Hoppa yfir valmynd

Nr. 164/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 30. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 164/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20030016 og KNU20030015

Kæra [...]og

[...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. mars 2020 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Brasilíu (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari Brasilíu (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2020, um að synja kærendum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. ágúst 2019. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dags. 2. desember 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 19. febrúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 10. mars 2020. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 25. mars 2020. Í greinargerð óskuðu kærendur eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni mála sinna. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa þeim kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana M.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í sameiginlegri greinargerð kærenda er vísað til viðtala K og M hjá Útlendingastofnun, dags. 20. nóvember og 2. desember 2019. Í viðtölunum hafi kærendur greint frá því að hafa búið í borginni [...] í Brasilíu áður en þau hafi lagt á flótta. Aðspurð um ástæðu flóttans hafi þau lýst því að þau væru í hættu vegna stjórnmálaskoðana sinna. Kærandi M hafi verið stjórnmálamaður [...]. M hafi [...]. Þá hafi hann verið borgarfulltrúi á árunum [...]. M kvað sig vera aðgerðarsinna og að hann hafi upplifað áreiti frá fólki sem væri andstætt stjórnmálaskoðunum hans. M hafi um margra áratuga skeið, skipulagt fjöldafundi og mótmæli og oftar en einu sinni hafi lögregla ráðist gegn þátttakendum þeirra. Í eitt skiptið hafi lögreglan gengið í skrokk á M og hann hafi þurft að fá aðhlynningu á sjúkrahúsi vegna áverka. Kærendur hafi lýst því að forseti landsins, Jair Bolsonaro, og fylgjendur hans hafi í auknum mæli hvatt til ofbeldis m.a. [...]. Séu fyrrum samstarfsmenn M á meðal þeirra myrtu. Þá hafi M fengið líflátshótanir, m.a. frá fyrrverandi nemanda sínum. M kvaðst ekki hafa leitað sér aðstoðar þar sem hann óttist lögreglu sem sé á hliðholl stjórnvöldum.

K kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun einnig hafa tekið þátt í stjórnmálaumræðu. Líkt og M sé hún frjálslynd og hafi barist fyrir réttindum minnihlutahópa.

Í greinargerð kærenda er fjallað almennt um ástand mannréttindamála í Brasilíu. Þar komi m.a. fram að forseti landsins hafi viðhaft ummæli sem feli í sér hótanir gagnvart [...] pólitískum andstæðingum hans. Þá komi þar m.a. fram að á meðal vandamála á sviði mannréttinda í Brasilíu séu slæmar aðstæður í fangelsum, spilling opinberra embættismanna og manndráp af hálfu löggæsluaðila. Refsileysi vegna brota öryggissveita séu vandamál og óskilvirkni í dómskerfinu valdi töfum. Þá hafi yfirvöld ekki ætíð stjórn á öryggissveitum landsins.

Kærendur gera athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar. Mótmæla kærendur þeim ályktunum sem stofnunin dregur af því að kærendur hafi ekki sótt um alþjóðlega vernd við komu sína hingað til lands og frásögn þeirra um að þau hafi leitað sér atvinnu [...] og ekki sótt um vernd fyrr en slík leit hafi ekki skilað árangri, eftir um tveggja vikna dvöl hér á landi. Ljóst sé að kærendur hafi frá upphafi greint frá því að þau hafi yfirgefið heimaríki sitt vegna ótta við ofsóknir eins og fram hafi komið í greinargerð þeirra til Útlendingastofnunar, dags. 3. janúar 2020. Kærendur telji að það að þau hafi fyrst viljað leita annarra leiða, en að óska eftir alþjóðlegri vernd, feli ekki í sér staðfestingu á því að þau hafi ekki yfirgefið heimaríki sitt vegna ástæðuríks ótta við ofsóknir. Kærendur vísa til þess að það sé ekki skilyrði í flóttamannarétti að umsókn um alþjóðlega vernd sé fyrsta úrræðið sem umsækjandi beiti.

Kærendur byggja aðalkröfu sína á því að þau séu flóttamenn samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem þau óttist ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna. Ráðandi yfirvöld með forseta landsins fremstan í flokki ýti undir hatur og ofbeldi í garð stjórnarandstæðinga, minnihlutahópa og baráttumanna fyrir réttindum slíkra hópa. Kærendur telji að í máli þeirra liggi fyrir að M hafi stjórnmálaskoðanir sem séu yfirvöldum í Brasilíu ekki þóknanlegar. Kærandi hafi starfað á sviði stjórnmála, fjallað opinberlega um stjórnmálaskoðanir sínar og ljóst að þær séu yfirvöldum kunnar. Með vísan til framlagðra gagna, fyrirliggjandi heimilda og frásagna sinna telji kærendur ótta sinn við ofsóknir ástæðuríkan og að veita beri þeim alþjóðlega vernd hér á landi skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá vísa kærendur til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga um að maki útlendings sem njóti alþjóðlegar verndar eigi alla jafnan einnig rétt á alþjóðlegri vernd.

Til vara gera kærendur kröfu um viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærendur telja að með hliðsjón af því sem að framan hafi verið rakið í tengslum við aðalkröfu þeirra að þau uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða er til að ætla að þau eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimalandi sínu.

Þá telja kærendur að með því að senda þau til heimaríkis yrði að auki brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Telji kærendur jafnframt að slík ákvörðun myndi brjóta í bága við 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og kærendum veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga Kærendur vísa til athugasemda með ákvæðinu og rökstuðnings fyrir aðalkröfu sinni, og byggja á því að þau séu þolendur viðvarandi mannréttindabrota sem yfirvöld veiti ekki vernd gegn.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað brasilískum vegabréfum. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur séu brasilískir ríkisborgarar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Brasilíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

2019 Country Reports on Human Rights Practices – Brazil (US. Department of State, 11. mars 2020);

Americas: The situation of state Protection Mechanisms For Human Rights Defenders (Amnesty International, 3. október 2018);

Annual Report 2019 – Brazil (Amnesty International, 27. febrúar 2020);

Brazil Travel Advisory (US Department of State, Bureau of Consular Affairs, skoðað 29. apríl 2020);

Foreign travel advice Brazil (UK Foreign and Commonwealth Office, skoðað 29. apríl 2020);

Freedom in the World 2020 – Brazil (Freedom House, 4. mars 2020);

Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer i Brasilien: situationen per den 31 december 2017 (Utrikesdepartimentet, 21. júní 2018);

Stop the Killings (Front Line Defenders, 2018);

One Year of Ruinous Anti-Rights Policies in Brazil (Human Rights Watch, 15. janúar 2020)

The World Factbook. South America: Brazil (Central Intelligence Agency, 16. apríl 2020) og

World Report 2020 – Brazil (Human Rights Watch, 8. janúar 2020).

Brasilía er stjórnarskrárbundið, fjölflokka lýðveldi. Í landinu búa rúmlega 211 miljónir manns og er yfir helmingur þjóðarinnar kaþólskrar trúar. Árið 1964 tók herinn yfir stjórn landsins með valdaráni og var við stjórnvölin til ársins 1985. Ný stjórnarskrá, byggð á lýðræði, tók gildi í október árið 1988. Árið 1945 gerðist Brasilía aðili að Sameinuðu þjóðunum og hefur ríkið fullgilt flesta þá alþjóðasamninga um mannréttindi, og bókanir við þá, sem gerðir hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Árið 1989 gerðist ríkið til að mynda aðili að samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og árið 1992 hvort tveggja að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Samkvæmt landslögum eru kosningar í Brasilíu leynilegar og fara fram með reglulegu millibili. Á árunum 2003 til 2016 var forsetaembættið í höndum flokksmanna vinstri flokksins PT (p. Partido dos Trabalhadores), þeirra Luiz Inácio Lula da Silva og Dilma Rousseff. Hin síðarnefnda lét af völdum árið 2016 vegna spillingarmála sem urðu jafnframt til þess að forveri hennar í embætti var dæmdur til fangelsisrefsingar. Í forsetakosningum árið 2018 bar hinn hægrisinnaði Jair Bolsanaro sigur úr býtum. Í þingkosningunum tapaði PT flokkurinn fylgi en hélt enn áfram meirihluta í neðri deild þingsins. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að fjölmiðlar og alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafi talið forsetakosningarnar og þingkosningar hafa farið fram með frjálsum og sanngjörnum hætti.

Þá kemur fram í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að helstu vandamál á sviði mannréttinda í Brasilíu séu m.a. spilling innan stjórnkerfis, valdbeiting lögreglu, slæmar aðstæður í fangelsum, pyndingar og ofbeldi, eða hótanir um ofbeldi, sem m.a. beinist að minnihlutahópum og aðgerðarsinnum.

Í framangreindum skýrslum kemur fram að glæpir vandamál í Brasilíu. Skipulögð glæpastarfsemi sé víðtæk og ofbeldisglæpir algengir, sérstaklega í stærri borgum landsins. Morðtíðni sé há í landinu en hafi farið lækkandi, að einhverju leyti vegna vopnahlés eiturlyfjagengja. Þolendur ofbeldis í landinu séu að meginstefnu ungt, fátækt fólk sem sé dökkt á hörund. Lögregla landsins skiptist í alríkis-, vega- og járnbrautalögreglu sem heyrir undir dómsmála- og almannaöryggisráðuneytið (p. Ministério da Justiça e Segurança Pública) og fylkislögreglu sem skiptist í borgalega lögreglu sem rannsaki mál og herlögreglu sem haldi uppi lögum og rétti í fylkinu. Herlögreglan heyri þó ekki undir varnarmálaráðuneyti landsins (p. Ministério da Defesa). Her landsins fari einnig með hlutverk í öryggisgæslu innanlands og heyrir undir varnarmálaráðuneytið í því hlutverki. Spilling sé algeng innan löggæslu landsins og óhófleg valdbeiting af hálfu lögreglu hafi sætt gagnrýni. Stjórnarskrá landsins banni handahófskenndar handtökur og varðhald. Heimild til handtöku sé takmörkuð við einstaklinga sem staðnir séu að refsiverðum verknaði eða sem gefin hafi verið út handtökuskipun á hendur. Lögregla virði hins vegar ekki alltaf þetta bann. Lög geri ráð fyrir að einstaklingar geti borið lögmæti handtöku eða varðhalds undir dómstóla og stjórnvöld virði yfirleitt þann rétt. Þá hafi verið fregnir um að lögregla ráði fólki bana af handahófi og að ungir karlmenn sem séu dökkir á hörund séu í meirihluta þolenda lögregluofbeldis. Lögreglumenn séu þó sjaldan ákærðir fyrir brot í starfi og nánast aldrei sakfelldir fyrir slík brot. Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2018 kemur fram að á árunum 2010 til 2015 hafi aðeins verið ákært í um fimmtán af þeim 3.441 málum þar sem lögreglumaður hafi verið grunaður um morð og að ákæruvaldið hafi ekki að fullu nýtt rannsóknarheimildir sínar hvað þessi mál varði. Í framangreindum skýrslum er vísað til dæma þess að mál hafi verið felld niður án þess að þau væru rannsökuð nægilega. Herdómstólar fengu aukna lögsögu árið 2017 og heyri mál þar sem hermenn séu grunaðir um morð óbreyttra borgara nú undir slíka dómstóla. Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins er bent á að aukin afskipti hers landsins af löggæslumálum geti aukið enn á refsileysi löggæsluaðila fyrir morð á borgurum landsins. Í áðurnefndri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að árið 2019 hafi í borginni Rio de Janeiro flest manndráp af hendi löggæsluaðila verið í lögregluaðgerðum sem hafi beinst að eiturlyfjagengjum í fátækrahverfum borgarinnar (p. favela).

Af framangreindum gögnum má ráða að núverandi forseti hafi sætt gagnrýni en hann hafi haft uppi ummæli um ágæti tímabils einræðisstjórnar og gert lítið úr þeim mannréttindabrotum sem framin hafi verið. Þá hafi stjórn forsetans lagt fram frumvarp að lögum sem kveði á um að lögreglumenn sem hafi verið sakfelldir fyrir morð geti komist hjá fangelsisvist en þingið hafi að endingu komið í veg fyrir samþykkt þeirra laga. Forseti landsins hafi í framhaldinu lýst því yfir að hann muni náða lögreglumenn sem sakfelldir verði fyrir glæpi telji hann sakfellingu ósanngjarna. Fram kemur í skýrslu frjálsu félagasamtakanna Human Rights Watch fyrir árið 2019 að forseti landsins hafi einnig gert nokkrar atlögur að hinu borgaralega samfélagi Brasilíu og sjálfstæðum fjölmiðlum þar í landi. Þannig hafi stjórn hans reynt að draga úr aðgengi almennings að opinberum upplýsingum, gert að atlögu að nefndum og stofnunum sem ætlað er að bæta stöðu mannréttinda í landinu en sterkar lýðræðislegar stoðir landsins, þingið og dómstólar, hafi fram að þessu komið í veg fyrir slíkar aðgerðir einhverju leyti.

Í framangreindum skýrslum kemur fram að í lögum landsins sé kveðið á um refsingar fyrir spillingu opinberra aðila og dæmi séu um að stjórnvöld höfði dómsmál af þeim sökum. Þá kemur fram að algengt sé að dómsmál sem höfðuð séu vegna spillingar verði fyrir töfum sem valdi de facto refsileysi. Þá séu dómstólar landsins sjálfstæðir en gjaldi fyrir fjölda óafgreiddra mála og geti orðið fyrir utanaðkomandi áhrifum, m.a. pólitískum. Dómsvaldið standi þó traustum fótum m.a. vegna stjórnarskrár landsins og veiti stjórnvöldum aðhald með dómum sínum, borgurum landsins í vil. Borgarar landsins geti einnig höfðað mál fyrir dómstólum vegna mannréttindabrota. Þá sé hægt að leggja mál vegna mannréttindabrota fyrir mannréttindanefnd Ameríkuríkja (e. Inter-American Commission on Human Rights) sem geti sent málið til Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja (e. Inter-American Court of Human Rights). Þá starfi hvorutveggja innlend og alþjóðleg félagasamtök á sviði mannrétttinda án vandkvæða í landinu, brasilísk stjórnvöld séu þeim samvinnuþýð og leiti jafnvel aðstoðar þeirra við ýmis mál. Í framangreindum skýrslum kemur fram að kveðið sé á um funda- og félagafrelsi í stjórnarskrá landsins og að það sé alla jafnt virt af stjórnvöldum. Þó séu dæmi um að lögregla hafi haft afskipti af mótmælum með óhóflegu ofbeldi og valdbeitingu. Fram kemur í skýrslu Freedom House fyrir árið 2019 að í aðdraganda kosninga árið 2018 hafi verið dæmi um að einstaklingar hafi verið beittir ofbeldi fyrir að tjá stjórnmálaskoðanir sínar opinberlega. Þá séu nettröll vandamál í landinu og stjórnvöld hafi ekki tekið á þeim vanda. Fræðimenn, stjórnmálamenn og aðgerðarsinnar hafi í ársbyrjun 2019 sætt hótunum og áreiti á vefmiðlum og yfirgefið landið af þeim sökum. Þá hafi frjálsu félagsamtökin Global Witness talið landið óöruggt fyrir aðgerðarsinna. Ekki séu heimildir um að einstaklingar séu í varðhaldi sem pólitískir fangar þar í landi.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur bera fyrir sig að þau séu í hættu vegna stjórnmálaskoðana sinna. M hafi m.a. orðið fyrir ögrunum og áreiti í sinn garð frá einstaklingum sem séu andstæðir stjórnmálaskoðunum hans og honum hafi borist hótun um ofbeldi frá fyrrum nemanda sínum. Kærendur hafi ekki leitað til lögreglu þar sem þau telji hana handgengna stjórnvöldum. Kærendur séu [...] og hafi barist fyrir réttindum minnihlutahópa. Þá sé M fyrrum stjórnmálamaður og þekktur sem slíkur, hann hafi [...] verið einn af [...] og m.a. verið borgarfulltrúi [...]. Þá hafi K einnig tekið þátt í stjórnmálum. Kærendur lögðu fram gögn til stuðnings frásögn sinni um stjórnmálaþátttöku M.

Frásögn kærenda um ótta við ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana sinna varðar að mestu atburði sem hafi átt sér stað á níunda áratug síðustu aldar, þ.m.t. ofbeldi sem M hafi verið beittur í mótmælum. Á þeim tíma hafi verið gerð stjórnarfarsbreyting til lýðræðis í Brasilíu og er að mati kærunefndar ekki ástæða til að draga í efa frásögn M um þátttöku sína í þeim breytingum eða annarri þátttöku hans í stjórnmálastarfi í heimaríki hans. Frá þeim tíma hafa [...] Þrátt fyrir að núverandi forseti hafi aðrar stjórnmálaskoðanir verður að mati kærunefndar ekki séð af gögnum þeim sem skoðuð hafa verið um heimaríki kæranda við meðferð málsins að kærendur eða [...] eigi undir högg að sækja þar í landi. Þá hafa kærendur ekki sýnt fram á að þau séu á einhvern hátt eða af öðrum ástæðum útsettari fyrir áreiti vegna stjórnmálaskoðana en aðrir ríkisborgarar í heimaríki þeirra í sambærilegri stöðu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 2. desember 2019 greindi M frá hótun sem honum hafi borist frá fyrrum nemanda í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook, á meðan á kosningabaráttu hafi staðið árið 2018, en hann hafi fjarlægt nemandann af vinalista sínum á miðlinum og hafi ekki heyrt frá honum síðan. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Ekki hefur annað komið fram við meðferð máls kærenda en að þau séu almennt við góða heilsu en M hafi þó glímt við bakverki. Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þeirra þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærendur komu hingað til lands 24. júlí 2019 og sóttu um alþjóðlega vernd þann 9. ágúst 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda.

Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 305/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júní 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur að hverfa af landi brott. Kærendum er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants are affirmed. The appellants are requested to leave the country. The appellants have 15 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta