Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 11/2015

Miðvikudaginn 25. maí 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

Þann 16. febrúar 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. janúar 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 31. mars 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. apríl 2015.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. maí 2015 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 19. maí 2015. Voru þær sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 20. maí 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 26. maí 2015 upplýsti embættið að það myndi ekki aðhafast frekar vegna málsins.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1978. Hún er einstæð móðir og býr ásamt barni sínu í eigin íbúð að B sem er 57,5 fermetrar að stærð. Kærandi á einnig íbúð að C sem hún leigir út. Kærandi starfar [...] og eru tekjur hennar leigutekjur, launatekjur, barnabætur og meðlag.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 36.318.727 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til atvinnumissis, kaupa á fasteign og langvarandi veikinda.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 30. nóvember 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. maí 2012 var henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 15. október 2014 kom fram að kærandi hefði notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, samkvæmt 11. gr. lge. frá 4. maí 2012. Þrátt fyrir að hafa greiðslugetu hefði kærandi stofnað til nýrra skulda sem skaðað hefðu hagsmuni lánardrottna á tímabilinu, en í greiðsluskjólinu hefðu fallið til fasteignagjöld og önnur lögbundin gjöld á hendur kæranda að fjárhæð 727.118 krónur. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar nema skuld sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Að mati umsjónarmanns sé fyrrnefnd skuldasöfnun kæranda ámælisverð þar sem gert hefði verið ráð fyrir þessum útgjöldum þegar framfærslukostnaður kæranda var reiknaður út. Kærandi hafi mánaðarlega greiðslugetu að fjárhæð 115.694 krónur umfram framfærslukostnað. Umsjónarmaður telji því að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt lge. og henni sé greiðsluaðlögun því ekki heimil.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 1. desember 2015 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi svaraði með bréfi 25. nóvember 2014.

Með bréfi til kæranda 27. janúar 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að umsókn hennar verði endurskoðuð. Skilja verður þetta svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að hún hafi greinst með ólæknandi og lífshættulegan [...]sjúkdóm árið 2009. Það hafi tekið hana langan tíma að sætta sig við sjúkdóminn og honum hafi fylgt andleg vanlíðan og þunglyndi. Kærandi hafi verið ófær um að sinna fjárhagsmálefnum sínum á þessum tíma og nýjar skuldir hafi safnast upp. Hún hafi þó lagt fyrir um 800.000 krónur.

Kærandi kveðst hafa greitt niður vanskil á opinberum gjöldum vegna fasteigna sinna.

Kærandi gerir athugasemd við langan málsmeðferðartíma og telur hann hafa valdið sér fjárhagstjóni.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljósar skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé [...] með kröfur til innheimtu á hendur kæranda upphaflega að fjárhæð 864.539 krónur. Þær skuldir séu vegna brunatryggingar fasteignar, fasteignagjalda, orkuveitu og vatns- og fráveitugjalda sem hafi að mestu fallið til árin 2012 og 2013. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara hafi greiðslugeta kæranda verið jákvæð á þessu tímabili sé miðað við meðtaltal tekna hvors árs. Teljist þessi háttsemi kæranda í andstöðu við ákvæði d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 15. október 2014 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, meðal annars á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 27. janúar 2015.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn hennar. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða tryggingar, fasteignagjöld og gjöld til orkuveitu og þannig stofnað til skulda í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi mótmælir ekki þessari skuldasöfnun, en kveðst hafa greitt niður vanskil á opinberum gjöldum vegna fasteigna sinna.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á greiðslum vegna brunatryggingar, fasteignagjalda og gjalda til orkuveitu að fjárhæð 262.099 krónur sem féllu í gjalddaga á árinu 2013 og vegna fasteignagjalda og gjalda til orkuveitu að fjárhæð 148.933 krónur sem féllu í gjalddaga á árinu 2014. Nákvæmar upplýsingar um greiðslugetu kæranda á árinu 2014 liggja ekki fyrir og verður ekki á því byggt að hún hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á því ári. Af fyrirliggjandi gögnum má á hinn bóginn ráða að greiðslugeta kæranda var jákvæð á árinu 2013 þótt svo hafi ekki verið þegar hún fékk heimild til að leita greiðsluaðlögunar í maí 2012. Í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara var gert ráð fyrir því að hin vangreiddu gjöld væru á meðal útgjalda kæranda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar stofnaði kærandi því til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á árinu 2013.

Í ljósi þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta