Mál nr. 82/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 82/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. júlí 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans sökum þess að hann hefði verið staðinn að vinnu hjá B þann 11. mars 2014 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Þá var kærandi upplýstur um að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 485.253 kr. með 15% álagi, vegna tímabilsins frá 11. mars 2014 til 31. maí 2014. Þann 11. ágúst 2015 skilaði kærandi inn launaseðlum frá B og í kjölfarið var mál hans tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. ágúst 2014, var kæranda tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar frá 8. júlí 2014 um innheimtu ofgreiddra bóta væri felld niður en fyrri ákvörðun um viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar stæði óbreytt. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerð þann 9. október 2014. Kærandi óskar eftir leiðréttingu aftur í tímann og lausn á sínum málum. Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 8. júní 2012. Við athugun eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar þann 11. mars 2014 var kærandi við störf hjá B. Þann 12. mars 2014 skráði kærandi sig í hlutavinnu frá 13. mars 2014 til 13. júní 2014. Við það tilefni upplýsti kærandi stofnunina að hann hefði hafið störf þann 11. mars 2014 en ekki getað skráð sig frá þeirri dagsetningu. Með bréfi, dags. 4. júní 2014, var kæranda tilkynnt um að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði starfað hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Kærandi var upplýstur um að brot gegn 35. gr. a og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gætu valdið viðurlögum skv. 59. eða 60. gr. laganna og honum gefinn kostur á að skila inn skýringum og athugasemdum til stofnunarinnar skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Engar skýringar bárust frá kæranda. Með bréfi, dags. 14. júlí 2014, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálstofnunar, en ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta var síðar felld niður, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 11. ágúst 2014.
Þann 25. ágúst 2014 barst Vinnumálastofnun tölvupóstur frá kæranda þar sem hann óskaði eftir leiðréttingu. Sagði í skýringum kæranda að hann hefði tilkynnt stofnuninni um tilfallandi vinnu hjá B þann 12. mars 2014. Því miður hafi hann haldið að það væri nægjanlegt og launagreiðanda bæri að skila upplýsingum um greiðslur til stofnunarinnar. Jafnframt tók kærandi fram að launagreiðanda hans hafi láðst að senda honum sjálfum launaseðla fyrir unnin störf fyrr en í lok júlí 2014. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju og með bréfi, dags. 19. september 2014, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að staðfesta fyrri ákvörðun frá 8. júlí 2014 þar sem sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir ný framkomin gögn.
Þann 23. september 2014 barst tölvupóstur frá kæranda þar sem hann óskar eftir að Vinnumálastofnun skoði mál sitt. Kærandi kveðst ekki hafa hafið störf hjá B fyrr en þann 13. mars 2014. Hann telji gróflega á sér brotið. Þetta sé mjög skýrt og vinnuveitandi hans muni staðfesta allt sem komið hafi fram af hans hálfu varðandi málið. Með bréfi, dags. 8. október 2014, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði synjað beiðni hans um endurupptöku sökum þess að ekki hefðu komið fram upplýsingar sem þýðingu gætu haft í máli hans.
Í kæru er vísað til greinargóðra bréfasamskipta milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Hann telji að ætlaður brotavilji væri ekki skýrður af hendi stofnunarinnar þar sem hann hefði ekki hafið störf hjá fyrirtækinu er eftirlitið hafi verið í gangi. Hann hafi hvorki verið í vinnufötum né að störfum. Þá vilji hann benda á að hann hafi sjálfur átt frumkvæði af samskiptum þar sem hann hafi kynnt sig og sagt sína stöðu. Þessu hafi frá byrjun verið tekið sem einhvers konar óheiðarleika af hans hálfu og áætluðum svikum. Hann hafi gert allt sem ætlast hafi verið til og í hans valdi hafi staðið til að leiðrétta misskilning sem hann hafi ekki órað fyrir við það eitt að fara og kynna sig þegar eftirlitsmenn hafi komið að. Hann hafi verið að skoða sig um eftir símtal og óformleg samskipti til þess að athuga hvort honum og vinnuveitanda gæti ekki komið saman um starfsviðtal og tilvonandi starf, sem hann hafi svo fengið. Hann hefði víst betur gengið í burtu en hann sé bara ekki þannig gerður. Hann hafi ekki frekari vitnanna við aðra en sjálfan sig og vinnuveitandann sinn.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. nóvember 2014, kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.
Í verknaðarlýsingu 60. gr. laganna sé gerð grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er hafi orðið að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Fyrir liggi að kærandi hafi verið við störf hjá B þann 11. mars 2013 þegar aðilar vinnumarkaðarins hafi hitt hann fyrir á staðnum. Þann 12. mars hafi kærandi tilkynnt um vinnu sína hjá fyrirtækinu. Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að tilkynning sem berist stofnuninni eftir að aðili hafi verið staðinn af því að sinna ótilkynntri vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur geti ekki leyst viðkomandi aðila undan þeim viðurlögum sem hann skuli sæta samkvæmt skýru orðalagi laga um atvinnuleysistryggingar. Þá geti kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögum þar sem allar upplýsingar séu aðgengilegar á heimasíðu Vinnumálastofnunar en einnig séu reglur kynntar á kynningarfundi Vinnumálastofnunar sem skyldumæting sé á.
Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysistrygginga að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynna um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laganna, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:
„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Þá segir í 35. gr. a:
„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.“
Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi við störf hjá B við athugun eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar þann 11. mars 2014. Daginn eftir, þann 12. mars 2014, tilkynnti kærandi stofnuninni um atvinnu sína. Hann skráði kærandi sig í hlutavinnu frá 13. mars 2014 til 13. júní 2014. Við það tilefni upplýsti kærandi stofnunina að hann hefði hafið störf þann 11. mars 2014 en ekki getað skráð sig frá þeirri dagsetningu. Í kæru til úrskurðarnefndar byggir kærandi hins vegar á því að hann hafi ekki hafið störf fyrr en þann 13. mars 2014. Hann greinir frá því að hann hafi einungis verið að skoða sig um þann 11. mars 2014 þegar athugun eftirlitsdeildarinnar hafi farið fram. Með hliðsjón af athugun eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar og í ljósi þess kærandi hefur gefið misvísandi upplýsingar um það hvenær hann hóf störf hjá B fellst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á þá niðurstöðu stofnunarinnar að kærandi hafi þegar hafið störf hjá B þann 11. mars 2014.
Samkvæmt 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar er atvinnuleitanda gert að tilkynna Vinnumálastofnun með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Heimilt sé þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik þess eðlis að ekki hafi verið unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Kærandi tilkynnti ekki um vinnu sína hjá B fyrr en þann 12. mars 2014. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun of seint um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar.
Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun frá 14. júlí 2014, sbr. einnig ákvörðun frá 20. október 2014, staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. júlí 2014 í máli A, þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson