Mál nr. 10/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 10/2015
Miðvikudaginn 4. maí 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.
Þann 11. febrúar 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. janúar 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 20. febrúar 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. apríl 2015.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. apríl 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 9. júlí 2015.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur eru fædd 1972 og 1975. Þau eru gift og búa ásamt X börnum sínum, þar af einu uppkomnu, í eigin fasteign sem er 281 fermetra einbýlishús að C. Kærandi A er [...] og rekur einkahlutafélagið D. Kærandi B starfar einnig hjá félaginu. Í félaginu er rekin verslunarstarfsemi og[...]. Tekjur kærenda eru vegna launa og barnabóta.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til tekjulækkunar. Árið 2004 hafi þau keypt hús í E. Kærandi A hafi þá verið sjálfstætt starfandi og leigt húsnæði í E undir starfsemi sína. Hún hafi misst leiguhúsnæðið árið 2007 og þurft að flytja starfsemina. Þá hafi hún keypt húsnæði sem í var [...]verslun. Hún hafi keypt rekstur verslunarinnar með húsnæðinu í þeim tilgangi að reka eigin starfsemi samhliða versluninni. Kærandi B hafi orðið atvinnulaus árið 2006. Þá hafi hann byrjað byggingu hússins að C sem átti að verða nýtt heimili fjölskyldunnar. Kærendum hafi ekki tekist að selja eldra húsnæði fyrr en árið 2009 og þá hafi þau flutt í nýju eignina. Kærandi B hafi verið atvinnulaus áfram og verkefnum fækkað hjá kæranda A.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt upplýsingum umboðsmanns skuldara eru 78.858.564 krónur.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 5. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 var umsókn þeirra hafnað. Kærendur kærðu þá niðurstöðu til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi með úrskurði 18. ágúst 2014, sbr. mál nr. 130/2012. Málið fór því aftur til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara. Með ákvörðun embættisins 23. október 2014 var kærendum síðan veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 26. nóvember 2014 lagði umsjónarmaður til að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Við skoðun umsjónarmanns á málinu hafi komið í ljós að fasteign kærenda væri ekki að fullu veðsett. Með sölu eignarinnar gætu kærendur greitt allar skuldir sínar og að auki átt eitthvað fé til ráðstöfunar. Væri það því mat umsjónarmanns að 1. mgr. 2. gr., sbr. a-liður 1. mgr. 6. gr. lge. ætti við í máli kærenda þar sem þau væru ekki ófær um að standa við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.
Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 5. desember 2014 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr . lge. Svar kærenda barst með bréfi 12. janúar 2015.
Með ákvörðun 26. janúar 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar og með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að umboðsmaður skuldara standi með þeim í gegnum samningaferli við Landsbankann. Þetta verður að skilja sem svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærendur vísa til þess að alltaf hafi legið fyrir að þau ættu fyrir skuldum og hafi Embætti umboðsmanns verið þetta ljóst á fyrsta fundi kærenda með starfsmanni embættisins. Hægt hefði verið að spara kærendum mikinn tíma ef þeim hefði strax verið sagt að þeir sem ættu fyrir skuldum fengju ekki heimild til greiðsluaðlögunar. Staða kærenda væri mun verri nú en þegar þau hafi óskað greiðsluaðlögunar þar sem öll þeirra lán hefðu verið í skilum á þeim tíma. Kærendur telja ósanngjarnt að umboðsmaður skuldara hafi synjað erindi þeirra og þeim gert að mæta bankakerfinu með tilheyrandi dráttarvöxtum, en nú sé mun erfiðara að ná samningum við bankana en áður.
Kærendur segja að í fundargerð frá umboðsmanni skuldara sé haft eftir þeim að þau geti staðið við allar sínar skuldbindingar. Þetta sé misskilningur þar sem þau hafi átt við að þau gætu staðið við þær skuldir sem lagt hafi verið upp með.
Kærendur kveðast hafa sýnt mikinn greiðsluvilja og hafi þau nú þegar greitt Landsbankanum yfir 30.000.000 króna. Að mati kærenda séu þau gjaldgeng í úrræði umboðsmanns skuldara.
Þá geri kærendur athugasemdir við meðferð embættisins á máli þeirra.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. beri að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna um að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. geti einstaklingur, sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lge. Í 2. mgr. 2. gr. komi fram hvenær einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar samkvæmt lge. Í V. hluta almennra athugasemda við greinargerð með lge. komi fram að skuldari skuli sýna fram á greiðsluvanda sinn og að hafna beri umsókn sé greiðslugeta til staðar, enda þótt eiginfjárstaða sé neikvæð. Í athugasemdum við greinargerð með 2. gr. lge. segi að sé það mögulegt skuli skuldari leita annarra leiða til að laga skuldbindingar sínar að greiðslugetu áður en hann leiti greiðsluaðlögunar.
Á fundi kærenda og umsjónarmanns hafi verið farið yfir hvernig mögulegt væri að standa að greiðsluaðlögunarsamningi. Niðurstaða umsjónarmanns hafi verið sú að sala fasteignar kærenda væri líklega nauðsynleg. Kærendur hafi á hinn bóginn talið rétt að semja við kröfuhafa um lækkun vaxta í því skyni að halda fasteigninni og hafi þau óskað aðstoðar umboðsmanns skuldara við þá samninga. Umsjónarmaður hafi bent kærendum á að hægt væri að fá aðstoð ráðgjafa embættisins við slíka samninga en þeir féllu ekki undir ákvæði lge. þar sem um mjög dýra fasteign væri að ræða. Umsjónarmaður hafi því talið að kærendur væru ekki í varanlegum greiðsluvanda, enda teldu þau sjálf að þau gætu leyst úr vanda sínum með því að selja fasteign sína en væru ekki tilbúin til að selja hana. Kærendur hafi einnig óskað þess að mál þeirra yrði sett í biðstöðu hjá umsjónarmanni svo að þau gætu reynt að semja við kröfuhafa á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stæði yfir. Þeirri beiðni kærenda hafi verið hafnað þar sem hún samrýmdist hvorki tilgangi lge. né málshraðareglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í greinargerð með kæru hafi kærendur einnig óskað þess að umboðsmaður skuldara veitti þeim aðstoð við að semja við kröfuhafa. Slík aðstoð færi ekki fram með greiðsluaðlögunarumleitunum heldur með liðsinni ráðgjafa hjá embættinu.
Að því er varði dráttarvexti vísar umboðsmaður skuldara til þess að óheimilt sé að leggja dráttarvexti við kröfur á því tímabili sem greiðsluskjól samkvæmt 11. gr. lge. standi yfir. Almennar reglur um heimildir til að leggja dráttarvexti við kröfur sé að finna í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Í 5. gr. laganna komi fram að í þeim tilvikum er gjalddagi hefur verið fyrirfram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknist af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga og fram að greiðsludegi. Samkvæmt 2. gr. laganna sé heimilt að víkja frá ákvæðinu sé það skuldara til hagsbóta. Í 7. gr. laganna sé að finna sérstaka reglu sem meini kröfuhöfum að reikna dráttarvexti af kröfum sínum við tilteknar aðstæður þrátt fyrir að skilyrði 5. gr. séu að öðru leyti uppfyllt. Þar segi: „Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar.“ Af ákvæðinu verði ráðið að kröfuhöfum sé óheimilt að reikna dráttarvexti á kröfur vegna þess tíma er skuldari heldur af lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta greiðslu.
Þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabundin frestun greiðslna hjá viðkomandi skuldara, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lge. Á meðan á greiðsluskjóli standi sé kröfuhöfum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr. lge. Ákvæðið standi þannig í vegi fyrir því að einstaklingur í greiðsluskjóli greiði af þeim skuldum sem hann hafi stofnað til fyrir greiðsluskjólið óháð greiðslugetu eða greiðsluvilja. Telja verði samkvæmt því að lögmætar ástæður búi að baki þeirri háttsemi skuldara í greiðsluskjóli að greiða ekki af skuldum sínum. Umboðsmaður skuldara telji þar af leiðandi að 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu standi í vegi fyrir því að heimilt sé að reikna dráttarvexti á framangreindar kröfur en regla 7. gr. sé ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. sömu laga. Samkvæmt 11. gr. lge. falli vextir á skuldir í greiðsluskjóli, en átt sé við almenna vexti en ekki dráttarvexti. Kröfuhafar leggi ekki dráttarvexti á kröfur sínar þegar einstaklingur fái samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun og samningur komist á. Meðferð krafna hjá kröfuhöfum á meðan frestun greiðslna standi yfir skuli vera óháð niðurstöðu greiðsluaðlögunarmáls og telji embættið því að óheimilt sé að leggja dráttarvexti á kröfur þeirra sem lokið hafi greiðsluaðlögunarferli á annan hátt en með samningi.
Umboðsmaður skuldara telji að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge. þar sem þau eigi að eigin sögn eignir umfram skuldir sé miðað við markaðsverð fasteigna þeirra. Þá kveðist þau geta staðið við skuldir sínar. Embættið telji því óhjákvæmilegt að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Ef fram koma upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skal umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. getur einstaklingur, sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lge. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla megi að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Í athugasemdum við 1 gr. í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að forsenda þess að skuldari geti sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að hann eigi við verulega greiðsluerfiðleika að etja og sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuldi heimild til að leita greiðsluaðlögunar þurfi að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna beri umsókn sé greiðslugeta til staðar, enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Þá komi fram í athugasemdum við 2. gr. í greinargerð með frumvarpi til lge. að það skilyrði sé sett í 1. mgr. 2. gr. að skuldari sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Miðað sé við að greiðsluvandi verði viðvarandi.
Kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 5. maí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 var þeim synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Kærendur kærðu þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi 18. ágúst 2014. Kærendur fengu í kjölfarið heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. október 2014 og var skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum sínum. Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 26. nóvember 2014 lagði umsjónarmaður til að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem þau ættu eignir fyrir skuldum. Umsjónarmaður vísaði einkum til þess að fasteign þeirra væri ekki að fullu veðsett, en með sölu hennar gætu skuldarar greitt upp allar skuldir sínar og átt afgang.
Árið 2007 tókst kærandi A á hendur nýjar skuldbindingar að fjárhæð 12.500.000 krónur vegna kaupa á fasteign undir rekstur sinn. Sjá má af fyrirliggjandi gögnum máls kærenda nr. 130/2012 hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að tekjur rekstrarins voru tæplega 10.100.000 krónur árið 2007. Rekstrargjöld námu rúmlega 9.500.000 krónum fyrir fjármagnsliði en þar af var reiknað endurgjald aðeins 480.000 krónur eða að meðaltali 40.000 krónur á mánuði. Hagnaður af rekstrinum var 545.000 krónur fyrir fjármagnsliði samkvæmt skattframtali. Mánaðarleg greiðslubyrði þeirra lána, sem tekin voru vegna nefndra fasteignakaupa, var í upphafi áætluð um 154.000 krónur eða 1.848.000 krónur á ári. Kæranda A hlýtur þannig að hafa verið ljóst að hún myndi þurfa að auka rekstrarhagnað sinn verulega til að reksturinn gæti staðið undir lánunum eða ganga ella á eignir, en á þessum tíma var eignastaða kærenda jákvæð og áttu þau nokkrar eignir umfram skuldir.
Í lok október 2008, þ.e. í þann mund er efnahagshrunið varð, tóku kærendur lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 20.000.000 króna og var greiðslubyrði lánsins um 107.000 krónur á mánuði. Lánið var tryggt með veði í nýbygginu þeirra við C en fasteignamat eignarinnar var þá tæpar 40.000.000 króna. Í lok ársins 2008 var eignastaða kærenda jákvæð um tæplega 17.000.000 króna samkvæmt skattframtali. Árið 2009 tóku kærendur yfirdráttarlán sem nam u.þ.b. 17.000.000 króna og hækkuðu skuldir þeirra sem þeirri fjárhæð nam. Kærendur hugðust nota þessa fjármuni til að brúa bilið svo að þau gætu lokið við byggingu C þó að eldri fasteign þeirra væri enn óseld. Söluandvirði eldri eignarinnar átti svo að fara til greiðslu yfirdráttarlánsins, en það gekk ekki eftir þar sem kærendur fengu minna fyrir hana en gert var ráð fyrir. Í lok árs 2009 voru eignir og skuldir kærenda álíka miklar.
Að framangreindu virtu liggur fyrir að kærendur áttu ríflegar eignir fyrir þeim skuldum er þau tókust á hendur á árunum 2007 til 2009 en þessar skuldir tókust þau á hendur til að byggja sér íbúðarhús þótt þau ættu hús fyrir. Þá hafa þau einnig keypt fasteign og rekstur fyrir starfsemi kæranda A.
Í skattframtali árið 2011 kemur fram að eignir kærenda í árslok 2010 voru 56.575.047 krónur. Skuldir kærenda það ár námu 68.633.927 krónum. Í skattframtali 2012 kemur fram að eignir kærenda í árslok 2011 hafi numið 67.362.965 krónum. Skuldir kærenda það ár námu 73.531.202 krónum. Í skattframtali árið 2013 kemur fram að eignir kærenda í árslok 2012 hafi verið 72.643.145 krónur og skuldir 54.974.100 krónur. Loks kemur fram í skattframtali 2014 að eignir kærenda í árslok 2013 hafi numið 75.736.513 krónum. Skuldir kærenda það ár námu 57.327.052 krónum.
Af framangreindu þykir ljóst að fjárhagur kærenda hefur batnað töluvert og er því ekki unnt að fallast á það sjónarmið kærenda að staða þeirra sé nú verri en þegar þau óskuðu greiðsluaðlögunar. Þrátt fyrir að kærendur hafi átt í fjárhagsvanda undanfarin ár er það mat úrskurðarnefndarinnar að sá vandi sé ekki af þeim toga að teljast viðvarandi þannig að kærendur teljist um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.
Með vísan til þessa, svo og atvika málsins að öðru leyti, telur úrskurðarnefndin að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og því eigi a-liður 1. mgr. 6. gr. lge. við í málinu. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal