Mál nr. 14/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 14/2015
Miðvikudaginn 25. maí 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.
Þann 2. júní 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. maí 2015 þar sem beiðni um endurupptöku máls kæranda var synjað.
Með bréfi 2. júlí 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. júlí 2015.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 20. ágúst 2015 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur 1942. Hann býr í eigin 125,9 fermetra íbúð við B. Kærandi er lífeyrisþegi.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt upplýsingum umboðsmanns skuldara eru 63.655.313 krónur. Stærstan hluta skuldanna má rekja til fasteignakaupa kæranda á árunum 2003 og 2007.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til hækkunar gengistryggðra lána.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. september 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 21. febrúar 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærandi hefði brotið gegn ákvæðum lge. og því væri rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Þannig hefði kærandi meðal annars keypt gjaldeyri fyrir 1.248.147 krónur á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, og sent 735.839 krónur úr landi og látið þannig af hendi fjármuni sem gagnast hefðu getað lánardrottnum sem greiðsla. Þá taldi umsjónarmaður að kærandi hefði stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls þrátt fyrir að hafa til þess greiðslugetu. Kærandi mótmælti þessu og afhenti umboðsmanni skuldara gögn máli sínu til stuðnings. Umboðsmaður greindi kæranda frá því að frekari gagna væri þörf og kvaðst kærandi mundu framvísa frekari gögnum eftir örfáa daga. Það var ekki gert.
Með bréfi til kæranda 12. nóvember 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. c– og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Með munnlegri beiðni 24. nóvember 2014 óskaði kærandi þess að ákvörðunin yrði endurupptekin. Því var hafnað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. maí 2015.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans svo að hann krefjist þess að sú ákvörðun umboðsmanns skuldara að synja endurupptökubeiðni hans verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst vilja vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á rangfærslum umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara í máli hans.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að skilyrði fyrir endurupptöku stjórnsýslumáls sé að finna í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.). Samkvæmt lagaákvæðinu sé heimilt að endurupptaka stjórnsýslumál að beiðni aðila hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í athugasemdum með frumvarpi til ssl. segi um 24. gr. að stjórnvald geti í fleiri tilvikum endurupptekið mál svo sem þegar ákvörðun hefur verið tekin á ófullnægjandi lagagrundvelli eða ef ekki hefur verið gætt nægilega vel að málsmeðferðarreglum og slíkt hefur haft áhrif á efni ákvörðunar. Um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar sé fjallað í 25. gr. ssl. en samkvæmt þeirri lagagrein geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína sem tilkynnt hefur verið aðila máls, að eigin frumkvæði, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun sé ógildanleg.
Kærandi hafi lagt fram gögn er sýni fram á greiðslu fasteignagjalda og orkureikninga. Hann hafi á hinn bóginn ekki framvísað gögnum varðandi gjaldeyriskaup eða flutning fjármuna úr landi.
Að mati umboðsmanns skuldara hafi hvorki verið lagðar rangar forsendur til grundvallar ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kæranda né hafi augljós mistök verið gerð við meðferð málsins. Kærandi hafi notið andmælaréttar á öllum stigum málsins. Því hafi verið miðað við þau gögn sem fyrir hafi legið er ákvörðun var tekin og þær útskýringar sem kærandi hafi þá lagt fram. Embættið telji því að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið virtar við meðferð málsins. Því komi ekki til álita að afturkalla ákvörðunina á grundvelli þess að málsmeðferðarreglur hafi ekki verið virtar.
Umboðsmaður telji að engar verulegar breytingar hafi átt sér stað frá því að ákvörðun var tekin og fram að því að endurupptökubeiðni kæranda var lögð fram. Kærandi hafi nú greitt fasteignagjöld vegna ársins 2013 en enn séu ógreiddir gjalddagar 1. febrúar, 1. mars og 1. apríl 2015. Kærandi hafi engin gögn lagt fram um gjaldeyriskaup sín eða flutning fjármuna úr landi. Því hafi forsendur ekki breyst varðandi brot kæranda á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður telji að engu hefði breytt um niðurstöðu málsins þó að kærandi hefði lagt fram fyrrnefnd gögn við meðferð þess.
Samkvæmt framangreindu er því hafnað að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. ssl., eða að hún sé haldin verulegum ógildarannmarka, sbr. 25. gr. ssl.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) er fjallað um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. ssl. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun í máli hans hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verða að vera fyrir hendi upplýsingar sem byggt var á og höfðu þýðingu við ákvörðun málsins, en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem litlu eða engu máli skipta við úrlausn þess.
Með kæru sinni lagði kærandi fram skjal sem ber heitið „stöðulisti veitugerða samnings“ frá C. Samkvæmt listanum námu reikningar til kæranda vegna rafmagnsnotkunar á tímabilinu 15. janúar 2010 til 30. júní 2015 alls 1.533.863 krónum. Þar með liggur fyrir að kærandi hafi sýnt fram á að rafmagnskostnaður hans hafi verið mun hærri en gert hafi verið ráð fyrir í greiðsluáætlun kæranda í öndverðu. Að þessu leyti byggði umboðsmaður skuldara ákvörðun sína um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður á röngum upplýsingum.
Þá telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að kaupa gjaldeyri og senda hluta hans úr landi. Með þessu hafi hann látið af hendi fjármuni sem gagnast hefðu getað lánardrottnum sem greiðsla.
Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki sent eigin peninga úr landi. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni var óskað eftir gögnum frá umboðsmanni skuldara er sýndu fram á kaup kæranda á gjaldeyri og greiðslur hans úr landi. Framvísað var word-skjali þar sem saman höfðu verið settar töflur. Á töflunum eru tilgreindar dagsetningar, staðarnöfn og fjárhæðir auk númerakóða. Þá er þar að finna nafn kæranda og nafn D en nafn hennar er ekki að finna í öðrum gögnum málsins. Engar upplýsingar eru um þær myntir sem um er að ræða eða af hvaða bankareikningum fjárhæðirnar stafa. Þá eru engar merkingar sem varpa ljósi á það frá hvaða aðila upplýsingar á töflunum koma. Ekki hefur verið mögulegt að framvísa staðfestingu eða yfirliti frá millifærsluaðila eða banka sem sýna með ótvíræðum hætti fram á að kærandi hafi sent eigin peninga úr landi. Verður því að líta svo á að sú ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarheimildir kæranda hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum.
Úrskurðarnefndin telur því að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi annars vegar byggst á röngum útreikningum og vanmati á rafmagnskostnaði og hins vegar á ófullnægjandi upplýsingum um flutning fjármuna úr landi þannig að þeir nýttust ekki kröfuhöfum sem greiðsla. Að mati úrskurðarnefndarinnar þykja því vera fyrir hendi skilyrði samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga til að endurupptaka málið. Með vísan til þess ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja endurupptöku á máli A er felld úr gildi.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal