Mál nr. 83/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 83/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 24. apríl 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 7. apríl 2010 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði hjá X hf. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með degi ákvörðunar þann 25. febrúar 2010 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dagsettu 20. maí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. október 2009. Hún var boðuð í atvinnuviðtal hjá X hf. í janúar 2010 og skrifaði undir staðfestingu á boðuninni þann 13. janúar 2010. Hún fór ekki í atvinnuviðtalið og hafnaði atvinnutilboðinu þann 10. febrúar 2010 með þeim skýringum að starfið hentaði sér ekki. Á boðunarbréfinu er vakin athygli á því að herbergi sé í boði fyrir viðkomandi starfskraft.
Af hálfu kæranda kemur fram að vegna þess að hún búi í B-stað hefði hún þurft að leggja af stað til vinnu fyrir klukkan sjö á morgnana en það væri fyrir þann tíma sem snjó- og hálkuvarnartæki færu um þjóðveginn til C-staðar. Kærandi kveðst ekki treysta sér til slíkra ferða við þessar aðstæður. Kærandi segir að sér hafi ekki verið kunnugt að húsnæði hafi verið í boði á staðnum og hafi henni ekki verið gerð grein fyrir því í viðtali sem hún hafi farið í. Kærandi bendir á að sér finnist athugavert að aðrir sem hafi fengið þetta sama atvinnutilboð og hún og hafnað því hafi ekki misst bótarétt sinn. Um sé að ræða fólk í svipaðri stöðu og hún. Hún bendir einnig á að hún hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir því að skýringar hennar hafi ekki verið teknar gildar og að henni hafi ekki enn borist rökstuðningur Vinnumálastofnunar.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. október 2010, kemur fram að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. laganna komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeiganda flytji búferlum.
Fram kemur að eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Kærandi eigi lögheimili að B-stað sem sé um 20 km leið frá C-stað og 25 km frá D-stað. Það að færð á vegum yfir vetrartímann á Íslandi geti verið slæm telji Vinnumálastofnun ekki gilda ástæðu fyrir höfnun á starfi samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Sér í lagi í ljósi þess að starfsemi vinnuveitanda er kæranda hafi boðist starf hjá sé í þeim byggðakjarna sem sé næst heimili kæranda. Fallist Vinnumálastofnun ekki á að virk atvinnuleit kæranda nái einvörðungu til sveita er liggi að lögheimili hennar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. október 2010, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. nóvember 2010. Kærandi hefur ekki nýtt sér það. Kærandi heldur því fram í kæru að aðrir hafi fengið sama atvinnutilboð og hún og hafnað því en bótaréttur þeirra hafi þó ekki verið felldur niður. Af þessu tilefni hafði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar samband við kæranda símleiðis þann 22. desember 2010 og gaf henni kost á að tilgreina þá aðila sem hún vísaði til, í því skyni að unnt væri að varpa skýrara ljósi á staðhæfingar hennar. Kærandi fékk frest til þess að koma upplýsingunum á framfæri til 30. desember 2010 en hún hefur ekki nýtt sér það.
2.
Niðurstaða
Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.
Í 4. mgr. sömu lagagreinar kemur eftirfarandi fram:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Í athugasemdum við tilvitnaða 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að heimilt sé að taka tillit til þess þegar hinn tryggði geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu þar sem ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann er ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar.
Líta verður til ofangreindra lagaákvæða við úrlausn þessa máls. Ekki verður horft framhjá því að kærandi býr á sveitabæ sem er tiltölulega skammt frá þeim vinnustað sem henni var boðið að mæta í atvinnuviðtal út af. Ákveðið veðurlag og færð á vegum geta almennt ekki réttlætt þá ákvörðun atvinnuleitanda að hafna því að mæta í atvinnuviðtal. Einnig verður til þess að líta að fram kom í boðun atvinnuviðtalsins að herbergi væri í boði á þeim stað þar sem inna átti vinnuna að hendi. Með vísan til þessa verður höfnun kæranda á að mæta í atvinnuviðtal ekki talin réttlætanleg í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kærandi heldur því fram að brotið hafi verið á almennri jafnræðisreglu við meðferð málsins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærandi hefur ekki viljað rökstyðja þessa fullyrðingu nánar eða leggja fram gögn sem geta stutt hana en úrskurðarnefndin hefur gefið henni kost á því. Hafna verður því þessum málsástæðum kæranda.
Með vísan til framangreinds, sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, er hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. apríl 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson