Hoppa yfir valmynd

Nr. 487/2024 Úrskurður

Hinn 10. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 487/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24010085

 

Kæra […] á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. janúar 2024 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2024, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal kærunefnd meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju hjá þeirri stofnun sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru fer því fram sjálfstætt efnislegt mat á því hvort kærandi eigi rétt á veitingu alþjóðlegrar verndar á grundvelli 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna, hvort skilyrði séu fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laganna og hvort skilyrði fyrir brottvísun séu uppfyllt ef svo á við. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt. Kröfur í máli þessu eru í samræmi við framangreint.

Kæruheimild er í 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Málsatvik

Samkvæmt lögregluskýrslu kom kærandi til landsins frá Grikklandi og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 18. nóvember 2022. Kvaðst kærandi hafa flúið Sómalíu í mars 2022 á fölsuðu vegabréfi til Tyrklands með aðstoð smyglara. Þaðan hafi hann gengið í tíu daga til Grikklands. Þar hafi hann dvalið þar til hann hafi komið til Íslands. Smyglarinn hafi gefið honum flugmiða til Íslands. Kærandi kvað föður sinn hafa verið myrtan og hann viti ekki hvar móðir sín sé. Hann hafi síðast séð hana fyrir átta mánuðum. Kærandi hafi kynnst smyglaranum í gegnum frænda sinn.

Kærandi bar því við að vera fæddur 18. febrúar 2006 og því yngri en 18 ára við komuna til landsins. Hinn 6. janúar 2023 mætti kærandi í viðtal vegna aldursgreiningar ásamt talmanni sínum og fulltrúa barnaverndar. Kærandi mætti í aldursgreiningu 12. janúar 2023 og í viðtali 9. febrúar 2023 var kæranda kynnt niðurstaða hennar þess efnis að hann hafi verið metinn eldri en 18 ára og að málsmeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd tæki mið af þeirri niðurstöðu. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 30. maí 2023 ásamt löglærðum talsmanni. Þar greindi kærandi frá annarri ferðaleið en þeirri sem hann lýsti í hælisbeiðni hjá lögreglu 18. nóvember 2022. Kvaðst hann í viðtali hafa ferðast til Íslands með viðkomu í Tyrklandi, Grikklandi, Serbíu, Ungverjalandi og Austurríki.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann væri frá þorpinu […] í neðra-Shabelle héraði í Suður-Sómalíu. Kærandi kvaðst vera af minnihlutaættbálkinum […] sem kallist einnig […]. Kærandi kvað föður sinn hafa starfað sem skósmið og kærandi hafi ásamt frænda sínum tekið við rekstri hans þegar faðir kæranda hafi dáið í október 2021. Kærandi og frændi hans hafi verið beðnir um að vinna verk fyrir nafngreindan mann af Rahanweyn ættbálkinum gegn greiðslu í janúar 2022. Þeir hafi unnið verkið en ekki fengið greitt þar sem þeir væru af minnihlutaættbálki. Ágreiningur hafi komið upp á milli frænda kæranda og skuldarans. Kærandi hafi ætlað að stía þeim í sundur en þá hafi félagi skuldarans stungið kæranda með einhvers konar málmvopni í síðuna svo kæranda hafi blætt. Frændi kæranda hafi þá stungið manninn með hníf en skuldaranum hafi tekist að flýja. Kærandi hafi greint móður sinni frá þessu sem hafi í kjölfarið tjáð honum og frænda hans að þeir yrðu að flýja þar sem maðurinn sem hafi verið stunginn tilheyrði Rahanweyn ættbálkinum sem væri meirihlutaættbálkur á svæðinu. Kærandi og frændi hans hafi því ákveðið að flýja og ferðast með mjólkurbíl frá nærliggjandi þorpi, Buslay Daud, til Mógadisjú þar sem þeir hafi dvalið í einn og hálfan mánuð uns þeir hafi yfirgefið Sómalíu í mars 2022 með aðstoð eldri frænda þeirra sem búsettur væri í Sádi Arabíu.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar 24. janúar 2024. Greinargerð barst kærunefnd 7. febrúar 2024. Viðbótargögn bárust 6. maí 2024.

Greinargerð til kærunefndar

Nefndin hefur farið yfir greinargerð kæranda og fylgiskjöl og lagt mat á þau sjónarmið er þar koma fram. Verða aðeins reifuð hér helstu atriði greinargerðarinnar.

Í greinargerð er aðstæðum kæranda lýst. Þar kemur m.a. fram að kærandi sé frá neðra-Shabelle héraði í Suður-Sómalíu. Hann hafi ekki hlotið menntun í Sómalíu en faðir hans hafi kennt honum sómölsku og hlýtt honum yfir kóraninn. Kærandi tilheyri minnihlutaættbálknum […] sem gangi undir öðru nöfnum, m.a. Madhiban eða Midgan. Sökum þess hafi kærandi sætt mismunun. Faðir hans hafi starfað sem skósmiður en móðir hans starfað við mjólkursölu og hafi hann aðstoðað þau bæði. Faðir kæranda hafi dáið í árás Al-Shabaab á þorp kæranda í október 2021 en kærandi eigi móður og yngri systur í Sómalíu sem hann viti þó ekki hvar séu. Kærandi hafi ásamt frænda sínum verið fangelsaður í Tyrklandi en verið sleppt eftir þrjár nætur vegna ungs aldurs. Við það hafi hann þó orðið viðskila við frænda sinn. Kærandi sé hræddur við að snúa aftur til heimaríkis þar sem hann yrði tengdur við frænda sinn sem hafi framið stunguárás gagnvart einstaklingi af meirihlutaættbálkinum Rahanweyn.

Í greinargerð kæranda er vísað til landaskýrslna og er mati Útlendingastofnunar á aðstæðum í Sómalíu mótmælt. Einnig er vísað til mats Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar kæranda og því mati mótmælt.

Kærandi krefst þess aðallega að verða veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé meðlimur minnihlutaættbálks. Einnig eigi hann á hættu refsingu vegna glæps, ættbálkadeilu og hefndaraðgerðir. Í skýrslu EUAA um Sómalíu frá 2022 komi fram að einstaklingar sem hafi verið ásakaðir um glæpi í Sómalíu, hafi lent í ættbálkadeilum eða eigi von á hefndaraðgerðum, kunni að upplifa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í landinu. Hið sama eigi við um einstaklinga sem tilheyri minnihlutahópum eða lægri stéttum samfélagsins. Einnig hafi frændi kæranda framið stunguárás og kærandi sé útsettur fyrir hættu vegna tengsla sinna við hann. Þá hafi faðir hans verið myrtur af meðlimum Al-Shabaab.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að verða veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi verið viðriðinn stunguárás frænda síns sem geri hann að sérstöku skotmarki í heimaríki. Á það verði að líta með hliðsjón af veikri stöðu ættbálkar kæranda í landinu. Með hliðsjón af þeirri stöðu telur kærandi að hann eigi á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi refsingu í Sómalíu. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum handahófskenndra árása þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Umsvif Al-Shabaab séu mikil á heimasvæði kæranda og átök séu milli þeirra og sómalskra stjórnvalda.

Til þrautavara krefst kærandi þess að verða veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Mannúðarkrísa sé í Sómalíu og öryggisástand slæmt. Þá eigi kærandi á hættu að verða þvingaður til liðs við Al-Shabaab vegna ungs aldurs og kyns síns. Kærandi tilheyri minnihlutaættbálki, eigi veikt félagslegt bakland í heimaríki og sé ómenntaður. Einnig viti hann ekki hvar fjölskylda sín sé.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Reglur stjórnsýsluréttar og málsmeðferð samkvæmt lögum um útlendinga

Í greinargerð kæranda eru færð rök fyrir því að ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum. Telur kærandi að málsmeðferð stofnunarinnar og hin kærða ákvörðun brjóti gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 22. gr. sömu laga þar sem ekki hafi verið tekin skýr afstaða til aðildar kæranda að minnihlutaættbálki. Jafnframt hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort kærandi geti notið aðstoðar eða verndar yfirvalda.

Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og hina kærðu ákvörðun sem er í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ljóst er af ákvörðun Útlendingastofnunar að lagt var til grundvallar að kærandi tilheyrði minnihlutaættbálkinum Madhiban og tekin afstaða til stöðu hans í heimaríki vegna þeirrar aðildar. Er því ekki ástæða til þess að gera sérstakar athugasemdir við málsmeðferð vegna ofangreinds eða fella ákvörðunina úr gildi af þeim sökum.

Alþjóðleg vernd

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd verða stjórnvöld því að leggja mat á auðkenni umsækjanda, landaupplýsingar um það heimaríki umsækjanda sem til meðferðar er og trúverðugleika frásagnar umsækjanda.

Við mat á trúverðugleika er höfð til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá er tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga hefur kærunefnd talið rétt að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Auðkenni og ríkisfang

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem til þess sé fallið að sanna á sér deili og því ekki sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni kæranda á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Sómalíu þó auðkenni hans væri að öðru leyti óupplýst. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé sómalskur ríkisborgari.

Mat á aldri, sbr. 113. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ef grunur vaknar um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða, og að ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð, eins fljótt og kostur er, aldursgreining samkvæmt 113. gr. laganna. Í 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef grunur leiki á að umsækjandi um alþjóðlega vernd eða umsækjandi um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar villi á sér heimildir við meðferð máls eða segi rangt til um aldur við meðferð máls geti viðkomandi stjórnvald lagt fyrir útlending að hann gangist undir líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur hans. Niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Í 1. mgr. 40. gr. reglugerðar um útlendinga, sbr. 3. mgr. 113. gr. laga um útlendinga, kemur jafnframt fram að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásagnar af ævi hans en auk þess megi beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Leiki grunur á að umsækjandi segi rangt til um aldur skuli framkvæma líkamsrannsókn til greiningar.

Samkvæmt framansögðu hefur löggjafinn ákveðið að stjórnvöld á sviði útlendingamála skuli beita tilteknum rannsóknaraðferðum þegar upplýsa þarf um aldur umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá hefur löggjafinn jafnframt ákveðið að mat á aldri skuli vera heildstætt og vera byggt, eftir atvikum, á fleiri gögnum en líkamsrannsókn.

Við meðferð málsins greindi kærandi frá því að vera fæddur 18. febrúar 2006 en lagði engin gögn fram sem staðfestu auðkenni hans. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun var kæranda leiðbeint um að leggja fram gögn sem staðfestu fæðingardag hans. Kvaðst kærandi ekki geta útvegað slík gögn. Hinn 6. janúar 2023 mætti kærandi ásamt þáverandi löglærðum talsmanni sínum til Útlendingastofnunar og veitti samþykki fyrir aldursgreiningu. Kærandi undirgekkst aldursgreiningu 11. janúar 2023, sem fólst í stafrænni röntgenbreiðmynd og sérmynd af jöxlum og framtönnum. Þá var tekin röntgenmynd af hönd og úlnlið kæranda. Í niðurstöðum aldursgreiningar, dags. 12. janúar 2023, kemur fram að kærandi sé eldri en 18 ára. Þá kemur fram að þroskaferli allra tanna kæranda sé lokið og allir forjaxlar og jaxlar séu í bitsnertingu. Samkvæmt aldursgreiningu af beinvexti handar og úlnliðs sé kærandi 19 ára eða eldri. Langtíma vannæring geti seinkað beinþroska og hefur þá þau áhrif að fullum beinþroska sé náð seinna á ævinni og þeir einstaklingar þá greindir yngri en þeir eru í raun. Hjá kæranda hafi fullum samruna beinenda verið náð. Hinn 9. febrúar 2023 kom kærandi í viðtal hjá Útlendingastofnun, ásamt löglærðum talsmanni sínum, þar sem honum voru kynntar niðurstöður aldursgreiningarinnar og tilkynnt að með hliðsjón af niðurstöðum hennar, gögnum málsins og þess að kærandi hafi ekki getað lagt fram skilríki sem sanni á honum deili eða aldri hans var það mat Útlendingastofnunar að farið yrði með mál hans sem mál fullorðins einstaklings.

Kærandi kvaðst í viðtali aðeins vita að uppgefinn fæðingardagur væri fæðingardagur hans en hreyfði ekki frekari mótmælum við þessari ákvörðun Útlendingastofnunar.

Þegar litið er með heildstæðum hætti til gagna málsins, einkum aldursgreiningar, telur kærunefnd ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi sé eldri en 18 ára. Þá verður að mati kærunefndar, ekki talið að vafi leiki þar á í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga.

Landaupplýsingar

  • Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
  • 2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 20. mars 2023);
  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
  • 2022 UNICEF Somalia Annual Report (UNICEF Somalia, febrúar 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Somalia (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – The State of the World’s Human Rights (Amnesty International, 27. mars 2023)
  • BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
  • Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
  • Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
  • Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
  • Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
  • Country Guidance: Somalia (EUAA, júní 2022);
  • Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, júní 2017);
  • Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
  • Country Reports on Terrorism 2020 – Somalia (US Department of State, 16. desember 2021);
  • DFAT Country Information Report Somalia (DFAT, 13. júní 2017);
  • EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
  • EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
  • Freedom in the World 2023 – Somalia (Freedom House, 2023);
  • Humanitarian Needs Overview 2023 – Somalia (OCHA, 8. febrúar 2023);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, . september 2022);
  • Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
  • Protection of Civilians: Building the Foundation for Peace, Security and Human Rights in Somalia (OHCHR, UNSOM, 10. desember 2017);
  • Query response on Somalia: Al-Shabaab (2021 – March 2023) (leadership, objectives, structure; recruitment; areas of operation and activities; financing; attacks; targets; capacity to track individuals; state response) (Immigration and Refugee Board of Canada, 7. mars 2023);
  • Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. eptember 2013);
  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022); 
  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 15. júní 2023);
  • Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
  • Somalia: Al-Shabaab and local employees of AMISOM, the UN and other international organisations (Landinfo, 2. júní 2015);
  • Somalia: Al-Shabaab Regains Lost Territories as Tax Dispute Halts Counter-Insurgency Operation (ACLED, 2. júní 2023);
  • Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
  • Somalia: Counter-Insurgency Operation Gains Regional Support in Phase Two as al-Shabaab Attacks and Political Differences Persist (ACLED, 21. apríl 2023);
  • Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
  • Somalia: Defection, desertion and disengagement from Al-Shabaab (EUAA, 13. febrúar 2023);
  • Somalia: Fact-Finding Mission to Mogadishu in March 2020 – Security situation and humanitarian conditions in Mogadishu (Finnish Immigration Service, 7. ágúst 2020);
  • Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
  • Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
  • Somalia: Kampene i Mogadishu den 25. April 2021 og sikkerhetssituasjonen i byen etter dette (Landinfo, 15. júní 2021);
  • Somalia. Key crises to watch in 2023 (Acaps, 14. apríl 2023);
  • Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
  • Somalia: The Security situation in Mogadishu and al-shabaab’s influence in the city, (Landinfo, 8. september 2022);
  • Somalia – Security situation (EUAA, 21. febrúar 2023);
  • Somalia – Security situation update (EUAA, 25. apríl 2023):
  • Somalia Situation Update: April 2023 (ACLED, 21. apríl 2023);
  • Somalia Situation Reports 2023 (UNICEF, . september 2023);
  • Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
  • Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
  • South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
  • South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
  • The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 24. apríl 2024);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
  • UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
  • Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í júní 2019);
  • Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, . september 2021) og
  • World Report 2024 – Somalia: Events of 2023 (Human Rights Watch, 11. janúar 2024).

Sómalía er sambandslýðveldi með tæplega 13 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Hinn 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.

Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 beri hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem kostað hafi hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2023 var mánaðarlegt meðaltal svokallaðra öryggisatvika, þ.e. bardaga, sprenginga og ofbeldis gagnvart almennum borgurum, um 240 á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2022.

Fram kemur í skýrslu EUAA frá júní 2022 að Al-Shabaab séu sómölsk herská samtök íslamskra súnnísalafi jihadista sem hafi myndast upp úr síðustu aldamótum. Sameiginleg hugmyndafræði samtakanna sé að berjast á móti ríkisstjórn landsins sem sé studd af vestrænum öflum. Hafi samtökin áður fyrr farið með yfirráð yfir Mógadisjú en hafi með hervaldi verið þröngvað í burtu frá helstu þéttbýliskjörnum borgarinnar. Samtökin stjórni í reynd svæðum við Juba og Shabelle-dölum, svæðum í kringum Harardhere, El Dher og El Buur í mið-Sómalíu og stórum hluta af landsvæðum annars staðar í landinu. Til að fjármagna samtökin haldi þau úti skattheimtu við eftirlitsstöðvar, kúgi fé af fyrirtækjum, leggi á innflutningsskatt í helstu höfnum og á fasteignafélög. Þá skattleggi samtökin einnig búfé, landbúnaðarafurðir og áveitu, auk þess að innheimta svonefnt zakat sem sé árleg trúarleg skylda til að greiða tiltekið hlutfall af auði einstaklings til fátækra. Þá skattleggi Al-Shabaab embættismenn sem láti samtökunum eftir hluta af launum sínum til að verða ekki skotmark þeirra.

Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) studd m.a. af Sameinuðu þjóðunum, og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Markmið AMISOM sé m.a. að draga úr hættunni sem stafi af Al-Shabaab og öðrum vopnuðum hópum og koma á stöðugleika og öryggi í landinu undir stjórn sómölsku ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega um á svæðum þar sem sómölsk yfirvöld hafi ekki yfirtekið. Hópar Al-Shabaab starfi í litlum hreyfanlegum hópum sem hægt sé að safna saman þegar þörf krefji t.d. til þess að gera árásir eða ráðast gegn fólki sem sé á móti þeim. Heimildir bendi til þess að slíkir hópar séu sérstaklega virkir í kringum svæði sem sómölsk yfirvöld og stuðningsmenn þeirra hafi yfirráð yfir. Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá september 2022, sem fjallar um mat á umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd frá Sómalíu, kemur fram að þeir sem tilheyri áhættuhópi vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab séu m.a. einstaklingar sem tengist eða taldir séu tengjast sómölskum yfirvöldum á einhvern hátt, einstaklingar sem taldir séu brjóta gegn sharía lögum eða tilskipunum sem Al-Shabaab hafi sett fram, þ. á m. þeir sem hafi yfirgefið Al-Shabaab, fjölmiðlamenn, einkum þeir sem gagnrýni Al-Shabaab, baráttufólk fyrir mannréttindum og einstaklingar sem Al-Shabaab hafi kúgað fé út úr.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mógadisjú. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að öryggisástand í Sómalíu sé sveiflukennt og Al-Shabaab fremji flest brot gegn óbreyttum borgurum í Suður- og Mið-Sómalíu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 kemur fram að Al-Shabaab hafi borið ábyrgð á um 60% dauðsfalla almennra borgara á tæplega 9 mánaða tímabili árin 2020 og 2021.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Samkvæmt UNHCR eru þeir ættbálkar sem eru í minnihluta í Sómalíu; Bantu/Jareer Bravense, Rerhamar, Bajuni, Eeyle, Jaaji/Reer Maanyo, Barawani, Galgala, Tumaal, Yibir/Yibron og Midgan/Gaboye. Það að tilheyra ættbálki sem sé í minnihluta leiði ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingur sé í hættu á að verða fyrir ofsóknum. Þá bendi gögn til þess að í norðurhluta Sómalíu, m.a. í Sómalílandi, fari ástandið batnandi og að ættbálkar sem séu í meirihluta þar séu umburðarlyndari heldur en á öðrum svæðum í Sómalíu. Minnihlutahópar tilheyri lægstu stétt sómalska samfélagsins, og hafi gert það allt frá því um 1900, og þeir sem tilheyri minnihlutahópi séu oft kallaðir ,,stéttleysingar“ (e. outcaste groups) eða Sab. Til minnihlutahópa teljist m.a. þeir sem tilheyri Midgan, Tumal og Yibro. Midgan séu í dag einnig kallaðir Gaboye, Madhibaan og Musse Deriyo.

[…]

Í framangreindum gögnum kemur fram að heilbrigðiskerfi Sómalíu sé í grunninn einkavætt og þó svo að það hafi tekið töluverðum framförum á undanförnum árum séu töluverðar áskoranir um landið allt, sérstaklega í dreifbýli þar sem aðgengi sé slæmt og skortur sé á heilbrigðisvörum. Ekkert miðlægt heilbrigðiskerfi sé í Sómalíu og sérhæfðar læknismeðferðir takmarkaðar. Þá sé aðgengi að lyfjum takmarkað og engin umsjón eða eftirlit með gæðum og öryggi þeirra. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að í Mógadisjú hafi almennir borgarar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis eða ættbálks. Í borginni sé aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og apótekum.

Niðurstaða um réttarstöðu flóttamanns samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Kærandi byggir á því að hann tilheyri minnihlutaættbálkinum […] sem einnig kallist […]. Frændi kæranda hafi stungið mann sem hafi tilheyrt Rahanweyn meirihlutaættbálkinum og nú óttist kærandi, sökum tengsla sinna við frænda sinn, að hann muni sæta hefndaraðgerðum af hálfum meðlima meirihlutaættbálksins.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki þeirra.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að vera fæddur og uppalinn í þorpinu […] í neðra-Shabelle héraði í Suður-Sómalíu. Kvað kærandi þorpið vera í Janaale umdæmi í héraðinu og nærliggjandi bæir og þorp væru m.a. Bullodagxbash og Bullow Sugow. Kærandi skrifaði nöfn staðanna niður í viðtali hjá Útlendingastofnun. Skoðun kærunefndar á ítarlegu landakorti af Sómalíu leiddi í ljós að engin þorp, bæir eða borgir heita framangreindum nöfnum eða sambærilegum nöfnum í neðra-Shabelle héraði. Þá er Janaale ekki umdæmi í neðra-Shabelle héraði líkt og kærandi greindi frá heldur bær. Kærandi gat ekki veitt skýringar á því hvers vegna staðirnir fyndust ekki á landakorti og gat kærandi ekki fundið heimaþorp sitt sjálfur. Hann kvað þorpið sitt vera staðsett milli bæjarins Janaale, sem er í Marka umdæmi, og borgarinnar Afgooye sem er í Afgooye umdæmi. Fjarlægðin á milli þessara tveggja bæja er samkvæmt landakorti um 100 kílómetrar og er sú lýsing kæranda því ekki nákvæm. Kærandi greindi réttilega frá því að Marka sé höfuðborg neðra-Shabelle héraðs og nefndi hann einnig nokkra bæi sem eru samkvæmt landaheimildum í héraðinu.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ekki talið ástæðu til að láta kæranda þreyta tungumála- og staðháttapróf þar sem að slík próf geti að verulega takmörkuðu leyti veitt vísbendingar um það hvert umsækjandi kunni að eiga uppruna sinn að rekja. Útlendingastofnun lagði til grundvallar að kærandi væri fæddur og uppalinn í Marka umdæmi í neðra-Shabelle héraði í Suður-Sómalíu.

Það er niðurstaða kærunefndar, með vísan til framangreindra lýsinga kæranda og landaheimilda, að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann komi frá því þorpi sem hann kveðst koma frá. Þrátt fyrir að kærandi hafi lýst staðháttum í neðra-Shabelle umdæmi með almennum hætti að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ganga verði út frá því að kærandi hafi a.m.k. dvalið hluta ævi sinnar í Marka eða Afgooye umdæmum í neðra-Shabelle héraði í Suður-Sómalíu og verður héraðið því talið heimasvæði kæranda.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá ástæðum flótta síns frá heimaríki. Framburður kæranda var óstöðugur varðandi nokkur meginatriði frásagnar hans, m.a. um hvernig faðir hans dó. Greindi hann greindi fyrst frá því að hvorki stjórnvöld né Al-Shabaab hafi haft yfirráð yfir heimaþorpi hans og að árás hafi átt sér stað milli ættbálka með þeim afleiðingum að faðir hans hafi dáið. Kærandi leiðrétti sig síðan og sagði föður sinn hafa dáið í kjölfar árásar Al-Shabaab á heimaþorp sitt.

Þá greindi kærandi jafnframt frá því að hann hafi verið beðinn um að vinna verk fyrir nafngreindan aðila af meirihlutaættbálkinum Rahanweyn ásamt frænda sínum. Kvað hann manninn hafa beðið sig og frænda sinn um að grafa holu fyrir salerni á bóndabæ hans sem þeir hafi gert. Þeir hafi í framhaldinu óskað eftir greiðslu fyrir verkið og maðurinn hafi sagt þeim að hann myndi borga þeim síðar. Kærandi greindi frá því að frændi hans hafi oft mætt heim til skuldarans og beðið hann um að borga þeim en hann hafi ávallt beðið hann um að koma aftur. Í eitt skipti hafi skuldarinn sagt frænda kæranda að koma á föstudegi sem hann hafi gert og hafi þá annar maður einnig verið á staðnum. Kærandi kvað þann mann hafa sagt við frænda sinn að þeir þyrftu ekki að borga honum og kæranda þar sem þeir tilheyrðu minnihlutaættbálki og það myndi enginn taka eftir því ef þeir yrðu myrtir. Í kjölfarið hafi frændi kæranda og skuldarinn byrjað að rífast og kærandi reynt að stía þeim í sundur. Maðurinn sem hafi verið í för með skuldaranum hafi haldið að kærandi ætlaði að ráðast á skuldarann og því hafi hann slegið kæranda með einhvers konar málmvopni í síðu hans. Kærandi hafi fallið til jarðar og þá hafi frændi kæranda stungið manninn en skuldaranum hafi tekist að flýja. Kvaðst kærandi óttast hefndaraðgerðir vegna þessa atviks af hálfu meðlima Rahanweyn vegna tengsla sinna við frænda sinn.

Síðar í sama viðtali greindi kærandi frá því að þeir hafi einungis farið tvisvar til skuldarans og í þriðja skiptið hafi komið til átaka. Er það ekki í samræmi við fyrri framburð hans um að þeir hafi oft farið heim til skuldarans til að biðja um greiðslu fyrir verkið. Kærandi breytti einnig frásögn sinni síðar í viðtalinu og lýsti atvikum þannig að skuldarinn hafi slegið hann í síðuna með málmvopni og frændi kæranda hafi í kjölfarið stungið skuldarann. Kvað kærandi manninn sem hafi verið í för með skuldaranum hafa flúið. Er það ekki í samræmi við fyrri lýsingu hans á atvikinu.

Þá kvað kærandi vopnið hafa stungist örlítið inn í síðuna og hann hafi verið talsvert slasaður. Kvaðst hann hafa dvalið í fimm daga á sjúkrahúsi og hann væri ennþá örlítið verkjaður þegar hann svæfi á hliðinni. Kærandi minntist þó ekki á þessa áverka fyrr í viðtalinu þegar hann var spurður út í líkamlegu heilsu sína en greindi aðeins frá því að vera illt í hné eftir að hafa dottið í Grikklandi.

Með vísan til framangreinds misræmis í framburði kæranda um atvikið sem hann kveður hafa leitt til flótta síns er það niðurstaða kærunefndar að frásögn kæranda, um að hann hafi lent í átökum við meðlimi ættbálksins Rahanweyn og eigi nú á hættu hefndaraðgerðir, sé ótrúverðug og verði því ekki lögð til grundvallar.

Þá hefur kærandi greint frá því að tilheyra minnihlutaættbálkinum […]. Frásögn kæranda um mismunun og áreiti gagnvart meðlimum […] minnihlutaættbálksins í Sómalíu fær stoð í heimildum og er ekki ástæða til að draga þennan þátt frásagnar kæranda í efa þótt frásögn hans hafi ekki verið sérlega skýr eða nákvæm. Þrátt fyrir að meðlimir […] verði fyrir einhvers slags mismunun í heimaríki kæranda er hún þó ekki slík að hún nái því marki að teljast til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi greindi frá því að hafa orðið fyrir aðkasti frá börnum á svæðinu vegna aðildar sinnar að ættbálkinum en lýsti ekki annars konar mismunun eða áreiti. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður meðlima […] ættbálksins er það niðurstaða kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að þær geti talist til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Er það því niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar sinnar að minnihlutaættbálkinum […] í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum er tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Þegar frásögn kæranda, upplýsingar um heimaríki og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að hann eigi á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 38. gr. sömu laga. Sama gildir þótt litið sé til samsafns athafna. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Niðurstaða um viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Kærandi byggir á því að hann eigi á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð vegna framangreinds atviks og aðildar hans að minnihlutaættbálki. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum handahófskenndra árása þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Umsvif Al-Shabaab séu mikil á heimasvæði kæranda og átök séu milli þeirra og sómalskra stjórnvalda.

Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að frásögn kæranda um að hann eigi á hættu að verða myrtur af fjölskyldu mágkonu hans sé ótrúverðug. Að öðru leyti er ekkert í gögnum málsins eða framburði kæranda sem gefur tilefni til að ætla að einstaklingsbundnar aðstæður hans leiði til þess að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu snúi hann til baka, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur lagt til grundvallar að heimasvæði kæranda sé í umdæmunum Marka eða Afgooye í neðra-Shabelle héraði í Suður-Sómalíu. Samkvæmt skýrslu EUAA frá ágúst 2023 fara sómölsk stjórnvöld með yfirráð yfir bæjunum Marka, Baraawe, Afgooye, Qoryoley, Wanla Weyn og Awdhegle. Óljóst sé hvort stjórnvöld eða Al-Shabaab fari með yfirráð yfir dreifbýli í kringum bæina. Suður- og suðvesturbyggðir í neðra-Shabelle héraði séu undir stjórn Al-Shabaab. Stjórnvöldum hafi tekist að ná tökum á þorpum sem áður hafi verið undir stjórn Al-Shabaab nálægt bæjunum Afgooye, Janale og Awedheegle. Benda gögn því til þess að sómölsk stjórnvöld fari með yfirráð yfir heimasvæði kæranda.

Samkvæmt framangreindri skýrslu EUAA leiðir viðvera einstaklings ein og sér í neðra-Shabelle héraði ekki til þess að viðkomandi teljist eiga raunverulega á hættu að sæta alvarlegum skaða í skilningi c-liðar 15. gr. tilskipunar Evrópuþingins og ráðsins nr. 2011/95/EB (e. Qualification Directive). Hins vegar nái handahófskennt ofbeldi á svæðinu háu stigi og því þurfi minna að koma til við mat á einstaklingsbundnum aðstæðum viðkomandi til að rökstuddar líkur verði taldar á því að viðkomandi muni eiga raunverulega á hættu að sæta alvarlegum skaða í skilningi ákvæðisins verði honum gert að fara aftur til neðra-Shabelle héraðs. Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna málsins verður ekki séð að kærandi sé útsettari en aðrir einstaklingar í heimaríki hans fyrir þeirri hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Jafnframt er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi sé útsettari en aðrir einstaklingar í svipaðri stöðu og hann fyrir þvingaðri ráðningu af hálfu Al-Shabaab.

Þegar frásögn kæranda, upplýsingar um heimaríki og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærandi er ekki flóttamaður samkvæmt 37. gr. laga um útlendinga á hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Lagagrundvöllur

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki sem ekki séu staðbundin, svo sem vegna langvarandi stríðsátaka. Þá kemur fram að erfiðar almennar aðstæður taki að jafnaði ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða náttúruhamfara, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Eigi það m.a. við þegar í heimaríki viðkomandi ríki óðaverðbólga, atvinnuleysi í ríkinu sé mikið eða lágmarkslaun dugi ekki fyrir framfærslu.

Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingum og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann lagði inn umsókn sína dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum skilyrðum 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Ef um barn er að ræða skal miða við 16 mánuði.

Niðurstaða um 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Kærandi byggir á því að mannúðarkrísa sé í Sómalíu og öryggisástand slæmt. Þá eigi kærandi á hættu að verða þvingaður til liðs við Al-Shabaab. Kærandi tilheyri minnihlutaættbálki, eigi veikt félagslegt bakland í heimaríki og sé ómenntaður.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Hann glími við hnévandamál en hann hafi fengið sýklalyf vegna þess á landi. Af framburði kæranda og framlögðum heilsufarsgögnum verður ekki séð að hann glími við skyndilega, lífshættulega eða mjög alvarlega sjúkdóma sem fyrirséð sé að muni valda honum alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Hefur kærandi því ekki sýnt fram á að hann hafi þörf á vernd af heilbrigðisástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í viðtali greindi kærandi frá því að hann hafi ekki gengið í skóla. Kvaðst hann hafa fengið heimakennslu frá föður sínum sem hafi kennt honum sómölsku og kóraninn heima. Hann kvað föður sinn hafa verið skósmið og móður sína hafa selt mjólk og hafi hann aðstoðað þau bæði og jafnframt tekið yfir rekstur föður síns eftir andlát hans. Hann kvaðst eiga móður og systur í heimaríki sem hann hafi þó ekki verið í sambandi við eftir að hann hafi yfirgefið landið og viti ekki hvar séu í dag.

Kærandi hefur greint frá því að eiga bakland í heimaríki og af gögnum málsins verður talið að hann hafi getað framfleytt sér í heimaríki. Kærandi er ungur að árum og hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann sé heilsuhraustur og vinnufær. Eru félagslegar aðstæður kæranda við komu til heimaríkis því ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar frásögn kæranda, upplýsingar um heimaríki og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Það er því niðurstaða kærunefndar að aðstæður í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Niðurstaða um 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 18. nóvember 2022 og á ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því ekki við.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Lagagrundvöllur

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Niðurstaða um bann við endursendingu

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda er það niðurstaða kærunefndar að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda. Stendur ákvæði 42. gr. laga um útlendinga því ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Lagagrundvöllur

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Niðurstaða um brottvísun og endurkomubann

Eins og að framan greinir hefur umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur kærandi því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kæranda úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Kæranda var í viðtali hjá Útlendingastofnun leiðbeint um að til skoðunar væri að brottvísa honum frá Íslandi og ákvarða endurkomubann hingað til lands. Var kæranda gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Í svörum kæranda kom fram að hann hefði ekki tengsl við Ísland eða önnur ríki innan Schengen-svæðisins. Hann telji þó brottvísun og endurkomubann vera ósanngjarna ráðstöfun þar sem hann hafi yfirgefið Sómalíu vegna óöryggis og komið til Íslands til að óska eftir alþjóðlegri vernd.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar og af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað, ákvarðað endurkomubann til tveggja ára, veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið með sjálfviljugri heimför og þannig fá endurkomubannið fellt niður.

Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Athugasemdir, samantekt og leiðbeiningar

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er hún staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann frá Íslandi innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.

Þorsteinn Gunnarsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                    Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta