Mál nr. 22/2013.
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 5. febrúar 2014 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A vegna umgengni við börn hennar, B og C, nr. 22/2013.
Kveðinn var upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R:
I.
Málsmeðferð og kröfugerð
Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við börn sín, þau B, fæddan í ágúst 2003, og C, fædda í janúar 2005. Börnin eru í varanlegu fóstri hjá fósturfjölskyldu og hafa verið það frá 1. ágúst 2011. Kærandi hefur átt við alvarlegan vímuefnavanda að stríða allt frá unglingsárum.
Kærður er úrskurður velferðarnefndar Árnesþings frá 25. september 2013 um umgengni barnanna við kæranda. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi:
„A, fær umgengni við börn sín, B og C, fjórum sinnum á ári mánuðina, mars, júní, september og desember í allt að fjóra tíma í senn. Starfsmaður nefndarinnar mun hafa eftirlit með umgengninni.
Móður er heimilt að bera úrskurð velferðarnefndar Árnesþings undir kærunefnd barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að úrskurður þessi er upp kveðinn, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“
Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kæranda verði úrskurðuð rýmri umgengni við börnin, helst mánaðarlega, og að umgengnin verði án eftirlits af hálfu velferðarnefndar Árnesþings. Til vara er þess krafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi í heild sinni og velferðarnefnd Árnesþings gert að taka málið fyrir að nýju. Þá krefst kærandi þess að bréf fósturforeldra sem sent var kærunefndinni og lagt hefur verið fram í málinu verði ekki lagt til grundvallar við úrlausn málsins.
Velferðarnefnd Árnesþings krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Fósturforeldrar barnanna, D og E, telja að rýmri umgengni sé ekki í samræmi við tilgang fósturráðstöfunarinnar. Þá telja þau rétt að eftirlit verði með umgengninni að svo stöddu.
II.
Málavextir
Kærandi hefur átt við alvarlegan vímuefnavanda að etja frá unglingsárum. Hún hefur margítrekað farið í áfengis- og vímuefnameðferðir til þess að vinna bug á vanda sínum. Faðir barnanna hvarf úr lífi þeirra þegar drengurinn var þriggja ára og stúlkan átta mánaða. Velferðarnefnd Árnesþings ákvað með úrskurði 21. júní 2011 að ráðstafa börnunum í tímabundið fóstur, sbr. b-lið 27. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Jafnframt var ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá barnanna, en hún samþykkti fyrir dómi 8. mars 2012 að velferðarnefndin færi með forsjá þeirra. Börnunum var ráðstafað til núverandi fósturforeldra, þeirra D og E, 1. ágúst 2011.
Samhliða dómsáttinni var gengið frá samningi um umgengni. Ákveðið var að kærandi hefði umgengni við börnin fjórum sinnum á ári og að hún fengi að hringja í þau á afmælisdegi þeirra. Fram kemur í gögnum málsins að umgengni barnanna við kæranda hafi upphaflega verið í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns velferðarnefndar. Síðan hafi umgengnin verið lengd og hafi farið fram á heimili móður kæranda, F. Starfsmaður hafi í upphafi verið viðstaddur umgengni en síðan hafi komið starfsmaður í byrjun og lok umgengni og tíminn lengdur í fimm klukkustundir. Í síðustu þrjú skipti áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp, 25. september 2013, hafi umgengnin verið án eftirlits, fósturmóðir hafi komið með börnin á heimili F, ömmu þeirra, og hafi hún og kærandi skilað börnunum á fósturheimilið. Í hinum kærða úrskurði segir að borið hafi á því þegar enginn starfsmaður hafi verið viðstaddur umgengni og tíminn hafi verið lengdur að börnin hafi sýnt óöryggi og erfiðari hegðun á heimili fósturforeldra eftir umgengni við kæranda. Í umgengni í júní 2013 hafi börnin sagt kæranda frá því að fósturforeldrarnir hafi verið vond við B. Kærandi hafi orðið mjög reið og sagst myndu kæra þá.
Velferðarnefnd fól sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa að kanna málið og er greinargerð Önnu Karinar Júlíussen félagsráðgjafa frá 8. ágúst 2013 meðal gagna máls þessa. Í niðurstöðu könnunarinnar kemur fram að B eigi við talsverðan vanda að etja sem komi fram í neikvæðni og slæmri hegðun. Börnin hafi verið í fóstri áður, en því hafi lokið. Þau hafi verið í núverandi fóstri í tvö ár. Drengurinn virðist eiga erfiðara með að mynda tengsl en systir hans. Hægt sé að álykta að þar sem hann er eldri eigi hann lengri áfallasögu en systir hans, fleiri slæmar minningar og hafi upplifað endurtekinn trúnaðarbrest og eigi því erfitt með að treysta. Það sé ljóst að B þurfi nánari greiningu á vanda sínum og sérfræðiaðstoð og fósturforeldrar þurfi mikinn stuðning til að gefast ekki upp á þessu erfiða verkefni. Greina megi hollustuklemmu í börnunum gagnvart kynmóður. Varðandi þau atriði sem tilkynnt hafi verið um til barnaverndarnefndar sé ljóst að þau hafi átt sér stað, enda viðurkenni fósturforeldrar það fúslega. Kærandi hafi tilkynnt um líkamlegt og andlegt ofbeldi sem fólst í flengingu, niðurlægjandi atvikum og ljótu orðbragði. Í tilvikum sem þessum hljóti að koma til álita hvort brotið hafi verið á börnunum á þann hátt að fósturráðstöfuninni eigi að ljúka. Hvorki kynmóður barnanna né móðurömmu hugnist sú lausn að börnin fari úr þessu fóstri og í aðra vistun. Félagsráðgjafinn telur að meira gagn væri í því að auka faglegan stuðning við fósturforeldrana og börnin, ekki síst B, en að ráðstafa börnunum í nýtt fóstur. Systkinin búi við góðar aðstæður, þau séu vel ræktuð og fósturforeldrarnir vinni ötullega að því að skapa þeim öruggt, innihaldsríkt og skemmtilegt líf.
Fyrir liggur sálfræðileg matsgerð Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings frá 13. janúar 2012 þar sem meðal annars voru metnir persónulegir hagir og eiginleikar kæranda og tengsl barna hennar við hana. Matsgerðin var gerð í tilefni af því að mál kæranda var rekið fyrir dómi þar sem velferðarnefnd Árnesþings hafði krafist þess að kærandi yrði svipt forsjá barnanna. Í lokaorðum matsgerðarinnar kemur fram að besta forspá um forsjárhæfni í framtíðinni felist ævinlega í því hver geta viðkomandi foreldris hafi verið til að mæta þörfum barna sinna og eðlilegum kröfum um foreldraskyldur og daglegt líf. Forsjárhæfni kæranda sé mjög skert vegna vímuefnafíknar hennar og ekki sé tilefni til bjartsýni um breytingar þar á. B og C þurfi á því að halda að stöðugleiki komist á í lífi þeirra, framtíðin verði eins skýr og hún geti verið og þau geti myndað öryggistengsl við núverandi fósturforeldra. Þau sinni hlutverki sínu eins og best verði á kosið og börnunum líði mjög vel hjá þeim. Til þess að þetta geti gerst þurfi að taka skýrar ákvarðanir um forsjá og umgengni og kynna börnunum þær þannig að þau eigi sem besta möguleika á að skilja þær og sætta sig við þær. Kynmóðir og móðuramma þurfi einnig barnanna vegna að sættast við þær ákvarðanir.
III.
Afstaða kæranda
Af hálfu kæranda kemur fram að hin kærða ákvörðun sé illa ígrunduð og byggð á afar hæpnum forsendum. Það sé lagaleg skylda barnaverndaryfirvalda að vinna í takt við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, þar sem meðal annars komi fram að ákvarðanir skuli teknar á málefnalegum grundvelli, eftir að mál hafi verið rannsakað nægilega vel. Í máli þessu sé augljós skortur á hvoru tveggja.
Það liggi fyrir að matsgerð sálfræðings sem lögð sé til grundvallar í málinu sé að verða tveggja ára gömul og hafi verið gerð þegar aðstæður barnanna hafi verið allt öðruvísi. Fyrir utan að börnin hafi verið nær tveimur árum yngri á þeim tíma, hafi þau verið hjá þremur vistunaraðilum á aðeins tveimur árum. Það sé því auðskiljanlegt að þau hafi verið óstöðug á þeim tíma og þurft á stöðugleika að halda. Það sé algerlega ótækt að leggja matsgerðina til grundvallar við ákvörðun þessa máls og álykta sem svo að börnin séu svo óstöðug enn þann dag í dag að þau megi ekki við því að hitta móður sína án eftirlits. Ef barnaverndaryfirvöld ætli að taka svo harkalega afstöðu í andstöðu við velferð og vilja barnanna þurfi að liggja fyrir sterkari sönnunargögn en þetta, til dæmis ný matsgerð. Í kjölfar þess að mál þetta kom upp og að upp komst að börnin hafi sætt harðræði, hefði verið eðlilegt að láta framkvæma nýja sálfræðirannsókn á þeim.
Í málinu hafi það verið notað sem röksemdafærsla gegn meiri umgengni að börnin hefðu sýnt sterk tilfinningaleg viðbrögð þegar þau hittu móður sína. Kærandi telur að slíkt sé mjög eðlilegt og ekki nein rök fyrir því að eitthvað óeðlilegt eigi sér stað í umgengninni við móðurina eða að umgengnin valdi börnunum skaða. Það sé mjög eðlilegt að börn sýni tilfinningaleg viðbrögð þegar þau fari frá einu heimili yfir á annað eða frá einu foreldri til annars. Bent er á að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að börnin hafi búið hjá móður sinni fyrstu ár ævi sinnar og séu mjög tengd henni tilfinningalega. Ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem rökstyðji það að umgengni við móðurina án eftirlits sé að valda börnunum skaða eða muni gera þeim slæmt. Þvert á móti sé það líklega gott fyrir börnin að hitta móður sína af og til og sjá að henni vegni vel.
Bent er á að meginþráðurinn í barnaverndarlöggjöfinni sé að ávallt skuli leitast við að taka ákvarðanir í takt við það sem sé börnum fyrir bestu. Þessi börn hafi líklega fengið að þola nóg í sínu lífi svo því verði ekki bætt við að þau fái ekki að hitta móður sína og ömmu án þess að ókunnugt fólk standi yfir þeim. Þeirra upplifun verði eflaust sú að verið sé að refsa þeim fyrir að segja móður sinni frá ofbeldi sem þau hafi orðið fyrir. Loks er bent á að hvergi hafi komið fram í málinu að börnin hafi lýst því yfir að þau vilji ekki fara til móður sinnar eða að þeim líði illa þar eða hafi orðið fyrir nokkru misjöfnu. Það sé ljóst að framangreindur úrskurður sé illa ígrundaður og ákvörðun ekki tekin með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.
Í tölvupósti lögmanns kæranda til kærunefndarinnar 20. janúar 2014 sem varðar bréf fósturforeldranna til kærunefndarinnar frá 13. janúar 2014, kemur fram að bréfið breyti ekki miklu efnislega þar sem vitað hafi verið um afstöðu fósturforeldranna, enda hafi ein af
málsástæðunum í kærunni verið á þá leið að velferðarnefnd Árnesþings hefði
að miklu leyti byggt ákvörðun sína á einhliða frásögn fósturforeldranna.
Lögmaðurinn efast um réttmæti þess að leggja þetta bréf fram meðal gagna við úrlausn málsins. Fyrir það fyrsta séu fósturforeldrarnir ekki aðilar málsins, heldur velferðarnefnd Árnesþings, sbr. 2. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og ættu fósturforeldrarnir því ekki að fá að leggja fram gögn í málinu.
Aðalatriðið sé þó það að í þessu máli sé tekist á um það hvort úrskurði velferðarnefndar Árnesþings frá því í september skuli vera hnekkt eða ekki. Þar af leiðandi þýði ekki að búa til ný gögn í málinu núna í janúar, mörgum mánuðum eftir að ákvörðun hafi verið tekin og reyna með einhverjum hætti að réttlæta úrskurð nefndarinnar eftir á. Einungis skuli byggt á gögnum sem verið hafi til staðar þegar ákvörðunin var tekin. Þessi regla komi fram í 3. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga. Í greininni sé gert ráð fyrir því að hægt sé að afla matsgerðar og annarra nauðsynlegra gagna í undantekningartilvikum. Innan þeirrar undantekningarreglu rúmist að sjálfsögðu ekki að úrskurðarnefndin óski eftir og taki við umsögn fósturforeldra í hvert sinn sem mál er til umfjöllunar hjá nefndinni. Umsögn fósturforeldra hafi legið fyrir þegar ákvörðun málsins hafi verið tekin í lok september, og við þá umsögn eigi að styðjast við meðferð málsins.
IV.
Afstaða fósturforeldra
Í tölvupósti fósturforeldra B og C til kærunefndarinnar frá 13. janúar 2014 kemur fram að þeir séu með börnin í varanlegu fóstri og telji að rýmri umgengni sé ekki í samræmi við tilgang ráðstöfunar sé horft til fyrri ráðstafana og erfiðrar forsögu barnanna. Um sé að ræða varanlegt fóstur þar sem tilgangurinn sé að veita þeim framtíðarheimili og markmiðið því að þau tengist fósturforeldrunum og læri að líta á þá sem þeirra framtíðarforeldra. B sýni erfiðleika með að treysta fullorðnum og tengjast djúpum tilfinningaböndum. Hann hafi litla stjórn á tilfinningalífi sínu og missi ört stjórn á skapi sínu við hinar ýmsu aðstæður sem geri kröfur til hans, svo sem heima, í skólanum, í stuðningsúrræði og á íþróttaæfingum. C hafi tengst fósturforeldrunum vel sem og aðstandendum þeirra og kalli fósturforeldrana mömmu og pabba. Þeir telji börnin þurfa stöðugleika fyrst og fremst. Mikilvægt sé að umgengni verði ekki aukin með tilliti til þess hvert markmiðið sé með varanlegu fóstri.
Varðandi eftirlit með umgengni telji fósturforeldrarnir að Barnavernd í Hveragerði hafi gert rétt með því að ákveða eftirlit í kjölfar tiltekinnar umgengni. Börnin hafi þar verið sett í alvarlega hollustuklemmu að mati fósturforeldranna þegar þeim hafi verið gert að halda leyndarmál um áætlanagerð móður gegn fósturforeldrunum. Þau hafi reynt að heimfæra reiðitilfinningar móður sinnar til fósturforeldranna en án árangurs. Það sýni rannsókn sem framkvæmd hafi verið af óháðum aðila varðandi líðan barnanna og viðhorf þeirra til búsetu hjá fósturforeldrunum. Fósturforeldrarnir benda á að stutt sé síðan móðirin hafi skrifað grein í fjölmiðla eftir að hafa hótað því um nokkurt skeið þar sem hún hafi lýst þeim sem fósturforeldrum frá helvíti og dregið upp ljóta mynd af þeim. Ekki verði séð að móðir beri hagsmuni barna sinna að leiðarljósi með slíkum aðförum. Fósturforeldrar benda á að eftirlit með umgengni sé ekki komið til að vera en vanda þurfi til umgengni ef hún eigi að vera án eftirlits á ný, skoða þurfi hvort móðir þurfi aðstoð við að vinna úr tilfinningum sínum til fósturforeldranna með hagsmuni barnanna að leiðarljósi svo þeim geti liðið vel bæði í umgengni og þegar heim er komið.
V.
Afstaða velferðarnefndar Árnesþings
Af hálfu velferðarnefndar Árnesþings kemur fram að hagsmunir og þarfir barnanna hafi verið hafðir að leiðarljósi við ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda. Það sé rangt mat hjá lögmanni kæranda að nefndin hafi grundvallað niðurstöðu sína á tveimur þáttum, afstöðu fósturforeldra og niðurstöðu matsgerðar Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings. Þar sem fósturforeldrar séu aðilar að máli er varði ákvörðun um umgengni, sbr. 74. gr. a barnaverndarlaga, hafi að sjálfsögðu verið óskað eftir afstöðu þeirra við vinnslu málsins. Í lögunum sé ekki gert ráð fyrir því að þessara upplýsinga sé aflað af óháðum aðila, eins og það sé orðað í kæru, enda séu það fagaðilar sem komi að vinnslu málsins fyrir velferðarnefnd Árnesþings sem eigi engra persónulegra hagsmuna að gæta vegna málsins. Þá sé það meginregla í íslenskri stjórnsýslu að stjórnvöld rannsaki mál sjálf sem þau séu með til meðferðar. Við vinnslu málsins hafi að sjálfsögðu verið litið til niðurstöðu Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings sem hafi rannsakað málefni barnanna og skilað af sér matsgerð í byrjun árs 2012. Það sé hins vegar ekki þannig, eins og fullyrt sé í kæru, að þetta álit Valgerðar hafi ráðið niðurstöðu nefndarinnar. Á grundvelli framangreindra sjónarmiða hafi nefndin talið það andstætt hagsmunum og þörfum barnanna að rýmka umgengnina.
Við mat á hagsmunum og þörfum barnanna hafi verið litið til þess hvernig umgengni hafi gengið og hvernig börnin hafi verið stemmd eftir umgengni við kæranda. Sérstaklega hafi verið litið til þeirra breytinga sem hafi orðið eftir að umgengni var lengd og hætt hafi verið að hafa eftirlit með henni. Eftir að umgengnin hafi verið lengd í fimm klukkustundir og eftirliti hætt hafi farið að bera á erfiðari hegðun barnanna hjá fósturforeldrum og óöryggi. Þegar eftirliti hafi verið hætt hafi börnin farið að ræða um að þau ættu að fara meira til móður sinnar og fá að gista hjá henni, þau ættu ekki að búa mikið lengur hjá fósturforeldrunum og þar fram eftir götum. Greinilegt hafi verið að mikið tilfinningarót hafi komist á þau við umgengnina við kæranda, sérstaklega eftir að eftirliti hafi verið hætt.
Þegar litið sé til þess að fósturráðstöfun sé ætlað að vara í langan tíma og þess að fósturforeldrarnir hafi tekið við forsjárskyldum gagnvart börnunum sé mikilvægt að börnin byggi upp sterk og góð tengsl við þau og aðlagist því umhverfi sem best. Þetta gerist á löngum tíma og mikilvægt sé að stöðugleiki ríki í lífi barnanna svo þetta geti átt sér stað. Börnin hafi átt erfitt og eigi við margvísleg vandamál að stríða enn í dag þrátt fyrir að komið sé á þriðja ár frá því að þau hafi farið á það heimili sem þau séu á í dag. Markmið með umgengni við kæranda sé að börnin þekki uppruna sinn án þess að það komi of miklu raski á daglegt líf þeirra. Þrátt fyrir að kærandi hafi tekið sig á og hafi sagt skilið við vímuefnaneyslu í febrúar 2013 geti það ekki verið grundvöllur rýmkaðrar umgengni heldur ráði þar hagsmunir barnanna. Eins og staðan sé í dag og með hliðsjón af umsögn fósturforeldra og niðurstöðu Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings verði það ekki talið þjóna hagsmunum barnanna að umgengni verði ákveðin rýmri en fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn undir eftirliti.
VI.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um rýmri umgengni við tvö börn, níu og tíu ára gömul, en hinn kærði úrskurður velferðarnefndar Árnesþings kveður á um. Enn fremur er þess krafist að umgengnin verði án eftirlits. Börnin eru í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum. Í 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn á rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Í 3. mgr. lagagreinarinnar segir að við ráðstöfun barns í fóstur skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttar eða framkvæmd.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var afstaða tekinn til þess af hálfu velferðarnefndar Árnesþings, sem fer með hlutverk barnaverndarnefndar, hvort fallast bæri á kröfur kæranda um rýmri umgengni hennar við börnin en þegar hafði verið ákveðin. Í úrskurðinum kemur jafnframt fram að hagsmunir og þarfir barnanna hafi verið metnar og litið til markmiðs þess að ráðstafa börnunum í fóstur. Rakið er að börnin hafi verið í tímabundnum úrræðum hjá mismunandi vistunaraðilum vegna vímuefnavanda kæranda en hún hafi ekki getað sinnt uppeldisskyldum sökum vímuefnaneyslu eða meðferðar. Börnin hafi farið í fóstur til núverandi fósturforeldra 1. ágúst 2011 og hafa verið þar í varanlegu fóstri eftir að kærandi afsalaði sér forsjá þeirra. Stúlkan hafi aðlagast vel en drengurinn sýni enn mikinn mótþróa og erfiða hegðun. Í fyrstu hafi verið talið að hann ætti erfitt með að treysta fósturforeldrum og væri að reyna á þolmörk þeirra. Þessi mótþrói sé enn til staðar eftir tvö ár í fóstri og sé drengurinn í greiningarferli hjá sálfræðingi. Þá er enn fremur rakið í úrskurðinum hvernig umgengni kæranda við börnin hafði gengið fyrir sig eftir að kærandi afsalaði sér forsjá þeirra. Börnin hafi sýnt óöryggi og erfiðari hegðun á heimili fósturforeldranna eftir umgengni við kæranda þegar enginn starfsmaður af hálfu barnaverndar var viðstaddur umgengnina. Börnin hafi verið miður sín eftir umgengni í júní 2013. Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að nefndin telji ekki æskilegt að rýmka umgengni barnanna við kæranda, sérstaklega þegar litið væri til hegðunar þeirra eftir umgengni á árinu. Markmiðið með vistun barnanna í fóstri sé að þau aðlagist fósturfjölskyldu og geti upplifað sig örugg. Mat nefndarinnar sé að börnin séu ekki reiðubúin til þess að hafa meiri umgengni við kæranda í samræmi við kröfur hennar. Markmiðið með umgengni við kæranda sé að börnin þekki uppruna sinn og hafi tengsl við móður sína. Börnin þurfi á stöðugleika í lífi sínum að halda og að þau fái tækifæri til þess að mynda öryggistengsl við fósturforeldrana. Kærunefnd barnaverndarmála telur með vísan til þessa að ákvörðun um umgengni, sem tekin var með hinum kærða úrskurði, hafi verið byggð á málefnalegum grundvelli og að hagsmunir barnanna hafi verið metnir í samræmi við þarfir þeirra út frá því sem fyrir lá í málinu.
Í hinum kærða úrskurði er rakin forsaga málsins og greint frá ástæðum þess að börnin fóru í fóstur. Enn fremur er rakið hvernig umgengni barnanna við kæranda var háttað frá því að kærandi afsalaði forsjá þeirra til velferðarnefndar Árnesþings svo og hvernig til hafði tekist með þá tilhögun. Ítarlegar upplýsingar lágu fyrir í málinu um líðan barnanna sem koma meðal annars fram í gögnum velferðarnefndar, sálfræðilegri matsgerð Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings frá 13. janúar 2012 og greinargerð Önnu Karin Júlíussen félagsráðgjafa frá 8. ágúst 2013 en þessi gögn eru reifuð hér að framan. Samkvæmt skýrslu sálfræðingsins var ástand og líðan barnanna metin í janúar 2012 í því skyni að unnt væri að setja hagsmuni og þarfir þeirra til framtíðar í fyrirrúm. Tilgangurinn var meðal annars sá að setja málið í ákveðinn farveg. Skýrsla sálfræðingsins er jafnframt mikilvægt gagn í málinu en vegna hennar er unnt að bera saman ástand og líðan barna þá og núna. Kærunefndin telur hins vegar enga þörf á því að gerð verði ný sálfræðiúttekt nú til þess að meta ástand og líðan barnanna en þau þurfa langan aðlögunartíma áður en til þess kemur að lagt verði mat á það hvort geðheilsa þeirra sé orðin betri. Þegar athuganir sálfræðingsins fóru fram í byrjun árs 2012 var tekið mið af stöðu barnanna á þeim tíma en þá var líðan þeirra ekki góð. Kærunefndin telur mikilvægt að stuðlað verði að því að þeim líði betur og að þau komist í andlegt jafnvægi. Kærunefndin telur að enn lengri tíma þurfi til þess að hægt sé að komst að niðurstöðu um það hvort þau hafi aðlagast þeim aðstæðum sem þau búa við í dag. Skapa þarf ró og stöðugleika til þess að hægt verði að sjá hvernig þeim líður. Frekari sálfræðiathugun er því að mati kærunefndarinnar ekki tímabær. Þegar framangreint er virt telur kærunefndin að viðhlítandi upplýsingar og gögn hafi legið fyrir þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp til þess að unnt hafi verið að meta umfang og framkvæmd umgengnisréttarins út frá þörfum og hagsmunum barnanna. Með vísan til þess er röksemdum kæranda fyrir því að rannsókn málsins hafi verið áfátt hafnað.
Þá verður að telja að í hinum kærða úrskurði komi fram röksemdir fyrir þeirri ákvörðun að umgengi skuli vera undir eftirliti þótt þær komi þar ekki fram berum orðum. Hér verður að líta svo á að eftirlit eigi að þjóna þeim tilgangi að framkvæmd umgengninnar gangi vel fyrir sig og að hún hafi ekki þær afleiðingar að íþyngja börnunum eða auka á vanlíðan þeirra. Kærunefndin telur að við úrlausn málsins verði að líta svo á að börnin séu í mikilli þörf fyrir umhverfi þar sem ríkir ró, festa og stöðugleiki. Einnig telur kærunefndin að ákvörðun um að umgengni kæranda við börnin skuli vera undir eftirliti hljóti að sæta endurskoðun sem verður óhjákvæmilega að meta út frá líðan barnanna og þeim áhrifum sem hún hefur á þau. Kærunefndin telur því að færðar hafi verið fram fullnægjandi röksemdir fyrir því að umgengnin skuli vera undir eftirliti.
Við úrlausn þess ágreiningsefnis sem leyst var úr með hinum kærða úrskurði var mikilvægt að fram færi heildarmat á aðstæðum barnanna og líðan. Slíkt heildarmat ásamt upplýsingum frá aðilum sem höfðu vitneskju um stöðu barnanna, svo sem frá skóla og fósturforeldrum, hafði grundvallarþýðingu við úrlausn málsins. Kærunefndin telur að við málsmeðferðina hafi þess verið gætt af hálfu velferðarnefndarinnar að hinn kærði úrskurður væri byggður á heildarmati á þeim upplýsingum og gögnum sem fyrir lágu í málinu. Niðurstaða sálfræðimatsins sem lá fyrir í janúar 2012 var sú að börnin þyrftu á stöðugleika og öryggistengslum að halda. Kærunefndin lítur svo á að þetta hafi ekki breyst. Börnin þurfi mjög langan tíma til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með fóstrinu, einkum og sér í lagi drengurinn.
Kröfu kæranda um að bréf fósturforeldra barnanna verði ekki lagt til grundvallar við úrlausn málsins er hafnað með vísan til þess að ávallt er skylt að kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en úrskurður um umgengni er kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 74. gr. a barnaverndarlaga. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar eru fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri aðilar að máli sem þessu.
Af framangreindu leiðir að hafna ber kröfum kæranda um rýmri umgengni við börnin en ákveðin var af hálfu velferðarnefndar Árnesþings og enn fremur þeirri kröfu kæranda að umgengni verði án eftirlits, með vísan til 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Hinn kærði úrskurður velferðarnefndar frá 25. september 2013 er með vísan til þessa staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður velferðarnefndar Árnesþings frá 25. september 2013 um umgengni B við börn sín, C og D, er staðfestur.
Sigríður Ingvarsdóttir
formaður
Guðfinna Eydal Jón R. Kristinsson