Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 395/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 395/2022

Miðvikudaginn 12. október 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 3. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júlí 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 23. júní 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júlí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að meðferð og endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. ágúst 2022. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. ágúst 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á örorkulífeyri þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Kærandi greinir frá því að Tryggingastofnun hafi ekki tekið tillit til gagna sem hann hafi sent inn áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun í máli hans. Í ákvörðun segi að hann sé nýbúinn í meðferð, sem sé rétt, en sú meðferð hafi því miður ekki heppnast í enn eitt skiptið. Eðlilegt sé að kærandi fari í meðferð reglulega vegna fíknisjúkdóms hans. Þetta hafi verið enn önnur misheppnuð tilraun. Þá sé ekki tekið tillit til atriða í læknabréfi um ástand líkama hans en vegna daglegra verkja sé kæranda ekki fært að fara aftur út á vinnumarkaðinn og því fari hann fram á 75% örorku. Enn fremur sé talað um að kærandi sé hjá sálfræðingi sem sé rétt, kærandi sé að vinna úr áföllum og loksins að fá ADHD greiningu eftir langan tíma. Þessi vinna komi kæranda ekki aftur út á vinnumarkaðinn heldur sé einungis til þess að komast yfir áföll sem hann hafi orðið fyrir í neyslu. Sprautuneysla til margra ára og miklar líkamsmeiðingar vegna fíknisjúkdóms hafi valdið því að kærandi sé verkjaður alla daga. Þó svo að kærandi sé ekki búinn með endurhæfingarlífeyrinn þá hafi hann verið í endurhæfingu lengi og þar með talið í B í átta mánuði og C í tíu mánuði, en hvorugt hafi skilað árangri. Kærandi fari fram á að það sé tekið gilt sem tilraunir til endurhæfingar. Kærandi hafi fengið vottorð frá B og C sem hafi ekki verið tekin til greina áður en Tryggingastofnun hafi tekið ákvörðun í máli hans.

Kærandi sé á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum en kærandi þurfi örorkulífeyri frá Tryggingastofnun. Kærandi þurfi það svigrúm til að geta lifað eðlilegu lífi. Ástand líkama hans eftir langvarandi fíkniefnaneyslu til tuttugu ára hafi ekki verið tekið til greina í ákvörðun Tryggingastofnunar, einungis að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi fari fram á að úrskurðað verði að endurhæfing sé fullreynd því hann sé ekki að fara út á vinnumarkaðinn nokkurn tímann aftur. Það komi fram í læknisvottorði og gögnum sem send hafi verið til Tryggingastofnunar að endurhæfing sé fullreynd og kærandi fari fram á að tekið sé mark á því. Það sé langt síðan endurhæfing hafi verið fullreynd í tilfelli kæranda. Kærandi fari fram á að endurhæfing sé metin sem fullreynd og að hann fái örorku samþykkta aftur í tímann þar sem kærandi sé nú þegar á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum og einnig komi það fram í læknisvottorði að endurhæfing sé fullreynd. Það sé til skammar að hafa kæranda, sem sé húsnæðislaus, á tekjum sem dugi ekki einu sinni fyrir leigu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 23. júní 2022, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 14. júlí 2022, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hans þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Tryggingastofnun krefjist staðfestingar á ákvörðun sinni frá 14. júlí 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr.  18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.“

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris. Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónarðaðilar endurhæfingaráætlunarinnar.

Þá sé í 37. gr. almannatryggingalaga, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um endurhæfingarlífeyri, meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 20. júní 2019, og fengið endurhæfingartímabil samþykkt með bréfi, dags. 5. júlí 2019. Kærandi hafi í kjölfarið fengið greiddan endurhæfingarlífeyri samfleytt í fimmtán mánuði eða frá 1. júlí 2019 til 30. september 2020.

Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 27. janúar 2021, en þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, með þeim rökum að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Kærandi hafi sótt aftur um örorkulífeyri með framlagningu nýrra gagna, dags. 2. mars 2021, en þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 4. mars 2021, með vísan til sömu raka og áður auk þess sem bent hafi verið á að samkvæmt gögnum hafi endurhæfing kæranda virst vera í gangi. Kærandi hafi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 13. mars 2021, en með úrskurði, dags. 1. september 2021, hafi ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, verið staðfest.

Kærandi hafi sótt enn einu sinni um örorkulífeyri með umsókn, dags. 23. júní 2022, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 14. júlí 2022, með vísan til sömu forsendna og áður. Kæranda hafi aftur verið bent á að samkvæmt gögnum virtist hann vera að sinna endurhæfingu. Sú niðurstaða hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 3. ágúst 2022.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 14. júlí 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 23. júní 2022, læknisvottorð, dags. 22. júní 2022, eldri gögn vegna fyrri umsókna um örorku og endurhæfingarlífeyri og gögn sem lögð hafi verið fram í tilefni af kæru.

Í læknisvottorði D heimilislæknis, dags. 22. júní 2022, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 14. júlí 2022 sé vottað um það að kærandi sé óvinnufær með öllu vegna fíknisjúkdóms og fylgikvilla hans. Um sjúkrasögu kæranda segi að hann sé xx ára karlmaður í sprautuneyslu á rítalíni og morfíni auk daglegrar neyslu á kannabis. Þá segi að hann hafi hlotið líkamlegan skaða vegna langvarandi neyslu í formi taugaskaða og verkja í kjölfar árekstra auk þess sem andleg heilsa hans hafi verið slæm í langan tíma. Fyrsta innlögn hans á geðdeild vegna fíknivanda auk sjálfsvígshugsana hafi verið fyrir átta árum. Síðan þá hafi hann lagst sex sinnum til viðbótar inn á geðdeild. Auk innlagna á geðdeild eigi kærandi að baki fjórtán innlagnir á E, átta mánaða meðferð á B, sex mánaða meðferð í F og tvær upprætingarmeðferðir vegna veirulifrarbólgu. Þá hafi VIRK hafnað kæranda í tvígang en hann hafði verið að sinna meðferð í C sem hafi gengið vel þangað til nýlega þegar hann hafi fallið. Einnig segi að kærandi sé að hitta sálfræðing vegna kvíðaröskunar sem hann glími við og rekja megi til áfalla í tengslum við neyslu hans. Kærandi geri ráð fyrir að komast að hjá F aftur í x næstkomandi. Að lokum segi að kærandi hafi ekki verið í fastri vinnu síðan 20xx, að hann hafi verið óvinnufær síðan þá og að endurhæfing kæranda sé fullreynd.

Skýrsla skoðunarlæknis liggi ekki fyrir í málinu en að mati Tryggingastofnunar hafi ekki verið tilefni til þess að senda kæranda til skoðunarlæknis.

Ný gögn sem lögð hafi verið fram í tilefni af kæru gefi ekki tilefni til breytinga á ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Tryggingastofnun vilji ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Tryggingastofnun hafi á ný lagt mat á fyrirliggjandi gögn og virt þau í ljósi annarra og nýrri læknisfræðilegra gagna sem liggi fyrir í málinu. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 22. júní 2022, og öðrum fyrirliggjandi gögnum sé líkamleg og andleg færniskerðing kæranda, svo sem hún sé metin af sérfræðingum Tryggingastofnunar, slík að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hans hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé ekki útilokað að færni kæranda aukist með endurhæfingu þar sem ekki verði ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Svo virðist sem virk endurhæfing sé í gangi hjá kæranda, hafi verið í gangi upp á síðkastið og að frekari endurhæfing sé áætluð í framtíðinni. Mælt sé með því að kærandi haldi áfram að láta reyna á viðeigandi endurhæfingu og sæki um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun.

Af ofangreindum forsendum hafi læknum Tryggingastofnunar sýnst að meðferð hjá kæranda í formi endurhæfingar væri ekki fullreynd og þar af leiðandi væri ekki tímabært að meta örorku hjá kæranda sérstaklega þar sem að 36 mánuðum hafi ekki verið náð á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Telji Tryggingastofnun það því vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Þar sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð.

Það sé því niðurstaða sérhæfðs mats Tryggingastofnunar á möguleikum kæranda til endurhæfingar að slíkt sé ekki fullreynt. Kærandi uppfylli ekki það skilyrði 18. gr. almannatryggingarlaga um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun einnig taka fram að mat á því hvort að endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort að viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Einnig skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, það er að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Við yfirferð máls þessa og gagnaöflun skuli þess getið að nú þegar sé komin fram umsókn um endurhæfingarlífeyri fyrir kæranda, dags. 11. ágúst 2022.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júlí 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð D, dags. 22. júní 2022. Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„xx ára karlmaður í sprautuneyslu með Rítalín og morfin, einnig dagneysla á cannabis. Fyrsta koma að geðdeild fyrir 8 árum vegna fíknivanda. Á að baki nokkrar innlagnir á 32A og 33A vegna fíknivanda og sjálfsvígshugsana. Var um tíma á göngudeild fíknimeðferðar. Gerði sjálfsvígstilraun í x 20xx með inntöku lyfja. Langvinn veirulifrarbólga, fór í upprætingarmeðferð 20xx, kláraði meðferð í x 20xx, hefur farið tvisvar í upprætingarmeðferð.

14 innlagnir inn á E að baki. 7 innlagnir inn á Geðdeild. 8 mánaða meðferð á B. Eftir B var farið í F, var þar í 6 mánuði. VIRK hafa hafnað umsókn í tvígang. Hefur verið á C í meðferð sl. árið og gengið vel en féll nýlega. Hefur hlotið skaða á líkama vegna langvarandi neyslu. Andleg heilsa einnig verið slæm í langan tíma. Þunglyndi, kvíði og streita.

Taugaskaði, eftir að hafa […]. Finnur lítið á vi. hliðinni. Verið í 9 ár að fá bætur frá Félagsmálastofnun. […].

Farið í F í þrígang.

Lenti í tveimur árekstrum 20xx, hlaut þá skaða í hálsi, herðum, mjóbaki og hnjám. Getur erfiðlega gengið og stundað hreyfingu vegna verkja í liðum.

hefur verið á örorku frá 2021 hjá G lífeyrissjóði og lífeyrissjóði H. Hefur ekki verið í fastri vinnu síðan 20xx, verið óvinnufær síðan þá. Þjáist að kvíðaröskun vegna áfalla sem tengjast neyslu. Er hjá sálfræðingi og er þá að vinna í þeim áföllum. Endurhæfing hefur verið fullreynd að svo stöddu.

Óskað er eftir örorku fyrir sl. 2 ár.“

Meðfylgjandi umsókn um endurhæfingarlífeyri, dags. 11. ágúst 2022, var læknisvottorð I geðlæknis, dags. 11. ágúst 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„Fíknisjúkdómur, blönduð neysla

Bipolar affective disorder, unspecified

Anxiety disorder

Obs. ADHD“

Í samantekt vottorðsins segir:

„Maður með gríðarlega neyslusögu. Búinn að vera að reyna að vera edrú í 3 ár og mikilvægt að hann fái stuðning til þess. Aldrei farið til geðlæknis og það gefur nýja von því hann virðist vera með geðhvörf sem aldrei hafa verið meðhöndluð, sem og kvíðaröskun.“

Í endurhæfingaráætlun undirritaðri af I geðlækni, dags. 11. ágúst 2022, kemur fram eftirfarandi áætlun um endurhæfingu:

„1. Meðferð hjá u.r. á 6 vikna fresti, 45 min. í senn. Greinig og meðferð. – nýbyrjaður

2. Sálfr.meðferð 1 klst í senn, x1 í mánuði – langar oftar en hefur ekki efni á því. Er að sækja um styrk hjá féló. – byrjaði 20. júní.

3. Er að byrja í undirbúningshópi í F og fer bráðum í fulla meðferð.

4. AA fundir x2 á dag

5. Hreyfing: ræktin x1-2 í viku.“

Fyrir liggja bréf frá VIRK, dags. 7. október og 18. nóvember 2019, þar sem beiðni kæranda um starfsendurhæfingu er hafnað. Einnig liggur fyrir bréf frá Landspítala, dags. 8. júlí 2022, um innlagnir kæranda, staðfesting frá meðferðarheimilinu B, dags. 5. júlí 2022, á meðferð kæranda á árinu 2019 og staðfesting frá J, dags. 3. júní 2022, á meðferð kæranda á meðferðarheimilinu C á árinu 2021. Þá liggur einnig fyrir bréf frá K, félagsráðgjafa hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, dags. 30. júní 2022, og þar segir:

„A hóf þátttöku í undirbúningi að endurhæfingu fyrir einstaklinga með fíknsjúkdóm í janúar 20xx. A hóf síðan eiginlega þátttöku í endurhæfingarúrræði F í mars sama ár.

Markmiðið með endurhæfingunni í F er að styðja fólk til sjálfshjálpar sem hefur notið félagslegrar ráðgjafar félagsþjónustu til lengri tíma vegna langvarandi áfengis- og annarrar vímuefnamisnotkunnar, auk félagslegra erfiðleika. Um er að ræða 20 mánaða endurhæfingu sem möguleiki á áframhaldandi, stuðning og eftirfylgd í allt að 2 ár eða eftir þörfum.

Eins og fyrr segir var A um tíma í endurhæfingu F frá því um miðjan mars 20xx og fékk fyrstu greiðslu endurhæfingarlífeyris 1. júní 2020. A náði að nýta sér fræðslu F og prógramm þar til um haustið 20xx. Hann hafði fengið inngöngu í nám sem lið í endurhæfingu á haustönn 20xx. A féll í neyslu vímuefna og náði sér ekki á strik aftur. A hefur ítrekað farið í meðferðir á B og C en ekki náð árangri í bata frá vímuefnum. A hefur sótt um í endurhæfingu F u.þ.b. 2 á ári síðan 2020 en aldrei náð þeim árangi sem krafist er til að geta nýtt sér endurhæfingu F, þ.e. að vera á fíkniefna, frá því um haustið 2020. Tíminn sem A náði í endurhæfingu F er mjög stuttur.

Undirrituð telur að endurhæfing A sé fullreynd þó hann hafi ekki nýtt sér nema 6 mánað í endurhæfingu og 4 mánuði af endurhæfingarlífeyri.

Undirrituð hefur komið að málum A þar sem hún er einnig verkefnisstjóri F.“

Í fyrirliggjandi spurningalistum vegna færniskerðingar sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, dags. 23. júní 2022, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi að hann hafi lent í tveimur slysum árið 20xx og að hann hafi ekki unnið neitt síðan 20xx vegna fíknisjúkdóms og verkja sem hafi versnað í gegnum árin. Þá hafi kærandi gert ítrekaðar tilraunir til endurhæfingar en sjaldan komist á endurhæfingarlífeyri þrátt fyrir að hann hafi verið inniliggjandi í endurhæfingu lengur en átján mánuði. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja og taugaskaða. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hann eigi við geðræn vandamál að stríða. Hann sé hjá sálfræðingi og geðlækni í ADHD greiningu sem hefði átt að framkvæma þegar hann hafi verið unglingur en hafi ekki verið framkvæmd fyrr vegna neyslu hans.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um frekari endurhæfingarúrræði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum og líkamlegum toga og að hann hefur verið í endurhæfingu um tíma. Í læknisvottorði D, dags. 22. júní 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að endurhæfing sé fullreynd að svo stöddu. Í vottorðinu kemur einnig fram að kærandi eigi að baki fjórtán innlagnir á E, sjö innlagnir á geðdeild Landspítala, átta mánaða meðferð á B og sex mánaða meðferð í F. Þá hafi hann verið á C í meðferð en hafi fallið í neyslu fíkniefna nýlega. Enn fremur er þess getið að VIRK hafi í tvígang hafnað umsókn kæranda. Í bréfi K félagsráðgjafa, dags. 30. júní 2022, kemur fram að kærandi hafi verið í endurhæfingu hjá F í upphafi árs 20xx en henni hafi lokið þar sem kærandi hafi fallið í neyslu fíkniefna í lok maí eða byrjun júní 20xx. Kærandi hafi sótt um tvisvar á ári eftir það hjá F en hafi aldrei náð þeim árangri sem krafist sé til að geta nýtt sér endurhæfingu þar, þ.e. að vera án fíkniefna. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið samþykktan endurhæfingarlífeyri fyrir tímabilið 1. september til 30. nóvember 2022 með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 14. september 2022. Læknisvottorð  I, dags. 11. ágúst 2022, var meðfylgjandi umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri. Í samantekt vottorðsins kemur fram að kærandi hafi aldrei farið til geðlæknis en svo virðist sem hann sé með geðhvörf og kvíðaröskun sem aldrei hafi verið meðhöndluð. Enn fremur liggur fyrir endurhæfingaráætlun, dags. 11. ágúst 2022, þar sem kemur meðal annars fram að kærandi muni sækja meðferð geðlæknis á sex vikna fresti og að hann sé að byrja í undirbúningshópi í F og fari bráðum í fulla meðferð.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af fyrrgreindu læknisvottorði I og eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti áfram komið honum að gagni, enda liggur fyrir áætlun um að reyna endurhæfingu frekar. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í fimmtán mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á frekari endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júlí 2022, um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta