Hoppa yfir valmynd

Nr. 95/2025 Úrskurður

Hinn 6. febrúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 95/2025

í stjórnsýslumáli nr. KNU24090014

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 3. september 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. ágúst 2024, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr., sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að málinu verði vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til landsins og sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 3. mars 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. september 2022, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd auk þess sem honum var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með ákvörðuninni var honum jafnframt frávísað á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. og 2. og 4. mgr. 106. gr. laganna. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 469/2022, dags. 24. nóvember 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Fram kom í úrskurði kærunefndar að kæranda væri veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum yfirgaf kærandi ekki landið innan veitts frests en 5. janúar 2023 var mál hans sett í framkvæmd hjá þáverandi stoðdeild ríkislögreglustjóra sem nú nefnist heimferða- og fylgdadeild. Kærandi fékk útgefið bráðabirgðaleyfi, sbr. 77. gr. laga um útlendinga, með gildistíma frá 24. júlí til 25. október 2023. Kærandi sótti um endurnýjun leyfisins 17. október 2023 en samkvæmt upplýsingum úr málaskrá Útlendingastofnunar var kæranda synjað um endurnýjun leyfisins 7. nóvember 2023, með vísan til c-liðar 1. mgr. 77. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt fyrirliggjandi hjónavígsluvottorði gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara 16. febrúar 2024. Á grundvelli hjúskaparins lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi 21. mars 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. ágúst 2024, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að umsókn kæranda uppfyllti ekki skilyrði 1.-3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og var umsókn hans því hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 21. ágúst 2024. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 3. september 2024. Greinargerð og frekari fylgigögn voru lögð fram 17. september 2024.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu var kærandi fluttur til heimaríkis 13. maí 2024, með atbeina heimferða- og fylgdadeildar ríkislögreglustjóra, áður stoðdeildar, vegna verndarumsóknar hans. Samhliða kæru lagði kærandi fram beiðni um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi þess að kærandi hefur þegar verið fluttur til heimaríkis telur kærunefnd ekki ástæðu til þess að taka afstöðu til réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar í sérstökum úrskurði.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til hjúskapar og kveðst hafa verið í nánu sambandi með maka sínum í tvö ár. Því til stuðnings vísar kærandi til fylgigagna sem lögð hafi verið fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, þ.m.t. ljósmynda af þeim við ýmis tilefni, skjáskot af samskiptum á samfélagsmiðlum, myndbandi af hjónavígslu, og bréfa frá maka og öðrum vinum. Kærandi kveðst hafa átt í samskiptum við maka frá því fyrir uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar nr. 469/2022. Hann vísar til þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki beitt úrræðum sem heimil séu á grundvelli XII. kafla laga um útlendinga fyrr en 13. maí 2024, en þá hafi kærandi þegar gift sig og sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins. Kærandi vísar enn fremur til þess að það hafi valdið honum og maka hans þjáningum að honum hafi ekki verið leyft að kveðja maka né fjölskyldu fyrir brottför frá Íslandi.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að maki og fjölskylda geti fallið undir ríkar sanngirnisástæður í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Allt að einu sé tekið fram að vitneskja kæranda um heimildarleysi til dvalar komi í veg fyrir beitingu 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að sögn kæranda hafi Útlendingastofnun komist að niðurstöðu sinni án þess að framkvæma sérstakt hagsmunamat líkt og ákvæðið áskilji. Aðstæður kæranda hafi breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar nr. 469/2022 enda sé hann nú giftur íslenskum ríkisborgara og verði að gera ríkar kröfur til stuðnings Útlendingastofnunar fyrir því að synja honum um dvalarleyfi. Jafnframt áréttar kærandi að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiði til niðurstöðunnar. Kærandi byggir einnig á því að rannsóknarskylda Útlendingastofnunar hafi ekki verið uppfyllt enda hafi stofnunin látið duga að vísa í hin ýmsu ákvæði laga um útlendinga án þess að leggja sérstakt mat á þá hagsmuni sem í húfi séu. Þá sé ekkert fjallað um hagsmuni maka kæranda af því að halda áfram samvistum við kæranda. Að sögn kæranda sé þessi annmarki sérlega alvarlegur þar sem maki kæranda hafi einnig hagsmuna að gæta, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Kærandi vísar til þess að rökstuðningur Útlendingastofnunar byggist helst á því að hann hafi ekki yfirgefið landið líkt og honum hafi borið að gera. Að mati kæranda sé rökstuðningurinn rýr, ómálefnalegur og ekki byggður á faglegri rannsókn málsins. Þá vísar kærandi til fylgigagna um samband kæranda við maka hans, sem að hans sögn hafi staðið í næstum tvö ár, þar af hafi þau verið gift í um sjö mánuði og búið saman fyrir flutning kæranda til heimaríkis.

Vísar kærandi einnig til þess að í hinni kærðu ákvörðun sé aðeins fjallað um úrskurð kærunefndar nr. 418/2021, dags. 14. október 2021, og því hafnað að aðstæður kæranda hafi verið sambærilegar þeim sem fjallað var um í úrskurðinum. Kærandi telur umfjöllunina stutta og bendir á að ekki sé fjallað um aðra úrskurði sem vísað var til í greinargerð til Útlendingastofnunar. Kærandi telur það ekki í samræmi við rannsóknarskyldu stofnunarinnar að hún hafi ekki tekið afstöðu til málsástæðna kæranda við slíkar aðstæður. Kærandi vísar til tiltekinnar umfjöllunar í síðastnefndum úrskurði þar sem fjallað hafi verið um umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þrátt fyrir ólögmæta dvöl á landinu. Kærandi tilgreinir að stjórnvöld hafi ekki beitt úrræðum sem heimil séu samkvæmt XII. kafla laga um útlendinga en niðurstaða málsins hafi verið sú að umsóknin skyldi fá efnislega meðferð hjá stjórnvöldum með hliðsjón af 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til fleiri úrskurða sem reifaðir hafi verið í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar sem ekki hafi verið fjallað um með beinum hætti í hinni kærðu ákvörðun s.s. úrskurð kærunefndar nr. 643/2021, dags. 2. desember 2021, en þar hafi mál kæranda verið sent til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun með hliðsjón af 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Því næst vísar kærandi til úrskurðar nr. 181/2022, dags. 4. maí 2022, undir þeim formerkjum að nefndin hafi vikið frá fyrri framkvæmd og veitt leiðbeiningar um hagsmunamatið skv. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Þar komi m.a. fram að sá lögformlegi gerningur að ganga í hjúskap teljist ekki einn og sér til ríkra sanngirnisástæðna. Í slíkum málum verði að gera þá kröfu að sýnt sé fram á að samvistir og samband milli hjóna til að hægt væri að líta til ríkra sanngirnisástæðna en að sama skapi nái hjúskapur, þar sem engin gögn sýni fram á samvistir hjóna, ekki því marki.

Þá vísar kærandi einnig til úrskurðar nr. 27/2022, dags. 23. febrúar 2022. Í síðastnefndum úrskurði hafi kærunefnd skýrt 3. mgr. 51. gr. rúmri lögskýringu þegar komi að umsækjendum sem séu í hjúskap með íslenskum ríkisborgurum. Með hliðsjón af úrskurðinum geri kærandi alvarlegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun þar sem Útlendingastofnun hafi litið til þeirrar lögskýringar að almennt beri að túlka undantekningarákvæði þröngt. Kærandi reifar síðastnefndan úrskurð í ítarlegu máli og ber aðstæður málsins saman við sínar aðstæður, m.a. vegna fyrri umsóknar um alþjóðlega vernd, umsókn um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og lengd hjúskapar. Kærandi telur málin að öllu leyti sambærileg og að önnur afgreiðsla á máli hans bryti gegn úrskurðarframkvæmd kærunefndar og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi kærandi lagt fram mikið magn af gögnum sem sýni fram á samvistir þeirra hjóna og raunverulega sambúð.

Í athugasemdum við 51. gr. laga um útlendinga komi fram að í 3. mgr. 51. gr. felist almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi. Kærandi telur slíkar aðstæður vera fyrir hendi í máli sínu, m.a. með hliðsjón af hagsmunum kæranda, maka hans, fjölskyldu og vinum. Að mati kæranda vegi þeir hagsmunir þyngra en hagsmunir ríkisins af brottvísun hans. Kærandi kveðst hafa lagt fram mikið magn af gögnum sem sýni fram á samband hans við maka. Þau hafi myndað sterk tengsl við fjölskyldur og vini hvors annars. Að mati kæranda verði ekki komist hjá því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar að þessu leyti.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c-lið 1. mgr. 51. gr. Samkvæmt 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga gildir undantekningar 1. mgr. á meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er einnig heimilt að víkja frá 1. mgr. í tilvikum þar sem ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Sæki útlendingur um dvalarleyfi hér á landi án þess að vera undanþeginn því að sækja um áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skal hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama á við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt, sbr. 4. mgr. 51. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ríkisborgari Nígeríu og þarf því vegabréfsáritun til landgöngu, sbr. viðauka 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022. Í málinu er því ekki deilt um beitingu 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Ber því að hafna umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nema að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið verði frá 1. mgr., sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er matskennt lagaákvæði en hugtakið „ríkar sanngirnisástæður“ er ekki útfært nánar í lögunum eða í reglugerð um útlendinga, líkt og ráðherra hefur heimild til. Eru einu leiðbeiningarnar sem stjórnvöld hafa við beitingu ákvæðisins þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, en þar segir m.a. um 3. mgr. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Í úrskurðarframkvæmd hefur kærunefnd almennt vísað til þess að sá lögformlegi gerningur að ganga í hjúskap teljist ekki einn og sér til ríkra sanngirnisástæðna. Framkvæmdin hefur miðað við að samband hafi varað um nokkurt skeið áður en til hjúskapar er stofnað við mat á því hvort ríkar sanngirnisástæður séu til staðar. Verður í slíkum málum að gera þá kröfu að sýnt sé fram á samvistir og samband milli hjóna til að hægt sé að líta til ríkra sanngirnisástæðna en að sama skapi nái hjúskapur, þar sem engin gögn sýna fram á samvistir hjóna, ekki því marki.

Málatilbúnaður kæranda grundvallast einkum á lengd hjúskapar og sambands við maka hans og vísar hann til fyrirliggjandi gagna á borð við ljósmynda og annars myndefnis ásamt bréfum því til stuðnings. Þá telur kærandi að annmarkar séu á meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, einkum varðandi rannsókn málsins. Auk þess vísar kærandi til tiltekinna úrlausna kærunefndar útlendingamála sem hann telur að eigi við í máli hans.

Kærunefnd hefur þegar fjallað um heimild kæranda til dvalar, með hliðsjón af úrskurði nefndarinnar nr. 469/2022, dags. 24. nóvember 2022. Niðurstaða nefndarinnar var sú að kæranda væri synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi auk þess sem honum var synjað um dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga bar stjórnvöldum að taka ákvörðun um hvort frávísa eða brottvísa ætti kæranda eftir ákvæðum laga um útlendinga þar sem honum hafði ekki verið veitt dvalarleyfi á Íslandi. Með úrskurðinum var jafnframt lagt fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Honum var frávísað á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, en jafnframt veittur 15 daga frestur til sjálfviljugrar heimfarar. Samkvæmt framvindu málsins kaus kærandi að hlíta ekki fyrirmælum kærunefndar um að yfirgefa landið. Þá kemur fram í málaskrá Útlendingastofnunar að hann hafi verið upplýstur um breytingar á reglugerð nr. 607/2023 varðandi enduraðlögunarstyrki en hann hafi þvert á móti lýst þeirri skoðun sinni að hann vildi ekki yfirgefa landið. Samkvæmt framansögðu er ljóst að stjórnvöld beittu lögmætum úrræðum á grundvelli XII. kafla laga um útlendinga í úrlausnum sínum vegna umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd og gat kæranda ekki dulist að hann nyti ekki lengur heimildar til dvalar.

Ljóst er að nokkur tími leið frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp og þar til að flutningur kæranda kom til framkvæmdar, sbr. 5. og 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir það verður að játa Útlendingastofnun og lögreglu talsvert svigrúm í þeim efnum þegar flytja á einstakling frá Íslandi til Nígeríu, án hans samvinnu, enda krefst slík aðgerð mikils undirbúnings af hálfu stjórnvalda, t.a.m. vegna öflunar ferðaskilríkja, samskipta við viðtökuríki auk samskipta við aðilann sjálfan. Lítur kærunefnd einnig til þess að ekki sé gripið til úrræðisins nema að reynt hafi verið til þrautar að fá kæranda til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Kærandi lagði fram gögn til þess að sýna fram á hjúskap og samband sitt við maka við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og á kærustigi, t.a.m. bréf og yfirlýsingar frá maka kæranda, fjölskyldumeðlimum hennar, og öðrum vinum hjónanna. Kærunefnd hefur nú yfirfarið málatilbúnað kæranda með hliðsjón af hinni kærðu ákvörðun og öðrum gögnum málsins. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum kynntust kærandi og maki hans um svipað leyti og úrskurður kærunefndar nr. 469/2022 var kveðinn upp 24. nóvember 2022, en samkvæmt hjúskaparvottorði giftu þau sig 16. febrúar 2024. Þau hafi því þekkst um afar skamma hríð þegar kæranda mátti vera ljóst að hann nyti ekki lengur heimildar til dvalar hér á landi. Ekki liggja fyrir upplýsingar þess efnis að kærandi eigi börn eða aðra nákomna aðstandendur hér á landi. Af heildarmati á aðstæðum kæranda verður ekki talið að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli hans, s.s. til að tryggja samvistir fjölskyldunnar eða að miklir hagsmunir séu í húfi. Þá lítur kærunefnd til þess að flutningur kæranda til heimaríkis grundvallaðist á úrlausn stjórnvalda sem var endanleg á stjórnsýslustigi og fól í sér beitingu lögmætra úrræða á grundvelli XII. kafla laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindu var dvöl kæranda í andstöðu við lög í kjölfar þess að hann fylgdi ekki fyrirmælum stjórnvalda, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 469/2022. Með hliðsjón af atvikum málsins er það niðurstaða að dvöl undir þeim formerkjum, eins og atvikum háttar, geti ekki talist til ríkra sanngirnisástæðna.

Að öllu framangreindu virtu eru ekki fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður í máli kæranda, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna dvalarleyfisumsókn kæranda á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga því staðfest.

Leiðbeiningar til kæranda

Samkvæmt því sem hefur komið fram hefur kærandi nú yfirgefið landið. Honum er því bent á að hann getur lagt fram aðra dvalarleyfisumsókn á sama eða öðrum grundvelli, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir                                                                 Vera Dögg Guðmundsdóttir


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta