Mál nr. 15/2012
Mánudaginn 2. desember 2013
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 26. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 31. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. febrúar 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. febrúar 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem bárust 12. mars 2012. Athugasemdirnar voru sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 21. mars 2012. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst kærunefndinni með bréfi 25. apríl 2012. Hún var send kærendum með bréfi 9. maí 2012 og þeim boðið að gera athugasemdir sem bárust 23. maí 2012. Athugasemdirnar voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 4. júní 2012. Önnur greinargerð umboðsmanns skuldara barst kærunefndinni með bréfi 22. júní 2012. Hún var send kærendum með bréfi 19. júlí 2012 og þeim boðið að gera við hana athugasemdir. Framhaldsgreinargerð kærenda barst með bréfi 2. ágúst 2012.
I. Málsatvik
Kærendur eru gift, 42 og 46 ára ára og búa ásamt fjórum börnum sínum á aldrinum tveggja til 23 ára í 170 fermetra eigin raðhúsi að C götu nr. 10 í sveitarfélaginu D
Kærandi B starfar hjá X ehf. en kærandi A fær greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun vegna heilsubrests. Einnig fá kærendur greiddar barna- og vaxtabætur. Alls eru ráðstöfunartekjur kærenda 363.202 krónur á mánuði.
Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ábyrgðarskuldbindinga sem kærandi B tókst á hendur vegna félagsins Y ehf., en félagið var í hans eigu. Y ehf. var úrskurðaður gjaldþrota í apríl 2009.
Einnig rekja kærendur greiðsluerfiðleika sína til efnahagshrunsins þar sem lán og aðföng hafi hækkað upp úr öllu valdi í kjölfar þess.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 19.621.220 krónur og falla þar af 2.459.960 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga er 38.474.547 krónur samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 25. mars 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
II. Sjónarmið kærenda
Að sögn kærenda stafa fjárhagserfiðleikar þeirra af skuldbindingum sem annar kærenda tókst á hendur fyrir félag sitt Y ehf. og tryggðar eru með veði í fasteign kærenda.
Meðal þessara skuldbindingar er veðtrygging samkvæmt tryggingabréfi sem kærandi B veitti Landsbankanum vegna verktryggingar fyrir félag sitt Y ehf. Í þessu sambandi rekja kærendur ákvæði laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Kærendur greina frá því að þau séu ósátt við að Landsbankinn hafi greitt út verktryggingu vegna félagsins Y ehf. til Hafnarsjóðs sveitarfélagsins E, þar sem það verk sem félagið vann að hafi nánast verið fullunnið þegar félagið varð gjaldþrota. Á þessum tíma hafi lögfræðingur kæranda Hjartar átt í samningaviðræðum við bankann um að klára verkið svo ekki kæmi til útborgunar á verktryggingunni. Við gjaldþrotið hafi félagið verið í fullum rekstri, með starfsfólk í vinnu og verkefnastaða hafi verið góð. Fjárhagsstaða félagsins hafi verið þokkaleg og meðal annars hafi verið búið að semja við ríkisskattstjóra þegar einn kröfuhafa óskaði gjaldþrotaskipta á félaginu. Félagið hafi verið búið að semja við umræddan kröfuhafa en hann hafi brotið það samkomulag með framangreindum hætti. Það sem hér hafi verið rakið sé ástæðan fyrir núverandi stöðu kærenda. Kærendur telja að þær útistandandi kröfur sem Y ehf. hafi átt hefðu hæglega átt að geta greitt skattskuldir félagsins.
Að því er varðar fjárhæð skattskulda segja kærendur að vissulega séu þær háar en þegar fyrirtæki í fullum rekstri sé stöðvað geti aldrei verið um annað en háar upphæðir að ræða.
Þá rekja kærendur helstu atriði samkomulags fjármálafyrirtækja um upplýsingaskyldu til ábyrgðarmanna frá 2001. Telja þau að Landsbankanum, sem veitti 20.000.000 króna verkábyrgð vegna félagsins Y ehf., hafi borið að greiðslumeta ábyrgðarmann en því hafi ekki verið sinnt. Einnig hafi bankinn einhliða breytt skilmálum ábyrgðar og hafi það verið ábyrgðarmanni í óhag. Bankinn hafi ekki haft heimildir til þess. Að auki er það mat kærenda að forsendur hafi verið brostnar fyrir ábyrgð kæranda Hjartar. Ábyrgð hans hafi átt að falla niður þar sem bankinn hafi ekki framfylgt þessum skyldum sínum. Af þessum ástæðum fara kærendur þess á leit við kærunefndina að umrædd ábyrgð verði felld niður.
Einnig álíta kærendur að auðvelt hefði verið að klára umrætt verk ef ekki hefði komið til sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði árið 2008. Af þeim sökum hafi staða kæranda Hjartar sem ábyrgðarmanns orðið verri en áður.
Með síðustu greinargerð sinni lögðu kærendur fram yfirlit frá tollstjóra yfir skuldastöðu þeirra sjálfra og félagsins Y ehf. þar sem fram kemur að skuld félagsins við tollstjóra er 6.198 krónur. Yfirlitið er dagsett 3. ágúst 2012.
Kærendur telja fjárhag sinn fara batnandi og telja greiðslugetu sína meiri en áður þar sem kærandi B sé kominn með góða atvinnu.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.
Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.
Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félaginu Y ehf. þar sem annar kæranda hafi gegnt stöðu stjórnarmanns og prókúruhafa. Hluti skattskuldanna sé vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda. Beri kærandinn stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu þessara skatta samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Hann gæti því þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987
Af gögnum frá tollstjóra verði ráðið að Y ehf. skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 4.433.438 krónur. Þar af byggist 2.316.060 krónur á áætlun en samkvæmt því séu 2.117.378 krónur vegna álagningar. Einnig skuldi félagið staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 11.590.799 krónur og byggist sú skuld á álagningu. Samanlagt séu skuldir þessar að fjárhæð 16.024.237 krónur en heildarskuldir félagsins við tollstjóra nemi 25.892.054 krónum.
Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags eða atvinnurekstrar hafi almennt ekki áhrif á skyldu til að skila vörslusköttum eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé sem innheimt sé í nafni ríkissjóðs en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum. Einnig beri að líta til þess að í tilviki kærenda séu vanskilin mjög mikil og við þeim geti legið afar þungar sektir.
Af skuldayfirliti og greinargerð kærenda verði ráðið að fjárhagur þeirra sé mjög þröngur vegna umtalsverðra skuldbindinga. Nemi heildarskuldir þeirra 19.621.220 krónum en að auki hvíli á eign þeirra ábyrgðarskuldbindingar vegna félagsins Y ehf. að fjárhæð 38.474.547 krónur. Eignir kærenda séu fasteignin að C götu nr.10, í sveitarfélaginu D, en verðmæti hennar sé 33.550.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Verðmæti annarra eigna kærenda sé óverulegt samkvæmt gögnum málsins. Á þeim grundvelli verði að telja eignir kærenda óverulegar að teknu tilliti til skulda.
Ekki verði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hafi hvílt á öðrum kæranda sem stjórnarmanni og prókúruhafa í nefndu einkahlutafélagi til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir umræddra gjalda verulega háar auk þess sem ljóst sé að eignastaða kærenda sé erfið vegna talsverðra ábyrgðarskuldbindinga fyrir félagið.
Með hliðsjón af öllu framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að annar kærenda hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Einnig sé til þess að líta að kærendur reki fjárhagserfiðleika sína að öllu leyti til ábyrgðarskuldbindinga kæranda Hjartar vegna félagsins. Ábyrgðarskuldbindingar þessar séu tryggðar með veði í húsnæði kærenda en af gögnum málsins megi ráða að persónulegar skuldbindingar kærenda séu hóflegar og valdi einar og sér ekki ógjaldfærni þeirra. Hin mikla skuldasöfnun vegna opinberra gjalda félagsins valdi þeirri ógjaldfærni.
Umboðsmaður vísar til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem tekið sé fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Einnig vísar umboðsmaður til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kveðið er á um að heimilt sé að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Telja verði þá háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs almennt ámælisverða, enda um lögbrot að ræða sem varði refsingu. Ennfremur þyki ljóst að vangreiddir vörsluskattar og sektir sem tengist þeim séu skuldir sem séu þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Umboðsmaður vísar til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Þar sé sérstaklega tiltekið að opinber gjöld, greiðsla í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar, sektir og endurkröfur ríkis vegna bóta sem greiddar séu vegna refsiverðrar háttsemi, séu á meðal skulda sem falli undir lýsingu í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Af úrskurðinum verði einnig ráðið að það eigi ekki að ráða úrslitum um hvort skuldir falli innan samnings um greiðsluaðlögun hvort skuldirnar girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.
Umboðsmaður rekur einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt þessu sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar þegar ráðist sé í samningaumleitanir um greiðsluaðlögun. Telja verði að almennt ríki nokkur óvissa um fjárhag þeirra aðila sem hafi sem forsvarsmenn einkahlutafélaga látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því að vanskil hefjist og þar til sök er fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskila félags á vörslusköttum. Í flestum tilvikum bresti forsendur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi, ekki síst þegar skuldir vörsluskatta séu miklar. Slíkar sektir yrði skuldari að greiða að fullu en telja verði svigrúm innheimtumanna ríkissjóðs til að semja um þær fremur takmarkað.
Umboðsmaður bendir á að samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 gildi aðeins þegar um sé að ræða ábyrgð á skuldum einstaklinga samkvæmt 2. gr. samkomulagsins. Að því er varði lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, sem kærendur geri grein fyrir, vísar umboðsmaður annars vegar til gildistökuákvæðis í 12. gr. laganna og hins vegar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 274/2010. Dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að afturvirkni laganna stangist á við eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum verði ekki séð að umboðsmaður skuldara eða kærunefnd greiðsluaðlögunarmála geti á þessum grundvelli komist að því að nefndar ábyrgðir séu ógildar líkt og kærendur virðist fara fram á.
Af ofangreindum ástæðum þyki óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi B skráður framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarmaður félagsins Y ehf. Því hvíldi á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar. Nánar tiltekið er um að ræða vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu launagreiðanda. Samtals nemi þessar skuldir 16.024.237 krónum. Fram kemur að 2.316.060 krónur byggjast á áætlun. Því má gera ráð fyrir að raunveruleg skuld vegna vörsluskatta sé ekki lægri en 13.708.177 krónur eða ríflega 41% af heildarskuldum kærenda ef ekki er tekið tillit til ábyrgðarskuldbindinga.
Kærendur hafa vísað til yfirlits frá tollstjóra þar sem fram kemur að Y ehf. skuldar ekki opinber gjöld, þar með talda vörsluskatta. Yfirlitið er dagsett 3. ágúst 2012. Kærunefndin aflaði upplýsinga hjá tollstjóra um ástæður þessa. Í ljós kom að skuldir Yehf. voru afskrifaðar úr greiðslukerfi embættisins sem innheimtukrafa á hendur félaginu 15. mars 2012 vegna gjaldþrots félagsins. Skuldir vegna vörsluskatta hafa því ekki verið greiddar. Samkvæmt gögnum málsins var Y ehf. í greiðsluerfiðleikum frá árinu 2008 og eru elstu vanskil vörsluskatta frá þeim tíma.
Framangreint ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei að því tilskyldu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.
Við mat á því hvort aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um ríflega 38.000.000 króna. Skuldir sem annar kærandi bar ábyrgð á vegna vangreiddra vörsluskatta nema alls 13.708.177 krónum sem telja verður afar háa fjárhæð. Skuldir þessar eru um 41% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandinn B hefur þar með bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, meðal annars með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu 721/2009, að skuldir kæranda, sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., séu svo verulegar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.
Kærendur hafa farið þess á leit við kærunefndina að veðtrygging sem þau veittu í fasteign sinni vegna skuldbindinga Y ehf. við Landsbankann verði felld niður. Samkvæmt 32. gr. lge. er heimilt að skjóta til kærunefndarinnar ákvörðunum í samræmi við ákvæði lge. og takmarkast verksvið hennar því við þá löggjöf. Kærunefndin hefur ekki heimildir til að hlutast til um niðurfellingar skulda.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að synja beri A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir