Nr. 279/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 279/2018
Miðvikudaginn 3. október 2018
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 3. ágúst 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. júlí 2018 um synjun á umsókn kæranda um heimilisuppbót.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með rafrænni umsókn, móttekinni 5. júní 2018, sótti kærandi um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 27. júlí 2018, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að kærandi væri ekki einn um heimilisrekstur sem væri eitt af skilyrðum heimilisuppbótar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 7. ágúst 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 2018. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af fylgigögnum með kæru að óskað sé eftir endurskoðun á ákvörðun Tryggingastofnunar um synja honum um greiðslu heimilisuppbótar.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags 27. júlí 2018, um að synja kæranda um heimilisuppbót.
Kærandi, sem sé ellilífeyrisþegi, hafi sótt um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins með umsókn 5. júní 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. júlí 2018, var umsókn kæranda synjað þar sem að samkvæmt leigusamningi, dags. 10. júlí 2018, sem hafi fylgt með umsókn, komi fram að hann leigi Xfermetra herbergi án eldunaraðstöðu og samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá Íslands búi fleiri en kærandi á sama heimilisfangi. Þá sé vísað í útprentun um ábúendur á heimilisfangi kæranda frá Þjóðskrá Íslands, dags. 24. ágúst 2018, og útprentun úr Fasteignaskrá Íslands vegna sömu fasteignar, dags. 24. ágúst 2018.
Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.
Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.
Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem hann sé ekki einn um heimilishald, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á heimilisuppbót.
Þegar svo háttar til sem hér segi, þ.e. þegar margir einstaklingar deili heimili, þá hljótist af því töluvert hagræði í formi ódýrari rekstrarkostnaðar heimilisins, enda deilist þá rekstur heimilisins að öllu jöfnu niður á fleiri aðila. Sjá til dæmis úrskurði ÚRVEL nr. 45/2017, 68/2017, 252/2017 og 194/2018 þar sem sú túlkun hafi ítrekað verið staðfest. Auk þessara úrskurða mætti líka benda á nokkuð augljóst hagræði sem kærandi njóti af því að deila húsnæði með öðrum en það felist í því samkvæmt leigusamningi kæranda að hann greiðir einungis 10% af heildar rafmagns- og hitareikningi fasteignarinnar sem innifalið sé í mjög svo hagstæðu leiguverði á herbergi í fasteigninni sem auk þess sé án eigin eldunaraðstöðu.
Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum einstaklingum hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Á þeim forsendum fari Tryggingastofnun fram á að ákvörðun um synjun á heimilisuppbót verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar frá 27. júlí 2018 um að synja kæranda um heimilisuppbót.
Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt.
Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1052/2009, með síðari breytingum, var sett með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir:
„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.“
Þá segir í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.
Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um heimilisuppbót á þeirri forsendu að hann uppfyllti ekki skilyrði 8. gr. laganna um að vera einn um heimilisrekstur þar sem hann deili eldhúsaðstöðu með öðrum skráðum íbúum sömu fasteignar, auk hagstæðrar leigu og rekstrarkostnaðar. Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá er kærandi með skráð lögheimili að B ásamt X öðrum einstaklingum. Í fasteignayfirliti kemur fram að um er ræða [...]. Þá segir í húsaleigusamningi að kærandi sé að leigja herbergi með sérinngangi og baðherbergi.
Af hinni kærðu ákvörðun verður ráðið að Tryggingastofnun ríkisins hafi synjað kæranda um heimilisuppbót á þeirri forsendu að hann deili eldhúsaðstöðu með öðrum skráðum íbúum sömu fasteignar. Sú ályktun virðist vera dregin af fyrrgreindum húsaleigusamningi þar sem ekki er sérstaklega tilgreint í honum að kærandi sé með eldunaraðstöðu í leiguhúsnæðinu. Þá er í greinargerð stofnunarinnar vísað til hagstæðrar leigu og rekstrarkostnaðar.
Ljóst er að ekki er heimilt að greiða heimilisuppbót til aðila sem nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur aftur á móti ekki ljóst af gögnum málsins að kærandi njóti fjárhaglegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Tryggingastofnun virðist einungis byggja niðurstöðu sína á leigusamningi kæranda, þ.e. leiguverði og skorti á upplýsingum um eldunaraðstöðu. Engin tilraun hefur verið gerð til þess að afla frekari upplýsinga frá kæranda, til dæmis um hvort hann deili eldunaraðstöðu með öðrum skráðum íbúum sömu fasteignarinnar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála var málið því ekki nægjanlega upplýst áður en Tryggingastofnun tók hina kærðu ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu heimilisuppbótar, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir