Hoppa yfir valmynd

Nr. 445/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. ágúst 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 445/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040053

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 17. apríl 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Miðbaugs-Gíneu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. apríl 2023, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 7. október 2021 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli vistráðningar með gildistíma til 7. október 2022. Samkvæmt gögnum málsins óskaði þáverandi vistmóðir kæranda eftir framlengingu á dvalarleyfi hans 3. ágúst 2022. Útlendingastofnun svaraði henni sama dag að ekki væri heimilt að endurnýja eða framlengja dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar. Hinn 4. apríl 2023 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. apríl 2023, var kæranda brottvísað frá Íslandi á grundvelli 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveðið endurkomubann á Schengen-svæðið í tvö ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 13. apríl 2023. Sama dag lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar 17. apríl 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé ríkisborgari Miðbaugs-Gíneu og sé fæddur og uppalinn í borginni Bara. Rangt hafi verið farið með þjóðerni kæranda í ákvörðun Útlendingastofnunar og öðrum tengdum gögnum þar sem hann hafi verið sagður vera frá Gíneu. Kærandi hafi komið hingað til lands 7. október 2021 og fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar með gildistíma til 7. október 2022. Ekki sé heimilt að endurnýja eða framlengja dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar. Kærandi hafi undirritað vistráðningarsamning áður en heimsfaraldur Covid-19 hafi skollið á og hafi koma hans til Íslands tafist fram í október 2021. Kærandi hafi viljað dvelja áfram á Íslandi að vistráðningu lokinni og því leitað til Útlendingastofnunar þegar um tvær vikur hafi verið þar til dvalarleyfi hans hafi átt að renna út. Þar hafi honum verið tjáð að hann þyrfti annað hvort að snúa aftur til heimalands síns í tvö ár og koma svo aftur, eða verða sér úti um vinnu á Íslandi. Kærandi hafi reynt hvað hann gæti að útvega sér vinnu en átt erfitt með að fá vinnu sökum þess að hann væri ekki með ökuréttindi. Kærandi hafi sótt og klárað námskeið í ökuskóla og staðist bóklega prófraun ökuprófs. Hann þurfi því einungis að standast verklega prófraun til að fá útgefið ökuleyfi. Þá hafi kærandi verið að glíma við húðsjúkdóm sem valdi honum miklum óþægindum. Hann hafi ekki fengið aðstoð í Miðbaugs-Gíneu vegna þessa og hafi vonast til að fá einhverskonar læknisaðstoð til að kljást við þessi óþægindi hér á Íslandi.

Fram kemur að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi 13. apríl 2023. Hann hafi hug á því að vera á Íslandi til langframa og vilji ekki snúa aftur til Miðbaugs-Gíneu vegna aðstæðna þar. Í Miðbaugs-Gíneu hafi staða kæranda verið afar bág og því telji hann sig ekki óhultan verði honum gert að snúa þangað aftur. Kærandi hafi ekki haft greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, grunnþjónustu né atvinnumarkaði landsins. Hann vilji fá að komast á vinnumarkað hér á landi og hans ásetningur sé ekki að reiða sig á íslenska velferðarkerfið til að framfleyta sér.

Í greinargerð kæranda er fjallað um um stöðu mannréttinda í Miðbaugs-Gíneu. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu ákvörðunar um brottvísun og endurkomubann aðallega á því að hann sé með umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi til meðferðar og þar af leiðandi sé ekki heimilt að vísa honum brott frá Íslandi þar sem hann hafi ekki hlotið endanlega ákvörðun varðandi umsókn sína. Ekki sé tækt að framkvæma ákvörðun um brottvísun fyrr en umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi hlotið afgreiðslu hjá stjórnvöldum hérlendis. Þá telur kærandi að endursending hans til heimaríkis myndi brjóta gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga. Aðstæður í Miðbaugs-Gíneu séu ekki slíkar að öryggi hans væri tryggt ef honum yrði gert að snúa þangað aftur. Kærandi hafi ríkar ástæður til að ætla að hann muni sæta vanvirðandi meðferð í heimaríki sínu. Þá telur kærandi að komi ákvörðun Útlendingastofnunar til framkvæmdar verði brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga auk rannsóknarreglu sömu laga, sbr. 10. og 12. gr. laganna. Veita skuli kæranda tækifæri á að fara í viðtal hjá Útlendingastofnun samkvæmt 28. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið tekin á grundvelli rangra upplýsinga um heimaríki kæranda og hafi því ekki verið tekið mið af aðstæðum þar við ákvörðun um brottvísun. Aðstæður í því ríki sem brottvísa eigi til sé grundvallaratriði sem beri að skoða við slíka ákvörðun.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga sé heimilt að brottvísa útlendingi sem sé án dvalarleyfis ef hann dveljist ólöglega í landinu. Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til þess að ekki væru uppi aðstæður í málinu sem leiddu til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, enda hefði hann ekki fjölskyldutengsl hér á landi.

Í 1. mgr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, kemur fram að heimilt sé að frávísa eða brottvísa útlendingi úr landi þegar skilyrðum XII. kafla laga um útlendinga er fullnægt og ákvörðunin brjóti ekki í bága við 42. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 13. apríl 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var aðeins með almennum hætti tekin afstaða til þess hvort það gæti talist ósanngjörn ráðstöfun að brottvísa kæranda og var ekki horft sérstaklega til aðstæðna kæranda í heimaríki hans. Auk þess bera gögn málsins með sér að Útlendingastofnun hafi ranglega lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Gíneu í stað Miðbaugs-Gíneu og því ljóst að stofnunin hafi ekki rannsakað með fullnægjandi hætti aðstæður kæranda í heimaríki hans.

Með tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að nauðsynlegt sé að leggja mat á aðstæður í heimaríki kæranda, Miðbaugs-Gíneu, sbr. 42. gr. laga um útlendinga, og hvort þær komi í veg fyrir að brottvísun hans sé heimil. Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Þar sem ekki hefur farið fram mat á aðstæðum í heimaríki kæranda, sbr. 42. gr. laga um útlendinga, þykir rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Líkt og áður greinir er umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá Útlendingastofnun þar sem fram skal fara mat á því hvort ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir endursendingu hans til heimaríkis auk þess sem taka skal afstöðu til brottvísunar og endurkomubanns kæranda verði umsókn hans synjað. Með vísan til þess verður ekki lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál þetta til meðferðar á ný.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta