Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 86/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 86/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. maí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið hafnað þar sem umbeðið afrit af eyðublaðinu RSK 5.02/5.04 hefði ekki borist. Það væri því ekki ljóst hvort skilyrði 1. gr., 1. mgr. 9. gr. og a-liðar 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum og virka atvinnuleit væru uppfyllt. Kærandi kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 28. maí 2010, og krefst þess að ákvörðuninni verði hrundið. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 30. nóvember 2009. Umsóknin var send rafrænt en hún var staðfest og móttekin 10. desember 2009. Kærandi rekur fyrirtækið X á eigin nafni og stendur skil á reglulegu endurgjaldi af þeim rekstri. Vinnumálastofnun óskaði eftir staðfestu afriti af eyðublaðinu RSK 5.02/5.04 til þess að unnt væri að meta rétt hans til greiðslna atvinnuleysistrygginga. Stofnunin fékk send gögn frá RSK varðandi samdrátt á rekstri kæranda í kjölfar veikinda hans frá og með júlí til október 2009, en það var áður en hann sótti um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun óskaði að nýju eftir RSK 5.02 vottorði frá kæranda fyrir tímabilið eftir að hann sótti um atvinnuleysistryggingar en hann hefur ekki skilað því inn.

Af hálfu kæranda kemur fram að hvað varði umrætt eyðublað 5.02/5.04 sé þess að geta að ætlunin sé ekki að leggja reksturinn niður og fara alfarið á atvinnuleysisbætur, sem e.t.v. væri það auðveldasta í stöðunni, og hann sjái því ekki tilgang með því að senda eyðublaðið.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 16. desember 2010, kemur fram að í bráðabirgðaákvæði VI í lögum um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um undanþágu frá þeim skilyrðum sem sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að uppfylla til að njóta greiðslna atvinnuleysistrygginga. Til að nýta heimild þessarar undanþágu þurfi sjálfstætt starfandi einstaklingur að skila til stofnunarinnar tilkynningu frá Ríkisskattstjóra þess efnis að verulegur samdráttur hafi orðið á rekstrinum.

Kærandi hafi ekki látið Vinnumálastofnun í té eyðublaðið RSK 5.02 sem staðfesti samdrátt í rekstri eftir að hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi auk þess greitt sér sömu laun, 122.000 kr., allt frá apríl 2007 til apríl 2010. Af þessu verði því ekki séð að um raunverulegan samdrátt í rekstri kæranda sé að ræða. Þar sem kærandi hafi ekki orðið við beiðni Vinnumálastofnunar um staðfest afrit af tilkynningu til Ríkisskattstjóra um samdrátt í rekstri uppfylli hann ekki skilyrði bráðabirgðaákvæðis VI. Þegar heimild samkvæmt bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar sleppi taki við almenn skilyrði laganna. Samkvæmt f- og g-lið 18. gr. laganna sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um það, sbr. 21. gr. laganna. Þar sem kærandi uppfylli ekki framangreind skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar beri að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. desember 2010, og var honum veittur frestur til 4. janúar 2011 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Úrskurðarnefndinni barst bréf kæranda, dags. 3. janúar 2011. Í því eru fyrri athugasemdir kæranda ítrekaðar ásamt því að fundið er að því að Vinnumálastofnun hafi ekki komið sínum sjónarmiðum að fyrir úrskurðarnefndinni fyrr en sex mánuðum eftir að beiðni þar að lútandi var send stofnuninni. Jafnframt bendir kærandi á að hann stundi atvinnurekstur sinn á eigin kennitölu og hann eigi ekki að standa lakar að vígi en þeir sem sinni slíkum rekstri í öðru formi, svo sem með einkahlutafélagsforminu.

 

2.

Niðurstaða

Rafræn umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var staðfest 10. desember 2009. Síðan þá hefur verið óumdeilt að kærandi er sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. b-lið 3. gr. laganna, eins og þeim lið var breytt með 1. gr. laga nr. 37/2009. Um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti öðlast rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta gilda meginreglur IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar og er þar meðal annars kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingur þarf að hafa stöðvað rekstur og lagt fram vottorð um stöðvun slíks rekstrar til að geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. nú f- og g-liði 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Frá þessum skilyrðum hafa verið gerðar tilteknar undantekningar, sbr. ákvæði VI til bráðabirgða en það ákvæði kom fyrst í lög með b-lið 1. gr. laga nr. 131/2008 en hefur svo verið breytt með 26. gr. laga nr. 37/2009, 26. gr. laga nr. 134/2009, 5. gr. laga nr. 70/2010 og 5. gr. laga nr. 153/2010.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2010. Fram að töku ákvörðunarinnar hafði kæranda verið gefinn kostur á að skila tilteknum fylgigögnum frá skattyfirvöldum í því skyni að taka afstöðu til umsóknar hans, sbr. bréf stofnunarinnar til hans, dags. 12. janúar 2010 og 1. mars 2010. Kærandi telur ekki þörf á að skila þessum gögnum en óskað var eftir þeim vegna svohljóðandi 1. mgr. ákvæðis VI til bráðabirgða laga um atvinnuleysistryggingar:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst fullnægja skilyrðum f- og g-liðar 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar hafi hann tilkynnt skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundins atvinnuleysis hans. Hann skal gera grein fyrir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi mánaðarlega og skila virðisaukaskattsskýrslu samkvæmt skráningu hans í grunnskrá virðisaukaskatts. Staðfestingu skattyfirvalda um að tilkynning hafi borist þeim skal skila til Vinnumálastofnunar með umsókn um atvinnuleysisbætur.

Þrátt fyrir neitun kæranda að láta í té gögn liggur meðal annars fyrir staðfesting Ríkisskattstjóra, dags. 19. janúar 2010, á því að kærandi hafi tilkynnt verulegan samdrátt í verkefnum á tímabilinu júlí til og með október 2009 vegna veikinda og hann hygðist sækja um atvinnuleysisbætur. Einnig er að finna í gögnum málsins útfyllt eyðublöð kæranda til skattyfirvalda, dags. 18. nóvember 2009, þar sem gerð er grein fyrir reiknuðu endurgjaldi hans í atvinnurekstri. Samkvæmt þessum gögnum reiknaði kærandi með að greiða sér 122.000 kr. í endurgjald á mánuði en það er sama fjárhæð og hann hafði greitt sér í reiknað endurgjald árin 2007–2008. Vegna veikinda í júlí til október 2009 greiddi hann sér ekki reiknað endurgjald en það gerði hann hins vegar fyrir janúar til júní 2009 og nóvember til desember 2009. Vegna þessa tímabils á árinu 2009 reiknaði hann sér 122.000 kr. í mánaðarlegt endurgjald og það gerði hann einnig fyrir mánuðina janúar til apríl 2010.

Með hliðsjón af ofanrituðu telst kærandi ekki hafa uppfyllt skilyrði 1. mgr. ákvæðis VI til bráðabirgða, þ.e. hann hefur ekki sýnt fram á verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leitt hefur til tímabundins atvinnuleysis hans. Hin kærða ákvörðun var því reist á réttum lagagrundvelli. Eigi að síður þykir ástæða til að benda kæranda á að hann getur enn uppfyllt skilyrði títtnefnds bráðabirgðaákvæðis laga um atvinnuleysistryggingar og fengið í framhaldinu greiddar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði. Í þessu samhengi skal bent á að gildistími ákvæðisins er nú til 30. júní 2011, sbr. 5. gr. laga nr. 153/2010.

Kærandi hafði ekki uppfyllt þau skilyrði sem fram koma í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar til að geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Ekki voru því forsendur til að fallast á umsókn hans um atvinnuleysisbætur á þeim lagagrundvelli.

Kærandi hefur meðal annars vísað til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gæti ekki jafnræðis vegna þess að þeir sem starfi á eigin kennitölu eru meðhöndlaðir sem sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna en þeir sem sinni atvinnurekstri í félagaformi og fái greitt sem launamenn, eru meðhöndlaðir sem launamenn. Á þetta verður ekki fallist þar sem með tilteknum ákvæðum laga nr. 37/2009 var ákveðið að gera greinarmun á þessum hópum og fyrir því færð málefnaleg rök, sbr. athugasemdir þær sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009.

Þótt fallast megi á að dregist hafi úr hömlu að Vinnumálastofnun hafi skilað greinargerð í málinu þá haggar það ekki því að hin kærða ákvörðun var reist á löglegum grundvelli.

Að teknu tilliti til ofangreinds og röksemda þeirra, sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn A um greiðslu atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta