Hoppa yfir valmynd

Nr. 17/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 17/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110066

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. nóvember 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2020, um að synja henni um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi þann 20. júní 2018 á grundvelli vistráðningar með gildistíma til 20. júní 2019. Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 26. ágúst 2019 með gildistíma til 25. ágúst 2020. Kærandi lagði fram umsókn um endurnýjun á því leyfi þann 11. maí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2020, var umsókninni synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 12. nóvember 2020 og þann 27. nóvember 2020 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Í tölvupósti umboðsmanns kæranda til kærunefndar, dags. 16. desember 2020 kom fram að kærandi hygðist ekki ætla að skila greinargerð í málinu.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi sent kæranda bréf, dags. 22. júní 2020, þar sem óskaði hafi verið eftir frekari gögnum, m.a. yfirliti yfir bankareikninga maka kæranda og annað sem staðfesti samband kæranda og maka. Hafi kæranda ekki verið fært að skila inn þeim gögnum sem nauðsynlegt þótti enda hefði komið fram við vinnslu umsóknar að kærandi hefði skilið við fyrrverandi maka sinn að borði og sæng þann 4. júní sl. Hafi kæranda verið sent bréf, dags. 31. ágúst sl., þar sem henni hafi verið veittur 15 daga frestur til að koma að gögnum eða andmælum vegna framangreindra upplýsinga. Þá hafi umboðsmanni kæranda verið sendur tölvupóstur sem henni hafi borist þann 12. október sl. þar sem kæranda hafi verið gefið tækifæri til skýringa m.t.t. 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Hafi engin frekari gögn eða skýringar borist Útlendingastofnun er varði skilnað kæranda.Fjallaði Útlendingastofnun um ákvæði 69. gr. og 70. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærandi væri skilin að borði og sæng væri ljóst að hún uppfyllti ekki lengur þau skilyrði sem lægju til grundvallar dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar. Var umsókn kæranda því synjað. Var lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið og henni veittur 30 daga frestur til þess frá móttöku ákvörðunar. Var athygli kæranda vakin á því að ef hún yfirgæfi ekki landið innan frests kynni að vera heimilt að brottvísa henni og ákvarða endurkomubann.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Greinargerð barst ekki frá kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna.

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 26. ágúst 2019 með gildistíma til 25. ágúst 2020. Kærandi óskaði eftir endurnýjun á því leyfi með umsókn, dags. 11. maí 2020. Líkt og greinir í hinni kærðu ákvörðun var skráð í Þjóðskrá Íslands að kærandi og fyrrverandi maki hefðu skilið að borði og sæng þann 4. júní 2020. Þá hefur við meðferð málsins hjá kærunefnd nú verið skráð í þjóðskrá að kærandi og fyrrverandi maki hafi skilið að lögum þann 8. desember sl. Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki lengur ófrávíkjanlegt skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, um hjúskap. Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta