Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2012

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 24. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 27. mars 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 28. mars 2012.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru gift, bæði 66 ára og búa í 253 fermetra eigin einbýlishúsi að C götu nr. 2, sveitarfélaginu D. Kærandi B á auk þess sumarhúsaland að E 20, sveitarfélaginu F. Kærandi A á auk þess 50% hlut í sumarhúsalandi að E 9, sveitarfélaginu F og 10% hlut í jörðinni G , sveitarfélaginu H.

Að mati kærenda má að miklu leyti rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess að þau hafi ráðist í kaup á sumarhúsalöndum rétt fyrir efnahagshrun. Að auki hafi kærandi B gengist í sjálfskuldarábyrgð á láni til sonar kærenda sem hafi rekið líkamsræktarstöð er varð gjaldþrota. Hafi ábyrgðirnar fallið á B við gjaldþrot stöðvarinnar en þær hafi verið langt umfram greiðslugetu hans.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 73.446.391 króna og falla þar af 6.177.413 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004, 2006 og 2007.

Kærandi A hefur verið metin öryrki og fær greiddar örorkubætur frá Tryggingastofnun og Lífeyrissjóði verslunarmanna. Kærandi B er í 50% starfi sem húsvörður og fær einnig greiddar atvinnuleysisbætur. Alls eru ráðstöfunartekjur kærenda 346.190 krónur á mánuði.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 4. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna beiðni þeirra um að leita greiðsluaðlögunar. Einnig mótmæla kærendur því að kærandinn B sé látinn bera hallann af rekstri þar sem hann er stjórnarmaður þegar það sé framkvæmdastjóri sem beri ábyrgð samkvæmt dómafordæmum.

Kærendur mótmæla því að þeim sé báðum synjað um greiðsluaðlögun á grundvelli skattaskuldar á hendur öðru þeirra. Að þeirra mati á kærandi A rétt til þess að mál hennar verði afgreitt óháð máli kæranda B. Þá telja kærendur að umboðsmaður skuldara starfi ekki eftir samræmdum starfsreglum eins og góð stjórnsýsla kveði á um né gæti jafnræðis í meðferð mála. Í máli þessu hafi umboðsmaður skuldara látið hjá líða að bjóða lögmanni kærenda að skipta málinu upp á milli þeirra og benda lögmanninum á leiðir til þess en það hafi umboðsmaður gert í öðrum sambærilegum málum. Þessi málsmeðferð umboðsmanns stangist beinlínis á við jafnræðis- og leiðbeiningarreglur stjórnsýslulaga.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar eru í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt ákvæðinu þurfi skuldbindingin sem stofnað hafi verið til með umræddri háttsemi að vera nokkuð stór hluti af heildarskuldbindingum skuldarans en við mat á þeim heildarskuldbindingum sé einkum horft til fjárhags skuldarans, það er tekna og eigna.

Af gögnum málsins verði ráðið að á kæranda B hvíli skattsekt að fjárhæð 6.162.413 krónur samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar í máli nr. 212/2010. Skuldin sé vegna félagsins Z 20 ehf. vegna rekstraráranna 2007 og 2008. B hafi verið stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Hafi því hvílt á honum sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skuli fyrirsvarsmaður félags hlutast til um að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að viðlögðum sektum eða refsingu, sbr. 1., 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi nefndin fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem umsækjandi, sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélags, hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 hafi verið skilið svo „að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei en síðastgreinda ákvæðið, sem nú sé fallið niður, sé samhljóða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í málinu liggi fyrir úrskurður yfirskattanefndar í máli nr. 212/2010 þar sem kæranda B sé gert að greiða 6.250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Það sé ekki á valdi umboðsmanns skuldara að ákvarða, þvert gegn úrskurði yfirskattanefndar, hvort kærandinn beri ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda sem yfirskattanefnd hafi þegar úrskurðað um. Verði því að taka mið af úrskurði nefndarinnar við ákvarðanatöku hjá umboðsmanni skuldara. Ljóst sé að sú skuld sem yfirskattanefnd hafi ákvarðað falli undir ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Einnig hafi umboðsmaður litið til þess að samkvæmt gögnum hlutafélagaskrár sé kærandi B skráður prókúruhafi félagsins X ehf. Samkvæmt yfirliti tollstjóra séu vangoldin opinber gjöld og virðisaukaskattur þess félags samtals 52.645.796 krónur. Þrátt fyrir að ekki hvíli sama skylda á B sem prókúruhafa og sem stjórnarmanni sé bent á að til athugunar komi við ákvarðanatöku að líta til síðari málsl. g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en þar sé kveðið á um að ef skuldir skuldara séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra geti umboðsmaður synjað um heimild til greiðsluaðlögunar. Því til stuðnings sé vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 þar sem fram komi að ekki verði litið fram hjá því að fjöldi krafna kæranda, þar með talin ýmis opinber gjöld, séu gjöld eða greiðsla í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar og því bersýnilega ósanngjarnt að veita greiðsluaðlögun vegna slíkra skuldbindinga.

Að því er varðar mótmæli kæranda B um að hann sé látinn bera hallann af rekstri sem stjórnarmaður þegar dómafordæmi bendi til að það sé í raun framkvæmdastjóri sem beri ábyrgð, bendir umboðsmaður á dóm Hæstaréttar í máli nr. 447/2009. Í málinu hafi A stjórnarmaður og prókúruhafi félags, B fjármálastjóri og C framkvæmdastjóri, verið dæmdir fyrir að hafa ekki staðið skil á opinberum gjöldum.

Þar sem umsækjendur hafi sótt sameiginlega um greiðsluaðlögun verði að meta umsókn þeirra heildstætt þrátt fyrir að möguleg refsiábyrgð hvíli aðeins á kæranda B. Við ákvarðanatöku embættisins hafi verið litið til þess að kærendur höfðu leitað sér aðstoðar sérfræðings þegar þau hafi lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun. Verði að gera þær kröfur til sérfræðinga að þeir leiðbeini umbjóðendum sínum þannig að það þjóni sem best hagsmunum þeirra. Hefði lögmanni kærenda verið í lófa lagið að óska eftir greiðsluaðlögun þeirra sitt í hvoru lagi svo sem heimilað sé í 3. mgr. 2. gr. lge.

Með hliðsjón af öllu framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Því verði ekki hjá því komist að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.

Krafa um að máli verði skipt upp á milli kærenda.

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. er hjónum heimilt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvers annars. Eigi hjón eða sambýlisfólk veðtryggða fasteign í óskiptri sameign er eðlilegt að þau leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu enda úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti er slíkt heimilt. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem hjón og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda A kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda B nema hún leiti greiðsluaðlögunar sem einstaklingur.

Kærendur telja málsmeðferð umboðsmanns skuldara í máli þeirra andstæða jafnræðis- og leiðbeiningarreglum stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði svo sem að gera aðila viðvart ef hann hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum eða ekki veitt nægilega ítarlegar upplýsingar. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar. Til dæmis geta leiðbeiningar verið settar fram í bæklingum frá stjórnvaldi, auglýsingum eða á netsíðum. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð, svo sem reglur um þá fresti sem gilda við meðferð viðkomandi máls. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst á hinn bóginn ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf svo sem lögmaður kærenda gerir kröfu um.

Til stuðnings því að jafnræðisregla hafi verið brotin hefur lögmaður lagt fram bréf úr óskyldu máli. Kærunefndin telur að bréf þetta hafi augljóslega enga þýðingu í máli þessu og kemur því ekki til álita við mat á því hvort  réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt af hálfu umboðsmanns skuldara eins og kærendur halda fram.

Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að hvorki hafi verið brotið gegn jafnræðis- né leiðbeiningarreglum stjórnsýslulaga af hálfu umboðsmanns skuldara við meðferð málsins.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt gögnum frá Hlutafélagaskrá var kærandi B skráður prókúruhafi og stjórnarmaður Z 20 ehf. Því hvíldi á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt fyrirliggjandi úrskurði yfirskattanefndar frá 7. júlí 2010 var kæranda B gert að greiða sekt að fjárhæð 6.250.000 krónur vegna vanskila á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins Z 20 ehf. vegna greiðslutímabilanna júní til og með desember rekstrarárið 2007 og janúar rekstrarárið 2008. Samkvæmt gögnum málsins er sektin ógreidd.

Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Í máli þessu hefur refsiábyrgð kæranda verið staðfest með framangreindum úrskurði yfirskattanefndar.

Við mat á því hvort aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða neikvæð um ríflega 39.000.000 króna. Skuldir annars kæranda vegna vangreiddra vörsluskatta nema alls 6.250.000 krónum sem út af fyrir sig verður að telja mjög háa fjárhæð. Skuldir þessar eru 8,5% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandinn B hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, meðal annars með hliðsjón af þeirri fjársekt sem kærandi B hefur hlotið og dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að synja beri A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta