Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 A

gegn

ríkislögreglustjóra

 

Kærandi, sem er karl, kærði skipun í stöðu lögreglufulltrúa við B en hann taldi sig hæfari en kona sem skipuð var. Þar sem kæran barst kærunefnd eftir að lögmæltur kærufrestur var liðinn, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008, var henni vísað frá nefndinni.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 14. apríl 2015 er tekið fyrir mál nr. 3/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 9. febrúar 2015, kærði A, ákvörðun ríkislögreglustjóra um að skipa konu í stöðu lögreglufulltrúa við B. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  3. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 11. febrúar 2015, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina skýringum eða athugasemdum vegna hugsanlegrar frávísunar málsins hjá nefndinni þar sem lögmæltur kærufrestur væri liðinn. Kærandi sendi nefndinni athugasemdir er bárust 23. febrúar 2015.

    MÁLAVEXTIR

  4. Kærði auglýsti laust starf lögreglufulltrúa við B þann 3. desember 2013. Alls bárust 18 umsóknir og var kærandi meðal umsækjenda um stöðuna. Tekin var ákvörðun um að skipa konu í starfið og var kærandi upplýstur um það með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2014. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir skipuninni og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 18. febrúar 2014. 

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  5. Kærandi rekur náms- og starfsferil sinn og telur að hann hafi verið hæfari til að gegna umræddri stöðu en sú sem skipuð var. Rökstuðningur kærða um að ákvörðun um ráðninguna byggi á markmiði jafnréttislaga eigi ekki við þar sem jafnréttissjónarmið komi ekki til skoðunar nema tveir umsækjendur um stöðu séu jafnhæfir til að gegna henni. Það eigi ekki við í þessu máli. Stjórn B hafi fengið umsóknirnar til umsagnar á hæfi og hæfni umsækjenda en þrír umsækjendur hafi verið metnir hæfastir, þar á meðal kærandi. Kærandi gerir kröfu um að kærunefnd jafnréttismála úrskurði um að með ráðningu í starf lögreglufulltrúa við B hafi kærði brotið 26. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 10/2008. Þá krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða kæranda málskostnað, sbr. 5. mgr. 5. gr. laganna.

  6. Varðandi kærufrest tekur kærandi fram að hann hafi átt við veikindi að stríða og farið í veikindaleyfi stuttu eftir að rökstuðningur kærða hafi borist. Hann hafi lagt mikla áherslu á að ná bata og því hafi heilsa hans verið í forgangi fyrstu mánuðina eftir veikindin. Í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála frá 20. október 2014, sem varði sömu skipun, hafi kærandi farið aftur að huga að skipuninni og talið ljóst að brotið hefði verið á rétti hans.

    NIÐURSTAÐA

  7. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Í 3. mgr. 6. gr. laganna er mælt fyrir um að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að ætlað brot á lögunum hafi legið fyrir, frá því að því ástandi sem talið er brot á lögunum lauk eða frá því að sá er málið varðar hafi fengið vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til umfjöllunar þótt liðinn sé framangreindur frestur, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Erindi telst nægjanlega snemma fram komið ef bréf sem hefur það að geyma hefur borist nefndinni eða verið póstlagt áður en fresturinn er liðinn.

  8. Erindi kæranda lýtur að þeirri ákvörðun kærða að skipa konu í stöðu lögreglufulltrúa við B og var kærandi upplýstur um það með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2014. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir skipuninni og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 18. febrúar 2014. Erindi kæranda barst kærunefnd þann 10. febrúar 2015. Voru þá liðnir meira en sex mánuðir frá því hin kærða ákvörðun var tekin og tæpt eitt ár frá því rökstuðningur kærða lá fyrir. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008, að vísa máli þessu frá kærunefndinni enda hafa ekki komið fram atvik er valdið gætu því að taka bæri kæruna til meðferðar að liðnum framangreindum fresti. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu er ekki efni til að verða við kröfu kæranda um málskostnað.

  

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta