Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 306/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 306/2019

Þriðjudaginn 28. janúar 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. júlí 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júlí 2019, um leiðréttingu á bótahlutfalli og að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 22. október 2018 um niðurfellingu bótaréttar og innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. mars 2017. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. mars 2017, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og bótaréttur væri metinn 100%. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í september 2018 kom fram að kærandi hefði í maí 2018 haft 4.257.760 kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2018, var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um þær tekjur. Ekkert svar barst frá kæranda. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2018, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans yrði felldur niður frá og með 1. október 2018 á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi var einnig krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 1.364.163 kr. að meðtöldu 15% álagi. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í apríl 2019 kom fram að kærandi hefði í janúar og febrúar 2019 fengið greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfum Vinnumálastofnunar, dags. 29. apríl 2019, var óskað eftir gögnum frá kæranda um þær greiðslur og með bréfum, dags. 22. maí og 18. júní 2019, var óskað eftir frekari gögnum og skýringum frá kæranda. Af þeim gögnum sem kærandi sendi Vinnumálastofnun var talið að hann væri reglubundið að þiggja örorkulífeyri vegna skertrar vinnufærni og því óskaði stofnunin eftir starfshæfnisvottorði frá kæranda. Þrjú læknisvottorð ásamt starfsgetumati frá VIRK–starfsendurhæfingarsjóði bárust Vinnumálastofnun 25. júní 2019. Með ákvörðun, dags. 9. júlí 2019, var kæranda tilkynnt að þar sem fyrirliggjandi læknisvottorð áætli vinnufærni hans 40% væri bótaréttur leiðréttur í sama hlutfall frá og með 1. maí 2019 og bætur skertar að fullu frá þeim tíma. Þá var kæranda tilkynnt að ekki væri ástæða til að breyta fyrri ákvörðun frá 22. október 2018 og eldri skuld yrði því innheimt á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Eftirstöðvar skuldarinnar væru 1.161.747 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. júlí 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. ágúst 2019, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. október 2019, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar er varðaði ákvörðun stofnunarinnar frá 22. október 2018 þar sem ljóst væri að sú ákvörðun hafi verið endurupptekin á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hún staðfest á ný. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. nóvember 2019. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 25. nóvember 2019 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. nóvember 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri í málinu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að með kærunni sé þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júlí 2019, um leiðréttingu á bótahlutfalli kæranda frá og með 1. maí 2019 og staðfesting fyrri ákvörðunar stofnunarinnar frá 22. október 2018 um niðurfellingu bótaréttar á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimtu ofgreiddra bóta.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta varði aðallega almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum, sbr. III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í 13. gr. laganna segi að eitt helsta skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna sé að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit. Nánari skilgreining á hugtakinu „virk atvinnuleit“ sé að finna í 14. gr. laganna. Í því ákvæði komi fram að sá teljist í virkri atvinnuleit sem sé meðal annars fær til flestra almennra starfa, hafi heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum og hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða. Í 4. mgr. 14. gr. laganna sé að finna þrönga undanþágu frá framangreindum skilyrðum. Þar segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá sumum skilyrðum ákvæðisins þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna fjölskyldumeðlima óski eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur sé stofnuninni veitt heimild til að taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem ekki geti sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ávinnslutímabil og útreikning á bótahlutfalli atvinnuleitanda. Í 4. mgr. ákvæðisins sé skýrt tekið fram að tryggingarhlutfall launamanns geti aldrei orðið hærra en sem nemi því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. laganna. Ákvæðið geri ráð fyrir því að ef undanþága 4. mgr. 14. gr. laganna eigi við um atvinnuleitanda geti hann ekki fengið hærra tryggingarhlutfall en sem nemi því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig í. Atvinnuleitandi sem sé eingöngu 40% vinnufær geti því í mesta lagi átt rétt á 40% atvinnuleysisbótum að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Af fyrirliggjandi gögnum í máli þessu sé ljóst að kærandi sé með skerta vinnufærni. Samkvæmt starfshæfnisvottorði frá heimilislækni sé kærandi sagður með 40% starfsgetu til léttari starfa. Með vísan til ofangreindra lagaákvæða telji Vinnumálastofnun því að bótahlutfall kæranda sé réttilega ákvarðað 40%.

Þar að auki þiggi kærandi reglulega greiðslur frá lífeyrissjóði sínum og Tryggingastofnun ríkisins. Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um frádrátt vegna tekna atvinnuleitanda. Í 1. mgr. ákvæðisins segi að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans samkvæmt 32.-34. gr. séu hærri en sem nemi óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki samkvæmt 4. mgr. skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem séu umfram. Hið sama gildi um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem séu komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kunni að fá frá öðrum aðilum. Í 3. mgr. 36. gr. laganna segi svo: „Þegar hinn tryggði fær greiðslur frá sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru til komnar vegna óvinnufærni að hluta, sbr. 1. mgr., skal hinn tryggði jafnframt leggja fram vottorð til Vinnumálastofnunar um vinnufærni sína ásamt staðfestingu frá sjúkrasjóði stéttarfélags um hversu mikla óvinnufærni verið er að bæta en að öðrum kosti gildir 1. mgr. 51. gr. um þær greiðslur.“ Þegar búið sé að taka tillit til bótahlutfalls kæranda og þeirra tekna sem hann hafi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta skerðist bætur til hans að fullu samkvæmt 36. gr. laganna. Vinnumálastofnun telji því að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Hvað varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. október 2018 tekur stofnunin fram að fyrir mistök hafi kæranda verið tjáð að bótaréttur yrði felldur niður í 0 mánuði. Rétt hefði verið að tilkynna um tveggja mánaða biðtíma. Ekki verði séð að sú misritun hafi verið leiðrétt eða að stofnunin hafi birt kæranda rétta ákvörðun. Í því ljósi telji Vinnumálastofnun að fallast eigi á kröfu kæranda um niðurfellingu á biðtímaákvörðun frá október 2018. Með sömu ákvörðun hafi kæranda jafnframt verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Tekjur þær sem um ræði komi frá Greiðslustofu lífeyrissjóða en kærandi hafi í maí 2018 fengið greiddan endurhæfingar- og örorkulífeyri afturvirkt. Tekjur kæranda hafi komið til skerðingar í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 54/2006, þeim dreift niður á mánuði í samræmi við greiðsluáætlun og rauntekjur hans samkvæmt Ríkisskattstjóra. Við það hafi myndast skuld við atvinnuleysistryggingasjóð að upphæð 1.186.229 kr. Að viðbættu 15% álagi hafi skuld kæranda numið 1.364.163 kr. Skuld kæranda hafi verið innheimt í samræmi við 3. mgr. 36. gr. laganna, þ.e. með skuldajöfnun, þar til hann hafi verið afskráður í október 2019. Skuld kæranda nemi nú 866.005 kr. sem honum beri að endurgreiða í samræmi við 39. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júlí 2019 um leiðréttingu á bótahlutfalli kæranda frá og með 1. maí 2019 og að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 22. október 2018 um niðurfellingu bótaréttar á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimtu ofgreiddra bóta. Verður fyrst vikið að ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar og innheimtu ofgreiddra bóta frá 22. október 2018.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að fyrir mistök hafi kæranda verið tjáð að bótaréttur yrði felldur niður í 0 mánuði. Sú misritun hafi hvorki verið leiðrétt né hafi stofnunin birt kæranda rétta ákvörðun. Að því virtu væri fallist á niðurfellingu biðtímaákvörðunar. Með vísan til þess kemur sá þáttur kærunnar því ekki til efnislegrar skoðunar hjá úrskurðarnefndinni.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Óumdeilt er að kærandi fékk greiðslur frá lífeyrissjóði á árinu 2018 og að þær greiðslur höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem tekjur kæranda voru hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir fékk hann greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Kemur þá til skoðunar hvort fella skuli niður álagið sem lagt var á ofgreiðslukröfuna. Samkvæmt gögnum málsins upplýsti kærandi ekki Vinnumálastofnun um lífeyrissjóðsgreiðslurnar og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. október 2018 um innheimtu ofgreiddra bóta staðfest. Í ljósi yfirlýsingar Vinnumálastofnunar um að fallist sé á niðurfellingu biðtímaákvörðunar er óhjákvæmilegt að fella úr gildi þann þátt framangreindrar ákvörðunar.

Mál þetta lýtur enn fremur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að leiðrétta bótahlutfall kæranda frá og með 1. maí 2019 með vísan til þess að vinnufærni hans væri 40%.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

 

Í 4. mgr. 14. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum c-, e- og f-liða 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengist skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur sé heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Í 15. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um ávinnslutímabil og útreikning á bótahlutfalli atvinnuleitenda. Þar segir í 4. mgr. ákvæðisins að tryggingarhlutfall launamanns geti aldrei orðið hærra en sem nemi því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr.

Í gögnum málsins liggja fyrir læknisvottorð frá heimilislækni, dags. 6. nóvember 2018 og 25. júní 2019, þar sem fram kemur að kærandi sé með 40% starfsgetu til léttari starfa. Með vísan til þess er fallist á með Vinnumálastofnun að bótaréttur kæranda sé réttilega ákvarðaður 40% frá 1. maí 2019. Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júlí 2019 um leiðréttingu á bótahlutfalli kæranda frá og með 1. maí 2019 er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júlí 2019, um leiðréttingu á bótahlutfalli A og innheimtu ofgreiddra bóta er staðfest. Ákvörðun um niðurfellingu bótaréttaréttar á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 er felld úr gildi og þeim hluta málsins vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta