Mál nr. 340/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 340/2021
Föstudaginn 27. ágúst 2021
A og B
gegn
Félagsmálanefnd C
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, dags. 2. júlí 2021, móttekinni 5. júlí 2021, kærði D lögmaður, f.h. A og B erlends ríkisborgara án íslenskrar kennitölu, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð félagsmálanefndar C, dags. 30. júní 2021, um að dóttir þeirra, E, skuli dveljast á Íslandi fram til 4. september 2021 og óheimilt á því tímabili væri að fara með barnið úr landi með vísan til d-liðar 1. mgr. 26. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl).
I. Málsatvik og málsmeðferð
E er rúmlega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá foreldra sinna sem eru kærendur málsins. Stúlkan býr á heimili móðurforeldra sinna ásamt foreldrum sínum.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærendur hafi ekki samþykkt að skuldbinda sig til að dvelja með barnið á Íslandi til 4. september 2021 á meðan unnið væri samkvæmt meðferðaráætlun í máli þeirra. Félagsmálanefnd C taldi að það væru brýnir hagsmunir stúlkunnar að hún dveldi á Íslandi á meðan unnið væri að frekari stuðningi við fjölskylduna og því hafi verið nauðsynlegt að banna för með barnið af landi brott frá uppkvaðningu úrskurðar og fram til 4. september 2021 svo að unnt væri að tryggja hagsmuni stúlkunnar á meðan frekari vinnsla málsins færi fram. Samhliða úrskurði um bann við för barnsins úr landi var gerð einhliða áætlun í málinu í samræmi við 4. mgr. 23. gr. bvl.
Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„E, skal dveljast hér á landi fram til 4. september 2021, og er óheimilt á því tímabili að fara með barnið úr landi með vísan til d-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Samkvæmt einhliða áætlun skal hlutverk forsjáraðila vera:
- Taka á móti tilsjón og ráðgjöf inn á heimilið einu sinni í viku og einu sinni í viku í F, tileinka sér ráðgjöfina, og vera í samvinnu við tilsjónaraðila
- Taka á móti óboðuðu eftirliti á heimilið allt að einu sinni í viku.
- Taka á móti boðuðu eftirliti inn á heimilið allt að einu sinni í viku.
- Að mæta með stúlkuna á leikskólann alla virka morgna frá klukkan 10:00 og sækja hana þangað klukkan 15:00.
- Að foreldrar sinni nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og tryggi að barnið fái nauðsynlega meðferð hjá tannlækni.
- Að foreldrar tryggi að barnið dveljist hér á landi meðan áætlun þessi er í gildi.“
Lögmaður kæranda lagði fram kæru, dags. 2. júlí 2021, hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. júlí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. júlí 2021, var óskað eftir greinargerð Félagsmálanefndar C ásamt gögnum málsins. Greinargerð félagsmálanefndarinnar barst 15. júlí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júlí 2021, var hún send lögmanni kærenda til kynningar. Athugasemdir bárust með tölvupósti, dags. 20. júlí 2021, og voru þær sendar samdægurs til félagsmálanefndarinnar til kynningar. Viðbótargreinargerð félagsmálanefndarinnar barst með bréfi, dags. 26. júlí 2021, og var hún send lögmanni kærenda til kynningar með bréfi samdægurs. Viðbótarathugasemdir kærenda bárust með tölvupósti, dags. 27. júlí 2021, og voru þær sendar félagsmálanefndinni til kynningar með bréfi, dags. 28. júlí 2021. Viðbótarathugasemdir kærenda bárust með tölvupósti 30. júlí 2021 og voru þær sendar félagsmálanefndinni til kynningar með bréfi samdægurs. Lögmaður kærenda sendi úrskurðarnefndinni upplýsingar um framgang málsins með tölvupósti 1. ágúst 2021. Frekari gagnaöflun fór ekki fram.
II. Sjónarmið kæranda
Kærður er úrskurður Félagsmálanefndar C um að barnið skuli dvelja á Íslandi til 4. september 2021 og að óheimilt sé að fara með barnið úr landi. Einnig sé kærður sá liður úrskurðarins sem mælir fyrir um óboðað eftirlit með heimili einu sinni í viku. Kærendur krefjast þess að tilgreindum og kærðum liðum verði hrundið með vísan til 4. mgr. 52. gr. bvl. Þá er þess krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála ákveði að framkvæmd hinna kærðu liða úrskurðar, og þá sérstaklega banni við að fara með barnið úr landi, skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn. Jafnframt er þess beiðst að úrskurðarnefnd velferðarmála hraði meðferð málsins með vísan til alvarleika málsins og hve íþyngjandi úrskurðurinn er.
Fram kemur í kæru að faðir stúlkunnar, sem fer með forsjá hennar ásamt móður hennar, sé G ríkisborgari. Foreldrarnir hafi kynnst í G og búið þar fyrst eftir fæðingu stúlkunnar hjá föðurmóður en síðan hjá föðurföður. Þau hafi síðan flutt til Íslands og búið fyrst hjá foreldrum móður en síðan hjá afa og ömmu stúlkunnar hér á Íslandi þar sem þau búa núna við mikið þröngbýli.
Faðir stúlkunnar geti ekki fengið íslenska kennitölu og dvalarleyfi ásamt atvinnuleyfi á Íslandi því að hann hafi ekki ráðningarsamning en hann hafi ekki getað fengið atvinnu þar sem hann sé ekki með íslenska kennitölu og atvinnuleyfi. Til að fá dvalarleyfi á Íslandi og íslenska kennitölu þurfi viðkomandi að sýna fram á að hann geti framfleytt sér en það hafi faðirinn ekki getað gert af framangreindum ástæðum og Félagsmálanefnd C hafi ekki sýnt þessum erfiðleikum neinn skilning. Ef faðir hefði fengið fjárhagsaðstoð tímabundið hjá sveitarfélaginu hefði hann getað sótt um dvalarleyfi og fengið íslenska kennitölu og í framhaldinu einnig atvinnuleyfi og atvinnu. Faðirinn geti því á engan hátt séð fyrir sér né fjölskyldu sinni hér á landi og þoli hann þetta ástand ekki lengur og vilji flytjast til G aftur á þann stað sem þau komu frá, til föður síns sem hafi húsnæði og atvinnu fyrir hann, þannig að hann geti þá séð fjölskyldu sinni bæði fyrir húsnæði og framfærslu.
Það sé því óskiljanlegt að félagsmálanefnd sýni þessu vandamáli engan skilning og skrifi greinargerð eins og skrifuð hafi verið og kveði upp slíkan úrskurð um kyrrsetningu dóttur mannsins hér á landi en barnið sé fætt í G og sé G ríkisborgari. Þetta vilji félagsmálnefndin ekki ræða og segir að faðirinn geti farið til G en barnið fái ekki að fara. Móðir vilji einnig flytjast til G en hvorugu þeirra hafi verið kunnugt um þessar reglur hér á Íslandi varðandi dvalarleyfi og atvinnumöguleika fólks […] áður en þau komu. Þar sem faðirinn sé þannig staddur hér í landinu og án íslenskrar kennitölu sé hann ekki inni í heilbrigðiskerfinu á Íslandi og geti ekki fengið læknisþjónustu hér á landi og nauðsynleg lyf sem hann þurfi að nota við ADHD og hann sé því lyfjalaus.
Þetta viti einnig Félagsmálanefnd Cr og þetta hafi verið rætt á fundi með Félagsmálanefnd C á fundi 30. júní 2021, en engin samúð hafi verið sýnd né skilningur og aðeins sagt að honum væri velkomið að fara af landinu en hann fengi ekki að fara af landinu með dóttur sína því að hún væri kyrrsett hér á landi. Stúlkan sé hænd að foreldrum sínum og viðurkennt sé í gögnum málsins að það sé henni fyrir bestu að vera í umsjá foreldra sinna, en enginn skilningur sé sýndur á aðstæðum foreldranna og móðir hefur aðeins fengið um 130.000 krónur á mánuði í fjárhagsaðstoð og það eigi að nægja fjölskyldunni til að lifa af hér á Íslandi. Síðan sé þeim skipað að fara með stúlkuna til tannlæknis og leita sjálf eftir læknisþjónustu sem sé útilokuð fyrir manninn, án þess að bjóða fjárhagsaðstoð til þess.
Á fundinum 30. júní lýstu foreldrar yfir vilja til samvinnu við nefndina og féllust á að barnið væri í leikskóla, sem það hafði verið byrjað í en fengið umgangspestir eftir að byrja þar og því hafi verið fjarvistir frá leikskólanum. Þau hafi fallist á tilsjón inn á heimilið, vikuleg viðtöl á skrifstofu, boðað eftirlit og beðið um sálfræðiaðstoð, sem sveitarfélagið myndi greiða fyrir, og hafi nefnt sérstakan sjálfræðing en því hafi verið hafnað af nefndinni. Margar rangfærslur séu í gögnum málsins svo sem þær að foreldrar hafi búið með stúlkuna á götunni í Gen það hafa þau aldrei gert. Þau hafi leiðrétt þetta á fundinum en haldið sé áfram að skrifa þetta í gögn málsins.
Móðir verði veik við tilhugsun um óboðað eftirlit en hún þjáist af kvíða og sé svefnlaus af að hugsa til óboðaðs eftirlits. Krafist sé að meðalhófs verði gætt við úrlausn málsins, virt verði sú meginregla að sundra ekki fjölskyldu og að kærðir íþyngjandi liðir verði felldir úr gildi strax svo að faðirinn geti framfleytt fjölskyldu sinni og boðið barni sínu og konu það besta sem hann getur veitt þeim.
Í athugasemdum lögmanns kærenda við greinargerð félagsmálanefndarinnar kemur fram að margar rangfærslur séu í greinargerðinni og þær sömu rangfærslur séu endurteknar úr fyrri gögnum, þrátt fyrir að foreldrar hafi leiðrétt þær á fundi 30. júní 2021 og lögmaður hafi einnig áréttað það í kæru.
1. Foreldrar hafi aldrei búið með barnið á götunni í G og hafi þessi rangfærsla verið leiðrétt af foreldrum sjálfum á fundinum.
Eftir fæðingu hafi stúlkan þurft að vera á vökudeild á sjúkrahúsi um tíma en þegar hún útskrifaðist þaðan fluttu foreldrar fyrst til föðurmóður í G og síðan til föðurföður.
Foreldrar hafa ekki verið húsnæðislaus eftir að stúlkan fæddist. Það að búa hjá foreldrum sínum eða í húsnæði í eigu foreldra sé ekki húsnæðisleysi. Slíkt sé algengt hjá ungu fólki í dag, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Á Íslandi hafa þau fyrst búið móðurforeldrum en síðan hjá afa og ömmu móður þar sem þau hafa síðan búið. Foreldrar segja sjálf að það sé of lítið húsnæði og að þau geti fengið betra húsnæði hjá föðurföður í Gog þar geti faðir einnig fengið vinnu. Það að félagsmálanefndin segi þetta óvisst sé þvílíkur yfirgangur og mannréttindabrot og ekki má líðast að þess háttar meðferð á erlendum ríkisborgara, fjölskyldu hans og barni, sem einnig er G ríkisborgari, fái að viðgangast hér á landi.
2. Móðir staðfesti ítrekað á fundi 30. júní með félagsmálanefndinni að hún hefði oft reynt að sækja um vinnu fyrir föður en hann gæti ekki fengið vinnu því að hann hefði ekki íslenska kennitölu.
Einnig lýsti móðir því að þau hefðu reynt að fá dvalarleyfi og íslenska kennitölu fyrir föður, en það hefði ekki gengið því að hann hafði ekki atvinnu og gæti ekki sýnt fram á framfærslugetu hér á landi. Sérstaklega hafi verið um þetta fjallað á fundinum og lögmaður greint frá því að til að unnt væri að fá dvalarleyfi í landinu yrði að sýna fram á að viðkomandi gæti framfleytt sér í landinu og hefði því annaðhvort atvinnu eða fastar greiðslur til framfærslu frá sveitarfélagi eða ríki, en ekkert af þessu hefur faðir getað fengið.
Þetta hafi verið sérstaklega útskýrt fyrir nefndarmönnum og spurði lögmaður hvort félagsmálanefndin gæti komið því til leiðar að sveitarfélagið gæti aðstoðað föður og þá hugsanlega með atvinnu eða fjárstuðning en svarið hafi verið að lögmaðurinn gæti aðstoðað hann sjálfur, félagsmálanefndin gerði það ekki og ekki sveitarfélagið, föður væri velkomið að fara af landinu. Það sé því ótrúlegt að starfsmaður, sem skrifaði fundargerð fundarins 30. júní og skrifi einnig greinargerð til úrskurðarnefndarinnar, skrifi að boðist hafi verið til að aðstoða föður og að hann hafi ekki óskað eftir neinni hjálp eða viljað hjálp.
Föður hafi ítrekað verið sagt að hann gæti farið af landinu og það án dóttur sinnar sem ekki megi fara af landinu. Það hafi verið skýrt tekið fram á tilvitnuðum fundi félagsmálanefndar. Jafnframt sé undarlegt að í sömu greinargerð sé einnig þrætt fyrir að félagsmálanefndin vinni að því að sundra fjölskyldunni því að það sé hið eina sem þau séu að gera gagnvart föður.
3. Það boð að ætla að setja föður í úrræði fyrir fólk með geðraskanir og félagslega einangrun minnir á fornaldaraðferðir og fáfræði.
Það hafi ítrekað komið fram að faðir hafi ekki lyf hér á landi sem hann þarf nauðsynlega að nota við ADHD og hann geti ekki komist til læknis hér á landi því að hann sé ekki í heilbrigðiskerfinu hér á landi þar sem hann er ekki með íslenska kennitölu. Þetta hafi einnig komið fram á fundinum.
Það sé því alveg ljóst að full ástæða hafi verið fyrir föður að krefjast þess að fá að taka hljóðupptöku af fundinum því að svo margt hafi ranglega verið haft eftir honum við vinnslu málsins og ekki höfð eftir honum frásögn hans af staðreyndum.
Upptökubeiðni hans hafi verið hafnað því að hér væri verið að ræða trúnaðarmál og vísað í inntak barnaverndarlaga.
Ekki verður séð hvernig rangfærslur um hag og heilsu, vilja og getu ásamt fyrirætlunum foreldra til hagsbóta fyrir barn sitt og getu til framfærslu fjölskyldunnar og bætta afkomu geti talist í samræmi við barnaverndarlög.
4. Á fundinum hafi verið túlkur sem efast sé um að sé löggiltur túlkur sem túlkaði og vafasamt að hún hafi túlkað rétt úr því að þetta hafi allt skolast svona til um staðreyndir málsins, allavega verði að telja túlkinn vanhæfan því að hún hafi tekið til við að tala máli barnaverndarnefndar á fundinum um mikilvægi þess að barn sé í leikskóla frá 8-16 á hverjum degi sem almennt þykir fullmikið og orsaki þreytu hjá börnum. Allavega sýni þetta að túlkurinn hafi ekki verið hlutlaus og þar sem frásagnir föður virðast allar misskildar og rangfærðar sé það spurning hvort rétt hafi verið túlkað.
Staðreyndin sé sú að faðirinn er G ríkisborgari sem hafi engin réttindi hér á landi, hann þurfi nauðsynlega á lyfjum og læknishjálp að halda sem hann geti ekki fengið hér. Fjölskyldan hafi húsnæði í G sem þau geta flutt í og þar stendur föðurnum til boða atvinna svo að hann geti unnið fyrir fjölskyldunni. Faðirinn segist vilja flytja til heimalands síns til að geta veitt dóttur sinni það besta sem hann geti veitt henni.
Stúlkan sé G ríkisborgari og eigi rétt á að fara til G með foreldrum sínum.
Félagsmálanefnd kallar aðstæður í G "óvissu" og ber að því leyti lygar upp á foreldrana sem verður að telja mjög alvarlegt.
Vert sé að hafa í huga að það séu einnig barnaverndaryfirvöld í G og að ljóst sé að Félagsmálanefnd C sé komin langt út fyrir verksvið sitt og valdsvið og alvarlegt sé að kyrrsetja þannig fjölskyldu erlends ríkisborgara og ætlast til að hann yfirgefi barn sitt og hypji sig í burtu.
Því sé krafist að réttaráhrifum úrskurðarins verði þegar í stað frestað og að kærður úrskurðarliður um bann við brottför úr landi verði þegar í stað felldur úr gildi. Einnig sé krafist að úrskurður um óboðað eftirlit verði felldur úr gildi því að samþykkt hafi verið heimsókn á heimilið einu sinni í viku sem ætti að duga sem eftirlit með heimilinu. Taka beri tillit til að tilhugsun móður um slíkt inngrip í friðhelgi heimilis þeirra valdi henni svefnleysi og kvíða.
Það séu mjög eðlileg viðbrögð miðað við hvernig afstaða og viðmót félagsmálanefndar sé við foreldrana.
Foreldrar hafi verið með stúlkuna með sér á fundinum og var hún hrein og greidd og í hreinum fötum og ekkert athugavert við hana að sjá.
Hún sótti mikið í báða foreldra sína sem héldu á henni til skiptis og léku við hana. Stúlkan sé því greinilega mjög hænd að báðum foreldrum sínum og ekki að sjá að hún sé vannærð eða vanrækt að neinu leyti.
Í viðbótarathugasemdum lögmanns kæranda kemur fram að það sé ekki "óvisst húsnæði" að búa í húsnæði foreldra sinna. Það gerir fjöldi manns hér á landi og í öðrum löndum. Erfitt sé að kaup sitt fyrsta húsnæði. Kjarnafjölskylda sé gamalt og gott fjölskylduform.
Faðir lýsti því fyrir nefndinni að hann gæti fengið húsnæði og atvinnu hjá föður sínum og þangað vilji þau flytja. Að vefengja þessa staðhæfingu föður er að gefa til kynna að hann segi ósatt.
Barnið sé erlendur ríkisborgari og einnig faðir sem hefur ekki dvalarleyfi hér á landi og ekki atvinnuleyfi og vill því flytja með fjölskyldu sína til heimalands síns þar sem hann getur fengið húsnæði og atvinnu og séð fyrir fjölskyldunni. Móðir hafi fengið heimild til ferðar til G.
Að ráðskast svo með erlendan ríkisborgara og fjölskyldu hans og kyrrsetja barn hans hér á landi er mannréttindabrot.
Barnið dvelji hér á Íslandi aðeins af því að það er kyrrsett hér á landi af Félagsmálanefnd C. "Ráðgjöf" sé ekki nægileg fyrir erlendan ríkisborgara sem sé hér án dvalarleyfis, án atvinnu og án heilbrigðiskerfis og nauðsynlegra lyfja. Þetta er ekki aðstoð.
Það er alveg á hreinu að einn nefndarmanna sagði á fundinum 30. júní að föður væri velkomið að fara af landinu. Lögmaður heyrði þetta greinilega, enda orðum beint að lögmanninum. Aðrir nefndarmenn tóku undir þetta. Auðvitað vinni nefndin að sundrun fjölskyldunnar ef faðir verður að fara af landinu, án konu sinnar og barns, því að barnið sé kyrrsett hér (hér býr fjölskyldan í of litlu húsnæði hjá ömmu og afa móður).
Í viðbótarathugasemdum lögmanns kemur fram að föðurfaðir sé vel stæður yfirmaður í fyrirtæki og geti faðir barnsins því fengið atvinnu þar. Hann hafi boðið foreldrum að koma með barnið. Það sé því ekki óviss staður og hafa foreldrar veitt starfsmanni barnaverndar símanúmer hjá þessum manni þannig að þær upplýsingar liggja fyrir í málinu.
Með tölvubréfi upplýsti lögmaður kærenda um að í óboðuðu eftirlit hafi lögregla í einkennisbúningi verið viðstödd sem telja verði mjög íþyngjandi og hafi þetta fyrirkomulag valdið foreldrum áfallastreitu.
III. Sjónarmið Félagsmálanefndar C
Félagsmálanefnd C fer fram á það að kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa samkvæmt 4. mgr. 52. gr. bvl, verði hafnað. Jafnframt fer nefndin fram á það að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hina umdeildu liði hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans og eftirfarandi sjónarmiða.
Hvað atvik málsins varðar sé einkum vísað til greinargerðar starfsmanna, dags. 25. júní 2021, og hins kærða úrskurðar. Af þessum gögnum má ráða að verulegar áhyggjur hafa verið uppi af aðbúnaði stúlkunnar í umsjá kærenda um nokkurn tíma. Þannig hafa alls átta tilkynningar eða sambærilegar upplýsingar í skilningi 1. mgr. 21. gr. bvl., borist Barnavernd C frá fæðingu stúlkunnar. Í því sambandi skal á það bent að foreldrar dvöldust með stúlkuna erlendis um tíma, eða á tímabilinu 2019-2020 en ekkert liggi fyrir um barnaverndarafskipti af fjölskyldunni erlendis á því tímabili. Á árinu 2019 hafi verið uppi áhyggjur af áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra, ofbeldishegðun föður og áhyggjur af því að líkamlegri umhirðu stúlkunnar og öryggi hennar væri ekki nægilega vel sinnt. Engu að síður hafi það verið endanlegt mat ráðgjafa þá að aðstæður stúlkunnar væru viðunandi í umsjá foreldra og var málinu því lokað.
Eftir að foreldrar sneru aftur til Íslands á árinu 2020 tóku aftur að berast tilkynningar vegna málsins. Fyrst barst tilkynning þann 21. október 2020, en þá hafi meðal annars verið tilkynnt um áhyggjur af áfengis- og vímuefnanotkun foreldra. Meðan á könnun og vinnslu máls stóð bárust tvær tilkynningar til viðbótar, báðar vegna vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit barns. Mjög fjölþætt og alvarleg tilkynning barst undir lok aprílmánaðar 2021 þar sem greint hafi verið frá vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit, líkamlegri vanrækslu og tilfinningalegri vanrækslu. Samkvæmt tilkynningu skorti á að foreldrar sinntu þörfum barns hvað varðaði fæði, rútínu, örvun barnsins, aga, öryggi, hreinlæti og klæðnað, auk þess sem að ástandi foreldranna var lýst sem mjög slæmu. Í viðtölum við foreldrana í kjölfarið fékkst tilkynningarefni staðfest að nokkru leyti. Var foreldrum þá boðin ýmis stuðningsúrræði, svo sem leikskólavist, tilsjón og ráðgjöf inn á heimili, ráðgjafarviðtöl og aðstoð við móður við að sækja um í geðheilsuteymi.
Eftir að tilsjón og ráðgjöf inn á heimilið kom til framkvæmda gekk nokkuð brösuglega að fá foreldra til samvinnu um að ráðgjöfin yrði veitt inn á heimilið og á tímabili tilsjónar hafa foreldrar ekki verið nema í takmarkaðri samvinnu við tilsjón. Skortur á samvinnu hafi meðal annars birst með ítrekuðum afboðunum viðtala og með því að foreldrar hafa óskað eftir því í fáein skipti að viðtöl fari fram utan húss. Í viðtölum hafa foreldrar lýst miklu vantrausti á barnavernd og telja tilsjónaraðilar að engar framfarir hafi orðið varðandi líkamlega vanrækslu stúlkunnar á tímabilinu. Þá hafi heimilið ekki verið í góðu ásigkomulagi og nefna tilsjónaraðilar bæði mikla óreiðu og gamlar matarleifar á gólfi og húsgögnum. Foreldrar séu þeirrar skoðunar að stúlkan megi ráða sér sjálf og séu reglur og rútína ekki þættir sem þau sjái fyrir sér að tileinka sér. Fatnaði og hreinlæti stúlkunnar sé enn ábótavant, þrátt fyrir tilsjón, og sé hár hennar oft flókið, hún óhrein og klæðnaður óhreinn eða í röngum stærðum. Í viðtölum greindu foreldrar frá því að þau burstuðu tennur stúlkunnar með matarsóda og aðeins einu sinni í viku. Við frekari skoðun þess þáttar kom í ljós að skemmdir voru á 6 tönnum stúlkunnar sem gera þarf við í svæfingu, en þá lýstu foreldrar því yfir að þau vildu hvorki nota plastfyllingar né svæfingu við meðferð þessara skemmda. Á fundi félagsmálanefndar hinn 30. júní fullyrtu foreldrar þó að þau myndu sinna meðferð við tannskemmdunum.
Undir vinnslu málsins á þessu ári hafi foreldrum verið boðin eftirfarandi stuðningsúrræði barnaverndar: Viðtöl við ráðgjafa, tilsjón og ráðgjöf inn á heimilið, viðtöl við almenna félagsþjónustu varðandi félagslegt leiguhúsnæði og framfærslu, aðstoð við móður við umsókn í geðheilsuteymi, aðstoð við forgang fyrir stúlkuna inn á leikskóla, greiðslur leikskólagjalda, vímuefnapróf og stuðningsúrræðið I. Foreldrar hafi þegið hluta úrræðanna, en mörg úrræðin hafi foreldrar nýtt takmarkað.
Samkomulag hafi náðist við móður á fundi, sem hún mætti ein til, um vinnslu máls samkvæmt áætlun fram til 4. september 2021 og undirritaði hún þá áætlun þar að lútandi. Í framhaldinu hafi þess verið freistað á fundi 16. júní 2021 að ná samvinnu beggja foreldra um vinnslu málsins og þá jafnframt um dvöl foreldra hér á landi á meðan unnið væri að því að bæta aðstæður fjölskyldunnar með viðeigandi stuðningsúrræðum. Þá tillögu vildu foreldrar ekki samþykkja og höfnuðu því að skrifa undir nokkur skjöl, meðal annars yfirlýsingu um samþykki fyrir dvöl stúlkunnar hér landi á tímabilinu. Ráðgjafar málsins töldu afar áríðandi að unnið væri eftir áætlun fram á haustið til að tryggja öryggi og hagsmuni barnsins, enda hafi verið uppi miklar áhyggjur af vanrækslu sem reynst gæti skaðleg svo ungu barni. Jafnframt lá fyrir að foreldrarnir höfðu ítrekað lýst yfir vilja til að flytja af landi brott, án þess að hafa skýr áform eða áætlanir sem tryggðu hagsmuni barnsins með fullnægjandi hætti. Í ljósi þessara staðreynda mátu ráðgjafar málsins óhjákvæmilegt í lok fundarins 16. júní 2021 að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og með því móti að koma á banni við för barnsins af landi brott samkvæmt d. lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga. Í lok þess fundar hafi foreldrum jafnframt verið gerð grein fyrir framhaldi málsins, þ.e. að þau ættu rétt á að njóta aðstoðar lögmanns og að málið yrði lagt fyrir félagsmálanefnd í kjölfarið. Eftir að neyðarráðstöfun hafði verið beitt óskuðu ráðgjafar málsins einnig eftir því við Lögregluna á Í að skráð yrði hjá landamæraeftirliti bann við för barnsins af landi brott.
Í framhaldinu hafi greinargerð ráðgjafa og gögn málsins verið tekin saman, boðað hafi verið til fundar félagsmálanefndar og foreldrum kynnt tillaga ráðgjafa og gögn málsins. Einnig hafi greinargerð ráðgjafa og tillaga að einhliða áætlun máls verið þýdd yfir á ensku og foreldrum afhent eintak þeirrar þýðingar. Foreldrar hafi sótt foreldrafund nefndarinnar hinn 30. júní síðastliðinn og komið þangað ásamt lögmanni sínum sem jafnframt skilaði fyrirliggjandi greinargerð fyrir hönd foreldra. Á fundinum nutu foreldrar aðstoðar túlks, tjáðu sig sjálf ítarlega um sjónarmið sín og fyrirliggjandi tillögur og þá talaði lögmaður þeirra einnig máli þeirra, sbr. fylgiskjal 23. Á fundinum lýstu foreldrar yfir vilja til ákveðinnar samvinnu, en lýstu sig andsnúin tillögum um farbann og óboðað eftirlit með öllu, og vildu þiggja mun minni stuðning á formi tilsjónar, ráðgjafar og með leikskólavist sem starfsmenn mæltu eindregið með. Reyndist því nauðsynlegt að úrskurða um úrræði samkvæmt 26. gr. og var jafnframt útbúin einhliða áætlun í málinu samkvæmt 4. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga.
Hvað varði atvikalýsingu í kæru sé því hafnað sem fram kemur hjá kærendum, þ.e að félagsmálanefnd hafi ekki sýnt erfiðleikum föður hvað varðar dvöl hér á landi neinn skilning og að ekki hafi verið stutt við foreldra með nægum hætti í þeim tilgangni að faðir öðlaðist hér rétt til dvalar eða atvinnuþátttöku. Ákvarðanir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til einstaklinga byggja á viðeigandi lögum og reglugerðum. Foreldrum hafi boðist viðtöl hjá almennri félagsþjónustu varðandi félagslegt leiguhúsnæði og framfærslu. Foreldrar hafi ekki sinnt þessum viðtalsboðunum sem skyldi, en í þau skipti sem þau hafa nýtt sér viðtölin hafa þau fengið viðeigandi ráðgjöf. Jafnframt hafi þeim nú verið boðin aukin ráðgjöf hvað þetta varðar og verður farið nánar yfir það hvort einhver frekari úrræði séu tæk til fjárhagslegs stuðnings við foreldra. Í tengslum við þetta atriði skal jafnframt áréttað að faðir hafi aldrei óskað eftir tilteknu framlagi eða sýnt fram á mótaðar hugmyndir eða aðgerðir í því skyni að öðlast hér réttindi til dvalar eða atvinnu. Jafnframt hafi það komið fram að þegar faðir hafi verið spurður um hvað væri hægt að gera til að bæta líf hans hér á landi, hafi hann í engu óskað eftir aðstoð hvað þetta varðar og sér flutninga til G fyrir sér sem hina einu lausn á stöðu fjölskyldunnar. Ekkert í gögnum málsins ber þannig með sér að faðir hafi í raun vilja til fá leyfi til dvalar og atvinnu hér á landi né að hann hafi hingað til óskað eftir stuðningi til þess. Þess skal þó getið að þau úrræði barnaverndar, er lúta að málefnum tengdum dvalar- og atvinnuréttindum, snúa fyrst og fremst að því að veita skjólstæðingum ráðgjöf og tryggja að viðkomandi njóti þeirra réttinda sem þeir eiga hér á landi, en almennt telst það ekki til barnaverndarúrræða að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir útgáfu dvalar- eða atvinnuréttinda, svo sem með framfærslustyrkjum umfram skyldu samkvæmt gildandi reglum.
Ekkert liggur fyrir í málinu um aðstæður á heimili föður kæranda í G og hafa upplýsingar frá kærendum um þær aðstæður, sem gætu beðið þeirra þar, verið misvísandi við vinnslu málsins. Þá hafa fyrirætlanir foreldra um för til G tekið mjög miklum breytingum yfir tímabil vinnslu máls. Skal hér bent á dagnótur tilsjónar en þar komi fyrst fram hinn 14. maí síðastliðinn hugmynd foreldra um að flytjast út til G og fá þar strax vinnu og húsnæði, án þess að greina nánar frá því hvernig það yrði. Í heimsókn þann 17. maí síðastliðinn hafi faðir lýst því að hann teldi sig fá betri aðstoð ytra en hér og að félagslegt umhverfi þar sé betra fyrir fjölskylduna. Í sama viðtali hafi þó komið fram að faðir sé ekki og hafi ekki verið með sjúkratryggingu í G Í heimsókn 26. maí hafi komið fram að móðir hafi engin svör við því hvað taki við í G ef faðir fái ekki þá aðstoð þar sem þau virðist búast við. Í sama viðtali hafi móðir greint frá því að þau séu að skoða það að flytja í kommúnu þar sem þau vinni hluta dags og fái fæði og húsnæði í staðinn. Í sömu heimsókn greindi faðir frá því að hann teldi sig pottþétt geta fengið starf ytra þar sem nú vilji engin vinna í G vegna Covid. Faðir lýsti þá ýmsum hugmyndum um búsetu fjölskyldunnar, svo sem að þau gætu dvalið í húsbíl, íbúð og á mismunandi landsvæðum. Í símtali við móður hinn 21. júní síðastliðinn hafi jafnframt komið fram að móðir hafi ekki tryggingu fyrir tannviðgerðum barnsins erlendis.
Þá sé tekið fram að það geti ekki skapað kærendum ríkari rétt til ferðalaga eða flutnings með barnið að þeim hafi fyrir komuna hingað til lands ekki verið kunnugt um reglur sem gilda hér á landi um dvalarleyfi og atvinnuleyfi til handa föður. Þvert á móti sýnir sú staðhæfing foreldra, að mati nefndarinnar, enn skýrar fram á það að foreldrar hafi ekki sinnt því sem skyldi að tryggja aðstæður sínar og stúlkunnar hverju sinni, svo sem með því að afla sér upplýsinga um hvaða reglur gilda um dvöl erlendra ríkisborgara og atvinnuleyfi. Með sama hætti hefur komið fram í viðtölum tilsjónar- og ráðgjafar við foreldra að móðir hafi sótt um vegabréfsáritun til G, en þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um það hvort slík áritun fáist afgreidd lýsa foreldrar yfir eindregnum vilja til að fara af stað til G með barnið sem fyrst. Í kæru lögmanns foreldra sé veruleg áhersla lögð á hagsmuni föður sem G ríkisborgara og þær aðstæður sem hann telur sig geta veitt fjölskyldu sinni þar í landi, en í engu er vikið að því hvort móðir hafi heimild til farar eða búsetu í G. Þá skal á það bent að verulegur vafi hafi verið uppi um réttindi móður og barns, og raunar föður líka, til heilbrigðisþjónustu í G, enda sé almenn heilbrigðisþjónusta þar að jafnaði einkum veitt í gegnum sjúkratryggingar sem kærendur hafi talað um að þau hafi ekki. Bera gögn málsins þannig með sér að enn sé uppi mikil óvissa um mögulegar aðstæður barnsins ef til farar úr landi kæmi og að mati nefndarinnar sé óviðunandi að tefla hagsmunum barnsins í slíka óvissu, sérstaklega í ljósi þeirrar vanrækslu sem kærendur hafa þegar orðið uppvísir að í garð barnsins.
Hvað varði tannskemmdir stúlkunnar hafi kærendur ekki farið fram á styrk fyrir tannlæknakostnaði og hefur slíkum styrk því hvorki verið hafnað né hafa kærendur borið því við að þau eigi ekki kost á að fara með barnið til tannlæknis vegna kostnaðar. Í þessu sambandi skal bent á að tannlækningar barna eru endurgjaldslausar fyrir utan mjög lágt komugjald sem greiðist árlega, nú að fjárhæð kr. 2.500.
Þá sé því alfarið hafnað að á fundi nefndarinnar hinn 30. júní hafi því verið hafnað að veita foreldrum tiltekin stuðningsúrræði, svo sem sálfræðiaðstoð og fleira. Hið rétta sé að foreldrar og lögmaður þeirra hafi verið upplýst um það á fundinum að eingöngu væri til umfjöllunar á þeim fundi tillaga starfsmanna varðandi bann við för barns af landi brott og einhliða áætlun um það úrræði og önnur úrræði samkvæmt 26. gr. barnaverndarlaga. Um öll úrræði sem samvinna næðist um þyrfti að fjalla sérstaklega síðar, enda væru önnur stuðningsúrræði ekki efni fundarins. Vel hafi hins vegar verið tekið í allar tillögur foreldra og lögmanns þeirra um stuðningsúrræði sem þau nefndu við það tilefni. Í því sambandi skal á það bent að það sé forsenda fyrir stuðningsúrræðum til handa foreldrum að þau dveljist hér á landi með barnið. Jafnframt skal á það bent að samkvæmt dagálum tilsjónar og ráðgjafar, sbr. fylgiskjal 22, hafi faðir í viðtölum, meðal annars þann 18. júní síðastliðinn, hafnað vissum boðnum stuðningi, svo sem stuðningsúrræðinu I sem er virknimiðstöð og endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir eða félagslega einangrun. Jafnframt hafi í sama sinnið verið rætt við föður hvort hann myndi þiggja meðferð við áfallastreituröskun ef hún byðist, en faðir sagði það fara eftir meðferðaraðila. Í viðtali hinn 26. maí hafi verið kallað eftir tillögum frá föður um hvort ekki væri hægt að vinna með hans líðan en lítið hafi verið um svör hjá föður. Jafnframt hafi föður þá verið boðið að nýta úrræðið I. Í heimsókn skömmu áður, 17. maí síðastliðinn, hafði faðir einnig verið spurður út í það hvað gætti bætt líf hans á meðan hann væri hérna á Íslandi og stóð þá á svörum hjá honum að öðru leyti en því að lausnin væri að flytja til G. Kærendum hafi jafnframt verið bent á réttindi móður til að óska eftir frekari framlögum félagslegrar framfærslu, svo sem vegna kostnaðar vegna sálfræðiviðtala.
Af hálfu nefndarinnar sé á því byggt að það hafi komið fram í máli foreldra við vinnslu málsins að þau hafi ekki átt sér heimili í G Vera kann að annað hugtak, ef til vill hugtakið heimilisleysi, lýsi betur aðstæðum foreldra en það að þau hafi verið á götunni. Í öllu falli voru aðstæður þeirra samkvæmt lýsingu þeirra á fundinum hinn 30. júní þær að þau bjuggu ýmist í tjaldi á ferðalagi, í húsnæði góðgerðarsamtaka af einhverju tagi eða inni hjá vinum eða fjölskyldu. Kærendur hafi þannig búið án fasts samastaðar og að því er virðist við mikinn óstöðugleika. Að mati nefndarinnar hafi hugtakanotkun um þessar aðstæður fjölskyldunnar engin áhrif á niðurstöðu úrskurðarins eða þá staðreynd að fjölskyldan hafi búið við mikið rótleysi og ótryggar aðstæður á meðan hún dvaldist ytra.
Að endingu sé áréttað varðandi atvik máls að mikilvægt sé að bregðast við veikindum móður, kvíða og svefnleysi og hafa ráðgjafar málsins unnið að umsókn fyrir móður í geðheilsuteymi við H], en þegar til þess kom að undirrita skyldi umsóknina á fundi 16. júní, lagðist faðir eindregið gegn því að gengið væri frá umsókninni og hefur móðir jafnframt ekki viljað undirritað umsóknina. Að mati nefndarinnar sé nauðsynlegt að bregðast við veikindum móður með úrræðum heilbrigðiskerfisins, en ekki með því að hafna beitingu óboðaðs eftirlits inn á heimilið.
Kröfu sína um að kröfum kæranda verði hafnað byggir félagsmálanefnd á eftirfarandi málsástæðum og sjónarmiðum:
Félagsmálanefnd byggir sérstaklega á því að engin ástæða sé til þess að fresta réttarhrifum úrskurðar nefndarinnar eins og krafist er í kæru með vísan til 4. mgr. 52. gr. bvl. Þvert á móti séu uppi þær aðstæður í málinu að áríðandi sé að réttarhrif úrskurðar haldi, enda sé annars veruleg hætta á að foreldrar fari af landi brott með barnið í ótryggar aðstæður.
Þá byggir félagsmálanefnd á því að öll skilyrði barnaverndarlaga fyrir beitingu úrræða séu uppfyllt og þannig hafi ýmis úrræði og stuðningur samkvæmt 24. og 25. gr. bvl. verið reynd af hálfu barnaverndar til þess að tryggja viðunandi uppeldisaðstæður í umsjá foreldra. Samkvæmt 26. gr. barnaverndarlaga geti nefndin meðal annars úrskurðað um eftirlit með heimili og bann við för barns af landi brott, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. ekki skilað árangri að mati nefndarinnar, eða eftir atvikum að nefndin hafi komist að þeirri niðustöðu að þau séu ófullnægjandi. Í máli þessu sé það mat starfsmanna Barnaverndar C, sem unnið hafi með málefni fjölskyldunnar, og jafnframt mat Félagsmálanefndar C að staðfest sé fjölþætt vanræksla foreldra gagnvart barninu og að foreldrar hafi haft takmarkaðan vilja til samvinnu og umbóta í uppeldi sínu. Það sé þannig ljóst að reynd stuðningsúrræði hafi til þessa ekki megnað að bæta aðstæður fjölskyldunnar og skilað tilætluðum árangri. Foreldrar hafi ekki verið til fullrar samvinnu um áframhaldandi stuðningsúrræði og skuldbindingu til þess að dveljast hér á landi á meðan stuðningur væri veittur. Kærendur hafi ítrekað lýst fyrirætlunum sínum um að flytjast af landi brott en uppi séu miklar áhyggjur af stöðu stúlkunnar í þeirra umsjá ef stuðningsúrræða barnaverndar nýtur ekki lengur við. Félagsmálanefnd hafi því ekki haft önnur úrræði tæk en þau að kveða á um óboðað eftirlit og bann við för barnsins af landi brott eins og gert hafi verið með hinum kærða úrskurði sem ætlað sé að tryggja að grunnþörfum stúlkunnar sé mætt.
Að mati starfsmanna Barnaverndar C og félagsmálanefndar hafi með hinum kærða úrskurði verið beitt þeim allra vægustu úrræðum sem réttlættu aðstæður fjölskyldunnar. Þannig hafi með öllu verið óhjákvæmilegt að tryggja veru barnsins hér á landi næstu vikurnar fram til 4. september á meðan látið verði reyna á stuðningsúrræði barnaverndar. Engin önnur og vægari úrræði séu tæk til að tryggja að því markmiði verði náð, einkum í ljósi þess að foreldrar hafi ítrekað lýst yfir vilja sínum og óljósum fyrirætlunum um að flytja af landi brott sem og óánægju sinni með afskipti barnaverndaryfirvalda. Jafnframt liggur fyrir að móðir hefur sótt um vegabréfsáritun til slíkrar farar. Hafa ber í huga að stúlkan, sem úrskurðurinn lýtur að, sé mjög ung, aðeins á þriðja ári, og því að öllu leyti háð tryggri umsjá foreldra sinna eða annarra umsjáraðila. Væri hagsmunum hennar þannig stefnt í verulega hættu ef ekki væri tryggt að viðunandi stuðningsúrræði yrði veitt á tímabili úrskurðar. Einnig sé nauðsynlegt að beita óboðuðu eftirliti þar sem samstarf kærenda við tilsjón og ráðgjöf hefur síst batnað og hafa kærendur í auknum mæli afboðað heimsóknir og viðtöl. Þá sýna gögn frá tilsjón og ráðgjöf að staða heimilisins hefur verið mun verri í það eina sinn þegar foreldrar töldu sig hafa afboðað viðtal en afboðun hafði ekki borist tilsjónaraðilum sem komu þá á heimilið, þ.e. hinn 18. júní síðastliðinn. Einnig sé ástæða talin til þess að skilja skýrlega á milli eftirlits og ráðgjafar með því að hvor sinn aðilinn sinni annars vegar óboðuðu eftirliti og hins vegar tilsjón og ráðgjöf. Með því móti sé leitast við að koma á samvinnu um tilsjón og ráðgjöf sem verði til þess að kærendur nýti sér eitthvað af þeirri ráðgjöf sem þeim býðst, en slíkur aðskilnaður sé mögulega talinn geta orðið til þess að minnka vantraust kærenda í garð tilsjónar. Af öllum þessum sökum sé talið sérlega brýnt að óboðað eftirlit verði viðhaft á tímabili úrskurðar, en eins og áður sagði sé um mjög stutt tímabil að ræða og skýrist hinn skammi tími, sem úrræðinu er markaður, af meðalhófi.
Því sé alfarið hafnað að með hinum kærða úrskurði sé á einhvern hátt stuðlað að sundrun fjölskyldunnar. Staðreyndin sé sú að faðir hafi takmarkaða heimild til dvalar hér á landi og móðir takmarkaða heimild til dvalar í Gog raunar alls óvíst hvort hún fengi vegabréfsáritun og ferðaheimild þangað. Væri staða fjölskyldunnar hvað varðar sameiningu og samveru þannig síst betri þó svo að foreldrum væri heimilt að fara af landi brott með stúlkuna. Þá liggi ekkert fyrir í gögnum máls um að föður verði gert að fara af landi brott á tímabili úrskurðarins og sé það jafnframt mat starfsmanna og félagsmálanefndar að fyrirætlanir hans um aðstæður og þjónustu í G séu ekki að fullu raunhæfar og ígrundaðar og telja ekki fullreynt að beita úrræðum hér á landi í því skyni að styðja betur við föður í aðstæðum sínum hér á landi, vilji hann þá þiggja slíkan stuðning.
Þá sé það mat starfsmanna Barnaverndar C og félagsmálanefndar að það þjóni best hagsmunum stúlkunnar að tryggt verði að stuðningi og eftirliti verði komið við á heimili hennar næstu vikurnar á meðan gerð verður frekari tilraun til að ná samvinnu um stuðningsúrræði við foreldra stúlkunnar. Í því sambandi ber brýna nauðsyn til að fyrirskipa um bann við för barnsins af landi brott og að heimilt verði að viðhafa óboðað eftirlit með heimilinu.
Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, séu að mati félagsmálanefndar ekki til staðar neinar þær ástæður sem réttlæta að fallist verði á kröfu kærenda, enda hafi hinn kærði úrskurður verið í fullu samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og hagsmuni barnsins. Meðalhófs hafi verið gætt við ákvörðunina, bæði með því að beita eins vægum úrræðum og mögulegt hafi verið til að ná settu markmiði, og jafnframt með því að ákvarða úrræðunum mjög skamman tíma. Með vísan til alls þessa beri að staðfesta hinn kærða úrskurð.
IV. Niðurstaða
E er rúmlega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá foreldra sinna sem eru kærendur málsins.
Með hinum kærða úrskurði frá 30. júní 2021 var meðal annars úrskurðað um að óheimilt væri að fara með stúlkuna úr landi og að hún skyldi dveljast á Íslandi til 4. september 2021.
Kærendur krefjast þess að úrskurðarnefnd velferðarmála fresti réttaráhrifum hins kærða úrskurðar með vísan til 4. mgr. 52. gr. bvl. sem er svohljóðandi:
„Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála frestar ekki framkvæmd úrskurðar barnaverndarnefndar. Þegar sérstaklega stendur á getur úrskurðarnefndin þó ákveðið, að kröfu aðila, að framkvæmd úrskurðar skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn.“
Reglan um að málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála fresti ekki framkvæmd úrskurðar er byggð á því að kæra til nefndarinnar trufli ekki vinnslu málsins sem kann að vera á mjög viðkvæmu stigi. Þegar sérstaklega stendur á getur úrskurðarnefndin þó ákveðið, að kröfu aðila, að framkvæmd úrskurðar skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er vinnsla málsins á mjög viðkvæmu stigi og aðstæður barnsins ekki með þeim hætti að tilefni sé til að fresta réttaráhrifum hins kærða úrskurðar.
Í málinu krefjast kærendur þess að hin kærði úrskurður þess efnis að óheimilt sé að fara með barnið úr landi, verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að liður úrskurðar um óboðað eftirlit verði felldur úr gildi.
Í forsendum hins kærða úrskurðar kemur fram að ljóst sé að foreldrar séu ekki samþykk því að skuldbinda sig til að dvelja á Íslandi með barnið á meðan unnið sé samkvæmt meðferðaráætlun, þ.e. til 4. september 2021. Staðfest sé fjölþætt vanræksla foreldra gagnvart barninu sem birtist meðal annars í því að hreinlæti, fatnaði, daglegri umsjá, læknisþjónustu, tannlæknaþjónustu og öryggismálum sé ábótavant við uppeldi stúlkunnar. Kærendur kannist við að búa við bágan fjárhag og erfiðar aðstæður, auk þess sem þau stríði bæði við andlega vanlíðan. Kærendur hafi sýnt takmarkaðan vilja til samvinnu og umbóta í uppeldi sínu. Þá hafi þau lítið sinnt leikskólagöngu stúlkunnar og ekki viljað þiggja hefðbundna tannlæknaþjónustu til að lagfæra miklar skemmdir í tönnum stúlkunnar.
Í 1. mgr. 26. gr. bvl. eru talin upp sérstök úrræði sem barnaverndarnefnd getur beitt með úrskurði, án samþykkis foreldra, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri, að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 26. gr. bvl. getur nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði ákveðið að ekki megi fara úr landi með barnið. Í 2. mgr. 26. gr. kemur fram að ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. skuli ávallt vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefji hverju sinni og skuli endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.
Við úrlausn á því hvort uppfyllt hafi verið lagaskilyrði fyrir því að úrskurða að ekki mætti fara með stúlkuna úr landi samkvæmt d-lið 26. gr. bvl., ber að líta til þess að gert er ráð fyrir að unnt sé að beita þessu úrræði eftir að barnaverndarmál er hafið ef barnaverndarnefnd telur að barnið geti verið í hættu og að hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti. Þetta kemur fram í athugasemdum með lagaákvæðinu í frumvarpi til bvl. Þar segir enn fremur að unnt sé að beita ákvæðinu á meðan á könnun máls standi, á meðan unnið er að gerð áætlunar samkvæmt 23. gr. eða eftir atvikum eftir að ákvarðanir hafi verið teknar um beitingu úrræða. Félagsmálanefnd C mat það svo að það væru brýnir hagsmunir stúlkunnar að hún myndi dvelja á Íslandi á meðan unnið væri að frekari stuðningi við fjölskylduna. Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir mat félagsmálanefndarinnar að það séu hagsmunir stúlkunnar að fjölskylda hennar fái viðeigandi aðstoð barnaverndaryfirvalda hér á landi. Nauðsynlegt sé því að hefta fór hennar á meðan unnið sé samkvæmt meðferðaráætlun. Þá ber sérstaklega að líta til þess sem ráða má af gögnum málsins að mikil óvissa og óöryggi ríkir nú varðandi framtíðaraðstæður barnsins. Þá benda gögn málsins til þess að nauðsynlegt sé að óboðað eftirlit fari fram þar sem kærendur hafa ekki verið til samstarfs við félagsmálanefndina.
Með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins telur úrskurðarnefndin rétt að fallast á framangreint mat Félagsmálanefndar C um farbann stúlkunnar og óboðað eftirlit. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Samkvæmt öllu þessu ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Félagsmálanefndar C frá 30. júní 2021 um að óheimilt sé að fara með stúlkuna E, úr landi fram til 4. september 2021, er staðfestur. Úrskurður um óboðað eftirlit er staðfestur.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson