Hoppa yfir valmynd

Nr. 226/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. júní 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 226/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22050038

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 23. maí 2022 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. maí 2022, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna náms hinn 9. október 2013 með gildistíma til 1. febrúar 2014 og var leyfið endurnýjað nokkrum sinnum síðast með gildistíma til 1. febrúar 2015. Kærandi fékk á ný dvalarleyfi á sama grundvelli útgefið 17. ágúst 2015, sem var endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 15. júlí 2020. Hinn 23. nóvember 2020 fékk kærandi útgefið dvalarskírteini fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara með gildistíma til 29. október 2025. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga 27. desember 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. maí 2022, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 23. maí 2022.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 24. maí 2022, var kæranda leiðbeint og gefið færi á að leggja fram greinargerð og frekari gögn máli sínu til stuðnings. Engin frekari gögn bárust frá kæranda við meðferð málsins.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um ákvæði 1. mgr. 58. gr. og b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna náms og dvalist samfellt hér á landi frá 17. ágúst 2015 til 15. júlí 2020 á þeim grundvelli. Síðan þá hafi kærandi dvalið hér á landi á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga sem mæli fyrir um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Kærandi hafi því ekki dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár á grundvelli dvalarleyfis sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Samkvæmt framangreindu uppfylli kærandi hvorki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga né undantekningarákvæði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð við meðferð málsins.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Kærandi hefur dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 65. gr. laganna getur dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu ekki verið grundvöllur dvalarleyfis nema b-liður 58. gr. laganna eigi við. Þá hefur kærandi haft dvalarleyfi hér á landi á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga sem aðstandandi EES- eða EFTA-borgara frá 23. nóvember 2020.

Í b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er m.a. mælt fyrir um að heimild til að víkja frá því skilyrði að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl samkvæmt 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt. Kunna þessar heimildir að eiga við ef útlendingur á íslenskan ríkisborgara sem foreldri, er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, hefur misst íslenskan ríkisborgararétt eða afsalað sér honum eða hefur dvalið hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Eins og áður hefur komið fram er það skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga að útlendingur hafi dvalist hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Í XI. kafla laganna er að finna sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í köflum V. – X. kafla laga um útlendinga er sérstaklega tekið fram hvaða dvalarleyfi geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis og hver ekki. Í XI. kafla laga um útlendinga er hins vegar að finna sérreglur sem eiga einungis við um réttindi EES- og EFTA borgara og aðstandendur þeirra. Að mati kærunefndar getur dvalarréttur samkvæmt XI. kafla ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi aldrei haft dvalarleyfi á öðrum grundvelli en vegna náms eða sem aðstandandi EES- eða EFTA-borgara hér á landi. Að þessu virtu er ljóst að kærandi uppfyllir hvorki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að hafa dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis né undantekningarákvæði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert fram komið í málinu sem bendir til að undantekningarheimildir 3. mgr. 58. gr. laganna eigi við um kæranda. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

                                            Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta