Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 28/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 28. nóvember 2019
í máli nr. 28/2019:
Vátryggingafélag Íslands hf.
gegn
Borgarbyggð

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 11. nóvember 2019 kærir Vátryggingafélag Íslands hf. útboð Borgarbyggðar auðkennt „Vátryggingaútboð Borgarbyggðar 2020“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli varnaraðila þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála „felli niður 3. tölul. 6.1. gr. útboðsskilmála“ í hinu kærða útboði, sem hljóðar svo: „Bjóðandi starfræki starfsstöð í Borgarbyggð með starfsmanni a.m.k. 16 tíma á viku. Starfsstöð í borgarbyggð skuli að lágmarki vera komin 6 mánuðum eftir að samningur er undirritaður við viðkomandi bjóðanda um verkið og skal hún starfrækt a.m.k. út samningstímann.“ Þess er jafnframt krafist að kærunefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem krafist er málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva hið kærða útboð um stundarsakir. Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfunni verði hafnað.

Í október 2019 auglýsti varnaraðili útboð á EES-svæðinu þar sem óskað var eftir tilboðum í vátryggingaþjónustu fyrir sveitarfélagið og tengda aðila. Í grein 6.1. í útboðsgögnum kom eftirfarandi fram:

„Sveitarfélagið, setur það sem skilyrði fyrir töku tilboða að viðkomandi bjóðandi sem samið verður við uppfylli eftirfarandi skilyrði:

1. Bjóðandi starfrækir starfsstöð á Íslandi með a.m.k. tíu starfsmönnum sem hafa reynslu af vátryggingarstarfsemi, tjónamati og uppgjörum tjóna.
2. [...]
3. Bjóðandi starfræki starfsstöð í Borgarbyggð með starfsmanni a.m.k. 16 tíma á viku. Starfstöð í Borgarbyggð skuli að lágmarki vera komin 6.mánuðum eftir að samningur er undirritaður við viðkomandi bjóðanda um verkið og skal hún starfrækt a.m.k. út samningstímann.

Sveitarfélagið er landstórt og með starfsemi á yfir 30 stöðum. Fjarlægðir milli starfsstöðva innan sveitarfélagsins eru því talsvert miklar og aðstæður mjög mismunandi. Starfsemi sveitarfélagsins er fjölþætt og þarf að mæta þörfum íbúanna sem eru á öllum aldri og með mjög mismunandi þarfir. Það er mikill munur á þeirri þjónustu sem veitt er, hvort um er að ræða fjarþjónustu eða samtal og önnur samskipti við þjónustuaðila sem er á svæðinu.

Það er því nauðsynlegt að þeir sem þurfa á þjónustu tryggingarfélaga að halda hafi góðan aðgang að þjónustu þeirra og þeim styrk sem persónuleg nærþjónusta felur í sér. Þar má meðal annars tiltaka mikilvægi þess að þekking á staðháttum í landstóru og margbrotnu sveitarfélagi skiptir oft miklu máli í þessu sambandi. Mikill munur er á gæðum slíkrar þjónustu eða þegar öll samskipti þurfa að fara í gegnum fjarskipti eða með rafrænum hætti.


4. Bjóðandi starfrækir tjónavakt og tilgreinir símanúmer sem starfsfólk sveitarfélagsins geti hringt í utan opnunartíma ef mikið liggur við að tilkynna tjón og fá matsmann á tjónsvettvang.

Með þessum hætti hefur kaupandi og viðskiptamenn hans gott aðgengi að þjónustu með beinum og óbeinum hætti og tryggir sér þannig nauðsynlegt og skilvirk samskipti.“

Samkvæmt grein 6.3. skyldi valið á milli tilboða á grundvelli verðs, sem gat hæst gefið 95 stig, og þess hvort bjóðendur byðu vaxtalausar greiðslur, sem gaf 5 stig. Kveðið var á um að samningstími skyldi vera frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2022 með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum í eitt ár í senn. Ekki var búið að skila tilboðum þegar kæra í máli þessu var móttekin.

Kærandi byggir kröfur sínar að meginstefnu til á því að skilyrði 3. tölul. greinar 6.1. í útboðsskilmálum sé í andstöðu við reglur útboðsréttar um jafnræði og meðalhóf, sbr. 15. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Með ákvæðinu sé fyrirfram verið að útiloka að ákveðin fyrirtæki geti tekið þátt í útboðinu. Óheimilt sé að útiloka bjóðendur frá þátttöku í útboði á grundvelli búsetusjónarmiða. Þá hefði verið hægt að ganga skemur og horfa til starfsstöðvar í sveitarfélaginu sem valforsendu í stað lágmarkskröfu. Sé enginn munur á gæðum þjónustu eftir því hvort hún sé veitt á tiltekinni starfsstöð eða með rafrænum hætti. Mikil þróun og gróska hafi átt sér stað að undanförnu í rafrænni þjónustu á vegum kæranda og vátryggjenda almennt.

Varnaraðili byggir að meginstefnu til á því að starfsstöð í Borgarbyggð sé ekki skilyrði fyrir þátttöku í útboðinu, heldur hafi sá sem hljóti samning sex mánuði til þess að koma sér upp slíkri starfsstöð. Þá sé ekki gerð krafa um útibú í sveitarfélaginu heldur einungis starfsstöð með takmörkuðum opnunartíma.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að gæta skuli jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis við opinber innkaup. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða takmarka samkeppni með óeðlilegum hætti. Í 2. mgr. kemur fram að það teljist ekki andstætt jafnræði að áskilja að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á málefnalegum ástæðum. Þá leiðir það af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að engin höft skulu vera á frelsi ríkisborgara aðildarríkja samningsins til að veita þjónustu innan EES-svæðisins nema slík höft teljist réttlætanleg með hliðsjón af allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði sbr. einkum 36. og 38., sbr. 33. gr., samningsins eins og hann var tekin upp í íslenskan rétt með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

Í hinu kærða útboði, sem var auglýst á EES-svæðinu, er meðal annars gerð sú ófrávíkjanlega krafa til bjóðenda að þeir starfræki eða setji á fót starfsstöð í Borgarbyggð innan sex mánaða frá undirritun samnings og skuli þar vera einn starfsmaður í a.m.k. 16 tíma á viku. Krafan er einkum rökstudd með vísan til þess að þeir sem þurfi á þjónustu tryggingarfélaga að halda hafi góðan aðgang að persónulegri þjónustu auk þess sem þekking á staðháttum í landstóru sveitarfélagi skipti máli. Er byggt á því að gæði slíkrar þjónustu séu mun meiri en þegar samskipti þurfi að fara fram með rafrænum hætti.

Að mati kærunefndar útboðsmála er framangreind krafa til þess fallin að mismuna fyrirtækjum sem veita vátryggingaþjónustu á grundvelli þess hvar starfsstöð þeirra er staðsett Þá verður ekki talið, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að varnaraðili hafi sýnt fram á að málefnalegar ástæður búi að baki þessari kröfu að teknu tilliti til eðlis þeirra innkaupa sem um ræðir, þar með talið að starfsstöð innan sveitarfélagsins sé nauðsynleg til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Verður því talið að kærandi hafi leitt verulegar líkur að því að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup með framangreindu skilyrði útboðsgagna, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Er því fallist á kröfu kæranda um að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir á meðan endanlega er leyst úr kæru.

Ákvörðunarorð:

Útboð varnaraðila, Borgarbyggðar, auðkennt „Vátryggingaútboð Borgarbyggðar 2020“, er stöðvað um stundarsakir.


Reykjavík, 28. nóvember 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta