Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2012

Fimmtudaginn 5. desember 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 30. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. febrúar 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. febrúar 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem bárust 27. mars 2012. Athugasemdirnar voru sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 2. apríl 2012. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst kærunefndinni með bréfi 25. apríl 2012. Hún var send kæranda með bréfi 9. maí 2012 og honum boðið að gera athugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 46 ára og býr með 19 ára syni sínum í 144,4 fermetra eigin íbúð að B götu nr. 17 í sveitarfélaginu C. Hann stundar sjómennsku á smábát.

Alls eru ráðstöfunartekjur kærenda 201.535 krónur á mánuði. Kærandi tekur fram í greinargerð sinni að mánaðarleg laun hans geti verið á bilinu 300.000 til 700.000 krónur.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til umsvifamikilla viðskipta í byggingariðnaði og fjárfestingum á árunum fyrir efnahagshrun. Kærandi hafi verið einn eigenda verktakafyrirtækisins X ehf. sem var úrskurðað gjaldþrota 2009. Þegar umsvifin hafi verið hvað mest hafi félagið haft 30 menn í vinnu. Kærandi hafi einnig verið einn eigenda fjárfestingafélagsins Y ehf. en það félag var úrskurðað gjaldþrota árið 2010. Kærandi kveður rekstur félaganna hafa gengið vel fyrir hrun en hann sé í umtalsverðum persónulegum ábyrgðum fyrir bæði félögin. Hann hafi verið án atvinnu um tíma í kjölfar gjaldþrots félaganna.

Kærandi kveður skuldir sínar til komnar vegna fasteignakaupa, bifreiðakaupa, ábyrgða fyrir framangreind félög og opinberra gjalda.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 72.693.226 krónur. Allar skuldir kæranda falla innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga er 29.365.206 krónur samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 26. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Að sögn kæranda eiga fjárhagserfiðleikar hans rót sína að rekja til hruns á byggingamarkaði. Kærandi hafi tekist á hendur miklar ábyrgðir fyrir verktakafyrirtækið X ehf. en kærandi hafi verið einn eigenda félagsins. Þessar ábyrgðir hafi fallið á kæranda í kjölfar gjaldþrots X ehf. í byrjun árs 2009. Kærandi greinir frá því að verkefnastaða og rekstur X ehf. hafi verið í jafnvægi fram að hruni. Félagið hafi staðið við skuldbindingar sínar og staðið skil á staðgreiðslu- og virðisaukaskatti. Við hrunið hafi gengið hratt á eignir félagsins með þeim afleiðingum að það hafi staðið eftir eignalaust og skuldugt, meðal annars við hið opinbera.

Einnig hafi kærandi verið einn eigenda fjárfestingafélagsins Y ehf. en það félag var úrskurðað gjaldþrota árið 2008. Ábyrgðir sem hann hafði gengist í vegna þess félags hafi einnig fallið á hann.

Að því er varðar synjun umboðsmanns skuldara bendir kærandi á að synjunin byggist á matskenndu heimildarákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. Það kunni að vera refsivert að standa ekki skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu en horfa beri til þess að kærandi hafi ekki hlotið dóm vegna þess og ekki hafi heldur verið gefin út á hendur honum ákæra. Þá liggi ekki fyrir í málinu hvort skattskuldir séu byggðar á áætlun eða ekki.

Kærandi minnir á að á umboðsmanni hvíli ekki fortakslaus skylda að synja umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli ógreiddra vörsluskatta eða þess að hlutfall slíkra skulda sé of hátt. Telji kærandi að umboðsmanni beri að meta hverja umsókn sjálfstætt með hliðsjón af öllum atvikum. Að mati kæranda sé ljóst að ef ákvörðun umboðsmanns yrði staðfest hefði það í för með sér að fjölmargir sjálfstæðir atvinnurekendur sem ekki hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt, myndu ekki njóta þess úrræðis er greiðsluaðlögun býður upp á.

Kærandi kveðst eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum. Hann hafi vilja til að taka þátt í atvinnulífinu en við óbreytt ástand telji hann þess ekki kost.

Kærandi kveður mögulegar skuldir félaganna X ehf. og Y ehf. byggjast að öllu leyti á áætlunum skattayfirvalda. Félögin hafi orðið gjaldþrota og því hafi skattskil ekki verið kláruð. Endurskoðandi félaganna hafi neitað að afhenda bókhald þeirra enda hafi hann ekki fengið greitt fyrir vinnu sína.

Kærandi hafnar því að félögin hafi átt eftir að skila vörslusköttum. Forsvarsmenn félaganna hafi staðið skil á öllum skuldbindingum sínum gagnvart opinberum aðilum. Engum kröfum hafi verið beint að kæranda eða meðeiganda hans að félögunum og ekki hafi verið höfðað opinbert mál á hendur þeim. Yrði það gert yrði slíkum kröfum auðsvarað með leiðréttingum.

Kærandi vekur athygli á 1. mgr. 22. gr. lge. Eftir ákvæðum þeirrar greinar geti umsjónarmaður lagt til hliðar fjármuni á tímabili greiðsluaðlögunar til að mæta umdeildri kröfu. Til að eiga rétt til fjármunanna verði kröfuhafi að grípa til tiltekinna ráðstafana innan sex mánaða frá því að samningur um greiðsluaðlögun komst á. Umboðsmanni beri að gæta meðalhófs í ákvörðunum sínum og því sé nærtækara að beita ákvæðum 22. gr. lge. við afgreiðslu greiðsluaðlögunarsamnings en að synja umsókninni á grundvelli kröfu sem efnislegar varnir séu fyrir og ekki hafi verið útkljáð á réttum vettangi. Kærandi leggur áherslu á að krafan verði ekki efnislega til lykta leidd fyrir umboðsmanni skuldara og því ótækt að embættið taki efnislega afstöðu til réttmætis kröfunnar sem slíkrar og fjárhæðar hennar. Ennfremur bendi kærandi á að krafa þessi standi utan greiðsluaðlögunar samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Af þeim sökum verði ekki fallist á það sjónarmið að kröfuhafi sem ekki á aðild að greiðsluaðlögunarsamningi geti hindrað að greiðsluaðlögun komist á um aðrar kröfur. Aðrir kröfuhafar gætu eftir sem áður hafnað því að staðfesta greiðsluaðlögunarfrumvarp. Að mati kæranda geti engar kröfur opinberra aðila orðið til þess að endurskipulagning á fjármálum kæranda fari í uppnám líkt og umboðsmaður byggi synjun sína á.

Krefst kærandi þess að fallist verði á að veita honum greiðsluaðlögun og að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Í greinargerð með frumvarpi til laganna sé tekið fram í athugasemdum við 2. mgr. 6. gr. að þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar miði að hluta við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, enda nokkur reynsla komin á framkvæmd og dómvenju við beitingu greinarinnar. Ennfremur sé það tekið fram að aðstæður sem taldar séu upp í 2. mgr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Framangreint ákvæði lge. sé samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi reynt á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í úrskurðinum hafi verið til skoðunar hversu há skattskuld kæranda væri og hvort hún teldist verulegur hluti skulda kæranda í skilningi ákvæðisins. Kærandi hafi borið ábyrgð á ógreiddum vörslusköttum einkahlutafélags þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra, stjórnarformanns og prókúruhafa, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Skuld félagsins hafi numið um 25.000.000 króna eða um 44% af heildarskuldum kæranda. Í úrskurðinum hafi kærunefndin vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009. Í dóminum hafi rétturinn meðal annars tekið til umfjöllunar 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að skuldbinding sem stofnað sé til með þeirri háttsemi sem ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. tiltaki geti varðað synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef umrædd skuldbinding sé tiltölulega há með tilliti til fjárhæðar og hlutfalls af heildarskuldbindingum skuldara samanborið við eignastöðu hans bæði á þeim tíma sem ákvörðun var tekin og á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar var stofnað. Í umræddu máli hafi heildarfjárhæð skuldar vegna háttsemi sem varðaði refsingu numið 1.780.437 krónum sem hafi þótt út af fyrir sig all há upphæð, en hún hafi numið ríflega 8,3% af heildarskuldbindingum skuldarans. Hafi niðurstaða dóms Hæstaréttar verið sú að umsókn um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar var synjað. Með vísan til niðurstöðu dómsins hafi kærunefndin staðfest synjun umboðsmanns skuldara þar sem kærandi hafði bakað sér skuldbindingu sem einhverju nam miðað við fjárhag kærenda sem varðað gat refsingu eða skaðabótaskyldu. Í úrskurði kærunefndarinnar komi fram að synjun um heimild til greiðsluaðlögunar í slíkum málum sé óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei.

Umboðsmaður gerir grein fyrir því að á stjórnarmönnum einkahlutafélaga hvíli skylda til að hafa eftirlit með og tryggja skil á vörslusköttum fyrir hönd einkahlutafélaga og á framkvæmdastjórum hvíli sérstök skylda til að sjá til þess að vörslusköttum, sem innheimtir séu í starfsemi einkahlutafélags, sé skilað í ríkissjóð. Þessir aðilar séu þannig ábyrgir fyrir skilum á umræddum sköttum og brjóti þeir gegn þessum skyldum liggi við því refsing. Vörslusköttum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila í samræmi við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og laga um tryggingagjald nr. 113/1990.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé það refsivert ef skattskyldur maður afhendi eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Telur umboðsmaður ljóst að kærandi hafi í starfi sínu sem framkvæmdastjóri, prókúruhafi og meðstjórnandi hjá eigin einkahlutafélagi, X ehf., stofnað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með því að láta hjá líða að standa skil á vörslusköttum fyrir hönd félagsins.

Umboðsmaður greinir frá því að samkvæmt gögnum málsins hafi heildarskuldbindingar kæranda numið samtals 72.693.226 krónum þegar ákvörðun umboðsmanns hafi verið tekin. Þar af hafi skuldir X ehf. vegna vangoldins virðisaukaskatts numið samtals 7.225.166 krónum og skuld vegna vangoldinnar staðgreiðslu launagreiðanda samtals 10.621.146 krónum. Alls nemi því heildarskuldbinding kæranda vegna skattskulda 17.846.312 krónum eða 24,55% af heildarskuldbindingum kæranda. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að skattskuldir kæranda stafi frá árunum 2008 til 2011 og álagning skattanna sé byggð á skýrslum frá félaginu til skattayfirvalda.

Einnig tiltekur umboðsmaður að af gögnum frá tollstjóra verði ráðið að höfuðstólsfjárhæð virðisaukaskattsskuldar X ehf. vegna ársins 2008 nemi 2.925.074 krónum að því leyti sem álagningin byggi á gögnum frá félaginu sjálfu. Einnig skuldi félagið staðgreiðslu launagreiðanda að höfuðstólsfjárhæð 3.854.120 krónur að því leyti sem álagningin byggi á gögnum frá félaginu sjálfu. Höfuðstóll samanlagðra vanskila X ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu launagreiðanda á árinu 2008 hafi því numið 6.779.194 krónum að því leyti sem álagning hafi byggt á gögnum frá félaginu sjálfu. Félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2009.

Það er mat umboðsmanns að fjárhagsstaða kæranda sé fremur erfið. Kröfur vegna vangoldins staðgreiðslu- og virðisaukaskatts séu talsvert háar eða 17.846.312 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé nettó eignastaða kæranda neikvæð um 48.455.387 krónur og séu helstu ástæður fyrir því hækkanir lána, aukin vanskil og verðlækkun á eign hans.

Umboðsmaður greinir frá því að þrátt fyrir að X ehf. hafi verið úrskurðaðir gjaldþrota í janúar 2009 verði ekki litið fram hjá því að umsækjandi beri enn ábyrgð á vanskilum félagsins á opinberum gjöldum sem meðstjórnandi, prókúruhafi og framkvæmdastjóri félagsins en fyrningarfrestur þeirra sé fjögur ár, sbr. 4. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007.

Umboðsmaður vísar til þess að fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags eða atvinnurekstrar hafi almennt ekki áhrif á skyldu til að skila vörslusköttum eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé sem innheimt hafi verið í nafni ríkissjóðs en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum. Einnig beri að líta til þess að í tilviki kæranda séu vanskilin mikil og við þeim geti legið þungar sektir.

Þá vísar umboðsmaður til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem tekið sé fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Einnig vísar umboðsmaður til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kveðið sé á um að heimilt sé að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Telja verði þá háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs almennt ámælisverða, enda um lögbrot að ræða sem varði refsingu. Ljóst sé að sú háttsemi geti valdið viðkomandi verulegum fjárhagserfiðleikum. Ennfremur álíti umboðsmaður ljóst að vangreiddir vörsluskattar og sektir sem tengist þeim séu skuldir sem séu þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Vísar umboðsmaður til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Þar sé sérstaklega tiltekið að opinber gjöld, greiðsla í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar, sektir og endurkröfur ríkis vegna bóta sem greiddar séu vegna refsiverðrar háttsemi séu á meðal skulda sem falli undir lýsingu í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Af úrskurðinum verði einnig ráðið að það eigi ekki að ráða úrslitum um hvort skuldir falli innan samnings um greiðsluaðlögun hvort skuldirnar girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður rekur einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt þessu sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar þegar ráðist sé í samningaumleitanir um greiðsluaðlögun. Telja verði að almennt ríki nokkur óvissa um fjárhag þeirra aðila sem hafi, sem forsvarsmenn einkahlutafélaga, látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því að vanskil hefjist og þar til sök er fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskila félags á vörslusköttum. Í flestum tilvikum bresti forsendur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi, ekki síst þegar skuldir vegna vörsluskatta séu miklar. Slíkar sektir yrði skuldari að greiða að fullu en telja verði svigrúm innheimtumanna ríkissjóðs til að semja um þær fremur takmarkað.

Af ofangreindum ástæðum þyki óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Óumdeilt er að kærandi var framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarmaður félagsins X ehf. á þeim tíma er hér skiptir máli. Á honum hvíldi því sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, þ.e. að sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar. Nánar tiltekið sé um að ræða vanskil á virðisaukaskatti að fjárhæð 2.925.074 krónur og vanskil á staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 3.854.120 krónur. Samtals nemi þessar skuldir 6.779.194 krónum og byggist þær á gögnum frá félaginu sjálfu.

Kærandi heldur því fram að X ehf. hafi ekki haldið eftir vörsluskatti og hafi forsvarsmenn félagsins staðið skil á öllum skuldbindingum sínum gagnvart opinberum aðilum. Engum kröfum hafi verið beint til þeirra vegna þessa og ekki höfðað opinbert mál á hendur þeim. Mögulegar skuldir á hendur félaginu vegna vörsluskatta séu því byggðar á áætlun. Við vinnslu málsins fékk kærunefndin þær upplýsingar staðfestar hjá tollstjóra að skuld vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 2.925.074 krónur og skuld vegna staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 3.854.120 krónur byggist á gögnum frá félaginu sjálfu. Kærunefndin telur því ekki unnt að fallast á fullyrðingu kæranda um að félagið hafi staðið skil á öllum skuldbindingum sínum gagnvart opinberum aðilum.

Framangreint ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei að því tilskyldu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Við mat á því hvort aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins var eigna- og skuldastaða kæranda eftirfarandi árin 2007 til 2010:

  2007 2008 2009 2010
Ráðstöfunartekjur pr. mán. kr. 562.555 298.467 170.145 222.076
Skuldir alls kr. 91.808.414 47.996.884 49.861.829 61.090.688
Inneignir kr. 2.990 9.764 10.497 36.595
Hlutabréf o.fl. kr. 2.741.986 2.471.877 333.651 7.203
Ökutæki kr. 7.739.300 6.632.820 597.537 587.832
Fasteign kr. 70.620.000 28.580.000 24.750.000 23.650.000
Eignir alls kr. 81.104.276 37.694.461 25.691.685 24.281.630
Nettó eignastaða kr. -10.704.138 -10.302.423 -24.170.144 -36.809.058

Eins og sjá má af töflunni hefur eignastaða kæranda verið neikvæð allt frá árinu 2007. Kærandi bar ábyrgð á að félag hans stæði skil á framangreindum sköttum að viðlagðri sekt eða fangelsisrefsingu. Um er að ræða vörsluskatta að fjárhæð 6.779.194 krónur sem telja verður afar háa fjárhæð. Kærandi hefur þar með bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, meðal annars með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldbindingar á hendur kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að synja beri A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta