Mál nr. 8/2020 Úrskurður 20. febrúar 2020
Mál nr. 8/2020 Endurupptökubeiðni
Eiginnafn: Jeanne (kvk.)
Hinn 20. febrúar 2020 tekur mannanafnanefnd fyrir beiðni um endurupptöku máls 85/2006 Jeanne (kvk.) en erindið barst nefndinni 24. janúar.
Með úrskurði mannanafnanefndar frá 2. febrúar 2007 var umsókn um eiginnafnið Jeanne (kvk.) hafnað (mál 85/2006). Niðurstaða nefndarinnar í málinu var á þá leið að nafnið uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, þar með talið skilyrði 2. málsl. sem kveður á um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Í 1. mgr. 5. gr. laganna er tekið fram að nöfn, sem ekki uppfylla skilyrðin, skuli samþykkja ef þau teljist hafa áunnið sér hefð í íslensku. Orðalag málsgreinarinnar er þó unnt að skilja þannig að þetta eigi aðeins við ef nafn brýtur gegn skilyrðum sem tilgreind eru 1. og 3. málsl. 1. mgr. 5. gr., en ekki skuli samþykkja nöfn sem brjóta gegn 2. málsl. jafnvel þótt þau teljist hafa áunnið sér hefð. Af þessum sökum tók mannanafnanefnd ekki afstöðu til þess hvort nafnið Jeanne gæti talist hafa áunnið sér hefð í íslensku.
Álit núverandi nefndar, sem styðst við greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga um mannanöfn, nr. 45/1996, er að túlka skuli 1. mgr. 5. gr. laganna á þann veg að ekki sé greint á fyrrnefndan hátt á milli skilyrðanna þriggja. Enda segir í greinargerðinni:
[...]. Hins vegar hindrar ákvæðið [2. málsl. 1. mgr. 5. gr.] ekki notkun neinna nafna eða nafnmynda sem þegar hafa unnið sér hefð í íslensku.
Núverandi nefnd telur þess vegna að taka verði afstöðu til þess hvort nafnið Jeanne (kvk.) geti talist hafa áunnið sér hefð í íslensku og þegar af þeirri ástæðu þykir nefndinni rétt að fallast á beiðni um endurupptöku málsins.
Ekkert hefur komið fram nýtt í málinu sem breytir þeirri niðurstöðu mannanafnanefndar í máli 85/2006 að nafnið Jeanne (kvk.) uppfyllir ekki þau skilyrði sem tilgreind eru í 1. mgr. 5. gr. Þrátt fyrir það kveða lögin á um að unnt sé að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð.
Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 19. janúar 2015 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
- Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
- Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
- Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
- Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;
- Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Tekið skal fram að vinnulagsreglurnar eru mannafnanefnd til stuðnings við mat sitt, en ekki ráðandi um niðurstöðuna bendi önnur atriði engu að síður til þess að ritháttur nafns hafi hefðast.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár Íslands bera níu konur, sem uppfylla skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna, nafnið Jeanne. Sú elsta er fædd 1982. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920. Nafnið Jeanne uppfyllir þannig ekkert skilyrða 1. liðar vinnulagsreglnanna, en að vísu munar litlu á að skilyrði 1b. sé fullnægt.
Í gögnum máls 85/2006 kemur fram að langamma nafnbera og úrskurðarbeiðanda í núverandi máli hét Jeanne og að það er ósk hennar að fá að heita eftir langömmu sinni. Í nýlegri dómaframkvæmd í málum er varða mannanöfn hefur verið áréttað að taka skuli tillit til sérstakra hagsmuna fólks þegar það er unnt.
Mannanafnanefnd telur að þar sem í þessu máli leggst á eitt að nafnið Jeanne telst mjög nálægt því að hafa áunnið sér hefð í íslensku, samkvæmt ofangreindum vinnulagsreglum, og að úrskurðarbeiðandi getur talist hafa nægilega ríka hagsmuni af því að fá að taka upp nafn langömmu sinnar, þá sé rétt að fallast á beiðnina.