Hoppa yfir valmynd

Nr. 447/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 447/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24010020

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 3. janúar 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Kanada ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. desember 2023, um að synja umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms. Hinn 14. desember 2023 var kæranda tilkynnt um ákvörðun Útlendingastofnunar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Hinn 14. desember 2023 var ákvörðun Útlendingastofnunar send kæranda með ábyrgðarbréfi. Sama dag var kæranda send rafræn tilkynning um væntanlega heimsendingu. Samkvæmt upplýsingum póstsins var enginn heima og tókst því ekki að afhenda ákvörðunina. Kæranda var send rafræn tilkynning að nýju 15. desember 2023, ítrekun 22. desember 2023, og loks var afhending bókuð 2. janúar 2024.

Með tölvubréfi til lögmanns kæranda, dags. 10. apríl 2024, óskaði kærunefnd eftir skýringum á því hvers vegna kæra hafi borist utan lögmælts kærufrests. Lögmaður kæranda lagði fram röksemdir og skýringar vegna málsins með tölvubréfum, dags. 10., 11., og 12. apríl 2024. Í fyrsta lagi sé vísað til þess að kærandi hafi móttekið ákvörðun með bréfpósti 2. janúar 2024. Enn fremur nefnir lögmaður kæranda að um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun sem tekin hafi verið nokkrum dögum fyrir jól og að verulegur hluti kærufrestsins hafi liðið yfir hátíðarnar. Kærandi sé af erlendu bergi brotinn og hafi ekki notið lögfræðiaðstoðar á fyrri stigum málsins. Kærandi hafi ekki verið meðvitaður um að innihald póstsins hafi verið neikvæð stjórnvaldsákvörðun og að réttaráhrif þess að sækja bréfið of seint væru slík að það varði kærufrest. Í því samhengi bendir kærandi einnig á að ferðin á pósthús hafi verið vegna móður sinnar sem ætlaði að sækja bréf en þá hafi komið í ljós að kæranda beið einnig bréf frá Útlendingastofnun. Loks kemur fram að kærandi hafi lagt fram kæru einum degi eftir að umrædd ákvörðun var komin til vitundar hans. Með vísan til alls framangreinds, einkum eðli máls, íþyngjandi ákvörðunar og þess að skammur tími hafi liðið frá lokum kærufrests telji kærandi veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

II.            Niðurstaða

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar skal m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda send tilkynning 14. desember 2023 um að ákvörðun Útlendingastofnunar væri á leið til hans en kærandi hafi ekki verið við og enga bréfalúgu var að finna.  Kæranda var send rafræn tilkynning að nýju 15. desember 2023. Er því ljóst að ákvörðun Útlendingastofnunar var komin til vitundar kæranda í samræmi við reglur stjórnsýslulaga 15. desember 2023. Þá hafi rafræn tilkynning verið ítrekuð og 22. desember 2023. Þrátt fyrir það hafi kærandi dregið það til 2. janúar 2024 að vitja ákvörðunarinnar. Kærandi hefur gefið þær útskýringar að hann hafi ekki vitað af bréfinu, verulegur hluti kærufrestsins hafi liðið yfir hátíðarnar, auk þess sem hann sé af erlendu bergi brotinn og hafi ekki notið lögfræðiaðstoðar á þessu stigi málsins.

Kærunefnd hefur yfirfarið röksemdir kæranda. Af ákvörðun Útlendingastofnunar er ljóst að gerð var grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert beina skyldi kæru í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá eru tengiliðaupplýsingar um viðtakanda ákvörðunar þær sömu og kærandi gaf upp í dvalarleyfisumsókn sinni. Gögn málsins bera ekki með sér að sé afsakanlegt sé að kæra hafi borist seint. Í því samhengi lítur nefndin einkum til þess að kærandi hafi fengið samtals þrjár rafrænar tilkynningar um bréf til afhendingar sem allar voru innan kærufrestsins. Að framangreindu virtu er verður ekki talið að taka beri kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hefur kærunefnd farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Hvorki verður séð af gögnum málsins að um slíkt fordæmisgefandi mál sé að ræða né að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur sótti kærandi um dvalarleyfi vegna náms að nýju 5. mars 2024, og sætir sú umsókn sjálfstæðri málsmeðferð Útlendingastofnunar.

Að öllu framangreindu virtu ber að vísa kæru þessari frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð:

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

 

The applicant‘s appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta