Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 486/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRS FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 486/2015

 

Ár 2015, föstudaginn 21. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 459/2015; kæra A og B, dags. 13. apríl 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 I.

 

Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 21. ágúst 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var samtals 2.636.896 kr. og var sú fjárhæð birt kærendum 11. nóvember 2014. Kærendum var tilkynnt þann 23. desember 2014 að leiðréttingarfjárhæð skyldi ráðstafað inn á kröfu Arion banka nr. 9691, sem glatað hefur veðtryggingu sinni. Kærendur gerðu athugasemd til ríkisskattstjóra við ráðstöfunina þann 18. mars 2015 og var henni svarað 12. apríl.

Með kæru, dags. 13. apríl 2015, hafa kærendur kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að kærð sé ætluð ráðstöfun höfuðstólslækkunar kærenda til X banka. Kærendur segjast vera skuldlaus við bankann eftir að hafa verið úrskurðuð gjaldþrota, A í júlí 2014 og B í ágúst 2014. Þá hafi, lögum samkvæmt, fallið niður allar kröfur á hendur þeim hjá lánastofnunum sem ekki hafi fengist greiddar úr þrotabúi þeirra. Af þeim sökum telja kærendur að ekki sé lengur til staðar krafa frá banka X á hendur þeim og gera kröfu um að fá leiðréttingarfjárhæð í formi sérstaks persónuafsláttar.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á, eru kærendur skuldarar að láni nr. 1 hjá banka X sem hefur glatað veðtryggingu sinni. Ágreiningslaust virðist að umrædd krafa hafi verið til staðar á hendur kærendum og hefur því ekki verið mótmælt að hún hafi glatað veðtryggingu sinni. Fjárhæð kröfunnar var 11.743.042 kr. þann 1.desember 2013. Kærendur virðast einkum byggja á því að gjaldþrot þeirra hafi leitt til niðurfellingar kröfunnar og því skuli ekki ráðstafa leiðréttingarfjárhæð inn á hana.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014 og þar kemur fram í 1. mgr. að hafi fasteignaveðkröfur, sem glatað hafa veðtryggingu sinni í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008, ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda skuli leiðréttingarfjárhæð ráðstafað til lækkunar á slíkum kröfum.

Nánar er fjallað um frádráttarliði og ráðstöfun í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með annarri ráðstöfun eignar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 sé m.a. átt við sölu eða aðra eignaráðstöfun sem framkvæmd hefur verið í tengslum við gjaldþrot umsækjanda og leitt hefur til þess að fasteignaveðlán hans hefur glatað veðtryggingu. Fasteignaveðkröfur sem glatað hafa veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, teljast endanlega niðurfelldar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og dragast frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. laganna, sé fyrningarfrestur skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. liðinn á samþykktardegi ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Ef fyrningarfrestur fasteignaveðkröfu, sem glatað hefur veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, er ekki liðinn á framangreindu tímamarki, skal leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 9. gr. laga nr. 35/2014 fyrst ráðstafað til að lækka slíkar kröfur skv. 1. mgr. 11. gr. laganna enda hafi krafan ekki verið endanlega felld niður. 

Í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 kemur einnig fram að leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 9. gr. laga nr. 35/2014 skal fyrst ráðstafað til að lækka fasteignaveðkröfur umsækjanda sem glatað hafa veðtryggingu í skilningi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Sé umsækjandi skuldari tveggja eða fleiri fasteignaveðkrafna, sem glatað hafa veðtryggingu, skuli leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka kröfur þess eða þeirra kröfuhafa sem eignuðust fasteign eða fasteignir umsækjanda í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar. Ef kröfuhafar hafa leyst til sín tvær eða fleiri fasteignir umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka kröfur þess kröfuhafa, sem eignaðist fasteign umsækjanda, og er með hæstu samanlögðu eftirstöðvar krafna á samþykktardegi framkvæmdar/ráðstöfunar leiðrétt­ingar­fjárhæðar. Ef leiðréttingarfjárhæð er enn óráðstafað skal næst ráðstafa leiðrétt­ingar­fjárhæð til að lækka kröfur þess kröfuhafa sem eignaðist fasteign umsækj­anda og er með næst hæstu samanlögðu eftirstöðvar krafna og svo koll af kolli. Ef leiðrétt­ingar­fjárhæð er enn óráðstafað skal henni ráðstafað til kröfuhafa sem ekki hafa leyst til sín fasteign eða fasteignir umsækjanda og skal þá fyrst ráðstafað til að lækka kröfur þess kröfuhafa sem á hæstu samanlögðu eftirstöðvar á samþykktardegi framkvæmdar/ráð­stöf­unar leiðréttingarfjárhæðar. Næst skal ráðstafa til þess kröfuhafa sem er með næst hæstu samanlögðu eftirstöðvarnar og svo koll af kolli.

Í tilviki kæranda er til staðar fasteignaveðkrafa sem glatað hefur veðtryggingu í skilningi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 er fyrningarfrestur kröfu sem lýst er við gjaldþrotaskipti tvö ár frá þeim degi sem skiptum lýkur. Þar sem kærendur voru úrskurðaðir gjaldþrota um mitt ár 2014 er ljóst að sá frestur er ekki liðinn, jafnvel þótt ekki liggi fyrir hvenær skiptum á búum kærenda lauk. Krafa banka X er því ekki fallin niður, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Hefði krafan verið fyrnd hefði hún þar fyrir utan komið til frádráttar frá útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda, sbr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Ljóst er af framangreindu að ráðstöfun leiðréttingar inn á lán banka X, sem glatað hefur veðtryggingu sinni, er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við útreikning leiðréttingarfjárhæðar ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán banka X verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kærenda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta