Mál nr. 1/2011. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. janúar 2011
í máli nr. 1/2011:
Inter ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 5. janúar 2011, kærði Inter ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um höfnun allra tilboða í útboði nr. 14979 „Skurðborð fyrir skurðstofur kvennadeildar LSH“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
· Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað hið endurtekna innkaupaferli á umræddum innkaupum nr. 14986 Skurðborð fyrir skurðstofur kvennadeildar LSH í samræmi við 1. mgr. 96. gr. OIL þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.
· Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun Ríkiskaupa þess efnis að hafna tilboðum kæranda sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. OIL og beini því til Ríkiskaupa að taka fjárhagslega hagkvæmasta tilboði kæranda.
Fallist kærunefnd útboðsmála ekki á framangreindar kröfur gerir kærandi eftirfarandi kröfur:
· að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda sbr. 2. mgr. 97. gr. OIL.
· Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að nefndin ákveði að varnaraðili greiði kæranda kostnað hans við að hafa kæruna uppi sbr. 3. mgr. 97. gr. OIL.
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferils. Með bréfi, dags. 10. janúar 2011, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva innkaupaferli.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.
I.
Í desember 2010 auglýsti kærði útboð nr. 14979 „Skurðborð fyrir skurðstofur kvennadeildar LSH“. Ákvæði 1.1.9. gr. útboðsgagna bar yfirskriftina „Fylgigögn“ og þar kom fram að tiltekin gögn skyldu fylgja með tilboði. Meðal þeirra gagna voru „yfirlit yfir notkunarstaði og sölu síðustu þriggja ára á sambærilegum skurðborðum og hér er verið að bjóða“. Í gr. 1.2.4. í útboðinu sagði svo m.a.:
„Seljandi skal staðfesta að framleiðandi hafi selt a.m.k. 5 skurðborð sömu gerðar á síðustu þrem árum á EES svæðinu að öðrum kosti verður tilboð bjóðanda dæmt ógilt.“
Kærandi var meðal þátttakenda í útboðinu og gerði fjögur tilboð. Tilboð voru opnuð hinn 21. desember 2010 og kom þá í ljós að alls bárust 15 tilboð í útboðinu. Hinn 29. desember 2010 tilkynnti kærði að öllum tilboðum hefði verið hafnað þar sem þau hefðu öll verið ógild, sbr. 72. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup.
Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir höfnun tilboða sinna. Í rökstuðningi kærða, dags. 29. desember 2010, sagði að öll fjögur tilboð hans hefðu verið ógild þar sem þau hafi ekki uppfyllt gr. 1.2.4. í útboðslýsingu um staðfestingu á sölu framleiðandans á a.m.k. fimm skurðarborðum, sömu gerðar og boðið var, síðustu þrjú árin.
Kærði hefur nú hafið nýtt innkaupaferli, nr. 14986 „Skurðborð fyrir skurðstofur kvennadeildar LSH“.
II.
Kærandi segir að kröfur útboðsgagna í gr. 1.1.9. og 1.2.4. séu ósambærilegar. Önnur krafan sé skilyrðislaus krafa um það sem fylgja á tilboði en sú síðari er ótímasett krafa um staðfestingu án þess að krafist sé að hún fylgi tilboði bjóðenda. Kærandi telur sig engu að síður hafa staðfest að framleiðandi á boðnum vörum hafi selt fleiri en 5 borð, sömu gerðar og boðið var, á EES svæðinu á síðastliðnum þremur árum. Kærandi segist hafa uppfyllt skilyrði útboðsgagna með framlagningu á sölulistum þar sem sjá megi hundruð seldra eininga á EES svæðinu. Kærandi telur að kærða hafi borið að gefa kæranda færi á að skýra framkomnar upplýsingar ef kærði taldi þær óskýrar eða ábótavant. Þá telur kærandi það verulega grunsamlegt að öll þau 15 tilboð sem bárust í útboðinu hafi reynst ógild.
III.
Kærði segir að útboðsgögn hafi tilgreint nákvæmlega hvað skyldi leggja fram með tilboði og þar hafi hvergi verið getið um framlagningu gagna á síðari stigum. Kærði segir að í grein 1.1.9. hafi verið ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir gildi tilboða. Gögnin hafi verið talin upp undir skýrum áskilnaði. Framlagning gagnanna hafi verið svokölluð „SKAL krafa“ enda hafi sagt orðrétt um gögnin: „gögn skulu fylgja með tilboði“. Sömuleiðis hafi komið skýrt fram í gr. 1.2.4. að bjóðandi yrði að staðfesta að framleiðandi hefði selt a.m.k. 5 skurðborð sömu gerðar á síðustu þremur árum á EES svæðinu en „að öðrum kosti [yrði] tilboð bjóðanda dæmt ógilt.“
Kærði segir að þeir listar sem fylgdu með tilboði kæranda og nefndir hafi verið svokallaðir „reference listar“ séu með þeim hætti að ómögulegt sé að átta sig á hverskonar útfærsla af skurðborðum sé um að ræða. Auk þess séu engar dagsetningar né staðfesting framleiðanda á því hvenær þau voru afhent eða hvort þau séu sambærileg þeirri vöru sem verið er að biðja um, eins og áskilið er í útboðsgögnum. Þá segir kærði að ekki sé ljóst hvort listarnir séu yfirlit sölu skurðborða síðustu þriggja ára eða vegna lengra tímabils. Kærði segir listana óáreiðanlega og m.a. hafi komið í ljós að borð sem sagt er að selt hafi verið til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, hafi ekki verið selt þangað.
IV.
Kærandi krefst þess að kærunefndin felli úr gildi þá ákvörðun kærða að hafna öllum tilboðum sem bárust í útboði nr. 14979. Ljóst er af málatilbúnaði kæranda að með kröfunni er stefnt að því að niðurstaða málsins verði sú að útboð nr. 14979 sé enn í gildi.
Hinn 29. desember 2010 tilkynnti kærði bjóðendum í útboði nr. 14979 að kærði hefði ákveðið að hafna öllum tilboðum sem bárust í útboðinu. Með þessari tilkynningu lauk útboði nr. 14979 án þess að neinu tilboði væri tekið. Það leiðir af meginreglum útboðs- og verktakaréttar að kaupandi verður ekki neyddur til að halda áfram útboði og ganga til samninga kjósi hann að hætta við útboð. Hins vegar tekur kaupandi ávallt þá áhættu að verða skaðabótaskyldur gagnvart bjóðendum vegna slíkra ákvarðana.
Kærandi hefur ekki haldið því fram að útboðsskilmálar nr. 14986 sé ólögmætir eða útboðið að öðru leyti ólögmætt. Af framangreindum ástæðum telur kærunefnd útboðsmála ekki efni til að stöðva innkaupaferli útboðs nr. 14986 þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
Ákvörðunarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, Inter ehf., um að stöðva innkaupaferli nr. 14986 „Skurðborð fyrir skurðstofur kvennadeildar LSH“.
Reykjavík, 13. janúar 2011.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, janúar 2011.