarskrá Pakistan kveði á um að vernda skuli minnihlutahópa gagnvart mismunun og að lög landsins skuli miða að því að vernda réttindi og hag þeirra í landinu og að fulltrúi minnihlutahópa sé við stjórn í hverju fylki. Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 að lögreglustöðvar í Pakistan séu að vinna að þróun og nútímavæðingu þegar komi að vernd mannréttinda, m.a. með aukinni þjálfun starfsmanna. Þá komi fram að til staðar sé vilji og geta hjá yfirvöldum tiltekinna héraða í Pakistan til að vernda minnihlutahópa fyrir mismunun og spillingu í landinu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Samkvæmt viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun þann 2. janúar 2020 og greinargerð til kærunefndar, dags. 12. maí 2020, er umsókn kæranda um alþjóðlega vernd byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann óttist öryggi sitt og fjölskyldu sinnar vegna fjárskuldar. Þá byggir kærandi á því að hann njóti minni verndar yfirvalda en samborgarar hans sökum þess að hann tilheyri þjóðernishópi Pastúna. Auk þess byggir kærandi á því að öryggisástandið í Pakistan sé ótryggt.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi greitt atvinnurekanda hér á landi tiltekna fjárhæð fyrir atvinnuleyfi hérlendis fyrir sig og f.h. þriggja annarra einstaklinga. Fyrrgreindir aðilar hafi ekki fengið útgefin sín atvinnuleyfi þrátt fyrir að kærandi hafi innt af hendi greiðslu í þeim tilgangi. Kærandi hafi komið aftur hingað til lands í þeirri von um að fá fjármunina greidda til baka og einnig vegna ótta við fyrrgreinda aðila í heimaríki sem hann standi í skuld við. Við úrlausn málsins hjá Útlendingastofnun var frásögn kæranda talin trúverðug og lögð til grundvallar. Frásögn kæranda hefur verið stöðug og telur kærunefnd ekkert hafa komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar kæranda. Þá er ekki hægt að útiloka að eiginkona kæranda hafi sætt áreiti af hálfu tiltekinna manna í heimaríki. Frásögnin fær jafnframt stuðning í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram við meðferð máls hans hjá stjórnvöldum.

Kærandi byggir einnig á því að hann verði fyrir mismunun í heimaríki vegna þess að hann tilheyri þjóðernishópi Pastúna. Í viðtali sínu hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að yfirvöld í Pakistan vilji fækka Pastúnum í landinu og að Pastúnar verði frekar fyrir árásum af þeim sökum. Einnig greindi kærandi frá því að hann fái lakari þjónustu frá yfirvöldum. Kærunefnd telur framangreind gögn um heimaríki kæranda bera með sér að Pastúnar geti átt á hættu mismunun á þeim svæðum sem Pastúnar séu í minnihluta. Aftur á móti sé lítil hætta á þeim svæðum þar sem Pastúnar séu í meirihluta og þar sem þeir hafi fjölskyldu- og félagleg tengsl, t.a.m. í heimahéraði kæranda, Khyber Pakhtunkhwa. Þá kveði stjórnarskrá landsins á um vernd minnihlutahópa gegn mismunun og að lög landsins skuli miða að því að vernda réttindi og hag þeirra í landinu. Framangreindar upplýsingar benda ennfremur ekki til þess að einstaklingar sem séu af Pastún uppruna eigi á hættu mismunun eða áreiti sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Gögn um heimaríki kæranda benda til þess að hann geti leitað til lögreglu í heimaríki sínu eftir vernd. Líkt og fram hefur komið sé hægt að skrá svokallaða FIR (e. first instance report) skýrslu rafrænt hjá lögregluembættum í Khyber Pakhtunkhwa. Sé lögregla óviljug að skrá FIR skýrslu sé hægt að kvarta til lögregluvarðstjórans, lögregluforingjans eða æðra settra embættismanna innan lögreglunnar. Beri það ekki árangur geti einstaklingar jafnframt farið með mál fyrir dómstóla. Líkt og fram hefur komið hefur kærandi lagt fram við meðferð málsins afrit af lögregluskýrslu, þar sem fram kemur að eiginkona kæranda hafi leitað á lögreglustöð í Haripur og óskað eftir vernd. Kærandi kvað lögreglu ekki hafa getað aðstoðað þar sem að eiginkona hans hafi ekki vitað deili á mönnunum. Kærandi kvað mennina jafnframt vera áhrifamikla og að lögregla ynni bara fyrir þá sem að geti greitt mútufé. Kærandi hefur hins vegar ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann og fjölskylda hans geti ekki notið verndar lögreglu í heimaríki vegna hinna tilteknu manna. Þá hefur kærandi jafnframt ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að yfirvöld hafi ekki eða muni ekki aðhafast frekar í málinu leiti kærandi til þeirra með þær upplýsingar sem hann búi yfir um mennina. Er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að stjórnvöld í Pakistan geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærunefnd telur því að kærandi hafi raunhæfa möguleika á því að leita ásjár stjórnvalda þar í landi telji hann sig þurfa á þeirri aðstoð að halda. Kærunefnd telur gögn um heimaríki kæranda jafnframt ekki benda til þess að aðgengi kæranda að viðeigandi vernd sé takmarkað vegna þess að hann tilheyri Pastún þjóðernishópnum, eða af öðrum ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga tilgreinir.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann muni eiga á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki vegna skuldar sinnar við tiltekna menn þar. Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þrátt fyrir átök í Khyber Pakhtunkhwa, sem kærandi kveður vera heimahérað sitt, undanfarin ár er það mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður í héraðinu séu slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Pakistan eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Krafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er m.a. byggð á því að hann eigi á hættu að verða fyrir mismunun í heimaríki sökum þess að hann tilheyri þjóðernishópi Pastúna og yrðu félagslegar aðstæður hans erfiðar af þeim sökum og einnig vegna skuldar hans við tiltekna menn þar. Þá byggir kærandi á því að líta verði til þess sem hann hafi mátt upplifa hér á landi í tengslum við atvinnuleyfi hans. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem tilheyri þjóðernishópi Pastúna telur kærunefnd ekki tilefni til að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða af þeirri ástæðu. Með vísan til fyrri umfjöllunar verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna á þeim grundvelli.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að kærandi sé almennt við góða andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Krafa á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt ákvæði 75. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að níu mánuði þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna sé ekki fullnægt. Sama gildir um barn viðkomandi ef það er statt hérlendis með foreldri sínu.

Í greinargerð kæranda, dags. 12. maí sl., áréttar kærandi að hann hafi komið hingað til lands þann 22. júní 2017 fyrir tilstuðlan hérlends atvinnurekanda sem hafi svikið hann um háar fjárhæðir. Fyrrverandi atvinnurekandi hans hafi krafið hann um alltof hátt gjald fyrir endurnýjun á atvinnuleyfi ásamt því að hann hafi oft verið látinn starfa yfir 16 klukkustundir á dag, oft án hvíldartíma, án þess að fá greidda yfirvinnu. Vísar kærandi til umfjöllunar sem mál kæranda hafi fengið í tilteknum fréttaskýringarþætti hér á landi í október 2018. Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 3. september 2020, er fjallað um kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafði stofnunin samband við lögregluna á Suðurnesjum og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og óskaði eftir upplýsingum um hvort lögreglan væri að rannsaka mansalsmál þar sem kærandi væri brotaþoli. Lögreglan á Suðurnesjum hafi svarað að ekki væri nein slík rannsókn í gangi hjá þeim. Samkvæmt svörum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu væri til rannsóknar mál hjá þeim sem sneri að brotum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og fjársvik þar sem umsækjandi væri meintur brotaþoli. Þann 19. október 2020 var kæranda leiðbeint af kærunefnd um að leggja fram frekari gögn í máli hans, m.a. í tengslum við fyrrgreinda kröfu. Kærandi lagði fram frekari gögn þann 28. október 2020. Þar á meðal lagði kærandi fram gögn frá Vinnumálastofnun sem varða ákvörðun stofnunarinnar um atvinnuleyfi hans hér á landi, dags. 16. júní 2017, og afturköllun atvinnuleyfisins, dags. 8. mars 2018. Þá lagði kærandi fram viðvörunarbréf sem honum barst frá umræddum atvinnurekanda, dags. 12. febrúar 2018, ráðningarsamninga milli hans og atvinnurekanda og launaseðla frá umræddu tímabili. Þá barst tölvupóstur frá talsmanni kæranda þann 29. október sl. þar sem fram kom að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þá sé opin rannsókn í gangi sem snúi að því hvort kærandi sé mögulegur þolandi mansals. Kærunefnd hafði samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og fékk upplýsingar um að grundvöllur rannsóknar lögreglu væri sá sami og hefði legið fyrir við upplýsingaöflun Útlendingastofnunar þ.e. vegna mögulegra fjársvika og brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Framangreint ákvæði 75. gr. laga um útlendinga kveður á um heimild til að veita útlendingi sem grunur leiki á að sé þolandi mansals, dvalarleyfi í allt að níu mánuði. Í athugasemdum við fyrrgreint ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að stuðla að því að fórnarlamb mansals fái tækifæri til að ná bata og losna undan áhrifum þeirra sem stunda mansal. Veiting dvalarleyfisins sé óháð því hvort lögreglurannsókn fari fram en dvalarleyfinu sé m.a. ætlað að gefa hugsanlegu fórnarlambi svigrúm til þess að taka upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld við rannsókn málsins. Efni ákvæðisins ber með sér að því sé ætlað að veita þeim einstaklingum tímabundið atvinnuleyfi sem nýlega hafa losnað undan mansali eða eru enn undir áhrifum þeirra sem stunda mansal. Líkt og kærandi greindi frá í viðtali hjá Útlendingastofnun kom hann hingað árið 2017 á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Kærandi yfirgaf landið og fór til heimaríkis árið 2018 og hið sama ár kom hann aftur hingað til lands, m.a. í þeim tilgangi að endurheimta fjármagn sem hann hafði greitt til umrædds atvinnurekanda hér á landi og vegna hræðslu við umrædda menn í heimaríki. Eru því um það bil tvö ár liðin frá því kærandi kom hingað til lands í seinna skiptið og verður ekki séð af gögnum málsins að kærandi sé enn undir áhrifum þeirra aðila sem hann kveður hafa beitt sig mansali. Þá hefur kærandi unnið með stéttarfélagi og yfirvöldum að því að upplýsa málið og er sú rannsókn nú á lokastigum. Er það því mat kærunefndar að sá umþóttunartími sem ákvæðinu er ætlað að gefa mögulegum þolendum mansals eigi ekki við í tilfelli kæranda. Að mati kærunefndar og með vísan til framangreinds og annarra gagna málsins þykir ekki grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 75. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem áður hefur komið fram gerir kærandi viðbótarathugasemdir í seinni greinargerð sinni til kærunefndar við ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. september 2020, m.a. um að stofnunin hafi ekki leitað umsagnar annarra aðila en lögreglunnar eða boðað kæranda í annað viðtal vegna rannsóknar á kröfu hans um dvalarleyfi á grundvelli 75 gr. laga um útlendinga. Líkt og fram kemur í fyrri úrskurði kærunefndar í máli kæranda þá taldi kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli hans, þar sem ekki hafi verið fjallað um fyrrgreinda kröfu hans í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. mars 2020, né farið fram viðhlítandi rannsókn í tengslum við kröfuna. Líkt og vikið hefur verið að var í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. september 2020, fjallað um fyrrgreinda kröfu og tekin afstaða til hennar, m.a. með vísan til upplýsinga frá lögreglu. Í ljósi aðstæðna í málinu og fyrrgreindrar niðurstöðu kærunefndar að því er varðar 75. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd að þrátt fyrir að betur hefði farið á því að Útlendingastofnun óskaði eftir frekari upplýsingum frá kæranda um þetta efni og ítarlegri skýringa frá lögreglu yfirvöldum verði ekki talið að þeir annmarkar hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins og að ekki hafi verið þörf á að leita umsagnar annarra aðila að þessu sinni.

Kærandi gerði í greinargerðum sínum ýmsar aðrar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til þeirra að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 9. október 2019, rúmum tveimur árum eftir komu sína hingað til lands. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Með vísan til 5. mgr. 106. gr. laga um útlendinga eru hins vegar ekki fyrir hendi skilyrði til að beita frávísun í máli hans, enda hófst meðferð málsins ekki innan níu mánaða frá komu kæranda til landsins.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar, og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. SamantektMeð vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                          Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta