Hoppa yfir valmynd

A-486/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 6. júní 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-486/2013.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 18. mars 2013, kærði [A] þá ákvörðun Landsnets hf., dags. sama dag, að synja henni um afhendingu gagna í tengslum við kostnaðaráætlun Landsnets hf. frá árinu 2008 fyrir 200kV jarðstreng frá Blöndustöð til Akureyrar.

 

Kærandi gerir þá kröfu að kærða verði gert að afhenda sér umrædd gögn í heild eða að hluta.

 

Málsatvik

Kærandi sendi kærða, Landsneti hf., beiðni um afhendingu gagna með bréfi, dags. 26. febrúar 2013, með vísan til laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál. Óskaði kærandi eftir aðgangi að upplýsingum varðandi þá ákvörðun Landsnets hf. „að leggja fram sem eina valkost í framkvæmdaráætlun og taka aðeins til umhverfismats loftlínu en ekki jarðstreng við fyrirhugaða raforkuflutninga milli Blöndustöðvar og Akureyrar. Fyrirtækið áformar að leggja 200kV loftlínu á þessari leið, svokallaða Blöndulínu 3. Leiðin er 107 km.“

 

Fram kemur í beiðni kæranda að þær upplýsingar sem óskað er aðgangs að á grundvelli laganna eru kostnaðarmat það, á jarðstrengjum á flutningsleiðinni fyrirhuguðu, sem fjallað er um í tillögu fyrirtækisins að matsáætlun, Landsnet 08029 frá október 2008, skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er hluti af hagkvæmnisgreiningu Landsnets hf. Kærandi vísar til þess að þær upplýsingar sem óskað er aðgangs að komi fram í kafla 2.9.2 í tillögu að matsáætlun en þar sé fjallað um af hverju sá valkostur þykir ekki raunhæfur að leggja jarðstreng á flutningsleiðinni til að minnka sjónræn áhrif háspennulínunnar. Nánar tiltekið sé óskað eftir aðgangi að kostnaðaráætlun uppá 25 til 29 milljarða króna sem vísað er til í kaflanum. Þá vísar kærandi jafnframt til upplýsingalaga nr. 140/2012, beiðninni til stuðnings.

 

Landsnet hf. afgreiddi upplýsingabeiðni kæranda með bréfi, dags. 18. mars. Í bréfinu kemur m.a. fram að kostnaðaráætlunin sé ekki sjálfstætt skjal og sú niðurstaða um áætlaðan kostnað sem fram komi í skýrslunni hafi á sínum tíma falist í útreikningi á kostnaði við lagningu jarðstrengs á allri línulegunni sem fylgdi þjóðvegi frá Blöndu til Akureyrar eða vegalengd sem er samtals 133 km. Fram kemur að þá hafi eingöngu verið unnið með stofnkostnað og einfaldasta frágang jarðstrengja, útreikningar hafi byggst á upplýsingum frá efnisframleiðendum og upplýsingum úr verðbanka Landsnets hf., sem byggi á rauntölum undanfarinna verka m.t.t. vísitalna og gengis. Þar sem m.a. sé stuðst við þessar upplýsingar við gerð kostnaðaráætlana vegna útboðsskyldra verkefna telur Landsnet hf. sanngjarnt og eðlilegt að ekki sé veittur aðgangur að þessum viðskiptalegu upplýsingum. Vísað er til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál varðandi synjun Landsnets hf. á afhendingu umbeðinnar kostnaðaráætlunar þar sem upplýsingar fengnar úr verðbanka séu undanþegnar upplýsingarétti á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006 og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

 

Í kæru, dags. 18. mars, kemur m.a. fram að kærði hafi fullyrt að hann hafi gert kostnaðaráætlun og á grundvelli hennar komist að þeirri niðustöðu að tilteknar aðgerðir væru ótækar. Kærði verði að standa almenningi skil á því hvernig hann hafi komist að niðurstöðu sinni, ekki síst vegna þess hversu víðtæk áhrif á umhverfið hún komi til með að hafa, ef af verður. Um það megi lesa í niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi umhverfismat um Blöndulínu 3 frá 29. janúar 2013. Þá kemur þar m.a. fram:

 

„Engin sanngirnisrök mæla með því að hafna aðgangi að þessari kostnaðaráætlun. Það að upplýsingar geti verið „viðskiptalegar“ nægir ekki til að hafna aðgangi að þeim. Um þarf að vera viðskiptaleyndarmál, svo mögulegt sé að rökstyðja að veita ekki aðgang að þeim. Ekki hefur verið sýnt fram á að viðskiptaleyndarmál neins fyrirtækis í samkeppnisrekstri yrðu fyrir skaða ef veittur yrði aðgangur að kostnaðaráætlun kærða í þessu máli, eða þeim gögnum er útreikningar byggja á. Hvort kostnaðaráætlun um jarðstreng, sem ekki er fyrirhugað að leggja, byggir á upplýsingum um hvað kærði greiddi fyrir einhver verk eða einhverjar vörur (jarðstrengi) einhvern tíman fyrir meira en fimm árum, getur ekki verið viðskiptaleyndarmál sem komið getur í veg fyrir að kostnaðaráætlun sé afhent. Hvort hún er í sérstöku skjali eða ekki skiptir engu máli, upplýsingar skv. lögum nr. 23/2006 ber að veita í hvaða formi sem þær eru varðveittar.“

 

Þá bendir kærandi á að ekki sé um að ræða fyrirtæki sem starfi á samkeppnismarkaði og því geti sjónarmið um viðskiptaleyndarmál ekki átt við. Með raforkulögum nr. 65/2003 var kveðið á um að samkeppnishluti raforkufyrirtækja skyldi aðskilinn frá flutningi raforku og var með lögum nr. 75/2004 mælt fyrir um stofnun Landsnets hf., flutningsfyrirtækis raforku með einkaleyfi. Kærandi tekur fram að skyldur flutningsfyrirtækis séu meðal annars þær að stuðla að því markmiði raforkulaga að reka þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi, það sé skilvirkt og hagkvæmt og tekið sé tillit til umhverfisjónarmiða líkt og fram kemur í 1. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þau gögn sem óskað er aðgangs að séu nauðsynleg til að staðreyna að flutningsfyrirtækið reki hagkvæmt flutningskerfi að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Jafnframt séu þau forsenda þess að almenningur geti metið hvort flutningsfyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur kerfisins skv. lögum. Er í því sambandi vísað til 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

 

Kærandi byggir á því að upplýsingaréttur almennings sé mjög ríkur á sviði umhverfisréttar og vísar í því sambandi til Árósarsamningsins sem lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál grundvallist á. Þá byggir kærandi á 4. mgr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 en þar kemur fram að flutningsfyrirtæki er „skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtæki fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku.“

 

Kærandi vísar til þess að kærði grundvalli synjun sína um afhendingu gagna á 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál auk 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi vísar til þess að kærði tengi lagarök sín ekki við sérstakar málsástæður og því sé erfitt að svara þeim. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, segir: „Stjórnvöldum þeim sem falla undir 2. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. Stjórnvöldum er ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi þær í té nema ástand sé yfirvofandi sem haft geti skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra.“ Kærandi telur rétt að það komi fram, telji kærði sig þurfa að taka saman gögn sem ekki séu fyrirliggjandi, að kærði vísar til þess í tillögu sinni að matsáætlun frá október 2008 að hann hafi gert kostnaðaráætlun. Ef gögnin eru ekki fyrirliggjandi í skilningi ákvæðisins verði ekki dregin önnur ályktun en að kærði hafi farið með rangt mál í tillögu sinni. Kærandi vísar til þess að tilvísun kærða til 1. mgr. 6. gr. sömu laga sé óljós og órökstudd og þá vísar kærandi til þess að tilvísun til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eigi ekki við í málinu.

 

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 18. mars 2013. Kæran var send Landsneti hf. til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl, og barst svar við því 19. s.m. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrðu látin í té gögn málsins.

 

Í bréfi Landsnets hf. kemur fram að beiðni um aðgang að umræddri kostnaðaráætlun hafi fyrst borist frá öðrum aðila 16. desember 2012 og var hún þá lögð fram á grundvelli 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga. Þegar sú beiðni barst hafi verið gerð árangurslaus leit í gagnagrunnum að umræddri kostnaðaráætlun. Við leitina hafi aftur á móti fundist bréf Landsnets hf. til sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 17. september 2008, þar sem m.a. komi fram upplýsingar um þær framkvæmdarforsendur sem lágu til grundvallar kostnaðaráætlun upp á 25 til 28 milljarða króna vegna lagningar jarðstrengs í stað loftlínu á leiðinni á milli Blöndu og Akureyrar. Voru þær upplýsingar veittar. Hins vegar hafi verið talið að upplýsingar úr verðbanka félagsins væru undanþegnar upplýsingarétti og því hafi aðgangi að þeim verið hafnað. Í bréfinu segir að þegar beiðni kæranda hafi borist hafi aftur verið gerð leit að umræddri kostnaðaráætlun, án árangurs. Hafi því ekki verið unnt að afhenda kæranda umrædda kostnaðaráætlun. Honum hafi hins vegar verið afhentar sömu upplýsingar og áður hafi verið afhentar vegna fyrra máls. Sem fyrr var afhendingu upplýsinga úr verðbanka hafnað.

 

Einnig kemur fram í bréfi Landsnets hf. að þótt umrædd kostnaðaráætlun hafi ekki fundist, þrátt fyrir ítarlega leit, liggi fyrir að á árinu 2008 hafi Landsnet hf. reiknað út mögulegan kostnað við lagningu jarðstrengsins og hefði niðurstaða þeirra útreikninga verið birt opinberlaga, bæði í matsáætlun og í bréfi Landsnets hf. til sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 18. september 2008. Vegna þessa var kærandi upplýstur um að kostnaðaráætlun væri ekki til í sjálfstæðu skjali og því ekki unnt að veita aðgang að henni með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 þar sem m.a. kemur fram að ekki sé skylt að afla sérstaklega upplýsinga, sem ekki séu fyrirliggjandi, til þess að láta almenningi þær í té nema ástand sé yfirvofandi sem haft geti skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra.

 

Jafnframt kemur fram að Landsnet hf. telur sig hafa farið að lögum nr. 23/2006 við afgreiðslu á beiðni kæranda um aðgang að kostnaðaráætlun vegna lagningar jarðstrengs frá Blöndu til Akureyrar. Umrætt skjal finnst ekki og því getur Landsnet hf. ekki orðið við beiðni um að veita aðgang að því. Landsnet hf. hafi hins vegar látið kæranda í té þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar við útreikninginn, að upplýsingum úr verðbanka fyrirtækisins undanskildum. Ástæða þess að neitað hefur verið um aðgang að verðbanka félagsins, eða upplýsingum úr honum, er að í honum eru upplýsingar um framkvæmdarkostnað sem stuðst er við þegar gerðar eru kostnaðaráætlanir vegna útboðsskyldra framkvæmda. Á grundvelli aðgangs að upplýsingum úr verðbankanum sé unnt að sjá kostnaðarhlutföll og aðra þætti sem stuðst er við í kostnaðaráætlun Landsnets hf. Með vísan til 6. gr. laga nr. 23/2006 telur Landsnet hf. að heimilt sé að synja um aðgang að umræddri kostnaðaráætlun, sbr. ákvæði 4. tölul. 6. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 og 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

 

Þá barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál jafnframt bréf frá Landsneti hf., dags. 19. apríl, sem bar heitið Trúnaðarskjal vegna kæru [A]. Í bréfinu vísar Landsnet hf. til þeirrar beiðni nefndarinnar að henni sé látið í té í trúnaði afrit að þeim gögnum er kæran lýtur að. Þar kemur fram að kostnaðaráætlun frá árinu 2008 vegna jarðstrengs á milli Blöndu og Akureyrar hefur ekki fundist. Landsnet hf. telur að nefndin hafi takmarkað gagn af því að fá verðbankann eða upplýsingar úr honum sendar, en úrskurðarnefndinni sé velkomið að skoða hann á starfstöð Landsnets hf. með aðstoð starfsmanns. Þá kemur fram að í þeirri von að það geti varpað einhverju ljósi á efni þessa skjals og upplýsingar sem um er deilt í málinu hefur Landsnet hf. látið endurreikna kostnaðaráætlun vegna umræddrar framkvæmdar á grundvelli þeirra framkvæmda- og kostnaðarforsenda sem lágu fyrir árið 2008. Endurreikningurinn var meðfylgjandi bréfinu og afhentur nefndinni í trúnaði.

 

Kæranda voru send bréf Landsnets hf. með tölvubréfum úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. og 7. maí. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 27. maí, þar sem kærandi ítrekar fram komna kröfu og tekur m.a. fram að kærandi telji að kostnaðaráætlunin hafi aldrei verið til og tilvísun Landsnets hf. um að hún hafi ekki fundist eftir leit sé eftiráskýring. Kærandi vísar til þess að Landsnet hf. hafi einfaldlega margfaldað loftlínuáætlun sína með tölunni fimm og þannig fengið út töluna 25 til 28 milljónir

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

1.

Eins og rakið er hér að framan lýtur mál þetta að afgreiðslu Landsnets hf. á beiðni um afhendingu gagna í tengslum við kostnaðaráætlun Landsnets hf. frá árinu 2008 fyrir 200kV jarðstreng frá Blöndu til Akureyrar. Kærði hefur annars vegar vísað til þess að kostnaðaráætlunin finnist ekki eftir ítarlega leit og hins vegar að kærða sé ekki skylt að afhenda almenningi upplýsingar úr verðbanka Landsnets hf. Til að varpa ljósi á efni þess skjals sem ekki finnst og deilt er um í málinu hefur Landsnet hf. látið endurreikna kostnaðaráætlun vegna umræddrar framkvæmdar á grundvelli þeirra framkvæmda- og kostnaðarforsenda sem lágu fyrir árið 2008 og afhent það skjal úrskurðarnefnd um upplýsingamál í trúnaði.

 

2.

Kærandi byggir heimild sína til aðgangs að gögnum bæði á ákvæðum laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál og ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Á grundvelli 15. gr. laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál og 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að kæra synjun þeirra aðila sem falla undir gildisvið laganna undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn.

 

Kærði er hlutafélag sem stofnað var á grundvelli laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf. Hlutafé félagsins skiptist í árslok 2012 skv. ársreikningi á fjóra hluthafa; Landsvirkjun 64,73%, Rarik ohf. 22,51%, Orkuveita Reykjavíkur, sem er sameignarfyrirtæki, 6,78% og Orkubú Vestfjarða ohf. 5, 98%. Hlutverk kærða er skv. 1. málsl. 2. gr. laganna að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003 og er því óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum eða öðrum lögum. Hlutafélaginu er þó heimilt að reka raforkumarkað.

3.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að undir gildisvið þeirra falla lögaðilar sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Telja verður ljóst að Landsnet hf. sem er hlutafélag í eigu annarra lögaðila sem eru í meirihlutaeigu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga falli undir tilvitnað lagaákvæði. Í því sambandi vísast til almennra athugasemda við tilvitnaða lagagrein í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

 

„Með hugtakinu „lögaðili“ í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er átt við sjálfstæða lögaðila með sjálfstæðan fjárhag aðskilinn frá fjárhag opinberra stjórnvalda sem sinna atvinnurekstri í víðum skilningi. Hér undir falla lögaðilar sem reknir eru á einkaréttarlegum grundvelli, svo sem hlutafélög, einkahlutafélög, sameignarfélög o.s.frv. Með 51% eignarhlut opinberra aðila er átt við að lögin taka til lögaðila sem hið opinbera á að 51% hluta eða meira, óháð því hvort um beina eignaraðild er að ræða eða ekki. Þannig getur skilyrðinu um 51% eignarhlut einnig verið fullnægt með óbeinni eignaraðild, svo sem þegar um er að ræða eignarhald í gegnum einn eða fleiri lögaðila sem aftur eru í eigu opinberra aðila. “  

 

Í 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að ákvæði laganna gilda aðeins um þau gögn og upplýsingar í vörslu lögaðila skv. 2. mgr. 2. gr. sem urðu til eftir gildistöku laganna en þau tóku gildi gildi 28. desember 2012. Á það þó ekki við þegar viðkomandi hefur verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun. Í því tilviki sem hér um ræðir er óskað aðgangs að gögnum og upplýsingum sem urðu til á árinu 2008 en þá voru í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996 og féllu lögaðilar eins og Landsnet hf. ekki undir gildissvið þeirra laga. Þrátt fyrir að Landsnet hf. falli nú undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 koma þau lög því ekki til skoðunar í þessu máli.

 

Rétt þykir þó að taka fram að á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er aðilum sem undir lögin falla skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. og er þeim óskylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. þeirrar greinar sem lýtur að afhendingu að hluta, þ.e. ef takmarkanir eiga við hluta skjals ber að veita aðgang að öðrum hlutum þess. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði sér frá Landsneti hf. er verðbanki þess tölvugrunnur sem inniheldur rauntölur undanfarinna verka en ekki fyrirliggjandi gagn sem varðar tiltekið mál í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012 og upplýsingaréttur almennings tekur til.

 

Jafnframt þykir rétt að taka fram að það skjal sem Landsnet hf. tók saman og afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í tilefni af máli þessu, sem fól í sér endurreiknaða kostnaðaráætlun vegna umræddrar framkvæmdar á grundvelli þeirra framkvæmda- og kostnaðarforsenda sem lágu fyrir árið 2008 er skjal sem varð til eftir gildistöku upplýsingalaga nr. 140/2012 en jafnframt eftir að kærandi sett fram upplýsingabeiðni sína. Er því ekki fjallað um það skjal í máli þessu enda tekur kæruheimild 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 einungis til skjala sem synjað hefur verið um aðgang að og eðli máls samkvæmt þurfa þau því að hafa orðið til áður en upplýsingabeiðni er sett fram.

 

 

 

4.

Í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál kemur fram að lögin gildi um öll stjórnvöld sem falla undir gildissvið upplýsingalaga. Þá kemur fram í 2. tölul. sömu greinar að lögin gildi jafnframt um lögaðila sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir 1. tölul. Ljóst er að Landsnet hf. fellur ekki undir 1. tölul. lagagreinarinnar en vegna hlutverks þess að lögum verður að telja að Landsnet hf. falli undir 2. tölul. greinarinnar. Landsnet hf. er, eins og fram hefur komið, lögaðili sem komið var á fót með lögum nr. 75/2004 sem annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Þá er Landsneti hf. heimilt að reka raforkumarkað.

 

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 falla einvörðungu þær upplýsingar undir lögin sem til verða eða aflað er í tilefni af hinu opinbera hlutverki eða þjónustu þeirra sem ákvæði 2. 1. mgr. taka til.

 

Í 1. tölul. 1. gr. raforkulaga nr. 65/2003 kemur fram að markmið laganna sé að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að samkeppnislög gildi um atvinnustarfsemi sem lögin taki til. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna kemur fram að frumvarpið byggist á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem rutt hafi sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. Meginefni þeirra felist í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins (flutning og dreifingu) og þá þætti þar sem samkeppni verði við komið (vinnslu og sölu). Í hinum almennu athugasemdum kemur ennfremur fram að frumvarpið byggi „á því að öll vinnsla, flutningur, dreifing og sala á raforku verði rekin á einkaréttarlegum grundvelli. Ætlunin [sé] að vinnsla og sala á raforku verði rekin á samkeppnisgrundvelli í markaðskerfi með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Aftur á móti verði starfsemi þeirra fyrirtækja er annast flutning og dreifingu á raforku byggð á sérleyfi enda um náttúrulega einokun að ræða.“

 

Kærði sinnir því opinberu hlutverki sem varðað getur umhverfið í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál og fellur því undir gildissvið þeirra laga. Þykir því ljóst að upplýsingar og gögn í tengslum við kostnaðaráætlun Landsnets hf. frá árinu 2008 fyrir 200kV jarðstreng frá Blöndu til Akureyrar eru upplýsingar um umhverfismál er varða opinbert hlutverk Landsnets hf. í skilningi ákvæðisins.

 

5.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál kemur fram að þeim aðilum sem falla undir 2. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. en þeim sé ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi þær í té nema ástand sé yfirvofandi sem haft geti skaðleg áhrif á umhverfið eða heilsu fólks eða dýra.

 

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál kemur fram að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál tekur ekki til gagna sem undanþegin eru aðgangi á grundvelli upplýsingalaga, efnis sem er í vinnslu eða ófullgerðra skjala eða gagna, en þá skal þó upplýst hvenær ætla megi að gögnin verði tilbúin, eða upplýsinga sem sérstök lagaákvæði um þagnarskyldu taka til.

 

Þau gögn sem mál þetta lýtur að eru annars vegar kostnaðaráætlun sem kærði hefur ekki fundið þrátt fyrir ítarlega leit og hins vegar upplýsingar úr svokölluðum verðbanka Landsnets hf. Þá hefur kærði afhent úrskurðarnefndinni til að varpa ljósi á efni þess skjals sem ekki finnst nýja endurreiknaða kostnaðaráætlun vegna umræddrar framkvæmdar á grundvelli þeirra framkvæmda- og kostnaðarforsenda sem lágu fyrir árið 2008.

 

Á grundvelli 15. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál er heimilt að bera synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Kærði hefur eðli máls samkvæmt ekki synjað kæranda um aðgang að kostnaðaráætlun sem ekki finnst. Með vísan til þessa ber úrskurðarnefndinni að vísa þeim þætti kærunnar frá.

 

Upplýsingar úr verðbanka Landsnets hf. eru upplýsingar sem ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál heldur er um að ræða tölvugrunn sem inniheldur rauntölur undanfarinna verka. Tölvugrunnurinn inniheldur því ekki þá kostnaðaráætlun sem kærandi hefur óskað aðgangs að. Aftur á móti inniheldur tölvugrunnurinn upplýsingar sem nota má við vinnslu slíkrar kostnaðaráætlunar.

 

Þrátt fyrir að upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi getur verið í undantekningatilvikum skylt að afla sérstakra upplýsinga um umhverfismál. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál kemur fram að ekki sé skylt að afla sérstakra upplýsinga um umhverfismál nema ástand sé yfirvofandi sem haft geti skaðleg áhrif á umhverfið eða heilsu fólks eða dýra. Ekki verður talið að upplýsingar er varða kostnaðaráætlun Landsnets hf. frá árinu 2008 fyrir 200kV jarðstreng frá Blöndu til Akureyrar séu upplýsingar um yfirvofandi ástand sem getur haft skaðleg áhrif á umhverfið eða heilsu fólks eða dýra. Af þeim sökum ber að staðfesta synjun Landsnets hf. á að vinna sérstakar upplýsingar fyrir kæranda úr verðbankanum.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttar að það skjal sem Landsnet hf. tók saman og afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í tilefni af máli þessu, sem fól í sér endurreiknaða kostnaðaráætlun vegna umræddrar framkvæmdar á grundvelli þeirra framkvæmda- og kostnaðarforsenda sem lágu fyrir árið 2008, er skjal sem varð til eftir að eftir að kærandi setti fram upplýsingabeiðni sína og hefur kæranda því ekki verið synjað um aðgang að því. Er því ekki fjallað um það skjal í máli þessu enda tekur kæruheimild 15. gr. laga nr. 140/2012 um upplýsingarétt um umhverfismál einungis til skjala sem synjað hefur verið um aðgang að og eðli máls samkvæmt þurfa þau því að hafa orðið til áður en upplýsingabeiðni er sett fram.


Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Landsnets hf., dags. 18. mars 2013, á beiðni [A] um upplýsingar úr verðbanka er varða kostnaðaráætlun Landsnets hf. frá árinu 2008 fyrir 200kV jarðstreng frá Blöndustöð til Akureyrar.

 

Kæru [A], dags. 18. mars 2013, á hendur Landsneti hf. er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                               Friðgeir Björnsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta